01.03.1978
Neðri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2715 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

203. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir) :

Hæstv. forseti. Við flytjum hér þrír þm. á þskj. 399 frv. til l. um breyt. á lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun. Lagt er til að breyta 11. gr. í fuglaveiða- og fuglafriðunarlögunum og hljóðar viðbótin þannig:

„Ef eðlilegum nytjum af æðarvarpi er ógnað af ágangi arnar, er rn. skylt, sé þess óskað af hlutaðeigandi varpbónda, að senda svo fljótt sem unnt er sérfræðing á staðinn, er fylgist með og geri till. um, hvernig megi koma í veg fyrir eða bæta tjón af völdum arnarins. Rn. er þá heimilt að gripa til tafarlausra aðgerða til varnar viðkomandi æðarvarpi, þrátt fyrir ákvæði 1. gr. 27. gr., án þess þó að erni verði eytt“.

Þetta mál er í senn viðkvæmt mál og mikið vandamál. Hér eiga í hlut tveir miklir heiðursfuglar, sjálfur konungur fuglanna annars vegar, örninn, og ljúflingsfuglinn æðarfugl, sem er friðaður líka, nýtur þó ekki jafntryggilegrar verndar og örninn. Ég neita því ekki að það hvarflaði að mér, er ég fyrir óskir varpbænda í Breiðafjarðareyjum tók þetta mál upp, það hvarflaði að mér að orða brtt. þannig, að í neyðartilvikum, þegar nytjum æðarvarps er alvarlega ógnað, skyldi örninn hreinlega víkja fyrir æðarfuglinum. Ég komst bráðlega að raun um að útilokað var að slíkt fengist í gegn, þannig að þessi grein, eins og hún er orðuð, er vissulega eins væg og hugsast getur miðað við það vandamál sem örninn óneitanlega skapar víða í varplöndum.

Það er tekið fram í grg. okkar, að undanfarin ár hafi örninn gerst æ aðgangsríkari í Breiðafjarðareyjum og meira að segja tekið sér bólfestu, orpið í einni af þremur byggðum eyjum á Breiðafirði, Skáleyjum, eða úteyjum Skáleyja. Því er einnig lýst hér, hvern usla örninn gerir í varplandi. Þeir, sem þekkja til í æðarvarpi, hafa oft horft á það með nokkurri undrun, hvernig æðarfuglinn sópast af hreiðrunum á stóru landssvæði, þó að örninn geri ekki annað en að sveima yfir í allmikilli hæð. Það gripur um sig ólýsanleg skelfing og fár í æðarvarpinu, fuglinn sópast til sjávar af hreiðrum sínum og margar kollurnar eiga ekki afturkvæmt á sín hreiður. Þær yfirgefa, sem kallað er, og kannske áður en dúnn er kominn í hreiður. Eru þá nytjar af því hreiðrinu auðvitað útilokaðar á því ári.

Það er gefið mál, að æðarvarp er búgrein sem leggja ætti meiri rækt við en gert er nú. Það er hryggileg staðreynd, að æðarvarpi hefur farið hnignandi á síðari árum. Kemur þar sennilega ýmislegt til, ástæður sem ljósar eru og aðrar síður ljósar. Þess vegna vildi ég nú, er ég mæli fyrir þessu máli, láta í ljós ánægju mína yfir öðru þingmáli sem í fjallar um könnun á lifnaðarháttum æðarfugls. Ég tel það fyllilega tímabært og réttlætanlegt. Það þurfa að koma til þarna meiri rannsóknir á þáttum æðarfuglsins og með hvaða hætti við getum örvað þessa búgrein, sem hingað til hefur verið, a. m. k. á þessari öld, á heldur hallandi fæti. Einhvers staðar las ég í dagblöðum nýskeð, að í ár mundi verða hægt að selja hvert dúnkíló á 50 þús. kr., þannig að það segir sig sjálft, að hér eru ekki lítil verðmæti í húfi. Og því er það, að enda þótt við öll viljum þyrma erninum, konungi fuglanna, þá er það dálítið hroðaleg staðreynd, hvernig honum hefur haldist uppi undanfarin ár í þessum aðalvarpeyjum okkar lands, á Breiðafirði, að valda þar óbætilega miklum usla í varplandinu.

E. t. v. má segja, að þessi grein til breytingar á lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun hrökkvi ekki nógu langt til þess að vernda æðarvarpið gegn erninum. Ég hygg þó að hún geti orðið til aukins öryggis fyrir varpbændur, að þeir geti, þegar sýnt er að æðarvarpið er í stórhættu vegna ágangs af erni, krafist þess af rn. að fulltrúi þess, helst sérfræðingur, komi á staðinn, fylgist með og geri till. í samráði við heimamenn um til hvaða ráða sé hægt að grípa til þess að verjast erninum, og kannske ekki síður hitt, að hann geti verið umsagnaraðili um hvaða bætur viðkomandi bónda beri að fá, ef sannanlegt tjón verður af völdum arnarins. Það er bent á það í grg., að það hafi komið fyrir að varpbændur hafi orðið að leita til dómstóla til þess að fá bætur fyrir tilfinnanlegt tjón af þessum völdum. Mér er persónulega kunnugt um að eitt slíkt mál fór til Hæstaréttar og bóndinn fékk þar loksins 1/4 þeirrar upphæðar sem farið var fram á. Væri þarna maður til staðar til þess að fylgjast með, þá ætti slíkt ekki eða alla vega síður að þurfa að koma fyrir. Ég tel líka að nærvera sérfræðings á staðnum gæti e. t. v. opnað augu fuglaverndunarmanna og sérfræðinga fyrir því að veita í vissum neyðartilvikum undanþágu frá alfriðunarákvæðum arnarins eins og þau eru í gildandi lögum, en til þess þyrfti að sjálfsögðu lagabreytingu á Alþingi.

Ég held að ég þurfi ekki að skýra þetta nánar. Eins og ég sagði áðan, þá er hér fínt farið í sakirnar, eins vægilega og hugsanlegt var, af virðingu fyrir erninum sem fuglafræðingar telja að sé enn í hættu. Ekki eru þó allir sammála um þetta. Aðrir vilja meina að arnarhjónin á landinu séu snöggtum fleiri en 10–11, sem sérfræðingar vilja halda fram. En allt um það, þá er ég sannarlega í hópi þeirra sem vilja fara með allri gát og varúð gagnvart erninum. En ég vil líka benda á rétt og halda fram réttri varpbænda, sem ár eftir ár verða fyrir þungum búsifjum af þessum konungi fuglanna, erninum.

Ég vona því, að úr því að við flm. þrír, Jóhannes Árnason og Gunnlaugur Finnsson auk mín, förum ekki fram á meira en raun ber vitni, þá verði þetta frv. til breyt. á umræddum lögum afgreitt vel og greiðlega.