27.10.1977
Sameinað þing: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

22. mál, uppbygging þjóðvega í snjóahéruðum landsins

Tómas Árnason:

Herra forseti. Þetta mál er, eins og hv. þm. Ingi Tryggvason tók fram í sinni framsögu, endurflutt hér í þinginu. Það var einnig flutt í fyrra og urðu um það nokkrar umr. Það komu fram margar athyglisverðar upplýsingar og staðreyndir í frumræðu frsm. sem ég sé ekki ástæðu til að endurtaka, en hafa verður í huga þegar þessi mál eru rædd.

Það er enginn efi á því, að samgöngur á landi og samgöngumál yfirleitt eru einn af þeim málaflokkum sem eru hvað þýðingarmestir í okkar þjóðmálaumr. og þjóðmálastarfi. Það er raunar engin ástæða til að draga fjöður yfir það að á undanförnum áratugum, vildi ég segja, og árum hafa Íslendingar varið stórkostlegu fjármagni til uppbyggingar vegakerfisins í landinu, — stórkostlegu fjármagni ef miðað er við fólksfjöldann í landinu annars vegar og stærð og lögun landsins hins vegar. E.t.v. eru þetta enn þá stærri átök en hjá öðrum þjóðum ef allt er skoðað. Eigi að síður er geysilega margt eftir í þessum efnum og mjög ábótavant um að vegirnir séu í því ástandi að við verði unað til langrar frambúðar.

Þessi till. er sérstaklega takmörkuð við það að flýta uppbyggingu þjóðvega í snjóahéruðum landsins, og fjallar fyrri hluti hennar um að gerð verði sérstök áætlun um að ljúka þessu verkefni á vissu árabili. Það er e.t.v. ástæða til þess nú að víkja að því, að á s.l. vetri og sérstaklega s.l. vori voru snjóalög óvenjulega mikil um a.m.k. norðaustanvert landið, geysilega mikil snjóalög langt fram á vor, og t.d. fyrri hluta maímánaðar var ástandið þannig á norðanverðum Austfjörðum, að þar voru fjallvegir tepptir líklega fram undir miðjan maímánuð sumir hverjir. Ég minnist þess, að ég var á ferðalagi yfir Fjarðarheiði, milli Héraðs og Seyðisfjarðar, fyrstu viku maímánaðar og þá voru engin tök á því að komast þar á milli öðruvísi en á snjóbílum. Þá háttaði þannig til að svokallað yfirvinnubann stóð yfir, sem allir hv. þm. muna eftir, og snjóbílaakstur lá niðri á vissum tímum, eins og t.d. á laugardögum og sunnudögum, vegna þess að menn máttu ekki vinna eftirvinnu. Þá var enginn kostur annar til þess að komast yfir Fjarðarheiði fyrri hluta maímánaðar heldur en annaðhvort að fara gangandi eða þá að fara á snjósleða. Ég valdi þann kostinn að fara á snjósleða. Það er út af fyrir sig mjög skemmtilegt ferðalag fyrir þá sem ekki hafa farið á snjósleða að gera það. En eigi að síður getur það verið erfitt og alls ekki hægt að sinna með því þeim þörfum sem samgöngurnar þurfa að sinna þegar um er að ræða t.d. þjónustu við atvinnulífið og mannflutninga og vöruflutninga. En ég minnist á þetta tilvik vegna þess að hér er um að ræða mál sem alveg sérstaklega varðar það að flýta uppbyggingu þjóðvega í snjóahéruðum landsins.

Það er ekki því að neita, að það hefur orðið nokkur breyting, að því er mér finnst, í vegamálum almennt nú á allra síðustu árum. Það tíðkaðist á tímabili að gera sérstakar vegáætlanir til þess að ljúka alveg sérstökum uppbyggingarverkefnum. Fyrsta verkefnið af því tagi var vegáætlun Vestfjarða sem gerð var á áratugnum 1960–1970 og var stórátak í vegagerð á þeim tíma og ágætt mál. Síðan var gerð sérstök áætlun um vegamál á Austurlandi sem var hafin árið 1971 og er raunar enn í framkvæmd þótt henni sé senn að ljúka. Þar voru tekin fyrir ákveðin verkefni og reynt að fylgja þeim frá ári til árs, ljúka vissum áföngum, vissum köflum eftir fyrirframgerðri áætlun. Síðan var einnig gerð sérstök vegáætlun fyrir Norðurland, þar sem unnið var á svipaðan hátt, gerð áætlun um tiltekin verkefni.

Ég efast ekki um að Vegagerðin sinnir þessum málum og gerir áætlanir um það, hvernig hún skili verkefnum sínum, miðað við það fjármagn sem hún fær til umráða. En eigi að síður held ég að það sé nokkur afturför í því fólgin að hverfa frá þessum vegáætlunum. Vil ég hvetja til þess, að að því máli verði hugað og frekar eflt áætlunarstarf í vegamálum heldur en hitt. Ég veit vel að það er erfitt að deila út vegafé, það er erfitt fyrir alla og seint hægt að ná fullu samkomulagi um það. Hitt er annað mál, að ég held að enginn deili um að vegafé verði betur varið með því móti að taka fyrir stór verkefni eflir fyrirframgerðri áætlun heldur en að dreifa vegafénu út skipulagslítið. Þegar af þeirri ástæðu álít ég að væri æskilegt að efla heldur áætlunarstarf í þessum málum í framhaldi af því, sem gerðist á árunum 1960–1970 og áfram á þessum áratug, heldur en að draga úr slíku starfi.

Þessi þáltill. gerir ráð fyrir því, eins og ég gat um áðan, að gerð verði áætlun um kostnað við uppbyggingu þjóðvegakerfisins í hinum snjóþyngri héruðum landsins, með það fyrir augum að þjóðvegir um byggðir verði gerðir vetrarfærir á næstu 4–6 árum. Það er enginn vafi á því, að víða háttar svo til einmitt í snjóahéruðum, að þar eru vissir þröskuldar sem gera mönnum erfitt um vik þegar snjóalög eru mikil. Það er t.d. víða þannig í sveitum, að það kann að vera býsna góður akvegur um sveitina, en síðan erfiðleikar á því að komast út úr sveitinni, vegna þess að það eru vissir kaflar sem alveg sérstaklega eru þröskuldar í þessum efnum. Það mundi hafa verulega þýðingu ef þessir þröskuldar væru afnumdir með því að byggja vegina upp úr snjónum, og það mundi auðvelda mjög allar samgöngur þegar snjóalög eru mikil.

Þá er þess að geta, að á seinustu árum hafa orðið býsna miklar breytingar, sérstaklega í sveitunum, að því leyti til að nú þurfa menn á vegunum að halda á hverjum einasta degi, annars vegar til þess að flytja mjólkina til vinnslustöðvanna, en mjólkurframleiðsla hefur vaxið í öllum sveitum stórum skrefum á undanförnum árum, og svo hefur komið til annað nú á allra seinustu árum, og það eru flutningar á börnum til og frá skóla. Ég veit að e er það svo, a.m.k. í mínu kjördæmi, að foreldrar hafa verulegar áhyggjur af þessum flutningum. Þeir fara fram í alla vega veðri og við alla vega skilyrði. Vegir eru í raun og veru hálfófærir oft á tíðum þó að reynt sé að brjótast eftir þeim með börnin í skóla og frá skólum, og sums staðar a.m.k. er þetta þannig að vegirnir verða stórhættulegir. Ég veit um vegarkafla t.d. á Austurlandi — og það er áreiðanlega víðar — sem eru meðfram ám, stórfljótum og verða stórhættulegir þegar snjóalög liggja á vegunum og menn þurfa með öllum mögulegum hætti að komast áfram án þess að geta forðast þær hættur sem liggja í leyni einmitt við fljótin, og það verður ekki aftur tekið ef eitthvað gerist í sambandi við slíka flutninga. Það hafa ekki orðið slys af þessu, en menn hafa miklar áhyggjur af þessum flutningum og það í vaxandi mæli. Sums staðar þarf að flytja börnin á snjósleðum o.s.frv., þannig að þörfin í þessum efnum hefur vaxið tiltölulega mjög mikið einmitt í snjóahéruðum vegna breytts mannlífs, ef svo mætti að orði kveða.

Þessi þáltill. gengur ekki lengra en það, að þetta verk verði unnið á næstu 4–6 árum, eins og það er orðað í þáltill., að vegirnir verði byggðir þannig upp, að þeir verði vetrarfærir, á næstu 4–6 árum. Ég held að það verði ekki hægt að saka tillögumenn um að þeir fari með neinu offorsi í þessu efni, heldur geri ráð fyrir því og viðurkenni að það tekur nokkurn tíma og kostar að sjálfsögðu mikið fé að standa að gerð og framkvæmd áætlunar eins og hér er gert ráð fyrir. En ég bendi á það, sem ég minnti raunar á áður, að þýðingarmest er í byrjuð a.m.k. að reyna að lagfæra þá þröskulda sem ég var að minnast á og er allvíða að finna.

Það hafa verið gerðar ályktanir víða um landið í þessum efnum. Ég vil leyfa mér að gera að umtalsefni ályktun sem gerð var um sveitavegi á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, en þessi ályktun er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi 1977 vekur athygli á því, hve sveitavegirnir á Austurlandi eru víða í lélegu ástandi, þar sem þeir eru iðulega ófærir vikum og jafnvel mánuðum saman vegna snjóalaga á vetrum og aurs í vorleysingum. Fundurinn minnir hins vegar á hina miklu þýðingu, sem vel uppbyggt vegakerfi hefur fyrir öll störf og allt mannlíf í sveitum, og vill t.d. aðeins minna á síaukinn akstur vegna skólabarna og reglubundna mjólkurflutninga.“

Þetta er ályktun sem gerð var á þessum aðalfundi, Miklar umr. voru um þessi mál og umr. snerust um þau atriði sem ég hef sérstaklega drepið hér á.

Ég vil í þessu sambandi lýsa yfir ánægju yfir áformum hæstv. samgrh. og ríkisstj. um að auka fjármagn til vegamála umfram vegáætlun og víkja að því, hvort ekki væri sanngjarnt og eðlilegt að nokkuð ríflegur hluti af þessu fé renni til uppbyggingar einmitt í þeim tilgangi að reyna að ryðja burt þeim þröskuldum sem verða þegar snjóalög eru sem mest í snjóahéruðunum.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að um leið og ég fagna því að ríkisstj. hefur ákveðið að auka fjárframlög til vegamála, þá ber ekki að skilja það á þann hátt, að mér sé ekki ljóst að það verður að koma til örugg fjáröflun í þessu skyni. Það kann að verða deilt um hana eins og oft áður. Ég vil taka það jafnframt fram, að ég er þeirrar skoðunar að fjárhagur ríkissjóðs og rekstur ríkissjóðs sé engan veginn nándar nærri nógu traustur. Það er annað og miklu meira mál. Ég held að einmitt fjárhagsafkoma ríkissjóðs sé eitt af þeim stóru atriðum sem þarf að taka til rækilegrar athugunar til þess að stuðla að heilbrigðu efnahagslífi í landinu og efnahagsstefnu.

Það hefur oft verið rætt um vegamálin og ýmsa fleti þeirra mála. Ég vil á engan hátt, þó að ég sé flm. þessa máls og fylgismaður, draga úr því, hversu það er mikið nauðsynjamál að stefna að því að koma bundnu slitlagi á þjóðvegi landsins. Það er auðvitað mikið nauðsynjamál hvort tveggja; að byggja upp vegina og að koma síðan á þá bundnu slitlagi. Bílafloti landsmanna hefur aukist stórkostlega á undanförnum árum og er orðinn geysilega verðmætur. Í honum liggja milljarðar kr., og enginn vafi er á því, að vegirnir eru engan veginn í því ástandi í landinu að sómasamlegt geti talist, og fara áreiðanlega stórkostlegir fjármunir forgörðum í sliti á bílaflotanum og eyðslu í sambandi við rekstur bílaflotans vegna þess hvað vegirnir eru í slæmu ástandi. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það sé gífurlegur beinn og óbeinn hagur að því að beina miklu og það geysimiklu fjármagni til vegagerðar. Það er enginn vafi á því, vegna minna slits á bifreiðum, minni eyðslu, tímasparnaðar og lægri afskrifta og vaxta vegna þess að tækin endast miklu lengur ef þau eru notuð á góðum þjóðvegum, að hagurinn af því að bæta vegina, miðað við óbeinan og beinan hagnað, skiptir milljörðum á hverju ári. Þess vegna held ég að hér sé um að ræða eitt af stærstu hagsmunamálum þjóðarinnar fjárhagslega og ástæða til að beina geysimiklu fjármagni til vegagerðar á breiðum grundvelli á næstu árum.

Frummælandi kom inn á snjómoksturinn, sem hefur verið gífurlegur á undanförnum árum, á árunum 1975, 1976 og 1977, sennilega um einn milljarður kr., en þó kemur glöggt í ljós, eins og hann minntist á, að hann fer hlutfallslega minnkandi vegna þess að það er verið að byggja upp vegina og þar af leiðandi minnkar snjómoksturinn.

Til viðbótar vil ég svo aðeins minna á það að lokum, að hér er auðvitað um að ræða jafnréttismál mikið jafnréttismál, sérstaklega að gera t.d. unglingunum og börnunum fært að sækja skólana. Það er jafnréttismál og þess vegna ekki óeðlilegt að það hafi vissan forgang. Þó að vegirnir séu lélegir víða annars staðar um landið þar sem snjóalög hamla ekki umferð, þá er þó hægt að komast þar á milli staða. Í því og aftur hinu, þar sem menn komast ekki um vegna snjóalaga, er auðvitað fólginn verulegur aðstöðumunur.