07.03.1978
Sameinað þing: 52. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2782 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

190. mál, vegur í Mánárskriðum

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur K. Jónsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. þetta svar, þó að það sé að vísu veigalítið. Það eru allmörg ár síðan Alþ. samþ. þáltill. um að athuga vegarstæði í Mánárskriðum nær sjó en nú er, en lítið hefur orðið úr framkvæmdum, og er þar auðvitað um að kenna fjárskorti og eins hinu, að menn hafa ekki búist við að unnt yrði að útvega fé til þess að hefja framkvæmdir, jafnvel þó að áætlunargerðir hefðu nú farið fram, þegar mikill skortur hefur verið á vegafé.

En ég fagna því sem sagt, að nú er að þessu unnið og gert ráð fyrir að þessari athugun ljúki á næsta sumri, þannig að við vitum þá eða þeir, sem hér verða á næsta hausti, hvernig mál muni standa þegar vegáætlun og vegamál ber á góma. En allir vita það og heyra í fréttum oftsinnis, að Mánárskriður ern mikill tálmi á Siglufjarðarveginum. Og oft er það svo, að sú mikla og glæsilega framkvæmd sem Strákagöng eru nýtist ekki vegna þess að þetta haft er á veginum og hann því ófær þar á litlum kafla, þótt greiðfært sé annars staðar. Þess vegna er brýn þörf á þessari framkvæmd og a. m. k. alveg nauðsynlegt að ljúka nú þessari athugun og gera kostnaðaráætlun, svo að menn viti hvað þeir eru um að tala, þegar þeir berjast fyrir þessum vegarbótum.