02.02.1978
Sameinað þing: 43. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram í upphafi máls míns, að ég er ekki talsmaður þess stjórnmálaflokks, sem ég tilheyri, né hins ákærða, heldur borgari þessa lands. Hinn ákærði hlýtur að hafa ákveðin mannréttindi þó innilokaður sé, og mér þykir rétt að snúa umr, um þetta mál ofurlitla stund frá þeim bréfum, sem hér liggja frammi, annars vegar frá Landsbankanum og hins vegar frá rannsóknarlögreglustjóra ríkisins. Ber þó að þakka þær upplýsingar sem gefnar eru í þessu bréfi frá rannsóknarlögreglustjóra ríkisins, sem er dagsett 2. febr. 1978, eða í dag, um gang rannsóknar í máli þessu, sem hér er til umr, og alþjóð talar um sem Landsbankamálið.

Hver er staða hins ákærða í dag ? Ef við hugleiðum það pínulítið, þá eru nýjustu fréttir að Haukur Heiðar, sem ég get upplýst að ég hef talið kunningja minn og vin frá því að við sem ungir drengir hittumst sem þingsveinar, þ.e. frá bernsku, hafi játað brot sitt í starfi samkv. þeim bréfum sem hér liggja fyrir, en þrátt fyrir það hefur gæsluvarðhald hans verið framlengt um heilan mánuð. Mér hefur sagt lögfræðingur hans, að þessi framlenging á gæsluvarðhaldi Hauks Heiðars sé óþörf að hans mati, og mér skilst líka, að lögfræðingur Hauks Heiðars hafi kært framlengingu ú gæsluvarðhaldi hans. Hann hefur einnig upplýst mig um það, að þessi framlenging muni ekki koma að nokkru gagni og það viti rannsóknaraðilar, því að eins og kemur fram í bréfi rannsóknarlögreglustjóra, þá liggur játning Hauks Heiðars fyrir um brot sitt, það brot sem Landsbanki Íslands kærði. En mér er einnig kunnugt um það, að gæsluvarðhald viða erlendis er ekki framlengt, komi í ljós að rannsóknaraðilar hafi ekki notað upphaflegan gæsluvarðhaldstíma sem skyldi, þrátt fyrir að þeir telji sig ekki hafa lokið rannsóknum, því að fanginn á ekki að gjalda trassaskapar kerfisins.

Mér er líka kunnugt um það, án þess að vera sérstakur heimilisvinur Hauks Heiðars, að heimilisástæður eru á þann veg, að ég vil kalla það ómannúðlegt að framlengja gæsluvarðhald Hauks Heiðars ef ekki liggja fyrir um það sterk rök, að óumflýjanlegt sé að framlengja gæsluvarðhaldið. Ég vil því gjarnan fá upplýst hér, úr því að þetta mál er á dagskrá, á hvaða forsendu gæsluvarðhaldsvist Hauks Heiðars var framlengd og hvort upphaflega ákveðinn tími í gæsluvarðhaldi var notaður sem skyldi. Ég verð að álita að dómarar, sem taka slíka ákvörðun, hafi gengið var skugga um þessi atriði. Við erum með ákveðnar skyldur á herðum, eins og hæstv. dómsmrh. tók réttilega fram, en ekki bara skyldur til þess að líta eftir hagsmunum Landsbanka Íslands eða annarra stofnana ríkisins, þegnarnir eru engu minna virði þó brotlegir séu.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð mín fleiri, en mér finnst ég lesa út úr bréfi rannsóknarlögreglustjóra ríkisins ástæðurnar fyrir því, að gæsluvarðhaldsvist Hauks Heiðars var ekki lokið á upphaflega ákveðnum tíma. Hún kemur fram í bréfinu. Þegar búið er að viðurkenna að Haukur Heiðar hefur játað að hafa um árabil staðið að stórfelldum fjártökum og misferli með skjöl í sambandi við viðskipti bankans og tilgreinds fyrirtækis, þykir í meginatriðum upplýst með hvaða hætti kærði hefur staðið að þessum fjártökum, að því marki sem kæruefni og rannsóknargögn liggja þegar fyrir. Þar með er ástæðan til gæsluvarðhalds niður fallin. Síðan heldur áfram: „Jafnframt beinist rannsóknin að því að ganga úr skugga um, hvort um aðrar fjártökur eða önnur brot hafi verið að ræða en þegar þykir í ljós leitt.“ Það er því grunur, — og það hlýtur þá að vera rökstuddur grunur — um eitthvað annað og meira en það, sem Landsbankinn kærði, sem liggur því til grundvallar að gæsluvarðhaldi Hauks Heiðars lauk ekki á ákveðnum tíma. Þá er málið, sem hér liggur fyrir, og þær upplýsingar, sem hér liggja fyrir, ekki fullkomnar. Ef aftur á móti kæruatriðin eru fleiri, þá vil ég gjarnan fá að vita um þau. Ef verið er að rannsaka einhver pappírsgögn til að komast að einhverju sem er kannske ekki brot og manninum er haldið í fangelsi á meðan, þá sé ég enga ástæðu til þess, að Haukur Heiðar bíði í gæsluvarðhaldi eftir þessari óvissu útkomu.

Með þessum orðum mínum er ég að gefa það í skyn, og má segja: meira en gefa í skyn, að það sé rétt að kynna sér heimilisástæður Hauks Heiðars, kynna sér vel ástæðuna fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi, úr því að játning liggur fyrir í aðalkærumálinu. Ég bið hæstv. dómsmrh. um að láta einhvern góðan mann eða menn kynna sér þessar mannlegu hliðar málsins, til þess að vera örugglega víss um að gera frekar kerfinu rangt til en einstaklingnum, ef einhverjum þarf að gera rangt. En ég óska eftir því, að þeirri könnun verði hraðað, til þess að ákvarðanirnar verði þær réttustu sem hægt verði að taka á þessu augnabliki.

Ég held að mér sé allt að því óhætt að segja, eins og ástand eiginkonu Hauks er nú, að hér sé um mannslíf að ræða. Innilokaður einstaklingur hefur sinn rétt, þótt brotlegur sé.