15.03.1978
Neðri deild: 67. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2912 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

217. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj 417 er frv. til l. um breyt. á lögum nr. 120 31. des. 1976, um tollskrá o. fl., með áorðnum breytingum.

Eins og hv. þm. er í fersku minni voru í des. 1976 samþ. á Alþ. ný tollskrárlög. Lögin mörkuðu framhald þeirrar tollastefnu, sem mótuð var með lögum um sama efni frá 1970 og 1974, og kváðu m. a. á um samningsbundnar tollalækkanir vegna aðildar Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu og samnings Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu. Jafnframt þessum breytingum voru gerðar umfangsmiklar breytingar á undirskiptingu vöruliða í íslensku tollskránni, en breytingar á tollnafnaskrá Tollasamvinnuráðsins höfðu verið samþ. í ársbyrjun 1976 af ráðinu fyrir tilstilli Tölfræðistofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er sú, eins og ég gat um í fjárlagaræðu minni er ég gat um framlagningu þessa frv., að brýna nauðsyn ber til að samræma íslensku tollskrána þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar á tollnafnaskrá Tollasamvinnuráðsins frá því að hún var gefin út að nýju í jan. 1977 með áorðnum breytingum.

Eins og kunnugt er, var ákveðið í heildarendurskoðun tollalöggjafarinnar árið 1963 að taka upp tollskrá gerða eftir tollnafnaskrárfyrirmynd Tollasamvinnuráðsins í Brüssel, eins og skrá þessi var árið 1959. Tollnafnaskráin var áður þekkt undir heitinu Brüsseltollskráin, en upphafleg gerð hennar var frá árinu 1950 svo og alþjóðleg samþykkt um hana. Um 40 þjóðir eru í dag aðilar að samþykkt þessari, en um 130 þjóðir munu hins vegar hafa tekið upp tollskrár sem í grundvallaratriðum eru byggðar á tollnafnaskrá Tollasamvinnuráðsins.

Frá árinu 1963, er Ísland tók upp fyrrgreinda tollskrá, hefur 21 breytingarskrá verið samþ. á tollnafnaskránni. Hefur verið leitast við að breyta íslensku tollskránni jafnóðum til samræmis við breytingar þessar, þannig að notið yrði þess hagræðis sem er því samfara að hafa sama tollskrárform og allar helstu viðskiptaþjóðir okkar. Við síðustu heildarendurskoðun íslensku tollskrárinnar á árinu 1976 var tollskráin þannig m. a. færð til samræmis við nýja útgáfu tollnafnaskrár Tollasamvinnuráðsins í tengslum við samræmingu þeirrar síðar nefndu við hina tölfræðilegu vöruskrá Sameinuðu þjóðanna, eins og áður getur. Jafnframt var tollskránni breytt til samræmis við breytingarskrár nr. 20 og 21 sem samþ. höfðu verið í ársbyrjun 1976.

Tollasamvinnuráðið samþ. í júní 1976 umfangsmiklar breytingar á tollnafnaskránni sem leiða munu til verulegrar fækkunar á vöruliðum. Vöruliðir, sem falla niður vegna breytinganna, eru fyrst og fremst vöruliðir sem komið hefur í ljós við samræmingu tollnafnaskrár Tollasamvinnuráðsins og vöruskrár Tölfræðistofnunar Sameinuðu þjóðanna að eru óþarfir, þar eð vöruliðirnir taka til vara sem að magni til eru mjög lítilvægar í alþjóðlegum viðskiptum.

Í bréfi Tollasamvinnuráðsins frá 12. júlí 1977 segir um breytingar þessar, að þar sem engar athugasemdir hafi borist ráðinu frá aðilum að samþykkt um vöruflokkun í tollskrám komi breytingarnar til framkvæmda frá og með 1. jan. 1978.

Þá skal þess getið, að unnið hefur verið að því að undanförnu að færa öll breytt tollskrárnúmer samkvæmt framansögðu til samræmis í viðauka B við aðildarsamning að EFTA og í bókunum í samningi Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu. Af Íslands hálfu er eigi unnt að ganga formlega frá þessum breytingum nema að undangenginni breytingu á tollskrá landsins.

Eins og ég gat um áðan hafði á árinu 1976 verið samþ. 21 breytingarskrá. Þeim til viðbótar hafa enn verið samþykktar breytingarskrár nr. 22 og 23. Engin þörf er að taka upp í frv. sérstakar breytingar við íslensku tollskrána vegna þessara síðast töldu breytinga, þar sem þær fela eigi í sér neinar efnahagslegar breytingar á henni og rúmast innan núverandi orðalags íslensku tollskrárinnar.

Í 1. gr. frv. er m. a. gert ráð fyrir að teknar verði upp í íslensku tollskrána allar þær breytingar sem gerðar voru á tollnafnaskrá Tollasamvinnuráðsins með fyrrnefndri samþykkt ráðsins. Hér er fyrst og fremst um að ræða verulegar breytingar á flokkun vara frá því sem er samkvæmt gildandi tollskrárlögum, en gert er ráð fyrir að fjölmargir vöruliðir falli niður og vörur úr þeim verði flokkaðar að nýju undir aðra vöruliði. Þá eru í nokkrum tilvikum teknar upp fyllri skilgreiningar í athugasemdir við flokka og kafla svo og gerðar breytingar á fyrirsögnum þeirra. Um aðrar breytingar, sem felast í frv. þessu, vísa ég til þeirrar grg. sem frv. fylgir.

Í sambandi við afgreiðslu þessa frv. vil ég taka fram, að ætlunin var að leggja frv. fram tímanlega fyrir áramót. Hins vegar reyndist vinna við frv.-gerðina miklu tímafrekari en búist hafði verið við og varð það því miður nokkuð síðbúið til framlagningar af þeim sökum. Þar sem skammt var til þingfrestunar var ákveðið að fresta framlagninga þess og ljúka þeirri vinnu, sem ljúka þurfti, og leggja frv. fram síðar á þinginu.

Ég leyfi mér, með vísan til þess sem ég nú hef sagt, og grg. með frv., að leggja til að því verði að hokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.