01.03.1978
Efri deild: 67. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2693 í B-deild Alþingistíðinda. (1968)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Flm. (Stefán Jónsson) :

Herra forseti. Greinar þessa frv., sem við flytjum hér saman þm. úr öllum flokkum í Ed., ásamt mér þeir hv. þm. Oddur Ólafsson, Jón Árm. Héðinsson og Steingrímur Hermannsson, skýra sig raunverulega í öllum meginatriðum sjálfar. Ég ætla að hlaupa hér aðeins yfir grg. í upphafi máls míns.

„Að dómi flm. er æskilegt, að sett verði sérstök löggjöf um starfsemi stjórnmálaflokka á landi hér, þar sem m. a. verði kveðið á um skyldur þeirra til opinberra reikningsskila, og verði þar að sjálfsögðu reistar skorður við því, að erlendir aðilar geti náð á þeim fjárhagslegum tökum. Sérstök þn., skipuð fulltrúum allra flokka, vinnur nú að undirbúningi þess máls, sem er allmikið og vandasamt verk.

Orsök þess, að flm. flytja nú þetta sérstaka frv. sem varðar einn þátt málsins, er hins vegar sú, að upp komst nú í vetur og liggur fyrir játning eins stjórnmálaflokks, Alþfl., að hann hafi leitað fjárframlaga erlendis frá og fái nú þaðan peninga til þess að kosta útgáfu hlaðs síns og standa straum af annarri stjórnmálastarfsemi á landi hér. Skiptir hér ekki máli að dómi flm. þótt gjafafé þetta sé sótt til Norðurlanda. Þarf ekki að rökstyðja það álit í grg. því alls ekki verður við það unað, að neinir erlendir aðilar fái að gera út stjórnmálaflokka á Íslandi.“

Herra forseti. Ég ætla, að það sé nú heppilegast að sleppa því í tengslum við þetta frv. að rifja upp hnútukast liðinna áratuga, þar sem formælendur stjórnmálaflokka hafa borið hver annan mismunandi vel rökstuddum sökum varðandi fjáraflaleiðir til pólitískrar starfsemi sinnar á landi hér. Sætir raunar furðu að það skuli ekki hafa gerst fyrr en nú, að stjórnmálaflokkarnir komi sér saman um að losa sig við þennan iðraböggul sinn með því að setja löggjöf um starfsemi stjórnmálaflokkanna, þar sem kveðið verði á um opin reikningsskil og fleiri þau atriði sem að bestu manna yfirsýn þarf að setja reglur um til þess að starfsemi stjórnmálaflokka geti talist heppileg og eðlileg.

Viðfangsefni okkar verður að ræða frv. þetta, sem borið er fram, svo sem í grg. segir, í tilefni af því, að ljóst varð nú í haust að hin nýja forusta Alþfl., sem nú er að byggja sig upp, eins og formaður flokksins, hv. þm. Benedikt Gröndal, orðar það, hafði leitað til erlendra aðila um fjárstyrk til þess að halda úti blaði sínu og til annarrar flokksstarfsemi hér á landi. Fyrir liggur ítrekuð játning formannsins varðandi þetta atriði svo og ritstjóra Alþýðublaðsins, Árna Gunnarssonar, sem sendur var utan gagngert til þess að ganga frá samningum um fjárgjafir þessar, hvernig svo sem þeir samningar kunna annars að hljóða. Hér er um einsdæmi að ræða í íslenskri stjórnmálasögu. Forsvarsmenn Alþfl. hafa drepið á það eða gefið það í skyn, að einsdæmið felist raunar í því, að íslenskur stjórnmálaflokkur skuli játa það opinskátt að hann þiggi fé erlendis frá til starfsemi sinnar. Því hljóði einsdæmið, skilst manni á málflutningi þessara aðila, raunverulega aðeins upp á heiðarleika þessa tiltekna flokks. Benedikt Gröndal, hv. þm., formaður Alþfl., sagði raunar í viðtali við Morgunblaðið nú fyrir skemmstu, að frv. okkar, sem hér er um að ræða, væri ekki borið fram af siðferðilegri hneykslun, heldur aðeins til að koma pólitísku höggi á Alþfl. Skýringar Alþfl.-forustunnar hafa verið á þá lund, að skilja má, að þeir telji að það eitt út af fyrir sig að játa á sig óhæfilegan verknað sé heiðarleiki í þessu tilfetli og að þeir, sem ekki játa á sig óhæfilegan verknað, séu þar af leiðandi óheiðarlegir. En sleppum því.

Við flytjum ekki þetta frv. til þess að koma pólitísku höggi á Alþfl., raunar ekki heldur af siðferðilegri hneykslun. Ef ég mætti svo að orði kveða, herra forseti, þá tel ég álíka fáránlegt að ræða við þá aðila, sem hér er við að fást, hina nýju forustu Alþfl., um eitthvað sem kallast gæti siðferði, pólitískt siðferði, — ég tel það álíka fáránlegt og ætla sér að kenna seppa borðsiði. Hið sanna í málinu er, að eindæmið í þessu máli er aðeins þetta, að íslenskur stjórnmálaflokkur skuli berlega sækja fé til útlendinga til að tryggja áhrif sín á stjórn íslenskra mála. Síðar vík ég aftur að hættunni sem í slíku felst fyrir sjálfsforræði Íslendinga í hörðum heimi, en vil aðeins nú í upphafi vekja athygli á því, að það var ekki fyrr en einn af flm. þessa frv., Alþfl.-maðurinn Jón Árm. Héðinsson, hafði knúið allfast á dyr flokksins með skírskotun til hins nýja yfirlýsta heiðarleika og krafist upplýsinga um fjármál flokksins, að hin opinskáa játning var gerð. Þetta gerðist rétt í þann mund sem hv. þm. reyndi á sjálfum sér afleiðingarnar af hinum nýja pólitíska heiðarleika þessa flokks við val á frambjóðendum. Raunar vil ég taka það fram strax í upphafi ræðu minnar, að ég tel það óheppilegt að ekki skuli eiga sæti hér í d. neinn af fulltrúum hinnar nýju og nýheiðarlegu forustu Alþfl., því að það mun mála sannast, að hér í d. situr enginn af þm. Alþfl. sem sök á á þessu peningasóknarmáli.

Upplýsingar liggja ekki fyrir um umfang hinnar erlendu gjafar. Þó hafa aðilar, sem gerst ættu að vita, nefnt 7–10 millj. kr. framlag til Alþýðublaðsins í mynd pappírsgjafa og a. m. k. 1 millj. kr. til þess að kosta að hluta til einn af starfsmönnum Alþfl. að auki, og eru þessar upphæðir að sjálfsögðu frá því fyrir síðustu gengisfellingu. Í grg. kveðum við flm. frv. á um þá skoðun okkar, að óhæfa sé að erlendum aðila haldist það uppi að gera út stjórnmálaflokk á landi hér, og skiptir þá ekki máli þótt Norðurlandabúar séu. Ég ætla að ekki þurfi mjög ítarlegan rökstuðning með þessu áliti okkar. Ætti raunar að nægja að vísa til þess, að íslenskum þegnrétti hlýtur að fylgja sú kvöð að taka ekki á hendur neins konar skuldbindingar við útlenda aðila, einstaklinga eða hagsmunasamtök, sem gætu haft áhrif á afstöðu Íslendingsins í hugsanlegum deilum eða átökum sem varða hagsmuni landsins, þar eð slíkar skuldbindingar hljóta að skerða rétt hans til aðildar að stjórnmálum á landi hér, þó ekki sé í annarri mynd en þeirri að gera hann e. t. v. tortryggilegan í augum síns fólks. Óþarft ætti að vera að taka það fram, en skal þó gert með sérstöku tilliti til hins nýja heiðarleika, að hér á ég hreint ekki við það, að persónulegur kunningsskapur Íslendinga við útlendinga hljóti ávallt að vera af slíkum toga spunninn, að ástæða sé til tortryggni, né heldur vinátta sprottin af náttúrlegum hvötum með tilfallandi jóla- og nýárskortum. Samt skulum við einnig í því sambandi minnast hins fornkveðna, að æ sér gjöf til gjalda. Enn þá fremur ber þó að sýna aðgát í skuldbindingum af slíku tagi og gæta enn ítarlegri kurteisi í vinfenginu, þegar um er að ræða samskipti íslenskra stjórnmálaflokka við samsvarandi samtök erlendis. Hér er nefnilega um að ræða skipulögð félagssamtök, sem njóta lögverndaðs réttar til að hafa áhrif á æðstu stjórn þjóðarinnar og ráðskast með gögn hennar og gæði. Samtök hinna erlendu stjórnmálamanna kynnu nefnilega að sjá sér hag í því og sínu fólki að beita fjármagni, borga peninga, gefa gjafir í því skyni að hafa áhrif á stjórn íslensku þjóðarinnar í hugsanlegri eftirsókn hinna erlendu aðila eftir gögnum hennar og gæðum. Dæmi um slík tilfelli fjær og nær þarf ég tæpast að rekja fyrir hv. þm. Ed.

Svo sem víkið er að í grg. með frv. er nú svo komið að dómi flm., að kveða verður á um starfsemi íslenskra stjórnmálaflokka með lögum og skylda flokkana til þess að gera opinber reikningsskil þannig að almenningur geti ávallt gengið úr skugga um það, að fjárreiður flokkanna séu lýtalausar að bestu manna yfirsýn, svo að fulltrúar þeir, sem flokkarnir bjóða fram til æðstu trúnaðarstarfa, verði ekki tortryggðir af þeim sökum. Nú fjallar, eins og í grg. segir, sérstök þn. skipuð fulltrúum allra flokka um slíkt frv., en tæpast við því að búast að það mál hljóti endanlega afgreiðslu á þessu þingi, þar sem býsna umfangsmikið lagafrv. hlýtur að koma úr því starfi. Nú veit ég ekki með vissu, hvort komið hefur til álita í nefndinni að kveða sérstaklega á um það í lagafrv., með hvaða hætti stjórnmálaflokkarnir megi afla fjár til starfsemi sinnar, eða hvort einungis verður kveðið á um það, með hvaða hætti þeir megi ekki gera það. Hið síðara er þó líklegra, því undantekningaratriðin hljóta í þessu máli sem ýmsum öðrum að vera færri. Í meginatriðum má telja eðlilegt, að lagasmiðirnir leggi það að verulegu leyti í vald flokkanna, hversu mjög þeir vilja ástunda góða siði í fjáröflun sinni og leggja síðan undir dóm alþjóðar í opnu reikningshaldi hversu til tekst. Þó er nú svo komið að gefnu fyrrnefndu tilefni, að hjá því verður ekki sneitt að kveða ljósum orðum á um það, að ekki megi flokkarnir taka við fégjöfum frá erlendum stjórnmálaflokkum eða erlendum aðilum yfirleitt.

Það mun fátítt í löggjöf, sem byggð er upp af boðum og bönnum, að þar séu upp talin einsdæmin öll, sem hugsanleg eru. Þó gerist það endrum og eins, að hinum fáheyrðu atburðum fjölgar, einsdæmin gerast sem sagt fleiri, og þá verður þörf að kveða á um það í lögum, að bannað skuli atferli, sem fáa hefði fyrir skemmstu órað fyrir að nokkur þegn játaði á sig kinnroðalaust og standandi á afturfótum. Segja má að svo sé komið þegar forustumenn í íslenskum stjórnmálaflokki játa á sig peningasókn til útlendra aðila og telja slíkt vott um heiðarleika flokksins.

Í tengslum við slíkan hugsanaferil vil ég minna á þáltill., sem allir hv. þm. Alþfl. fluttu í Sþ. fyrir jólin í fyrra og var 9. mál 98. löggjafarþings og hljóðaði upp á samningu afdráttarlausra lagaákvæða er banni opinberum starfsmönnum að veita viðtöku umtalsverðum gjöfum. Hér var um að ræða athyglisvert mál, vel rökstutt í grg. og þó enn þá fremur í framsöguræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Lögð er áhersla á hættuna sem felst í því, að einstaklingar, sem falin hefur verið mikilsverður trúnaður, hvort heldur þeir hafa verið skipaðir í starf eða kjörnir, eins og t. d. alþm., tækju við gjöfum eða þægju óeðlileg boð utanaðkomandi aðila, sem undir þá geta þurft að sækja, og er aðvörunin öll sótt að tóninum til í hina fornu speki, að æ sér gjöf til gjalda.

Frsm. þessarar þáltill., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, lagði síðan út af efnisatriðum till. og grg. í ítarlegri og snjallri ræðu, sem getur að lesa í 12. hefti Alþingistíðinda frá í fyrra, og þar getur einnig að finna aths. annarra þm. við till., sem eigi varð þá útrædd. Er þar skemmst af að segja, að þar kom fram að frsm. sjálfur hafði þá fyrir skemmstu þegið NATO-boð til Bandaríkjanna og annar af flm., hv. þm. Benedikt Gröndal, hafði einnig þá fyrir skemmstu skipulagt hina ódýrustu Ameríkuferð alþm. á vegum helsta útflutningsfyrirtækis þjóðarinnar. En þar var náttúrlega um að ræða miðlungi vingjarnlega gagnrýni, svo sem tíðkast innan veggja þessa hlýlega húss. Hitt mun hafa ráðið meiru um fremur viðbragðsdaufar undirtektir fárra alþm., að ýmsir hv. þm., þ. á m. hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir og Jónas Árnason, færðu að því rök að ekki ætti að vera ástæða til þess að kveða sérstaklega á um það, að opinberum starfsmönnum, skipuðum eða kjörnum, væri bannað að þiggja mútur, — ekki væri ástæða til þess að kveða sérstaklega á um það. Og Ellert B. Schram, hv. þm., sló síðan botn í þetta álit þm. með því að lesa upp úr hegningarlögunum frá 1940, þar sem kveðið er ljósum orðum á um bann við því að þiggja mútur. Klykkti hann síðan út með því að taka undir þau orð fyrrgreindra alþm., að ekki væri þörf á því vegna skorts á lagaákvæðum að setja ítarleg lög er bönnuðu opinberum starfsmönnum, þ. á m. alþm., slíkan verknað. Eigi að síður hygg ég, að a. m. k. af sumum flm. hafi mál þetta verið fram fært af einlægni og af að þeirra dómi sýnilegri þörf á sérstakri lagasetningu í þessa átt. Af öðrum hv. flm. þessarar þáltill. kann þetta aftur á móti að hafa verið flutt, þó ég vilji ekki fullyrða það, sem aðeins einn liðurinn í hinni skipulögðu nýju siðferðilegu uppbyggingu Alþfl.

Hræddur er ég um það, að svo mjög sem einstaklingum er nú hætt, eins og gerð er ítarleg grein fyrir í framsöguræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, er þeir taka við umtalsverðum gjöfum að bindast þá í skuld við gefandann og verða honum háður, þá muni þeim stjórnmálaflokki enn þá fremur hætt, sem við slíkum gjöfum tekur, og þá fyrst sé hann í stórhættu ef gjafirnar koma frá erlendum aðilum. Við látum hinni sérstöku þn. allra stjórnmálaflokka það eftir að skilgreina það, hvernig og hvers vegna íslensku stjórnmálaflokkarnir eiga að starfa af eigin rammleik, hví þessum samtökum skal ætlaður sá styrkur einn, fjárhagslegur og pólitískur, sem felst í fórnfúsum framlögum Íslendinga sjálfra, hvort heldur er í starfi, peningum eða atkvæðum. En hitt teljum við flm. að gefnu fyrrgreindu tilefni að alls ekki megi nú dragast, að setja það í lög nú þegar, að íslenskir stjórnmálaflokkar megi ekki taka við fé af útlendingum til starfsemi sinnar. Og þrátt fyrir það að forusta Alþfl. hafi með framferði sínu gefið tilefni til þessa sérstaka málflutnings, þá andmæli ég þeirri fullyrðingu hv. þm. Benedikts Gröndals, að hér sé um það að ræða, að við flm. viljum með þessu koma sérstöku höggi á Alþfl. Við viljum aðeins koma í veg fyrir það, að sá flokkur og einnig aðrir stjórnmálaflokkar, sem að vísu hafa ekki gefið sérstakt tilefni til málflutnings af þessu tagi, gerist sekir um þá ósvinnu að taka við fjármunum til starfsemi sinnar erlendis frá.

Við flm. látum uppi það álit okkar í grg., að óþarft sé að tíunda það nákvæmlega, hvers konar hætta sé fólgin í því, að íslenskir stjórnmálaflokkar taki við gjöfum, hvort heldur í gjaldi eða fríðu, frá erlendum aðilum, og teljum, að einu gildi þótt tekið sé við slíku úr hendi Norðurlandabúa. Eru þess mörg dæmi og hægt að rekja sum þeirra óralangt aftur í söguna, en skemmra að rekja önnur, að hagsmunir okkar Íslendinga og valdhafa annarra Norðurlandaþjóða hafa rekist á og það í málum sem varðað hafa líf þjóðarinnar og frelsi. Svo að tekið sé nærtækt dæmi úr sögunni, þá er það vafalaust að Norðmenn, Danir og Svíar reyndust okkur minni vinir í baráttu okkar um landhelgina en ýmsir höfðu vænst og gengu raunar í yfirlýsingum sínum þvert gegn okkur á þýðingarmiklum vettvangi þegar mikið var í húfi. Forustumenn verkamannaflokkanna þar voru okkur engu þarfari en annarra flokka forustumenn í því máli og þó raunar þeim mun verri sem þeir voru valdameiri í löndum sínum á þeim tíma.

Ljóst er einnig, að tengsl þessara flokka við sósíaldemókrata í Þýskalandi, sem mestir eru nú áhugamenn um viðgang Efnahagsbandalagsins, eru slík, að einnig þaðan er okkur hætta búin í gegnum fyrrnefnd stjórnmálasamtök á Norðurlöndum. Hefur reyndar komið í ljós, að verkamannaflokkarnir á Norðurlöndum hafa miðlað fé þaðan beinlínis í því skyni að dylja uppruna þess. Má þar til nefna nýlegt hneyksli, er verkamannaflokkur Svíþjóðar smyglaði peningum til flokks finnskra jafnaðarmanna, sem þótti svívirðilegur verknaður, jafnt í Finnlandi sem Svíþjóð, er upp komst. Varð þá ljóst, að hluti af þessu fé var kominn frá sósíaldemókrötum í Þýskalandi. Og uppi hafa verið tilgátur um það í Svíþjóð og allvel rökstuddar, að ameríska leyniþjónustan hafi notað sambönd sín við sósíaldemókrataflokkana á Norðurlöndum til þess að koma hagsmunafé sínu á framfæri.

Ég sagði í upphafi máls míns, að heppilegt væri að við forðuðumst í sambandi við þetta mál að vekja upp gömul hnútuköst milli stjórnmálaflokka á Íslandi varðandi það, hvernig stjórnmálaflokkarnir fengju fé til starfsemi sinnar. Þá finnst mér að ég geti ekki komist hjá því aðeins í lokin á þessari framsöguræðu minni að rifja upp atvik, af því að bar er enn um að ræða — og þó fyrsta dæmið um erlenda peninga sem sóttir hafa verið til útgáfu á Alþýðublaðinu, að frá því segir Hendrik heitinn Ottósson í æviminningum sínum, frá Hlíðarhúsum til Bjarmalands, hvernig hann sótti forðum daga til Stokkhólms, til sænskra sósíaldemókrata, rússneskar rúblur að flytja upp til Íslands til þess að greiða með prentvélar Alþýðublaðsins, sem var í þann tíð er Ólafur Friðriksson var ritstjóri þess. En það er nú gömul saga.

M. a. af þessum sökum, sem ég rakti áðan, þar sem ég tilnefndi þá andstöðu sem við áttum að mæta í landhelgismálinu af hálfu frænda okkar á Norðurlöndum, og svo dæmi því, er ég tiltók um fjármiðlun í gegnum skandinavísku sósíaldemókrataflokkana frá Þýskalandi og víðar að til stjórnmálastarfsemi á Norðurlöndum, — m. a. af þessum sökum, næst á eftir sárum og illa grónum dæmum úr sjálfri Íslandssögunni. tel ég það enga málsbót að fjársekt sem þessi komi frá grönnum okkar á Norðurlöndum.

Eins og fyrr segir er senn að vænta, að ég ætla, vel undirbúins frv. að heildarlöggjöf um starfsemi íslensku stjórnmálaflokkanna, þótt því miður sé þess tæpast að vænta, að það komi fram nógu snemma til þess að afgreitt verði á þessu þingi. Væri þá rétt, er það frv. kæmi fram, að ákvæði þessa frv., ef að lögum yrði orðið, féllu inn í þá löggjöf. Að vísu er mér ekki ljóst hvort nm., er þá löggjöf undirbúa, hafa hugsað sér ljós ákvæði um það, að íslenskum stjórnmálaflokkum skuli bannað að taka við fégjöfum erlendis frá, eða hvort þeir hyggjast ganga að því sem vísu, að ekki þurfi að kveða á um bann gegn slíkri ósvinnu. Þó þykir mér, eins og nú er komið, sennilegast að þeim muni virðast slíkra ákvæða þörf.

Frv. flytjum við sem sagt vegna þess, að bráðnauðsynlegt er að hv. Alþ. gripi nú strax í taumana að gefnu tilefni og setji í lög þess háttar ákvæði sem duga megi til þess að koma í veg fyrir að erlend öfl geti með afli peninga náð tangarhaldi á íslenskum stjórnmálaflokkum og beitt þeim, ef svo ber undir, gegn hagsmunum lands og þjáðar.

Vil ég svo að lokum mælast til þess, að frv. verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.