14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2888 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

214. mál, Rafmagnseftirlit ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það var aðeins í tilefni þess, að hv. síðasti ræðumaður beindi orðum sínum til formanns skipulagsnefndar orkumála, en það vill svo til að ég er sá maður. Því vildi ég aðeins segja að þessu gefna tilefni, að skipulagsnefnd orkumála hefur ítarlega rætt og tekið til meðferðar þá skýrslu sem Rafmagnseftirlitið hefur gert og varðar nýja skipun og endurbætur á þessum málum. Ég vil aðeins segja það, að það er ríkjandi skoðun í skipulagsnefnd orkumála að endurskipuleggja þessa starfsemi mjög í þeim anda sem bent er á í skýrslu Rafmagnseftirlitsins. Það er alveg rétt, að það kallar að að ljúka því verki að endurskoða skipan Rafmagnseftirlits ríkisins. En ég verð að segja, að að mínu áliti liggur þó ekki meira á því en ýmsum öðrum atriðum sem þessi skipulagsnefnd er að fást við. Nú er gert allt sem hægt er til þess að vinna sem hraðast í þessu endurskoðunarstarfi með það fyrir augum að nefndin geti sem fyrst skilað áliti, þó að ég því miður geti ekki sagt á þessari stundu hvenær það má verða.

Ég vildi aðeins að þetta kæmi hér fram, að nefndin er ekki síður að athuga um Rafmagnseftirlit ríkisins en aðra hina mörgu þætti sem falla undir verksvið nefndarinnar.