21.02.1978
Sameinað þing: 47. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2529 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

95. mál, hámarkslaun o.fl.

Flm. (Stefán Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil þegar í upphafi máls míns að gefnu tilefni lýsa yfir ánægju minni með það, að hv. þm. Benedikt Gröndal, formaður Alþfl., skuli vera viðstaddur nú í Sþ. því að þess hef ég beðið um sinn að hann yrði er ég mælti fram með þessari þáltill., svo sem síðar mun koma fram í máli mínu.

Við hv. þm. Helgi F. Seljan og Jónas Árnason flytjum hér þáltill. þessa um hámarkslaun o. fl., svo hljóðandi:

„Alþingi skorar á ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um hámarkslaun, þar sem kveðið verði á um að ekki megi greiða hærri föst laun hér á landi en sem svarar tvöföldum vinnulaunum verkamanns miðað við 40 stunda vinnuviku. Jafnframt verði loku fyrir það skotið, að einstaklingar gegni nema einu fastlaunuðu starfi, og eins fyrir hitt, að átt geti sér stað duldar launagreiðslur í formi neins konar fríðinda, umfram hámarkslaun. Með breytingu á skattalögum skal að því stefnt að einkafyrirtæki hagnist ekki á lögbundinni lækkun hæstu launa, og skal því fé, sem rennur til ríkissjóðs af þessum sökum eða sparast með niðurskurði á launum embættismanna í efstu launaþrepunum, varið til almennrar kjarajöfnunar og annarra félagslegra umbóta.“

Frá því segir í upphafi. grg., að till. þessi hafi áður verið flutt í Ed. og í fyrra í Sþ. og varð þá enn eigi útrædd.

Með ráðstöfun þeirri, sem hér er reifuð, hyggjast flm. koma því til leiðar að kjarabætur handa þeim, sem lægst eru launaðir, verið algjör og ófrávíkjanleg forsenda hverrar launahækkunar til þeirra sem betur eru settir í þjóðfélaginu. Að hyggju flm. er unnt, með því að lögbinda ákveðið hlutfall milli almennra launa verkamanns og hæstu launa að búa svo um hnútana, að kjarabætur til handa verkamönnum verði að beinu hagsmunamáli fyrir þá þegna þjóðfélagsins sem eru í sterkastri aðstöðu til þess að hafa áhrif á stefnuna í efnahags- og kjaramálum landsmanna.

Svo að dæmi sé tekið, yrði það óframkvæmanlegt, eftir setningu slíkra laga sem hér eru ráðgerð fyrir bankastjóra, sem nú munu hafa um það bil sexföld laun verkamanns, að veita sjálfum sér launahækkun samtímis því sem þeir úrskurða að ekki séu efnahagslegar forsendur fyrir almennri kauphækkun sem verkafólk hefur náð með harðri baráttu til þess að vega upp á móti kjararýrnun, sem runnin var undan rifjum hinna fyrrnefndu. Má hér bæta því við, að væri slíkt í lög leitt yrðu hækkuð verkamannalaun hinna lægst launuðu alger og ófrávíkjanleg undirstaða, skilyrði fyrir því að laun alþm. yrðu hækkuð, en að launum þeirra vík ég síðar í ræðu minni.

Það hefur komið fram fyrir skemmstu af munni ráðh., að þess munu þó nokkur dæmi að embættismenn ríkisins hafi óheyrilega há laun samanborið við þær tekjur sem verkafólki og hinum lægst launuðu starfsmönnum ríkisins eru ætlaðar til framfærslu, ennfremur að verulegur hluti launa hinna æðstu embættismanna er fólginn í ýmiss konar aukagreiðslum, sem ekki koma til álita þegar fjallað er um kjör annarra stétta til viðmiðunar. Að dómi flm. er það mikil nauðsyn, að þannig verði staðið að kjaramálasamningum yfirleitt að þeir séu ekki til þess fallnir að auka á tortryggni meðal þegnanna, heldur skuli ástunda það að búa svo um hnútana að undirmál geti þar engin orðið. Að dómi flm. er óþarft að kveða sérstaklega á í grg. um sérstöðu hlutasjómanna í launakerfinu, enda mála sannast að kauptrygging fiskimanna hlýtur að teljast yfirleitt til óhæfilega lágra launa, ef miðað er við vinnutíma, og ævitekjur fiskimanna við verkalok yfirleitt í rýrasta lagi.

Að frátöldum þeim rösku þremur árum, sem vinstri stjórnin sat hér við völd, má heita að stefnt hafi verið markvisst að því síðustu 18 árin að auka launamismun hérlendis á kostnað framleiðslustéttanna og ýta með þeim hætti undir neyslukapphlaup í þágu svonefnds hagvaxtar. Er vægilega að orði kveðið þótt staðhæft sé að þessi þróun hafi síður en svo stefnt í þá átt að umbuna starfshópum eftir þjóðfélagslegum verðleikum.

Þegar ég bar fyrst fram þessa þáltill. ásamt félögum mínum fyrir nærfellt 4 árum nam kaup alþm. tæplega tvöföldum verkamannalaunum. Síðan, á stjórnartímabili þessarar hæstv. ríkisstj., hefur sú breyting á orðið að nú nema laun alþm. nær þreföldum launum verkamanns. Miðað við aðrr aðstæður er ég ekki þeirrar skoðunar, að laun alþm. séu of há. Aftur á móti er hitt ljóst, að til þeirra er vitnað til dæmis um það hvernig fulltrúar fólksins hér á Alþ. misnoti aðstöðu sína til að skara eld að sinni köku. Þessari gagnrýni væri auðsvarað ef ekki kæmi annað til álita í því sambandi en sjálft kaup alþm. fyrir störf þeirra hér. Við verðum að svara fyrir einstaklinga í hópnum sem segja má að fari ógætilega með aðstöðu sína. Í hópi okkar eru menn sem taka jafnframt þingfararkaupinu 60% af bankastjóralaunum að viðbættum bílafríðindum bankastjóra í sama hlutfalli, sem þeir hafa sjálfir samþykkt sér til handa, að því er best verður séð án þess að taka sérstakt tillit til slíks, þegar talið er fram til skatts, og taka svo bilastyrk frá hv. Alþ. í ofanálag. Og enn aðrir seilast einnig um hurð til lokunnar og gegna öðrum launuðum störfum hjá ríkinu með þingsetunni.

Fljótt á lítið sýnist mér að það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í þessari till., mundi leiða til þess að laun alþm. munu lækka, ef upp hefðu verið færð bæði laun verkamanna og ofan færð laun hinna hæst launuðu til þess jafnaðar sem ráðgerður er í till., að laun alþm. mundu þá lækka um það bil um 20%. Í þessari till. er gert ráð fyrir því, að aukasporslurnar yrðu bannaðar, þannig að laun þeirra alþm., sem taka stórtekjur í föst laun annars staðar, mundu náttúrlega lækka miklu meira, svo sem laun hv. alþm. Alþfl. hér á Alþ., Gylfa Þ. Gíslasonar og Benedikts Gröndals, sem við munum koma að síðar.

Nú hefði ég ekki eytt orðum sérstaklega að launakjörum alþm. í þessu sambandi, ef ekki hefði fallið til efni í þann þátt málsins í ritstjórnargrein í Alþýðublaðinu 26. jan. Sú grein er undirrituð með bókstafnum Ó, sem mun vera merki hv. alþm. Benedikts Gröndals, en hann segir í þessari ritstjórnargrein, með leyfi forseta, — hann víkur að tveimur alþm. sem hann telur að hafi unnið sérstaklega óheiðarlega að kjaramálum alþm: „Þar tróna Stefán Jónsson og Helgi Seljan, mennirnir sem leggja til á opnum fundum Alþ. að munur hæstu og lægstu launa skuli vera tveir á móti einum, en samþykkja svo innan við luktar dyr, þar sem almenningur á ekkert að fá að vita, að hækka eigin laun mest allra í landinu. Og fólk er að fá nóg.“ Það efast ég ekki um, að fólk sé búið að fá nóg. Ég er búinn að fá nóg af heilindatali á borð við þetta.

Nú bendir ýmislegt til þess, að hv. þm., fyrrv. formaður útvarpsráðs, Benedikt Gröndal, hafi skrifað ritstjórnargreinina, svo sem ýmsar fleiri, með sérstöku tilliti til þess, að hún yrði lesin í útvarpi í eyru þeirra kjósenda sem ekki vita eftirfarandi :

Það var ekki þingfararkaupsnefnd, sem þeir eiga m. a., eftir því sem ég best veit, sæti í þm. Helgi Seljan og Benedikt Gröndal, sem ákvað þingfararkaupið. Enn fremur er hv. þm. ljóst, að ég á ekki sæti í þfkn. Þriðja atriðið sem hann greinilega treystir að þorri kjósenda, sem heyrir þennan pistil lesinn í útvarpi, viti ekki, er það að hv. þm. Benedikt Gröndal tekur ekki aðeins þingmannslaun úr hendi ríkisins, heldur þar á ofan 60% af launum forstöðumanns Fræðslumyndasafns ríkisins. Í fjórða lagi er formaður þingflokks Alþfl., sem vitaskuld ber ábyrgð á þessari ritstjórnargrein, undir sömu sökina seldur. Hann tekur 60% af prófessorslaunum frá ríkinu ofan á þingmannslaun. Í fimmta lagi virðist hér skákað í því skjóli, að þorri af þeim kjósendum, sem heyrðu þennan leiðara lesinn í útvarpi, viti ekki að það mun gilda um 4 af á þm. Alþfl.. að þeir hafa aðrar fastar launatekjur en þingmannslaun, þótt einn þeirra, Jón Árm. Héðinsson, sem sker sig að ýmsu leyti úr þessum hóp, hafi sínar umframtekjur af eigin fyrirtæki. Sem sagt, miðað við það, sem aðrir virðast gera sér grein fyrir, ýmsir hverjir, að þingmannsstarfið sé vissulega fullt starf ef það er rækt eins og til er ætlast, þá fer það tæpast á milli mála að þeir hv. þm., sem ekki eru ofurmenni, hljóta að vanrækja annað tveggja, þingmannsstarfið eða önnur þau störf sem þeir þiggja laun fyrir samtímis því úr hendi hins opinbera.

Nú hef ég haft uppi um það nokkra viðleitni, eins og ég drap lítillega á í upphafi máls míns, að ganga úr skugga um þau atriði sem ég sveigi hér að hv. þm. Ég hef beðið forseta fjóra þriðjudaga í röð að fresta því að taka þessa þáltill., sem hér um ræðir, fyrir til umr. til þess að hv. þm. Benedikt Gröndal, sem rækir að 60% með þingmannsstarfinu forstjórastarf hjá Fræðslumyndasafninu, og hv. þm. Gylfa Þ. Gíslason, sem rækir að 60 hundraðshlutum hálaunað prófessorsembætti með þingmannsstarfinu, gætu verið viðstaddir þar sem ég fjallaði lítils háttar um þessa ritstjórnargrein Alþýðublaðsins í sambandi við þessa till. Þetta er fyrsti þriðjudagurinn, þar sem hv. þm. Benedikt Gröndal er enn þá við í Sþ. á hinum síðari fundi þegar þáltill. koma til umr. Ég hafði fyrir því tvo af þessum þriðjudögum, af því að ég vildi endilega koma þessu máli að, að láta hringja upp í Fræðslumyndasafn að athuga, hvort hv. þm. væri þar ekki að vinna fyrir 60%, og upp í Háskóla að vita, hvort hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason prófessor væri ekki að vinna fyrir sínum 60%, en þeir voru þar ekki. Tilviljun kann að hafa ráðið þessu, það vil ég ekki fortaka, þótt ég héldi í barnslegri einfeldni minni að nú hlytu þeir að vera hlaupnir af fundi í Sþ. til þess að gegna hinum störfunum.

Nú játa ég það, að í sjálfum lögunum er beinlínis gert ráð fyrir því, að alþm. geti sinnt öðrum störfum jafnframt, og þess vegna er kveðið á um það, að þeir megi þiggja 60% launa fyrir þau störf. Af hálfu Alþb. hefur nú verið lagt til, að þessi heimildarákvæði verði felld úr lögum og enginn þm. Alþb. gegnir öðrum fastlaunuðum stöðum með þingmennsku sinni. En þessir hv. þm., Gylfi Þ. Gíslason með prófessorslaunin sín og Benedikt Gröndal með forstjóralaunin sín frá ríkinu, höfundur ritstjórnargreinarinnar í Alþýðublaðinu, hafa, að því er mér virðist, beinlínis fyrirgert þeim siðferðilega rétti með þessari ritstjórnargrein, sem gerir þá frjálsa að því að þiggja ofan á þingmannslaun, sem þeir telja allt of há, önnur, laun úr hendi ríkisins. Það er mála sannast, að þingfararkaup að viðbættum 60% prófessorslaunum eða forstjóralaunum er of mikið. Þingfararkaupið er að mínu viti aftur á móti, ef látið er við það sitja, ekki of hátt og það skal tekið fram, að þótt ekki eigi ég sæti í þfkn., þá er ég samþykkur í öllum atriðum þeirri afstöðu sem hv. þm. Helgi Seljan lýsti yfir þar af sinni hálfu og síðar.

Ég leyfði mér að segja, að þessari ritstjórnargrein skrifaðri í Alþýðublaðið hefur hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason og Benedikt Gröndal fyrirgert siðferðilegum rétti sínum til þess að taka önnur laun úr hendi ríkisins en þingfararkaupið. Skrif af þessu tagi, eins og því sem ég las hér úr ritstjórnargrein Alþýðublaðsins, eru þess háttar, að maður veltir því fyrir sér, í sérstökum tengslum við þingmál sem hv. þm. Benedikt Gröndal hefur flutt um byggingu á nýju og stærra alþingishúsi, sem væri við hæfi þeirrar sæmdar sem verði að krefjast Alþ. til handa, — þá veltir maður því fyrir sér hvort unnt sé að byggja svo stórt alþingishús, að ilmurinn af þess háttar „karakterum“, sem fram kemur í þessari grein, geti samrýmst innan veggja þess neins konar sæmd Alþ. Og vík ég þá aftur að þáltill., 95. máli, um hámarkslaun o. fl.

Ég hef fengið Þjóðhagsstofnun til þess að gera í tengslum við þessa þáltill. það sem verður þó ekki hægt að kalla nema ágiskun um launatekjur einstaklinga. Því verður Þjóðhagsstofnun að kalla þessa úttekt sína ágiskun, að alls ekki liggja fyrir nauðsynlegar tölur til þess að byggja á útreikninga sem telja megi ábyggilega. En í þessum stutta kafla, sem Þjóðhagsstofnun tók saman fyrir mig, segir eftirfarandi:

„Heildarlaunafúlgan er sennilega 200 milljarðar kr. miðað við laun í febr. 1978. Meðallaun fyrir eitt ársverk eru sennilega 3 millj. kr. að meðaltalinni yfirvinnu eða um 250 þús. kr. á mánuði. Dagvinnulaun gætu verið að meðaltali um 190 þús. kr. og eru ársgreiðslur og yfirborganir þá meðtaldar, en meðalkauptaxti er sennilega á bilinu 150–160 þús. kr. Sé gert ráð fyrir að hæstu laun séu skilgreind sem 800 þús. kr. á mánuði og lægstu laun verði ekki lægri en hálf hæstu laun, þá þyrfti að hækka laun að meðaltali — lausleg ágiskun miðað við kauptaxta — um 150%, miðað við dagvinnulaun 100%, miðað við heildarlaun 150%. Þetta fæli í sér,“ segir í þessari ágiskun, „verulega hækkun launa nær allra launþega í landinu, en upplýsingar um tekjudreifingu eru enn ófullkomnar og því verður að áætla hana að nokkru leyti.“

Af hálfu Þjóðhagsstofnunar lágu ekki fyrir upplýsingar sem til þess nægðu að við gerðum okkur grein fyrir því, hvað ske mundi og hvað ske mundi við það, að jafnframt því sem laun hinna lægst launuðu, verkmannanna, verða hækkuð upp undir markið sem hér frá segir, þ. e. a. s. upp undir mark hálfra hinna hæstu launa, þá verða hin hæstu laun færð niður og það, sem af þeim er tekið, notað til þess að hækka lægri launin, með hvaða hætti við myndum koma þá út, ef við skiptum heildarlaunasummunni í landinu á þennan veg, að lægstu laun verði þó alltaf helmingur hæstu launa og þannig verði frá málunum gengið með löggjöf, að það skuli verða endanlega bundið að meiri skuli launamismunur ekki verða á landi hér.

Fyrir liggja upplýsingar, sem fram komu við umr. um kjaramál á s. l. sumri og ekki hafa verið vefengdar, á þá lund, að kaupmáttur verkamannalauna hafi ekki aukist á landi hér í 30 ár, samtímis því sem þjóðartekjur á mann hafa tvöfaldast. Rauntekjuaukning verkamanna á þessu 30 ára tímabili hefur fengist með löngum vinnudegi, í sumum tilfellum jafnframt og þar að auki með auknu vinnuframlagi í akkorðs- eða bónusvinnu í einhverju formi. Með hvaða hætti þetta hefur átt sér stað, að starf þess fólks, sem vinnur hörðum höndum, hefur verið fellt í verði, er ærið rannsóknarefni, því að einmitt það fólk gengur yfirleitt að erfiðustu og óþrifalegustu vinnunni og starfsævi þess er langoftast einna skemmst. Samtímis hefur svo starf þeirra, sem að hinum léttari störfum vinna, verið hækkað í verði, svo að með ólíkindum má telja, og þá raunar gætt lítils setnings í aðferðavali, svo sem ég gat lítilleiga um áðan þegar ég fjallaði um aðferðir þeirra sem ,sterkasta hafa aðstöðuna til þess að skammta sér laun, til þess að hækka þau jafnvel umfram það sem opinberar skýrslur og opinberar heimildir raunar leyfa.

Ég vil aðeins biðja þá hv. alþm., sem afsökunarbeiðni eru verðir í þessu sambandi, velvirðingar á því, að og skyldi í beinum tengslum við þessa þáltill. hefja að nýju umr. um launakjör þm. Ég er persónulega þeirrar skoðunar, að mikils sé um vert að þm. verði þannig launaðir að aðrir en efnamenn geti rækt þessi störf, sem við rækjum hér, og til þeirra starfa veljist menn sem kannske séu örlítið vandir að vali útispjóta til þess að ná sér í aðrar tekjur.

Ég vil svo að endingu mælast til þess, að till. verði vísað til allshn.