07.03.1978
Sameinað þing: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2803 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

171. mál, íslenskukennsla í fjölmiðlum

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég er einn af flm. þessarar till. og tek undir það, sem hv. 1. flm. hennar sagði hér áðan um nauðsyn þess að eitthvað sé gert til þess að bæta um meðferð móðurmálsins í fjölmiðlum og annars staðar.

Þegar rætt er um þessi mál verður mönnum helst að umræðuefni fátæklegur orðaforði ungs fólks og ýmsar ambögur, rangar beygingar o. s. frv. Og það er rétt, að sennilega hrakar móðurmálskunnáttu Íslendinga og leikni í tungutaki æðimikið nú þessi árin. Þó verð ég að segja, að aðfinnslur, sem maður les í blöðum, lýsa oft stærilæti æðimiklu og meira að segja kemur höfundurinn iðulega upp um sig, hann er kannske ekki þess umkominn að vanda mjög um. Það er svo oft á tíðum, því miður, að þeir, sem mest vanda um á þessu sviði, eru sjálfir skussar í meðferð móðurmálsins. Tek ég þó skýrt fram, að þetta á síður en svo við þann mann, sem er 1. flm. þessarar till. En mér hefur fundist skynsamlegt og byggi það á alllangri reynslu, mér hefur virst skynsamlegt að tala varlega í þessum efnum. Maður veit aldrei hvenær sannast á mann sjálfan einhver sök.

Það, sem ég á við, er að á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum eru það oft á tíðum þeir, sem hvað minnst vita, sem mest tala og af mestu stærilæti og af mestu sjálfsáliti. Þetta á við um svonefnda menningarumræðu yfirleitt. Ég bið hv. þm. að taka eftir því, að ég nota þetta orð í eintölu. Það er ein tískan núna, að ekki má tala um „umræður“ í fleirtölu. Þeir spekingar sem koma fram í fjölmiðlum til þess að ræða menningarmál, tala alltaf um þessa og þessa „umræðu“, sem eigi sér stað um þetta eða hitt. Þetta er leiðindatilgerð að mínum dómi, svona álíka leiðindatilgerð eins og hitt, sem menn hafa nú tekið hver eftir öðrum að hætta að nota ákveðinn greini með íslensku þjóðinni, tala um „íslenska þjóð“ greinislaust. Ég man, að Þórbergur vinur minn Þórðarson lét einu sinni orð falla um þetta í þá átt, að það væri dæmigert fyrir skussana að fara að finna upp á einhverju svonalöguðu, sleppa greininum þarna, „íslensk þjóð“ í staðinn fyrir „íslenska þjóðin.“

Ég get ekki stillt mig um að skjóta hér aðeins á 1. flm. till. Í ræðu hans áðan kom fyrir orð, sem er orðið að tískuorði, það er „áhugaverður“. Ég tók eftir því þegar þetta orð kom fyrst upp. Maður nokkur, bókmenntagagnrýnandi, var ráðinn í því að útrýma dönskuslettunni „interessant“ og hann kom með orðið „áhugaverður.“ Síðan japla menn þetta hver eftir öðrum, „áhugaverður“, lon og don. Og kemur fyrir ekki þó sjálft Nóbelsskáldið hafi bent á orð sem er miklu fallegra og betra, en það er „hnýsilegur“. Þetta eða hitt sé „hnýsilegt“. Ég legg til að við hv. þm. notum ekki orðið „áhugaverður“, en notum orðið „hnýsilegur“, sem klingir við eins og svo mörg góð orð úr hinum fornu bókum okkar.

Ég sagði hér áðan, að mönnum yrði tíðrætt um orðaforðann og ambögur ýmsar og líka flámæli, og þá hreykja sér ýmsir býsna hátt og oft þeir sem síst skyldu.

Ég held ég hafi nefnt það áðan, að þegar ég átti heima austur á landi og hafði setið á einhverju heimilinu og hlustað á frábæra íslensku af munni húsráðanda, móður eða föður, þá gerðist það æðioft að einhver krakkinn á heimilinu sem hafði verið vaninn af flámæli í skólanum, gerði aths. við málfar foreldranna af því að þeim hafði orðið á ofurlítið flámæli, og foreldrarnir fögnuðu. Börnunum leyfist sem sé að setja sig á háan hest, vegna þess að kennarinn hafði vanið þau af flámælinu — þó að þau kynnu í raun og veru lítið sem ekkert í íslensku samanborið við foreldrana. Annars vegar voru foreldrarnir, sem kunnu íslenskuna prýðilega, flámæltir foreldrar, hins vegar óflámælt börn, sem kunnu ekkert í íslensku.

Svipað þessu ruglast ýmislegt annað fyrir mönnum í þessu sambandi. Þegar til að mynda verið er að tala um skort á orðaforða, þá gleymist kannske annað, sem er fullt eins þýðingarmikið: Þannig er um ýmsa þá, sem fram koma í fjölmiðlum, og sérstaklega útvarpi, að þó að orðaforði þeirra sé sæmilegur og engar beygingar vitlausar, þá er framsögn þeirra og allur hreimur þannig, að það er ekki íslenska sem þeir tala. Ég bendi á svokallaða óskalagaþætti ungs fólks eða þáttinn sem ég hygg að heiti „Lög unga fólksins.“ Ég heyri ekki betur en sá maður. sá ungur maður, sem hefur löngum kynnt þessi lög hafi lært framsögn af sams konar þulum amerískum. Ég heyrði í eina tíð æðimikið af slíkum þáttum amerískum, þegar ég dvaldi þar vestra. Og stundum hefur svo slysalega tekist til, að opið hefur verið Kanaútvarpið svokallað, þar sem ég hef verið nærri. Ég hygg að fólk eins og t. d. þessi ungi maður, sem ég er hér að ræða um, hafi lært framburðinn þarna. Ef mál hans væri tekið á segulband og vélritað eins og þær ræður, sem við flytjum hér, þá gæfi að líta íslensk orð. En hann mælir þau fram með amerískum blæ. Þetta er afskaplega slæmt. Þeir sem sjá um þessa þætti verða fyrir bragðið óskýrir í máli. Enda skyldi sá, sem vill læra skýrleika í frásögn, allra síst fara í skóla til Ameríkumanna, því að þeir eru manna óskýrastir í framsögn. Það liggur í eðli tungu máls þeirra eða framburðar.

Það er eins og fyrri daginn þegar verið er að ræða þessi mál, að næsta fáir eru í salnum. Næsta fáir heyra boðskapinn. (Gripið fram í: Það er kjarninn.) Já, það má segja að það sé kjarninn, — það eru tiltölulega margir stjórnarandstæðingar hérna inni. Þeir eru þrisvar eða fjórum sinnum fleiri en stjórnarsinnar.

En ég stóð sem sagt upp til þess að vekja athygli á ýmsu sem stundum sést yfir varðandi þessi mál. Og að lokum mætti ég kannske leyfa mér að víkja að einu, sem nefnt er „stofnanaíslenska“. Það er ekki að ófyrirsynju að menn býsnast út af þessari stofnanaíslensku, sem nefnd er og einkennir opinber skjöl. Sannarlega mætti þar margt betur fara. En í málgagni míns flokks einu sinni í vetur var menntamaður einn að herja á okkur þm. — eins og fyrri daginn — fyrir það, að við töluðum svo mikið um z, og þar vorum við gerðir ábyrgir fyrir þessari stofnanaíslensku. Ég leyfi mér að mótmæla því hér úr þessum stól. Við alþm. erum ekki ábyrgir fyrir stofnanaíslenskunni. Hún hefur verið til hjá því fólki, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson var að ræða um áðan, hjá því fólki sem á undanförnum árum hefur seilst æ lengra í þá áttina að taka völdin af Alþingi.