07.03.1978
Sameinað þing: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2812 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

174. mál, kortabók Íslands

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hygg að það sé mála sannast, að dregist hafi furðulengi að gefin væri út Íslandskortabók í vandaðri útgáfu, aðgengileg fyrir almenning til kaupa. Herforingjaráskortin, sem gefin voru út á sínum tíma í bók í rándýrri útgáfu, voru góðra gjalda verð og mjög svo hárra gjalda verð á sínum tíma, en gátu aldrei orðið almenningseign. Um tíma var þessi kortabók eins konar stöðutákn. Nú mun það fátítt, að hún sjáist nema hjá opinberum stofnunum, og menn hafa af hyggindum víða tekið upp þann hátt að læsa þær niðri í skúffum, þannig að þessum bókum sé ekki flett, vernda þær sem safngripi og dýrgripi. Aftur á móti er ég þeirrar skoðunar, að við verðum að passa okkur við útgáfu hinnar nýju kortabókar, að hún verði þannig úr garði gerð, að hún verði varanleg, þetta verði varanlegt fræðslurit.

Eins og ástatt er á Íslandi tel ég óhyggilegt að leggja mjög mikið pláss og kostnað í stjórnmálakortin eða hin stjórnsýslulegu kort og hvað eina það sem lýtur að hinu breytilega eðli íslensks samfélags. Ég hefði talið æskilegt, að megináhersla yrði lögð á þá þætti kortabókarinnar, sem lytu að landinu sjálfu og náttúru þess og náttúrufari, sem helst tiltölulega óbreytt gegnum aldirnar. Hið sögulega kort hinna fyrri alda væri góðra gjalda vert, hinn sögulegi kafli. Ógjarnan vildi ég sjá fest í íslenskri kortabók til varanlegrar eignar mjög mikið af fróðleik varðandi hagfræði landsins eða hagsögu, sem er ekki þess eðlis, að mínu viti, að neinum núlifandi manni sé treystandi til þess að teikna upp af slíku ábyggilega mynd.

Í ræðu hv. frsm. komu fram ýmsar merkilegar „spekúlasjónir“ varðandi gerð þessarar bókar, sem ég tel hnýsilegar og líklegar til þess að vekja menn til hugsunar um það, hversu gera ætti bók þessa. Þó að ég fortaki nú þetta, sem hann sagði um hin félagslegu viðfangsefni í kortagerðinni áðan, þá er ekki svo að skilja að ég telji ekki æskilegt, að þær hugmyndir verði einnig speglaðar og hinir bestu menn fengnir til þess að hugleiða málið.

Enda þótt ég gæti þess áðan, að ég teldi að kortabókin gamla með herforingjaráðskortunum hefði verið allt of dýr í sölu til þess að hún gæti nokkru sinni orðið almannaeign, þá er ég ekki að mæla gegn því að þetta nýja verk, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson gerði grein fyrir áðan, yrði alldýrt. En við verðum að sjá fyrir því, að söluverð bókarinnar verði ekki hærra en það, að hún geti komist inn á alþýðuheimili. Ég vildi gjarnan að það yrði haft í huga við undirbúning þeirrar útgáfu, að þessi bók hefði fremur að geyma varanlegan fróðleik. Þar yrði gerð tilraun til þess að draga upp myndir af þeim sannleik sem kannske hefur aldrei verið og verður kannske orðinn allur annar á morgun.

Varðandi hugmyndir frsm. um það hvernig afla megi fjár til þessarar útgáfu eða „fés“, svo að ég noti nú afbrigði sem heyrst hefur úr þessum hv. ræðustól við umr. um alvarleg fjármál þessarar þjóðar, þá hygg ég að hann hafi ekki reynst of bjartsýnn. Það er von mín, að hann muni ekki hafa verið bjartsýnn úr hófi fram, þegar hann gerði ráð fyrir þessum möguleikum. Ég þykist jafnvel sjá fram á það, að ýmsar stofnanir innlendar, sem hann tilgreindi ekki, yrðu e. t. v. fúsar til þess að leggja þarna peninga af mörkum.

Ég mun ekki lengja umr. um þetta hnýsilega mál, en aðeins ítreka það, að ég styð þessa hugmynd. Ég hygg að fullkomin þörf sé fyrir útgáfu af þessu tagi og hún kynni e. t. v. að verða okkur styrkur í lífsbaráttunni í þessu landi, þar sem við ætlum okkur að halda áfram að tala íslenska tungu.