02.02.1978
Sameinað þing: 43. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

140. mál, vegáætlun 1977-1980

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. hefur nú fylgt úr hlaði grg. við umr. um vegáætlun, þ.e.a.s. við endurskoðun áætlunarinnar sem raunverulega var samþ. á vordögum 1977. Það er eðlilegt að þurfi að endurskoða áætlanir sem vegáætlun, svo mjög sem verðlag í landinu breytist og erfitt að gera sér grein fyrir því, hvað fram undan er. Einmitt nú þessa dagana, þegar það er á flestra manna vörum, að fram undan sé enn ein kollsteypan í verðlagi, og liggur í loftinu, að 10–20% gengisfelling muni eiga sér stað nú alveg á næstunni, jafnvel innan viku, þá kann að virðast nokkuð út í hött að fjalla um tölur sem að ýmsu leyti eru byggðar á forsendu í verðlagi sem verður brostin innan mjög skamms tíma. En engu að síður skulum við halda okkur við þetta plagg, sem hér er til umr., og velta vöngum yfir, hvað við getum gert í vegamálum.

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að reynt er nú að gera meira átak en undanfarið. Ég er honum sammála um það, þrátt fyrir það að tilfæra megi í vissum tilfellum að magnaukning sé ekki fyrir hendi á vissum liðum, t.d. eins og viðhaldi, þó að það hækki á þessu ári frá því sem var í fyrra.

Ef við tökum viðhaldið fyrst til umr., segir á bls. 5 í þessari till. um sumarviðhald t.d., að í reynd var fjárveiting hvergi nærri nægileg og var aðeins 58% af þörf fullnægt, miðað við það sem áætlað var að nauðsynlega þyrfti til að hafa vegina í góðu ástandi. Þetta sýnir okkur hvað mikilvægt er að taka þá vegi til sérstakrar meðferðar, þar sem umferð er orðin mikil, því hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, þá eru komnir víða um land þeir kaflar í vegakerfið sem bókstaflega þola ekki þá umferð sem um þá er. Þegar við vorum að tala fyrir því á sínum tíma hér, að svokallað varanlegt slitlag yrði sett á veginn frá Grindavík að Reykjanesbraut, þá einmitt höfðum við þau rök uppi, að umferð væri orðin svo mikil og sérstaklega þunginn sem færi um vegina, að malarlag á vegum, þó vel væri gert, þyldi ekki þetta álag.

Nú er þetta að koma í ljós víða um landið. Það verður ekki komist hjá því að lita alveg sérstaklega á þetta vandamál sem er kringum flesta dreifbýlisstaði í landinu, þar sem miklir vöruflutningar eiga sér stað til og frá þessum dreifbýlisstöðum. Hér er mikið vandamál á ferðinni, og ég hef alltaf verið því hlynntur að tryggja þessum þætti nægilegt fjármagn, jafnvel þó að heyrst hafi af vörum fyrrv. ráðh. úr þessum ræðustól að það væri hinn dýrasti tollur, sem fólkið greiddi í landinu, að búa við slæmt vegakerfi úti um hinar dreifðu byggðir. En við bókstaflega getum ekki ráðið við allt í einu og verðum að horfast í augu við vissa þætti sem eru svo erfiðir að óhjákvæmilegt er annað en að fullnægja þörfum þessara þátta á undan öðrum. Það verður sem sagt að eiga sér stað forgangsröðun í þessu eins og mörgu öðru þegar fjármagn er ekki ótakmarkað.

Auðvitað munu menn deila um viðhald vega. hvar sem vera skal á landinu, og mörgum mun finnast sinn þáttur heldur rýr. En það verður samt sem áður ekki gengið fram hjá því, að vissir þættir hljóta að hafa forgang fram yfir annað, hvað sem öllu ástandi líður á veginum sjálfum.

Hæstv. ráðh. gat þess, að fjármagnið — og taldi upp þrjú ár — væri á árinu 1976 5.4 milljarðar rúmir eða nær 5.5 milljarðar, 1977 7.34 milljarðar og í ár væri búist við 10.3 milljörðum. Ef við lítum eingöngu á þessar tölur, þá er verðbólgan í landinu meiri en nemur þessari hækkun, þannig að raunverulega verður um magnminnkun að ræða í framkvæmd. Hins vegar gat hann þess, að vegna betra skipulags og líklega betri tækja mætti búast við því, að árangur yrði enn betri á þessu ári heldur en undanfarið. Ég vona að svo reynist, enda vil ég minna á þá staðreynd, að stjórn og undirbúningur eru nú komin í 500 millj. kr., og ætti einhver árangur að sjást í framkvæmd þegar slíkum tölum er varið í stjórn og undirbúning. Stundum hefur maður heyrt að verk væru ekki nægilega undirbúin í þessu sambandi. Það er mjög mikið vandaverk og þarf miklar rannsóknir til að gera varanlega vegi og fá gott vegarstæði. Það er eðlilegt að það sé dýrt og taki sinn tíma. En ég tel að hér sé orðið um háa tölu að ræða. Hún er kannske alveg eðlileg. Við fáum þó ekki nákvæma grg, hvernig þessi tala er fundin. E.t.v. er hægt að fá hana með sérstakri fyrirspurn. En þegar þessi stofnun notar 500 millj. kr. í stjórn og undirbúning, þá væri ekki úr vegi að sundurliða þessa tölu í 5–10 liði og gera Alþ. grein fyrir þeim.

Ég vil fjalla hér um einn þátt, brýr 10 m og lengri, en sá þáttur fær 458 millj. kr. Þetta finnst mér lítið fé og vildi gjarnan fá nánari sundurliðun á því aftur við 2. umr. Ég var stuðningsmaður þess að fá Borgarfjarðarbrú og fer ekkert dult með það. En ég er óánægður með það, ef það verk á að vera 4 eða 5 ár í framkvæmd. Ég taldi. langeðlilegast að þessi framkvæmd tæki 2–3 ár sem hámark, því þegar um svo dýra framkvæmd er að ræða sem þessa brú, þá má hún bókstaflega ekki vera lengi í gerð. Ég tel að við stefnum rangt með því að það teygist mjög úr þessari framkvæmd, og ég fæ ekki skilið hvers vegna við getum þá ekki bjargað þessari framkvæmd með sérstakri lánsfjáröflun, því að séu rök fyrir framkvæmdinni, eins og sagt var á sínum tíma og ég tók vel trúanlegt frá hendi hæstv. ráðh. og raunar frá vegagerðarmönnum, þá tel ég óhjákvæmilegt að takast á við verkefnið með skjótleik, en ekki með drabbi. Ég er þess vegna óánægður yfir þessum lið og vildi að hann væri hærri, nema hæstv. ráðh. geti upplýst að áformað sé að gera sérstakt átak til að flýta þessu verki. Ég veit að margir munu vera á móti þessari framkvæmd og jafnvel í mínum flokki, en það varðar mig engu. Ég tel þessa framkvæmd rétta. Hún er hafin og hún á að ganga skjótt fyrir sig, vegna þess að hún sparar stóra viðhaldsþætti í vegakerfi sem dugar ekki þeirri umferð sem um Vesturlands- og Norðurlandsveg þarf að vera.

Ég vil aðeins láta þetta í ljós við þessa umr. og vonast til þess, að ég fái einhver svör varðandi þennan þátt.

Það kom fram í orðum ráðh. og það kemur fram í þessari þáltill., að víða eru brýr í þrengra lagi og í slæmu ástandi. Þetta vitum við. Við vitum það vegna þess, að enn er leyft að flytja til landsins mjög stór og fyrirferðarmikil flutningatæki. Ég sagði fyrir 4 eða 5 árum að ég vildi láta setja hemil á stærð og þunga flutningatækja meðan við hefðum ekki betra vegakerfi en raun ber vitni um. Á þetta hefur aldrei verið hlustað. Ég tel enga þörf á að heildarþungi flutningatækis með farm geti farið yfir 30 tonn, nema þá alveg sérstakra flutningavagna sem dreifa þunga mjög mikið um veginn, því það er staðreynd, það veit ég af munni vegagerðarmanna, að viss flutningatæki hafa stórskemmt vegi og aldrei borið uppi þann kostnað sem þau hafa valdið á vegum þegar þau hafa farið um. Í þessu efni sem mörgum öðrum þýðir ekkert að segja að frelsi skuli vera til að kaupa hvaða tæki sem vera skal. Það er alveg eðlilegt að setja reglugerðarákvæði um hámarksþunga flutningatækis. Ef við þurfum að flytja vegna virkjana eða einhvers þess háttar sérstaklega þung stykki, þá verður að vera í landinu eitt eða tvö sérstök flutningatæki eða flutningavagn sem getur dreift þunga sem víðast á veginn, svo að bæði brýr og vegir þoli slíka sérstaka flutninga.

Einn þáttur í þessu er skattheimta á bíla til að tryggja Vegasjóði nægilegt fjármagn. Ég get sagt enn og hef sagt áður, að ég tel að bilar eigi að vera á lægra verði en þeir eru í landinu og lægra skattlagðir en þeir eru. Hins vegar tel ég að rekstrarvörur til bíla og jafnvel bensíngjald mætti vera hærra, þó það hafi hækkað mjög undanfarið. En það má ekki snúa út úr þessum orðum mínum með því að vitna í það, að nú einmitt þessa viku standi menn í biðröðum og kaupi bíla, rétt eins og menn fá sér lummukaffi. Það er af gengisfellingarótta sem það á sér stað. Á s.l. ári voru fluttir inn í landið um 7700 bílar og árið 1976 tæplega 4000. Ég tel langeðlilegast að við höfum 7500–8000 bíla innflutning á ári og það sé jafnt álag bæði varðandi gjaldeyrisnotkun og varðandi heildarstjórn á þessum málum, en að þetta gangi ekki í sveiflum eins og raun ber vitni. Þá er einnig þægilegra fyrir alla áætlunargerð hjá Vegagerð og samgrn. að reikna með nokkuð tryggum tekjustofni í Vegasjóðinn og söfnum framkvæmdum og álagi sem verður á vegakerfið hér á landi.

Það er hér önnur till. fyrir hv. Alþ. sem ég lýsti stuðningi við og var fyllilega samþykkur að næði fram að ganga. Það er sú hugmynd að taka fyrir ákveðna vegakafla á landinu og setja á þá svokallað varanlegt slitlag eða olíuborið slitlag eða malbikað slitlag eftir atvikum. Ég taldi þá að við gætum tekið marga vegakafla, jafnvel á annað þús. km, hingað og þangað um landið og lagt á þá slitlag. Þessir kaflar þyrftu engan veginn að vera samtengdir. Þeir þyrftu kannske að vera 1–2 km þó það væri 200–300 m malarslitlag á millj. Það er ekki meginatriðið að allt geti orðið samfellt í þessum efnum.

Það, sem skiptir mestu máli að mínu mati, er að við hefjumst handa um að gera það mögulegt alls staðar á landinu að njóta vega með olíumöl eða malbikun sem slitlagi. Það er mjög mikilvægt atriði, finnst mér.

Ég vildi heyra frá hendi hæstv. ráðh., hvort þessi till. fær nú nána athugun og hvort von er um að hún fari í gegnum hv. Alþ. sem samþykkt eða hvort hún liggi áfram í salti og við megum eingöngu eiga von á framkvæmdum vegamála samkv. þessari áætlun. Ég sé ekki að sérstaki átak sé gert í anda hinnar till. sem ég er að tala um. E.t.v. þarf algjörlega nýjan tekjustofn í því skyni, þar sem upp er stillt ráðstöfun á þessu væntanlega fjármagni og því hefur þegar verið úthlutað samkvæmt tillöguforminu. En hér er mjög mikilvægt atriði, að allir landsfjórðungar fái að njóta þess meira en hér er gert ráð fyrir, að olíumöl eða malbik verði sett á þá vegakafla sem ég tel að séu þegar fyrir hendi og þola slíka framkvæmd.

Mér er kunnugt um að margir verkfræðingar segja að þetta séu næstum því hugarórar einir og ekki sé vogandi að gera þessa tilraun, hún verði of dýr. En ég er ekki sammála, vegna þess að ég bý við götu hér í nágrannabæ þar sem miklar deilur hafa staðið um hvort mætti setja olíumöl á götuna eða ekki. Ég held að það sé ekki vanvirða gagnvart neinum sérstökum verkfræðingum, en þeir töldu að þessi gata mundi ekki eða illa þola að fá á sig olíumöl. Lítils háttar lagfæringar voru gerðar á götunni og svo sett fínt lag undir olíumölina, en síðan hefur þetta staðið sig mjög vel og miklu betur en bæði íbúar við götuna og verkfræðingarnir áttu von á. Mér finnst þess vegna að það hljóti að vera möguleikar á því víða úti um land að reyna þessa framkvæmd með olíumalarslitlagi. Vonandi er gerð olíumalar nú betri en var fyrst hér á landi vegna aukinnar tækni og aukinnar reynslu í gerð þessa slitlags. Ég tel afar mikilvægt að almenningur finni til hvers þessu fjármagni er varið, sem er reyndar orðið nokkuð aukið, þó margir vilji að miklu meira sé varið úti um allt land til þess að bæta vegi, svo ég tali nú ekki um að fólk vill losna við rykið. Í námunda við suma þéttbýlisstaði og sveitabæi er bókstaflega óþolandi rykmekkir um helgar. Það er bókstaflega orðin mengun frá malarryki þegar mikið skemmtanahald á sér stað og fólk safnast saman jafnvel í mörgum hundruðum bíla.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa mörg fleiri orð um þessa vegáætlun. Eins og ég sagði í upphafi, segja þessar tölur manni ekki mikið um hvað hægt verður að framkvæma, vegna þeirrar óvissu sem ríkir í öllum kostnaði hér á landi og hvernig verðlag kann að stökkva upp. þess vegna er haldlítið að reikna með ákveðinni prósentutölu, hvort það er 25%, 35% eða 40% hækkun á milli ára. Það kann að reynast mjög lítið í raun varðandi a.m.k. magn framkvæmda. En ég vænti þess þrátt fyrir allt, að við getum gert aukið átak í vegagerð og það varanlegri vegagerð hér á landi. Þörfin er alls staðar mikil og bíllinn er orðinn svo fastur þáttur í lífi hverrar fjölskyldu, að það verður ekki komist hjá því að gera sérstakt átak í vegagerð.

Ég held að alþm., bæði þeir, sem styðja viðkomandi stjórn hverju sinni, og stjórnarandstaða, hafi jafnan haft góða samstöðu um að tryggja Vegasjóði nokkuð mikið fjármagn til að takast á við þennan vanda. En engu að síður tel ég að ofskattlagning eigi sér nú stað á bifreiðina sjálfa. Það er enn þá munur á fylgi þm. við þá hugmynd að minnka álagið á bifreiðina sjálfa. Ég held að við séum í minni hl., þeir sem vilja hafa bifreiðina ódýrari í stofngjaldi og hafa rekstrarþáttinn heldur dýrari. Ég tel það skakkt. Ég vil sjá meira fjármagn til vegaframkvæmda í gegnum aukna eyðslu sem er fyrir hendi hjá almenningi, en minna álag við kaup á bílnum sjálfum. Vegagerðin býr við það að þurfa að úthluta nokkuð háum hluta af mörkuðum tekjustofnum. Um þetta hefur verið dálítið deilt undanfarið. Fjvn. hefur tekið þá stefnu að reyna að dreifa þessu í áföngum hringinn í kringum landið. Mér er ekki kunnugt um stöðuna í þessu nú, þar sem ég er hættur að sitja í fjvn., en ég veit að mjög margir kaupstaðir sóttu í einu um fjármagn úr þessum sjóði og vildu gera sérstakt átak til þess að laga til hjá sér með framlagi úr sjóðnum. Hér er um nokkuð mikið vandamál að ræða. En það, sem mér fannst þá skynsamlegast í þessu efni, var að gera mönnum grein fyrir því, að á 4 ára tímabili fengju þeir sitt framlag, en allir gætu ekki fengið það í einu. Það má búast við að 15–20 kaupstaðir, jafnvel fleiri, gætu fengið úr sjóðnum. Ég hnaut ekki um neina sérstaka athugasemd hjá hæstv. samgrh. um þessi mál í framsögu hans, en e.t.v. liggur þetta ekki enn þá fyrir, hvað mikið er sótt um né frá hvað mörgum aðilum. Mér þætti nokkur fengur í að fá að vita lítils háttar um hvað þessi 25% sjóður, eins og hann er kallaður, getur sinnt umsóknum á þessu ári.