09.02.1978
Efri deild: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

175. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ragnar Arnalds minntist áðan á meðaltalsútreikninga sérfræðinganna og taldi að þeir gætu verið nokkuð varhugaverðir að byggja of mikið á. Það var fyrst og fremst vegna þessara meðaltalsútreikninga sem ég vildi segja hér nokkur orð.

Það er ekki vafi á því, að þær aðgerðir, sem nú er verið að framkvæma, eru ekki síst vegna fiskvinnslunnar í landinu og hlaut að því að koma eftir kauphækkanir á s. l. hausti og fiskverðshækkanir nú eftir áramótin. Fiskvinnslunni á að tryggja hagstæðari útkomu með þessum aðgerðum. En það, sem ég vil leggja áherslu á, er að afkoma fiskvinnslunnar er mjög misjöfn eftir landshlutum. Og ég vil — með leyfi forseta — lesa hér örfá orð úr bæklingi, sem kom út á vegum Þjóðhagsstofnunar nú í haust og heitir: „Athugun á afkomu frystihúsa haustið 1977.“ Þar segir:

„Eins og rækilega hefur komið fram hér að framan og í viðaukum skýrslunnar leyna landstölur af þessu tagi miklum mun milli landshluta og einstakra fyrirtækja. Þannig benda athuganir á afkomu frystihúsa á Suður- og Suðvesturlandi til mun lakari afkomu, þar sem hallinn virðist stefna í allt að 8–10% af tekjum, en áður var búið að segja frá því, að landsmeðaltalið mundi verða um 7% eða minna. Hallatölur af þessu tagi fela að sjálfsögðu í sér yfirvofandi greiðsluþurrð, þar sem við þessar aðstæður duga afurðasölutekjur rétt til þess að greiða beinan launakostnað, hráefni og umbúðir, en engan annan kostnað af rekstrinum:

Síðar í sömu skýrslu segir:

„Hér er því greinilega við tvíþættan vanda að etja: Annars vegar almennan vanda, sem af því hlýst að innlendar kostnaðarhækkanir hafa farið fram úr hækkun afurðaverðs á undanförnum mánuðum, og eru reyndar horfur á að þessarar þróunar gæti áfram þannig að rekstrarvandi fiskvinnslunnar ágerist ef ekkert verður að gert. Hins vegar er um að ræða sérstakan og staðbundinn vanda fiskvinnslu í ákveðnum landshlutum, vanda sem að undanförnu virðist hafa ágerst. Ástæður þessa staðbundna vanda eru margvíslegar m. a.:

1. lakari nýting hráefnis,

2. lakari nýting afkastagetunnar,

3. yfirborganir á hráefni,

4. breytingar framleiðslumagns,

5. röskun á framleiðsluskilyrðum vegna sérstakra áfalla:

Þótt hagur fiskvinnslunnar verði bættur að mestu leyti með þessum ráðstöfunum, sem hér er verið að gera, þá er afkoma fiskvinnslunnar á Suðvesturlandi alls ekki tryggð með þessu. Þetta byggist á því, eins og ég var að lesa áðan, að tap hennar er meira, hefur staðið lengur og orsakanna verður að leita annars staðar en á öðrum stöðum í landinu.

Og þarna í skýrslu Þjóðhagsstofnunar er gripið á meginvandamáli fiskvinnslunnar á Reykjanessvæðinu, þar sem, eins og ég sagði, vandinn er talinn tvíþættur. Þeir eiga að sjálfsögðu við þann almenna vanda að etja, en í öðru lagi eiga þeir einnig við staðbundinn vanda að etja, og lausn, sem er bundin við aðeins annan þáttinn, þ. e. a. s. að leysa almenna vandann, skilur þá eftir þeirra staðbundna vanda og mun fiskvinnslan þar því halda áfram sínum hallarekstri með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Þetta ástand, þar sem rekstrarörðugleikar hafa ekki eingöngu verið af innlendum kostnaðarhækkunum, heldur einnig að mjög verulegu leyti af öðrum ástæðum, svo sem minnkandi fiskgengd, breytingum á samsetningu afla o. s. frv., er einkennandi fyrir Reykjanessvæðið, og þær ráðstafanir, sem hér er um að ræða, munu því alls ekki nægja þeim fiskiðnaði til þess að endar nái saman, enda þótt þær kunni að vera nægilegar fyrir alla aðra landshluta.

Ég vil geta þessa í fyrsta lagi, að fram að síðustu árum kom aðalaflamagn Reyknesinga á land á fyrstu 4–5 mánuðum ársins. Þetta hafði það í för með sér, að fiskvinnslustöðvar urðu að vera afkastameiri og mannafli meiri en ella hefði orðið ef aflinn hefði komið jafnar á land. Í öðru lagi var hér nærri eingöngu um stórþorsk að ræða, sem var hagstæður í vinnslu, hvort sem um söltun eða frystingu var að ræða. Nú er þetta ástand alveg gjörbreytt, Af stórþorski veiðist ekki helmingur þess magns, sem áður veiddist, en nú er skrapað saman mikið magn af ufsa, karfa, löngu, keilu og fleiri fisktegundum. Allar þessar tegundir eru óhagstæðari í vinnslu en þorskurinn og þess vegna er þessi breyting frá þorski og yfir í verðminni tegundir aðalástæðan að mínu viti fyrir hinni lélegu afkomu frystihúsanna. Þar við bætist svo að þegar hráefnismagn minnkar skyndilega, þá má alltaf gera ráð fyrir að þau frystihús, sem hráefnissnauð eru, fari að yfirborga, og enn fremur verður nýting véla og bygginga að sjálfsögðu lélegri þegar afli dregst skyndilega saman og ekki er hægt að nýta frystihúsin allt árið. Þess má og geta, að það er örugglega liður í erfiðleikunum að framkvæmd hraðfrystihúsaáætlunar náði aldrei lengra en að Reykjanesi. Þess vegna vantar nú mikið á að húsin á Reykjanesi séu í stakk búin til þess að taka að sér og mæta almennum rekstrarörðugleikum, og því er það, að þegar tekjuþörf frystihúsanna 100, sem í landinu eru, eru áætluð og landsmeðaltal fundið, þá er augljóst að mestur hluti Reykjaneshúsanna liggur fyrir neðan það meðaltal og þess vegna verða þau, eins og ég sagði áður, með skuldahalann á eftir sér, Reyndar er svo komið í dag, að verulegur hluti af þessum húsum á Suðurnesjum er lokaður, og ég sé ekki að þær ráðstafanir, sem áætlað er að gerðar verði nú, verði til þess að opna þessi frystihús aftur.

Þarna fyrir sunnan er 12 þús. manna byggð og verulegur hluti húsmæðra og fleiri kvenna vinna í frystihúsunum, og það er nú þegar farið að þrengjast um atvinnu þarna og versnar með hverjum mánuði. Auk þess að verja nú verulegu fjármagni til hagræðingar og endurbóta í frystihúsunum, á Suðurnesjum, þá sé ég ekki annað en að það hljóti að verða að gera sérstakar aðgerðir til þess bæði að losa þessi hús að einhverju leyti við skuldahalann og í öðru lagi að tryggja rekstrarafkomu þeirra.

Eins og ég gat um áður, hefur samsetning afla þeirra breyst mjög mikið, úr þorski yfir í aðrar tegundir, sem veiðast kannske ekki mjög mikið annars staðar við landið, og þá tel ég að það væri mjög athugandi að fella niður eða minnka útflutningsgjald á þessum tegundum og bæta afkomu frystihúsanna á þann hátt, að það kæmi sérstaklega til góða þessum landshluta. Að sjálfsögðu yrðu Tryggingasjóður og Aflatryggingasjóður að fá sitt fjármagn annars staðar frá, og gæti þá kannske gengismunarsjóður komið þar að gagni. En ég tek það skýrt fram, að ég er hér að tala um það sem er kannske erfitt í framkvæmd. Þó held ég að meðan þorskstofninn er í þeirri hættu sem hann nú er í væri aðgengilegt og æskilegt að afla einmitt þessara fisktegunda, sem geta komið í staðinn fyrir þorskinn, ef vinnsla og verðlagning þeirra væri hagstæðari.