07.03.1978
Sameinað þing: 52. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2776 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

340. mál, veðdeild Búnaðarbankans

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svör hans. Ég legg þunga áherslu á það, að sem fyrst verði fyrir því séð, hvernig um framgang þessa frv. fer, og hæstv. ráðh. lofar að það verði nú alveg á næstunni. Ég geri mér alveg ljóst, eins og fram kom í máli mínu áðan, að það, sem skiptir höfuðmáli, er frv. um stofnlánadeildina og það sem við gerðum ráð fyrir varðandi jarðakaupalánin, að þau færist þar yfir. Það er auðvitað meginatriðið, að það frv. nái fram að ganga, því þar með er sá aðallánaflokkur sem veðdeildin hefur haft með að gera, kominn yfir í stofnlánadeildina, eins og nefndin lagði til. Það er þess vegna auðvitað aðaláhugamál okkar í nefndinni, að það frv. nái fram að ganga. Við höfum lagt á það megináherslu. Það sama er að segja um stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins, sem hefur gert um þetta mjög ákveðna samþykkt, og hið sama hygg ég að sé að segja um Búnaðarþing, sem einnig hefur lagt á það áherslu, að einmitt það frv. — frv. um stofnlánadeildina og nýskipan bæði lánamála þar og eins fjármögnunar deildarinnar — næði sem fyrst fram að ganga.

Á það má benda, að reikna má með því, að Stofnlánadeild landbúnaðarins verði núna í vikunni að taka ákvörðun um vaxta- og verðtryggingarkjör á lánum til bænda. Því er það mjög bagalegt, að ekki skuli sjá fyrir endann á framlagningu þessa frv. enn, hvort það nær fram að ganga innan ríkisstj. eða ekki, því þó að það komi stofnlánadeildinni ekki til fulls að notum á þessu ári, þá vísar það engu að síður mjög veginn um það, hvað koma skal, og stjórn stofnlánadeildarinnar gæti þá tekið tillit til þess við ákvörðun núna í vikunni á vöxtum og verðtryggingu lánanna. Það er ljóst, úr því að frv. hefur ekki náð fram að ganga og ég tala nú ekki um ef það nær ekki fram að ganga á þessu ári að hér verður um mjög verulega hækkun að ræða á hvoru tveggja, vöxtum og þó alveg sérstaklega á verðtryggingu lána í landbúnaði yfirleitt.