09.02.1978
Efri deild: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2160 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

175. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Einn stjórnarþm, í Nd. orðaði það svo áðan í ræðu sinni, að hæstv. forsrh. hefði í gær talað fyrir frv. sem væri hvað mesta afrek núv. ríkisstjórnar, Sumir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. brostu að þessu orðalagi. Hvort hann talaði hér í alvöru eða að nokkru í háði skal ég láta ósagt um. En sé þetta talið eitt mesta afrek hæstv. ríkisstj., eins og þm. orðaði það, þá er hér um lítil afrek að ræða.

En það er kannske með þetta mál eins og mörg önnur, að það er talið óhjákvæmilegt, vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur ekki ráðið við þann vanda sem efnahagsmálin hafa verið að þróast í undanfarið, og fyrr eða síðar hefði komið að því, að raunhæf gengisskráning, eins og það er orðað, yrði viðurkennd „í einu skrefi“, eins og hæstv. forsrh, orðaði það áðan,

Hæstv. forsrh. talaði einnig um að þetta frv. væri einn liður í fjölþættum aðgerðum til þess að tryggja fulla atvinnu og betri stöðu þjóðarbúsins út á við. Við í stjórnarandstöðunni vitum ekki neitt enn þá hvað fylgir hér á eftir. Okkur verður bara að renna grun í það, og læt ég allar vangaveltur um það bíða, vegna þess að á morgun má búast við að við sjáum ráðstafanir tilheyrandi þessu frv., þegar það verður orðið að lögum eins og stefnt er að því að gera nú í kvöld hér í Ed. hv. Alþ.

En hvers vegna er verið að fella gengi íslensku krónunnar? Hvers vegna þarf að leika þennan leik aftur og aftur og með ótrúlega stuttu millibili? Er það vegna þess að fólkið í fiskvinnslunni hefur of há laun? Er það vegna þess að ýmsir aðrir hafi of há laun hér á Íslandi? Hvað veldur öllum þessum vandræðum?

Jú, hæstv. forsrh. sagði að fljótlega eftir samningana í haust hefðu komið fram vaxandi erfiðleikar hjá ýmsum fyrirtækjum í útflutningi og þá einkum í útflutningi sjávarafurða. Já, það má kenna þessum samningum um margt. E. t. v. er það hægt að einhverju leyti, en hvergi nærri nema að mjög takmörkuðu leyti.

Hæstv. forsrh. orðaði ekki að röng fjárfestingarstefna hefði verið í mörg ár hjá ýmsum mönnum, og ég fullyrði að slíkt hafi átt sér stað í sjávarútvegi sem víða annars staðar. Hann orðaði það ekki, að vegna vantrúar hins almenna borgara á, að gengi íslensku krónunnar sé tryggt, hefur fólk staðið í því að reyna að bjarga sparifé sínu með ýmsum verðbólguhvetjandi aðgerðum. Því miður verður það þegar almennt kaupæði ríkir í landinu af ótta við gengisfall. Þá verður sá atburður og atburðarás, að fólk kaupir um of til þess að tryggja sparifé sitt í ýmsum verðmætum hlutum. Og fólki er varla vorkunn. Þetta á sér stað víða í heiminum. Ég hef séð grein eftir einn af þekktustu hagfræðingum Bandaríkjanna og raunar heimsins í dag, Paul A. Samuelson, hann fjallar einmitt um þetta núna, hvers vegna hinn bandaríski borgari hafi á s. l. ári beint fjármagnsstraumi sínum frá almennum verðbréfakaupum yfir í margvíslega aðra hluti, svo sem land, jafnvel bíla, aukið húsnæði og ýmislegt annað, sem er algjörlega óvænt stefnuþróun hjá þessari þjóð, vegna þess að verðbréfamarkaður þar hefur verið nokkuð tryggur vettvangur fyrir ávöxtun á sparifé.

Við höfum að vísu ekki frjálsan verðbréfamarkað hér á Íslandi, en menn hafa séð að langbesta ráðstöfunin til að tryggja sparifé sitt væri að kaupa land, fjárfesta í steinsteypu og í ýmsu öðru, jafnvel litasjónvarpi og bílum og þar fram eftir götunum. Sem sagt, almenningur hefur það á tilfinningunni, að þar sem íslenska krónan heldur ekki velli þrátt fyrir einstakt góðæri, þá sé vonlaust að geyma hana um of. Og meðan almenningur í landinu er þessarar skoðunar, þá segi ég enn einu sinni úr þessum stól — ég hef sagt það oft áður — að það er sama hvaða ríkisstj. situr, það endar jafnan með sömu æfingum, gengisfellingaræfingum. Þess vegna hafa allir stjórnmálaflokkar átt hlut að gengisfellingu hér á Alþ. þegar litið er yfir nokkuð langt tímabil, og ég tel afar ömurlegt að þurfa að rifja upp slíkan slóða.

Ég byrjaði þingsetu mína hér fyrir 11 árum með þátttöku í gengisfellingu sem mér var mjög þvert um geð, og það er sjálfsagt stutt í það að ég endi þingferil minn á að þurfa enn einu sinni að vara við svona vinnubrögðum. Það hlýtur að vera til eitthvert annað ráð heldur en bara að hopa undan og fella gengið. Það hlýtur að vera til eitthvað annað.

Ég viðurkenni það, að mörg fyrirtæki, bæði í sjávarútvegi og iðnaði, eiga við erfiðleika að etja. En það hefur aldrei fengist viðurkennt hvað þessir sömu aðilar hafa undanfarið fjárfest mikið og hvernig þeir hafa staðið sig sem einstaklingar, þeir er þeim stjórna, og þar fram eftir götunum. Það þykir of viðkvæmt mál og má ekki taka alvarlega á því. En það er mjög stór þáttur í þessum erfiðleikum, það fullyrði ég. Ég fullyrði að það kaup, sem greitt er í fiskvinnslu í dag, að meðaltali í kringum 140–150 þús. kr. á mánuði, sé ekki að sliga þessa framleiðslu. Það fullyrði ég. Og eins og síðasti ræðumaður drap á áðan, þá er vaxtabyrðin í framleiðslunni orðin gjörsamlega óþolandi og verður að taka upp nýja vaxtapólitík hér á landi. Hvers vegna má ekki verðtryggja skuldirnar? Hvers vegna ekki að setja hömlur á það, að menn eignist milljarða vegna skulda í þjóðfélaginu? Og hvers vegna á ekki að koma í veg fyrir að sparifjáreigendur tapi milljarði eftir miljarð í verðbólguhítina og verðrýrnun á sparifé sínu? Það er grundvallaratriði til þess að halda jafnvægi hér á Íslandi sem annars staðar, að menn hafi trú á því, að það sé einhvers virði að eiga krónuna. Það vill nú svo einkennilega til, að bæði í gær og í dag var hér ungur maður, fyrrverandi sjómaður, með hátíðarpeninga, sem voru 10 aurar, og mér áskotnuðust nokkur stykki af þeim er hann dreifði hér í anddyri þinghússins. Það er ágætt að það komi inn í þingtíðindi um slíka atburði, en þessir peningar voru 10 aurar og eru orðnir svo léttir núna að þeir eru að vísu löngu dauðir sem slíkir og eru hér léttir í bendi minni sem ég hristi hér í ræðustólnum. Þegar fólk sér peningana með þessu móti og verðmætagildi þeirra, þá þykja það undarlegir atburðir í dag og næstum háðslegir, er menn dreifa þessu framan við Alþingishúsið. Einnig er svo komið um krónuna okkar í dag, að menn nenna — (Gripið fram í.) já, þetta eru þjóðhátíðarpeningar, — að menn nenna ekki orðið að beygja sig eftir íslensku krónunni. Hún er orðin svo lítilfjörleg og létt í vasa. Þetta er ömurleg staðreynd. Þetta mun halda áfram ef hv. alþm. og almennir borgarar í þessu þjóðfélagi skynja ekki að við getum ekki haldið lengur þessari stefnu, við getum það alls ekki. Við verðum að beita öðrum árræðum.

Það hefði verið drengilegt af öllum alþm. að byrja á sjálfum sér og lækka laun sín um nokkra tugi þúsunda og síðan gera kröfu til að aðrir ríkisstarfsmenn lækkuðu laun sín um ákveðin þúsund eftir því hvað þau eru há, laun verkamannsins í fiskvinnslu og við höfnina yrðu ekki hreyfð, en þannig skorið ofan af toppunum í þjóðfélaginu.

Það má aldrei segja hlutina eins og þeir eru. Ég get nefnt eitt dæmi um mann sem er búinn að vera fjögur ár í læknisnámi, hann var ráðinn að sjúkrahúsi nýlega og honum voru boðnar 500 þús. kr. á mánuði sem lágmark. Það er kannske guðlast að segja frá svona atburðum. En þetta er að gerast fyrir framan nefið á okkur. Og sami maður fær einnig stórkostlega styrki í námi. Jú, það verður sagt: Þessi maður vill ekki að við höfum góða lækna. Þessi maður er á móti því að menn geti menntað sig. — En dæmið er ekki svona einfalt. Við höfum ákveðna getu í þessu þjóðfélagi, atvinnuvegirnir gefa okkur ákveðinn afrakstur og samkvæmt því verðum við að lifa.

Ég vanmet það ekki að við höfum nú stöðuga vakt manna sem eru færir í heilaskurði. Það vanmet ég ekki. Ég get lent í bílslysi á heimleiðinni nú þegar ég fer í kvöldmatinn og e. t. v. gæti maðurinn bjargað mér þess vegna. Það vanmet ég ekki. En hvað mikið getum við borgað fyrir þetta öryggi? Þetta á auðvitað við á mörgum fleiri sviðum. Ég vanmet það alls ekki, að menn geti endurnýjað mjaðmarliði í fólki og gert það vinnuhæft að nýju. Slík aðgerð kostar hundruð þúsunda. En við getum ekki borgað þessum mönnum ótaldar upphæðir, og þeir fara kannske ekki heldur fram á það. En samt sem áður, þó ég nefni þessa ágætu stétt manna, þá eru takmörk fyrir því hvað við getum farið hátt í mánaðargreiðslum til þessara manna. Sjúkratryggingakerfi okkar í dag er til endurskoðunar og endurmats vegna þess að mörgum þykir það komið of hátt.

Ég nefni aðeins einn þátt í okkar rekstrarvandræðum í heild í þjóðfélaginu, sem koma fram í því, að kröfurnar eru alls staðar mjög miklar og afleiðingin verður sú, að það ríkir óhófleg verðbólga í þessu þjóðfélagi og við ráðum ekki við að hefta hana, og það endar jafnan með sama móti, að íslenska krónan fellur gagnvart hinni erlendu. Fyrst og fremst hefur þessa gætt varðandi útflutningsgreinar í atvinnulífi okkar. Síður gætir þessa hjá innlendri þjónustu, sem getur velt þessari verðbólgu yfir á íslenska neytendur í endursölu verðmæta hér innanlands, og þess vegna er þessi kollsteypa á íslensku krónunni talin réttlætanleg æ ofan í æ.

Við eigum von á viðbótarfrv. sem fylgir í kjölfar þessa frv. Við sáum frv. rétt fyrir jól sem var sögð forsenda fyrir bæði þessu gengisfellingarfrv. og viðbótarfrv. Það var knúið fram á síðustu dögum þingsins að samþ. það frv., og nokkuð lengi vissu menn að gengisfellingarinnar var von. Undanfarnar víkur hafði Seðlabanki Íslands látið gengið síga, eins og það er nefnt, og menn óttuðust að raunveruleg gengisfelling, nokkuð há, væri á næstu grösum. Þetta orsakaði það, að Seðlabankinn varð vegna aukinnar og óeðlilegrar eftirspurnar eftir erlendum gjaldeyri að gefa út sérstaka fréttatilkynningu 4. febr. s. l., þar sem hann tilkynnti að opinbert skráð gengi væri ekki lengur fyrir hendi á Íslandi. Allir slógust um að kaupa dýr tæki og reyna að forðast óþarfarýrnun á sparifé sínu, og sparifé landsmanna rann út úr hönkunum í skyndilega tilbúna eftirspurn og eftirspurnarþarfir sem annars hefðu ekki verið fyrir hendi nema að mjög takmörkuðu leyti. Þetta er alltaf sama sagan. Það skeður alltaf það sama með vissu millibili, þegar fólkið finnur það og trúir því, að það sé gagnslaust að spara og því sé bókstaflega refsað fyrir að spara.

Nú kann einhver að segja að fólkið eigi kost á því að kaupa ríkistryggð skuldabréf. Já, það á kost á því fyrir 1–2 milljarða kr. í ár. En sparifé landsmanna er nú 65 milljarðar, og ef almenningur ryki nú til og tæki út þó ekki væri nema 1 milljarð í dag og annan á morgun og á heilli viku kannske 7–10 milljarða úr bönkum landsins, þá yrði einhvers staðar erfitt fyrir. Það er ekki hægt að benda fólki á að leggja allt sparifé sitt í ríkistryggð skuldabréf, og það er ekki heldur hægt fyrir ríkisstj. að standa í slíkum skuldabréfaútgáfum, þó nauðsynlegt sé undir vissum kringumstæðum að tryggja verðgildi sparifjárins. Við verðum því að leita annarra ráða, og að mínu mati er orðið löngu tímabært að setja allsherjarlöggjöf um að verðtryggja skuldir á Íslandi. Það er alger eignaupptaka og brot að mínu mati að svipta sparifjáreigendur stórum hluta eigna sinna í gegnum gengisfellingu með einu pennastriki. Það er merkilegt að það skuli ekki hafa verið reynt fyrir dómi. Þetta er í sjálfu sér ekki hægt nema verðbæta það aftur með einhverjum hætti til baka, því hér er hrein eignaupptaka á ferðinni og ekkert annað.

Það er markmið þessarar ríkisstj. að draga úr verðbólgu. Sjálfsagt hefur það verið markmið allra ríkisstj. sem setið hafa frá stríðsbyrjun á Íslandi, en mistekist, eins og menn muna. Það var markmið þessarar ríkisstj. að koma verðbólgu niður í 15% eða svo innan árs frá því að hún tók við völdum. Öllum er kunnugt um að það hefur hrapallega mistekist, því miður. En ríkisstj. hefur annað markmið sem hún heldur dauðahaldi í og reynir að hæla sér af og er út af fyrir sig rétt staðhæfing, að hér hafi ríki full atvinna. Þrátt fyrir að verkfallsátök hafi átt sér stað og tapast hafi margir dagar vegna verkfallsátaka, þá verður því ekki á móti mælt, að í heild hefur ríkt hér nægileg atvinna.

En hvernig búum við til þessa nægilegu atvinnu? Er ekki rétt að líta aðeins á það. Hún er ekki tryggð með heilbrigðu efnahagslífi, það er nú langt í land með það. Hún er tryggð með síaukinni erlendri skuldasöfnun, sem nemur milljarðatugum á því tímabili sem ríkisstj. hefur setið, rúmlega 31/2 ár. Hún er tryggð með mjög vaxandi skuldasöfnun ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands, úr rúmum 3 milljörðum í upphafi valdatíma þessarar ríkisstj, í um 15 milljarða skuld nú, sem sagt hreina prentun seðla. Hún hefur verið tryggð með sífelldu gengissigi krónunnar. Þessi þrjú atriði eru þau sem hafa tryggt þessa fullu atvinnu, og það er dýru verði keypt.

Nú er ég ekki að boða það, að við eigum að hafa skerta atvinnumöguleika, síður en svo. Það er mesta böl sem ein þjóð býr við. En ég fullyrði að það er hægt að hafa atvinnu í þessu landi í 8 tíma og jafnvel 2 tíma í viðbót á dag það þýðir 40 tíma og 6–8 tíma í yfirvinnu — og tryggja stöðugra verðlag í landinu og heilbrigðara efnahagslíf, en hætta þessu gegndarlausa yfirvinnukapphlaupi, því við erum komin í vitahring sem við ráðum ekki við, hvort sem við lítum til okkar alþm. eða annarra. Það verður einhvern tíma að byrja að hægja á þessu hjóli. Það er engum manni hollt að leggja að sér svona miskunnarlaust í kapphlaupi við tilbúnar þarfir, sem ég nefni svo, — hreinlega við tilbúnar þarfir að mörgu leyti. Margir mundu una betur við sitt að geta haft trygga vinnu 8 tíma á dag og 2 tíma í eftirvinnu og vinnuvikan yrði sómasamleg, eins og Dagsbrún hefur barist fyrir í áratugi, að tryggja 40 stunda vinnuviku og mjög hóflegt viðbótarálag. Þá yrði margt í miklu meira jafnvægi, atvinnulíf öruggara og ég held öll starfsemi hjá okkur skynsamlegri. Við höfum flýtt okkur mjög hratt, Íslendingar, í margvíslegri fjárfestingu: í orkumálum, við hitaveitur, sem er út af fyrir sig mjög gleðilegt, að geta gert slíkt stórátak. En það kostar ótrúlega vaxtarverki í kringum það. Það eru ótrúlegar sögur nefndar í því sambandi, hvað menn hafa getað haft mikið upp úr útboðum í sambandi við hitaveituframkvæmdir.

Það er viðurkennt a. m. k. á vissum stöðum á þessu landi að útflutningsframleiðslan á við sérstaka erfiðleika að etja. Þeir eru margslungnir, þrátt fyrir það að við höfum nú toppverðlag á flestum afurðum okkar og þær seljast allar vel fyrir utan skreið. Að henni slepptri er mjög góð eftirspurn eftir öðrum afurðum, og það gildir einnig um vörur frá landbúnaðinum sem fluttar eru út úr landinu, að eftirspurn hefur verið með betra móti. En innlend kostnaðarhækkun er að sliga þessa framleiðslu, a. m. k. hjá sumum fyrirtækjum, og menn eiga þess vegna í vanda. Nú á þessi gengisfelling að leysa þennan vanda að mestu eða öllu. Sumir hafa talað um að hún ætti að vera meiri, hún ætti ekki að vera 13%, hún ætti að vera 16–17% og hækkun á erlendum gjaldeyri því um 20–22%. Ég skal ekki leggja mat á þær vangaveltur manna. Með því móti þyrfti verð á Bandaríkjadollar að vera 265 kr. í staðinn fyrir 253–254 kr. ef, eins og menn orða það, eiga að sleppa. Nú veit ég ekki hvað mikið er reiknað í þessu dæmi í afskriftir og vaxtakostnað. Ég nefndi áðan að fjárfesting hefði víða verið óeðlileg. Það eru sérstök vandamál í kringum það í rekstri fyrirtækjanna. Ég tel að við verðum að athuga þennan lið alveg sérstaklega, vaxtaliðinn. Það verður að gera sér grein fyrir því, að við þurfum svo mikið að kaupa af erlendum aðföngum, þegar við erum að fjárfesta hér á Íslandi, að fjárfesting okkar verður að vera í góðu aðhaldi eins og margt annað í þessu þjóðfélagi og margt verðlag á nauðsynjum, vegna þess að óheft fjárfesting, sem iðulega er gerð sem verðbólgubjörgun fyrir þá sem eiga þess kost, skapar af sér rekstrarvandræði. Það sýnir reynslan.

Hæstv. forsrh. lýsti því yfir, — og það fannst mér best í ræðu hans og ég vona að verði hægt að standa við það, bæði meðan hæstv. núv. ríkisstj. situr og síðar á þessu ári, eftir kosningarnar, — að gengissig hverfi. Meðan það ríkir, eins og það hefur verið undanfarnar víkur og jafnvel mánuði, að fólk sér að gengissigið er allt að 2% á mánuði, þá hefur enginn trú á því að okkar þjóðarbúskapur verði í jafnvægi. Þessi stefna var tekin upp fyrir nokkru víða í heiminum, en hefur ekki reynst jafnárangursrík og menn áttu von á. Þetta getur gilt um tíma hjá einstaka þjóð sem er að sigrast á tímabundnum erfiðleikum í efnahagskerfi sínu. Ég held að þetta sé engan veginn heppileg aðferð hér á Íslandi. Þegar aðföng okkar eru mjög mikil frá útlöndum og við verðum að búa við svo opin utanríkisviðskipti eins og allir vita, þá er þetta gengissig, held ég, mjög mislukkuð stefna. Á meðan er almenningur þess vitandi, að það er jákvætt að eyða, en það er alveg öfugt. Við þurfum að fá fólkið til þess að draga úr eyðslunni og vera rólegt og trúa því, að það sé einhvers virði að spara í þessu þjóðfélagi.

Ég óttast því, ef ekki koma fram betri rök fyrir að þessi gengisfelling nái árangri en við höfum þegar heyrt, að hér verði um skammgóðan vermi að ræða og hún leysi aðeins núið, ef svo má að orði komast. Þetta er sem sagt aðeins skyndiráðstöfun og skyndibjörgun. Ég held því fram meðan ég sé ekki annað og heyri ekki annað. Og þrátt fyrir það að verðbólgunefndin svonefnda hafi skilað miklum skýrslum og upplýsingum, þá er margt í því sennilega sem margir hafa haft hugmynd um án þess að það lægi beint fyrir í tölum. Sjálfsagt er ekki nema gott um það að segja að fá mikil gögn í hendurnar. En grundvallaratriðið verður samt þetta, og það verður að tryggja að menn þori að lifa eðlilegu lífi í þessu landi og spara, ef þeir hafa afgang frá daglegri vinnu, og þora að leggja aflögufé sitt í bankana. Annars verður aldrei jöfnuður hér á Íslandi. Það er algjörlega vonlaust. Við lendum alltaf í sömu vandræðunum, að gengisfelling er fyrr eða síðar orðin staðreynd, og hún þykir orðið svo einföld og þægileg í framkvæmd, miðað við tæknilega getu og þekkingu, að allar aðrar leiðir eru útilokaðar. Það er sagt bókstaflega: Það er svo erfitt. Þetta er ekki framkvæmanlegt. Við gerum þetta bara með einu pennastriki, myndum stóran gengissjóð og deilum honum svo út á eftir.

Meira að segja á enn einu sinni að úthluta á þriðja milljarð, og það er í þremur stórum liðum. Það fer í Verðjöfnunarsjóð, það fer í Fiskveiðasjóð vegna gengistaps á lánum og það fer í hagræðingu. Þetta var svona einnig 1975. Ég og fleiri gerðum nánari fsp. um hvernig þessu fjármagni hefði verið varið til einstakra aðila. Ég taldi það siðferðilega skyldu hæstv. núv. ríkisstj. að gera grein fyrir þessu á Alþ. Mér hefur ekki verið svarað, ekki einu orði, þó að um milljarðaupphæðir sé að ræða. Það á sem sagt að verðlauna þá sem eyða mest og bruðla mest. Meðan slíkt ástand ríkir í þessu þjóðfélagi og hér á Alþ. þá segi ég: Barátta okkar við verðbólguna er vonlaus, algjörlega vonlaus. Það er tími til kominn að menn segi þetta einu sinni við þessa ágætu menn, þó þeir séu margir öndvegismenn í rekstri sínum. Þeir hafa þá hvöt að eyða um of, vegna þess að þeir eru verðlaunaðir fyrir það, bókstaflega verðlaunaðir fyrir það með ýmsu móti. Þetta á auðvitað ekki við um alla, en þetta á við um of marga — allt of marga.

Það á að stofna til nýrrar deildar nú í Verðjöfnunarsjóði. Það á að stofna deild fyrir saltsíldina. Saltsíldin er að koma upp núna sem stór atvinnugrein í landinu, og það er vonandi að vel takist um saltsíldina í framtíðinni. Ég hef alltaf litið svo á að okkar íslenski síldarstofn sé alveg sérstakur gullsjóður fyrir okkur og við verðum að fara varlega í þessu efni. Það er vonandi að sérstök deild fyrir saltsíldina verði jákvæð fyrir þá atvinnugrein. Hún hefur átt í miklum örðugleikum og hún mun örugglega þurfa á öllu sínu að halda vegna erfiðleika í framleiðslunni í haust og óvæntra kostnaðarliða, þar sem verðið var ákveðið löngu áður en endanlegir kjarasamningar voru gerðir og margur annar kostnaður hefur farið hækkandi vegna gengissigs. Því miður er hæstv. forsrh. ekki hér. (Gripið fram í.) Ég vil leggja sérstaka áherslu á að menn geri sér grein fyrir því, að þessi framleiðsla, sem saltsíldin er að verða víða á landinu, er ómetanleg, og það verður að gera sér grein fyrir því, að margar saltsíldarstöðvar þurfa nú að njóta hagræðingar og endurskipulagningar. Fólkið, sem hefur unnið í saltsíldinni, hefur oft orðið að vinna við erfiðari skilyrði en víðast hvar annars staðar. Það eru gerðar kröfur núna til þess að saltsíldarstöð sé upphituð og með betri aðbúnaði en verið hefur um árabil á Íslandi. Þetta kostar allt stórfé. (Gripið fram í.) Nei, þeir eru ekki að sýna okkur í stjórnarandstöðunni þann sóma, þó þeir biðji okkur að vera stuttorða, að hlusta á okkur, enda gera þeir sjálfsagt ekkert með það sem við segjum út af fyrir sig. En þó tel ég að þeir megi muna eftir saltsíldinni, ef hana á að vinna á komandi hausti með jafnmiklum þrótti og gert var í haust og vonandi er eftir að gera á næstu árum. Þá hlýtur þessi starfsgrein að verða að fá út úr þessum gengismunarsjóði það sem hím leggur fram sem sannanlegan kostnað og aukakostnað vegna gengissigs og margra annarra þátta, sem hún varð að sæta frá því að samningar voru gerðir um verð í haust og fram á þennan dag. Ég vildi aðeins undirstrika þetta, þó að enginn hæstv. ráðh. sé við, og láta það koma fram í þingtíðindum, að þetta sjónarmið hefur komið hér fram, því það á fullan rétt á sér. Það er mér kunnugt um.

Herra forseti. Ég skal svo ekki í þessari umferð hafa þessi orð fleiri. En auðvitað verður þetta mál meira rætt við 2. umr., þegar við skilum nál., og þá drepið á fleira, því það er ekki viðunandi að hæstv. forsrh. a. m. k. sé ekki hér viðlátinn, því þá hefði ég minnt hann á kosningabiblíu flokks hans við síðustu kosningar sem ég hef eitt blað úr hér í hendi minni.