13.02.1978
Neðri deild: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Þegar þetta mál var hér til 1. umr. gerði ég allrækilega grein fyrir afstöðu minni til þess, en ég tel þó rétt að segja um það nokkur fleiri orð nú við 2. umr. málsins og kannske ekki síst vegna þess að við eigum ekki neinn fulltrúa í þeirri þn. sem um málið fjallaði, en það er nú búið að vera í n. og kemur hingað úr þeirri nefnd.

Ég var satt að segja að vona að launþegasamtökunum í landinu, annars vegar Alþýðusambandi Íslands og hins vegar Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, hefði tekist með sínum sterku aðvörunum, eftir að þetta mál er komið hér fram á Alþ., að opna augu hæstv. ríkisstj. fyrir því að fara ekki hér fram með jafnmiklu offorsi að því er varðar kjaraskerðingu og ógildingu kjarasamninga allra launþega í landinu og þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég var að vonast til þess að hæstv. ríkisstj. sæi nú að það er full alvara á ferðum, ef hún ætlar sér með þessum hætti, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, að efna til stórkostlegs stríðs á vinnumarkaðnum. Það er augljóst mál, að verði þetta frv. samþykkt eins og það nú er, þá er það hæstv. ríkisstj. og sá þingmeirihl. hér á Alþ., sem hún styðst við, sem efnir til stórátaka á vinnumarkaðinum á næstu vikum eða mánuðum. Það er augljóst mál. Ég var í lengstu lög að vona að frá því yrði horfið, ekki síst vegna þess að það er hægt að leysa málið með öðrum hætti og farsælli en hér er gert ráð fyrir.

Einnig er ástæðan fyrir því, að ég kom hér upp, nokkur atriði í ræðu hv. þm. Ólafs G. Einarssonar sem mig langar til að fara hér örfáum orðum um.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, að því er mér skildist, skildi ekkert í þeim sinnaskiptum sem hv. þm. Ólafur G. Einarsson hefði tekið að því er varðar skoðanir til úrbóta í efnahagsmálum frá s. l. miðvikudegi og þar til í dag, þar væri um skoðanaskipti að ræða á þessu tímabili. Það er nú ekki einu sinni svona, því að um hádegisbil s. l. miðvikudag skrifaði hv. þm. Ólafur G. Einarsson undir sérstakt nál. og valdi leið til lausnar þeim vanda, sem hér er verið að tala um, í hinni margumtöluðu verðbólgunefnd, en strax daginn eftir, þ. e. a. s. fimmtudaginn, síðari hluta fimmtudags, er þessi hv. þm. búinn að skipta um skoðun og orðinn stuðningsmaður að allt annarri leið en hann hafði lagt til í verðbólgunefnd á miðvikudaginn. Skoðanaskiptin höfðu átt sér stað á rúmum sólarhring, en ekki frá því s .l. miðvikudag og þangað til í dag.

Hins vegar mun hafa staðið til að þessi hv. þm. fengi að hafa þriðju skoðunina í dag, en af því mun ekki hafa orðið. Það mun hafa staðið til í dag í þingflokkum stjórnarflokkanna að framkvæma einhverjar breytingar á því frv. sem hér er nú til umr., og hefði það gerst, þá hefði hv. þm. Ólafur G. Einarsson fengið til þess leyfi eða verið sagt að hafa nú þriðju skoðunina á þessu sama máli á þessum dögum sem liðnir eru frá miðvikudegi til mánudags. Og er nú að búast við góðu, þegar æðstu menn innan þingflokka stjórnarflokkanna eru staðnir að slíkum hringlanda í skoðunum eins og hér lýsir sér?

Það er vitað mál, að ástæðan fyrir því, að frv. ríkisstj. til lausnar þeim vanda, sem nú er við að glíma, var ekki í formi þeirrar leiðar sem fulltrúar hennar í verðbólgunefnd lögðu til að farin yrði, — ástæðan fyrir því er sú, að það er víðs fjarri að nokkurt samkomulag hafi verið í stjórnarflokkunum um að fara þá leið. Menn hafa stigið sitt á hvað í stjórnarflokkunum að því er varðar að velja leið til lausnar vandanum. Þetta er fyrst og fremst ástæðan fyrir því, að sami einstaklingurinn, sami þm. í liði stjórnarliðsins hefur svo að segja skoðanaskipti daglega á vali leiða til lausnar þessum vanda. Þetta hefur hent hv. þm. Ólaf G. Einarsson eins og raunar fleiri hv. þm. stjórnarliðsins varðandi þetta mál. Það er auðvitað ástæða til að vekja athygli á því, að hæstv. ríkisstj. gerir sína stuðningsmenn hér á Alþ. að algeru viðundri með svona háttalagi og vinnubrögðum, og ekki bara þá, heldur og sjálfa sig um leið. Þessir hv. þm., eins og hv. þm. Ólafur G. Einarsson, eru orðnir að hreinu viðundri að því er varðar afstöðuna til þessara mála. Hv. þm. er búinn að hafa tvær skoðanir, búinn að mæla með tveimur leiðum, og hann átti samkv. skipan ofan frá hugsanlega að fá tækifæri til að hafa þriðju skoðunina í dag, en af því varð ekki. Hver veit nema komi að því áður en lýkur? (Gripið fram í: Það er kominn nýr dagur.) Það er að vísu kominn nýr dagur, já, og enginn veit hvað hann ber í skauti sínu. (Gripið fram í: Hvaða mál er hér á dagskrá?) Það eru m. a. skoðanaskipti sem hv. þm. Ólafur G. Einarsson hefur haft í frammi undanfarna daga. Það er verið að vekja athygli á því og ekki að ástæðulausu.

En þetta á ekki bara við um fulltrúa hæstv. ríkisstj. í verðbólgunefnd. Hæstv. ríkisstj. hefur leikið sama leikinn gagnvart öðrum þm. sínum í öðrum n., eins og t. d. fjvn. Menn muna kannske eftir því á s. l. ári, þegar óskað var eftir því af hálfu hæstv. ríkisstj. fulltrúa hennar í fjvn., að þeir framkvæmdu niðurskurð að tilteknu marki varðandi fjárlög. Þessir hv. þm. urðu við þessari beiðni hæstv. ríkisstj., og þegar þeir voru búnir að því neitaði hæstv. ríkisstj. að fara eftir þessum till., sem hún bað um, og gerði þar með þessa sína fulltrúa, meiri hl. í fjvn., að algeru viðundri, — neitaði að fara eftir þeim niðurstöðum sem þeir voru búnir að leggja til að beiðni ríkisstj. Það er eðlilegt að hv. þm. Ellert B. Schram brosi. Ég veit ekki hvort hann hefði farið að þessu hefði hann þá verið búinn að taka sæti í fjvn., en vel má svo vera.

Nei, það er auðvitað augljóst á öllum þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð hafa verið að því er þetta mál og önnur mál varðar hjá hæstv. ríkisstj., að það er víðs fjarri að nokkur samstaða sé innan stjórnarflokkanna sjálfra um lausn á þeim vanda sem nú er við að glíma í efnahagsmálum. Það er ljóst í ræðu hv. þm. Ólafs G. Einarssonar áðan sem frsm, meiri hl. fjh.- og viðskn. vék hann hér að nokkrum atriðum. Hann sagðist ekkert skilja í þeim látum sem virtust vera, þó að verið væri að hreyfa aðeins við kjarasamningunum, og taldi slíkt raunar fásinnu og hlytu augu manna að opnast fyrir því, hversu glórulaust það væri ef launþegar í landinu fengju þá hækkun sem gildandi samningar gerðu ráð fyrir þeim til handa. Sem sagt, hv. þm. Ólafur G. Einarsson telur það glórulausa hækkun launafólki í landinu til handa ef það fengi 10% hækkun nú við næstu mánaðamót eins og samningar gera ráð fyrir. Þetta er glórulaust að hans áliti. Þau læti, sem hv. þm. Ólafur G. Einarsson er hér að tala um, eru vegna þess að verkalýðshreyfingin og launþegar almennt í landinu ætlast til þess af hæstv. ríkisstj., að hún standi við þá samninga sem hún sjálf var aðili að og lagði blessun sína yfir á s. l. sumri og s. l. hausti með samningunum við BSRB. Það er ekki til of mikils ætlast þó að til þess sé ætlast af hæstv. ríkisstj., að hún standi við gerðan hlut, eins og hún ætlast til af öðrum, og mönnum þarf ekki að koma á óvart þó að mótmælt sé aðferðum af því tagi sem hæstv. ríkisstj. hefur nú hér unni.

Þá spurði hv. þm.: Af hverju er ekki Alþýðusambandi Íslands og BSRB afhent alræðisvald um kaup og kjör manna? Er það það sem þessi hv. þm. vill? (Gripið fram í: Nei, nei.) Hvern var hann að spyrja, sjálfan sig eða einhverja aðra? Það kom ekkert áframhald af þessu. Hvað sem mönnum finnst um það, hvort launþegasamtökin í landinu eigi að hafa alræðisvald í þessum efnum, þá stendur sú skoðun óhögguð, að launþegasamtökin ætlist til þess af ríkisvaldinu að það standi við þann hluta samninga, sem það hefur gert, og það er mergurinn málsins. Hér er ekki verið að tala um neitt alræðisvald, hvorki Alþýðusambandinu né Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja til handa. Hér er verið að tala um að hæstv. ríkisstj. ætlar að rifta gerðu samkomulagi sem þrír aðilar stóðu að á sínum tíma, og einn af þeim leggur til að rifta því.

Þá tel ég nauðsynlegt að leiðrétta þá röngu fullyrðingu hv. þm. Ólafs G. Einarssonar áðan, þegar hann sagði að hver um sig af þeim 5 nm. í verðbólgunefnd. sem skiluðu sameiginlegu áliti varðandi leiðir til lausnar þessum vanda, hefði skilað séráliti, sérstakri bókun. Það er rangt. Hvorki ég né hv. þm. Lúðvík Jósepsson skilaði neinni sérbókun, þannig að þessi fullyrðing hv. þm. er röng. og ég vænti þess að hann viðurkenni það. (ÓE: Já, já, já.) Já, þá er það þar með úr sögunni. Margt fleira var rangt sem hv. þm. fullyrti, og kem ég að því síðar.

En það sem manni finnst nokkuð sérkennilegt, — og á það ekki bara við um hv. þm. Ólaf G. Einarsson, það á við fleiri hv. stjórnarþm., það sem mönnum finnst sérkennilegt við þetta er að þessi hv. þm. ásamt öðrum fulltrúum ríkisstj. í verðbólgunefnd, og þá erum við að tala um þm. að sjálfsögðu, leggja blessun sína yfir það á miðvikudagsmorgni að fara hina svokölluðu fimmtu leið B, eina af þeim valkostaleiðum, sem forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar og formaður verðbólgunefndar lagði til að farin yrði, en strax daginn eftir hafa þeir skipt um skoðun og leggja til að fara aðra leið. Þetta þykir mönnum að vonum harla einkennilegt. Þessu hafa margir hv. þm. fundið að og bent á sem tvískinnung í málinu. Sjálfsagt hafa þessir hv. þm. einhver rök fram að færa þessum skoðanaskiptum sínum til frekari glöggvunar, en það breytir eigi að síður ekki því, að málið er svona.

Þá sagði hv. þm. Ólafur G. Einarsson, að við fimmmenningarnir í verðbólgunefndinni hefðum skrifað upp á gengislækkunina sem gerð var síðar á miðvikudaginn, síðar sama daginn og verðbólgunefnd hætti störfum. Þetta er rangt hjá hv. þm., og ég vænti þess að hann viðurkenni það einnig. Formleg gengisfelling var ákveðin af stjórn Seðlabankans í samráði við ríkisstj. á þriðjudeginum áður, síðari hluta þriðjudagsins, og um það er hægt að fá staðfestingar. Formleg gengisfelling var ákveðin í stjórn Seðlabankans í samráði við hæstv. ríkisstj. á þriðjudeginum. Bæði hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh., sem áttu fund með fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna og fleirum úr þingliðinu á þriðjudeginum, þegar verið var að ræða meðferð þessa máls í þinginu, lýstu því yfir, að ákvörðun yrði tekin á þriðjudeginum, þannig að það er rangt hjá hv. þm. Ólafi G. Einarssyni, að við hinir svokölluðu fimmmenningar í verðbólgunefndinni höfum skrifað upp á gengisfellingu sem var gerð síðan sama dag og verðbólgunefnd hætti störfum. Sú gengisfelling var formlega ákveðin sólarhring áður, þannig að við stóðum frammi fyrir gerðum hlut.

Þá sagði hv. þm., að það væri rangt hjá mér að í öllum þeim leiðum, sem formaður verðbólgunefndar, forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, lagði fram sem vallrosti, væri gert ráð fyrir niðurskurði á framkvæmdum. Ég vil biðja hv. hm. Ólaf G. Einarsson að lesa eilítið betur þau fræði sem um var að ræða í verðbólgunefnd. Í öllum leiðunum nr. 2–5 er bent á niðurskurð bæði að því er varðar A-hluta fjárl. og einnig að því er varðar lánsfjáráætlun yfirstandandi árs, þannig að það stendur óhaggað að í öllum þessum valkostaleiðum gerir forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar ráð fyrir niðurskurði á A-hluta fjárl. annars vegar og/eða á lánsfjáráætlun hins vegar. Í öllum valkostunum er gert ráð fyrir þessu, þannig að þetta er rétt.

Ég sagði s. l. föstudag við 1. umr. þessa máls, að ég teldi að það mætti skera verulega niður rekstrarútgjöld ríkissjóðs með meiri hagræðingu innan þeirra stofnana sem þar eiga hlut að máli. Hv. þm. Ólafur G. Einarsson vék að þessu áðan og taldi að ég hefði með þessu gerst liðsmaður ungra sjálfstæðismanna undir kjörorðinu „Burt með báknið“. Það skiptir engu fyrir mig. Þó svo það séu sjálfstæðismenn sem hafa þessa skoðun, þá fell ég ekki frá henni þrátt fyrir það. Ég er sannfærður um það og ég hef sagt það áður, að ég er sannfærður um að það er hægt að draga verulega úr rekstrarútgjöldum ríkissjóðs, að vísu sem langtímamarkmiði, með meiri hagræðingu, og ég fullyrði að það er hægt að framkvæma sömu þjónustu þó að starfslið ríkisins væri skorið niður um 25%. Þetta segir Ólafur G. Einarsson að sé fjarstæða. En hvað sögðu núv. hæstv. ráðh., flokksbræður þessa hv. þm., veturinn 1974, þ. e. a. s. þeir nafnarnir, hæstv. núv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh.? Ég man ekki betur en þeir legðu fram hér frv. til l. um niðurskurð á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs upp á 2.5 milljarða veturinn 1974, sem þýddi í dag líklega einhvers staðar á bilinu frá 8–9 milljarða a. m. k. Svo kemur hv. þm. Ólafur G. Einarsson, flokksbróðir þessara hæstv. ráðh., nú og segir að það sé út í hött að nefna niðurskurð í rekstrarútgjöldum af stærðargráðunni 3–4 milljarðar. (Gripið fram i.) Hv. þm. sagði þetta. Það er ekkert út í hött að nefna það, að það er hægt að spara verulega fjármuni í rekstrarútgjöldum ríkissjóðs. En hv. þm. Ólafur G. Einarsson og fleiri sjá einungis þann kost til að spara að skera niður fjárveitingar til félagslegrar þjónustu eða framkvæmda, og þar greinir á milli.

Hv. þm. bað um það áðan, að hann fengi að heyra í smáatriðum hvað ætti að skera niður, og það er ekkert óeðlilegt að um það sé spurt. En ég vil þá benda á það, að ekki liggur fyrir í till. hæstv. ríkisstj. hvað á að skera niður. Það lá ekki fyrir í till. eða valkostum formanns verðbólgunefndar, forstjóra Þjóðhagsstofnunar, þó að hann væri með niðurskurð í öllum sínum dæmum. Það var ekki um það talað, hvað ætti að skera niður, annað en hann talaði um samgöngumál í annarri leiðinni, hvergi tilgreint annað í neinum niðurskurði í hans tillögum.

Það er auðvitað ýmislegt sem hægt er að draga úr í sambandi við rekstrarútgjöld ríkissjóðs. Það er ekki litið sem það mun kosta ríkissjóð, hefur kostað hann þegar og mun kosta hann á næstu árum, að taka á sig eignarhlut að járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði. Ég hef verið andvígur þeirri framkvæmd frá upphafi og tel að þar megi skera niður. Ég tel enga goðgá að skera niður framlag til þeirra framkvæmda sem meiri hl. Alþ. ákvað við afgreiðslu í fjárl., þ. e. a. s. kaupin á Víðishúsinu. Og það er engin goðgá að fresta um a. m. k. eitt til tvö ár ef ekki lengur, fleiri ár, framkvæmdum t. d. við Hrauneyjafossvirkjun sem nú er ákveðin. Það má víða drepa niður fæti og benda á að spara megi og fresta framkvæmdum, sem menn greinir að vísu á um hverjar eigi að vera, en eigi að síður er hér um áþreifanleg dæmi að ræða.

Ég sagði við 1. umr. þessa máls, að í þessu frv. væri fyrst og fremst um að ræða að efnisinnihaldi tvö atriði, þ. e. a. s. ógildingu kjarasamninga og svo hina alræmdu 3. gr. frv. En ég er ekki viss um að mönnum þurfi neitt að koma á óvart þessi 3. gr. frv., ef menn líta aðeins í fjárlagafrv. frá s. l. hausti, fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. fyrir árið 1978, fjárlagafrv. sem að öllum líkindum var farið að vinna að þegar meðan samningur við aðila vinnumarkaðarins stóðu yfir á s. l. sumri, þ. e. í júnímánuði. Þetta fjárlagafrv. gefur mönnum vísbendingu um það, að hæstv. ríkisstj. var, á sama tíma og hún var að stuðla að og leggja blessun sína yfir samningsgerðina í júnímánuði, þá var hún þegar uppi með ráðagerðir um að kippa beinu sköttunum út úr vísitölu. Það staðfestir grg. fjárlagafrv. frá s. l. hausti. Á sama tíma og hæstv. ríkisstj. var í samningum við verkalýðshreyfinguna um lausn kjaradeilu var hún með ráðagerðir um að kippa óbeinum sköttum út úr vísitölunni. Í aths. með fjárlagafrv. segir með leyfi forseta:

„Með frv. er gert ráð fyrir 15 kr. hækkun bensíngjalds og hliðstæðri hækkun þungaskatts í þessu skyni“ — þ. e. a. s. til þess að efla framkvæmdir Vegasjóðs. „Með tilliti til þess að allt þetta fé, og reyndar meira, rennur til þess að bæta þjónustuna við vegfarendur, þ. e. allan almenning, er ekki skynsamlegt“ — og taki menn eftir — „er ekki skynsamlegt að líta á þessa gjaldtöku sem tilefni verðbótahækkunar launa.“

Hér er það svart á hvítu, að hæstv. ríkisstj. var þegar á s. l. sumri, á þeim tíma sem hún var að semja við verkalýðshreyfinguna, með hugmyndir um að gerbreyta vísitölugrundvelli launa án nokkurs samráðs við verkalýðshreyfinguna eða þá aðila sem um þetta hafa samið. Að vísu hvarf ríkisstj. frá þessu. Hún lét þetta ekki koma til framkvæmda þá. En um þetta er hótun núna, að það skuli koma frá og með næstu áramótum.

Þá sagði hv. þm. Ólafur G. Einarsson áðan, að það, sem skildi að varðandi þessar till., sem hér er um að ræða í frv. hæstv. ríkisstj., annars vegar og þeirrar stefnu, sem verkalýðshreyfingin hefði haft uppi, hins vegar, varðandi verndun launa þeirra lægst launuðu, væri framkvæmt með þessu frv. hæstv. ríkisstj. Hér væri verið að vernda þá lægst launuðu og verst settu í þjóðfélaginu. Ég er ekki viss um að aðrir hv. þm. stjórnarliðsins, sem í verkalýðsstétt eru, séu sömu skoðunar að því er þetta varðar. Ég trúi því ekki að t. d. hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson eða hv. þm. Pétur Sigurðsson, báðir úr öðrum stjórnarflokknum, — vandfundinn er fulltrúi verkalýðshreyfingar í þingliði Framsfl., — ég er efins í að þessir tveir hv. þm. fallist á þá skoðun Ólafs G. Einarssonar, að hér sé verið að vernda sérstaklega laun þeirra lægst launuðu og verst settu í þjóðfélaginu. Hver er meiningin t. d. að hví er varðar elli- og örorkulífeyrisþega? Liggur ekki fyrir að þeir verða fyrir skerðingu miðað við það að óbreytt ástand yrði? Liggur ekki fyrir að kjör þeirra, sem eru með tekjur undir 88 þús. kr., skerðast? Ég held að það sé alveg ljóst.

Það var áðan beðið um skýringar varðandi þetta atriði og upplýsingar frá hv. þm. Ólafi G. Einarssyni eða öðrum þeim stjórnarliðum sem það geta og vilja upplýsa, hvernig ætti að framkvæma þetta atriði að því er varðaði elli- og örorkulífeyrísþega, hvort þeir mundu ekki verða fyrir 3% skerðingu miðað við óhreytt ástand. Ég held að það verði ekkert annað lesið út úr frvgr. eða grg. heldur en þetta eigi sér stað. Sé þetta ekki rétt, óska ég eftir að upplýsingar verði veittar um það. Ég segi því: Verði framkvæmdin þessi, sem ekki er hægt að sjá annað en að verði, þá er verið að skerða kjör og stöðu þeirra sem minnst hafa og verst eru settir. En vonandi er þetta ekki meiningin, en svona litur það út eins og það er núna.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða öllu lengri tíma að sinni varðandi þetta mál. Ég vil aðeins í lokin ítreka um það, sem hér hefur komið fram, í fyrsta lagi þetta: Hvernig stóð á því að fjárlög fyrir árið 1978 voru afgreidd með rúmlega tveggja milljarða greiðsluhalla eins og nú er orðið ljóst? Hver er ástæðan fyrir því, að í raun og veru voru fjárlög fyrir árið 1978 afgreidd með rúmlega tveggja milljarða kr. greiðsluhalla? Og í öðru lagi það sem ég vék að áðan og ég tel nauðsynlegt að fá upplýst: Hvaða reglur eiga að gilda varðandi uppbætur til elli- og örorkulífeyrisþega aðrar en þær sem frv, gerir ráð fyrir, eða eru einhverjar aðrar reglur fyrirhugaðar um framkvæmd þess ákvæðis? Og ég vil spyrja í þriðja lagi. Hvernig ætlar hæstv. ríkisstj. sér að framkvæma það ákvæði frv. sem er í 2. gr., þar sem gert er ráð fyrir 880 kr. greiðslu á hvert 1% hækkunar á vísitölu. Ég hygg að það sé óframkvæmanlegt, eins og það virðist liggja hér fyrir í frv.-formi, eins og þar er gert ráð fyrir að framkvæma það. Það er því ástæða til að biðja um skýringar á því, hvernig hugsað er að framkvæma það sem gert er ráð fyrir í 2. gr.

Ég vil svo að síðustu segja það og ítreka það, að hæstv, ríkisstj. tekur á sig mikla ábyrgð, ef hún ætlar sér að knýja hér í gegn þetta frv. í svo mikilli andstöðu við launþegahreyfinguna í landinn eins og raun ber vitni og komið er í ljós að nú er fyrir hendi. Með því að knýja þetta í gegn eins og það er er verið að efna til stórkostlegs styrjaldarástands á vinnumarkaðnum, — styrjaldarástands sem hægt hefði verið að komast hjá. Það liggur ljóst fyrir. En hæstv. ríkisstj. vill ekki fara þær leiðir og kýs fremur að ögra verklýðshreyfingunni og launþegum í landinu með því að fara þá leið sem hér er lagt til.