01.03.1978
Efri deild: 67. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2698 í B-deild Alþingistíðinda. (1969)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Að sjálfsögðu er óþarft að ég sem einn af flm. þessa frv. lýsi stuðningi mínum við það, en ég vildi þó standa upp og lýsa því, að ég er sammála flestu sem hv. frsm. sagði. Ég tel það ákaflega mikilvægt mál, að í veg fyrir það sé komið, að erlent fjármagn í einni mynd eða annarri nái tökum á íslenskum stjórnmálaflokkum og satt að segja er það áreiðanlega mörgum landsmönnum ráðgáta, hvernig sumir stjórnmálaflokkar starfa hér með t. d. gífurlegan halla ár eftir ár í blaðaútgáfu. Hvernig er hann brúaður? Slíkt sýnast mér hlutir sem þarf að upplýsa. Mér sýnist að kjósendur og alþjóð eigi heimtingu á því.

Hitt vildi ég þó sérstaklega leggja áherslu á, að þetta er ákaflega vandasamt mál, því að styrkja má íslenska stjórnmálastarfsemi á ýmsan máta með erlendu fé óbeint, og ég er ekki nógu klókur á þeim refilstigum til þess að geta sagt hvernig það er gert. Hins vegar sýnist mér að stjórnmálaflokkar stofni t. d. gjarnan hlutafélög og þau fái fjármagn eftir einhverjum leiðum. Um það hefur verið deilt í blöðum, hvort slíkt fjármagn er innlent eða erlent, hvar það er fengið eða með hvaða heilindum það er fengið. Slík hlutafélög geta síðan aftur veitt ákveðnum stjórnmálaflokkum ýmis, konar stuðning. Þetta sýnist mér allt vera mál sem þarf nauðsynlega að upplýsa og setja um það ákveðnar reglur.

Þótt ég sé sammála því, að stjórnmálaflokkar og félög, sem þeir eiga, eigi að vera bókhaldsskyld, er að sjálfsögðu nokkur munur þar á, hvort eltast á við lítil framlög fjölmargra einstaklinga, sem e. t. v. margir hverjir gefa til stjórnmálafélaga ekki undir nafni, heldur ónafngreint. Mér sýnist það vera heilbrigt, ef einstakir kjósendur vilja þannig styðja þá flokka sem þeir aðhyllast. Flokkar fá þá stuðning frá sínum félagsmönnum. Hitt er aðalatriðið hvort stórlega mikið fjármagn rennur inn í íslenska stjórnmálastarfsemi eflir óæskilegum leiðum.

Ég vil einnig taka það fram, að ég hef ekkert við það að athuga, þó að forustumenn stjórnmálaflokka kynni sér starfsemi íslenskra fyrirtækja, t. d. erlendis, enda sé það þá opinbert, og fari ekkert leynt með þótt þeir þiggi einhverjar slíkar ferðir eða ferðir á alþjóðlega fundi stjórnmálasamtaka sem þeir aðhyllast. Það held ég að séu ekki atriði sem vert er að eltast við.

Hitt er aðalatriðið, hvort og hvernig meiri háttar fjármagn kemst inn í íslenskt stjórnmálalíf. Tek ég undir það sem hv. frsm. sagði um það, að slíkt er mjög varhugavert. Það getur náð þeim tökum á íslenskum stjórnmálaflokkum, að erfitt verði að komast úr þeim. En sem sagt, þarna eru ýmsir refilstigir, sem kannske er erfitt að rata, en þarf þó að kanna, og mér sýnist alls ekki liggja ljóst fyrir á hvern máta það verður gert.