25.10.1977
Sameinað þing: 8. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

316. mál, ráðstöfun húsakynna að Staðarfelli

Ingiberg J. Hannesson:

Herra forseti. Fsp. sú, sem hér er á dagskrá, gefur mér ástæðu til þess að fara nokkrum orðum um málefni Staðarfellsskóla í Dalasýslu, og það er ástæða til að þakka þessa fsp. svo og svör ráðh., sem gefa vonir um að úr rætist þar á staðnum, þó að með öðrum hætti sé en verið hefur undanfarna áratugi, en húsmæðraskólinn á Staðarfelli hefði einmitt orðið fimmtugur á þessu ári hefði honum auðnast að starfa áfram. En skólamannvirki

eru þar allmikil og góð fyrir hendi, eins og komið hefur fram, og ræktun mannlífs í einhverri mynd er þar æskileg til þess að nýta þá aðstöðu sem þar er. Það er sem sé gott og blessað að gera fsp. um þetta til ráðh. á Alþ. og vekja þannig athygli á málinu. En hitt er þó öllu mikilvægara, að taka á þessu á raunhæfan hátt og vinna að því í reynd, að þarna hefjist aftur hagnýt starfsemi, þannig að sá húsakostur, sem þar er fyrir hendi, og sú aðstaða, sem þarna finnst, megi nýtast sem best. Við, sem höfum af eigin raun þekkt þá starfsemi sem fram hefur farið að Staðarfelli á undanförnum árum og áratugum, hörmum hvernig þar er komið málum. En gegn þróun tímans er erfitt að sporna. Húsmæðranám virðist ekki eiga upp á pallborðið hjá ungu fólki nú á dögum, hugurinn leitar annað, og við því er í rauninni ekkert að segja. En fyrst svo er komið verður að nýta mannvirkin á staðnum til annars náms, og mér virðast þær hugmyndir, sem fram hafa komið í menntmrn. um að hefja þar skólarekstur fyrir þroskahefta unglinga á Vesturlandi og máske víðar að, geta verið allrar athygli verðar og ástæða til að hrinda því máli í framkvæmd þegar næsta haust, ef rétt sýnist að fara þá leið.

Það er auðvitað ljóst, að mikill skortur er á nægilegri kennslu þroskaheftra og aðstöðu til að veita þeim nægilegt svigrúm til menntunar og þroska svo sem þeim ber, ekkert síður en öðrum þegnum þjóðfélagsins. því er í raun gullið tækifæri til að nýta til þeirra hluta þá starfsaðstöðu sem er fyrir hendi á Staðarfelli, úr því að skólinn getur ekki gegnt sínu upphaflega hlutverki. Fyrir tilstilli góðra velunnara Staðarfellsskóla var skólahúsnæðið þar notað s.l. sumar sem orlofsheimili á vegum opinberra starfsmanna, og taldi ég það upphafið að því að nota ætti aðstöðuna þar til nauðsynlegrar starfsemi og skóli fyrir þroskahefta byrjaði þar nú í haust. En sú von brást og það olli miklum vonbrigðum. En væntanlega tekst betur til næsta haust. Við verðum að vona, að svo verði, og beita sameiginlega kröftum í því skyni.