29.03.1978
Sameinað þing: 59. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2937 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

96. mál, launakjör og fríðindi embættismanna

Jónas Árnason:

Herra forseti. Það er satt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að margt þarf að lagfæra — fleira en það sem þessi till. fjallar um. En ég sé ástæðu til þess að fagna því, að þessi hv. þm. tekur undir þau sjónarmið, sem hér koma fram, og einnig þau sjónarmið, sem koma fram í öðrum till. sem við Alþb: menn höfum flutt varðandi þau mál sem þessi till. snertir, launakjör og fríðindi ýmiss konar, sanngjarnari skipan á því sviði.

Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir nefndi í sambandi við þessi mál t. d. laun, sem menn taka fyrir nefndastörf, að auðvitað sé mönnum í sjálfsvald sett hvort þeir þiggja þessi laun eða ekki, en það væri svo, að þegar hefð væri komin á á einhverju sviði, þá væri erfitt að brjóta hana, stæði þá á mönnum að gera það að því er varðaði þá sjálfa. Kannske er þetta kjarni þessara mála — þessara mála sem óneitanlega snerta þá síðvæðingu sem æðimikið er til umræðu í fjölmiðlum. Hversu mikið meina menn með tali sínu um síðvæðinguna? Hve mikið meina t. d. þeir menn með slíku tali, sem taka — ofan á laun sem þeir telja há þingmannslaun — 60% af forstjóralaunum láta sér ekki bregða við það á meðan þeir býsnast yfir spillingunni?

Ég tel alveg sjálfsagt að menn afsali sér fríðindum ýmsum og launum, ef þeir telja að þau séu fyrir utan ramma velsæmis, — hafi frumkvæði um það sjálfir, bíði ekki eftir því, að sett séu um slíkt lög eða reglur. Þetta á hver við sjálfan sig að sjálfsögðu, sína eigin samvisku, ef hún er einhver. En mér fyrir mitt leyti sýnist eðlilegt að menn geri þetta, menn taki ekki önnur laun en þau sem þeir telja sig eiga skilið að fá. Einföld þingmannslaun eru að mínum dómi ekkert umfram það sem hæfilegt getur talist fyrir störf þm., ef hann rækir þau af samviskusemi og dugnaði. En þegar síðan bætist við viss prósenta — æðihá — af öðrum launum og síðan margs konar laun fyrir nefndastörf og önnur slík störf, þá eru náttúrlega tekjur ýmissa þm. allt of háar. Það er þetta sem stendur í hálsinum á fólki. Að vísu gera menn sér það ekki almennt ljóst, að þingfararkaupið sem slíkt er ekkert sérstaklega há laun. En það sem gerir að almenningur lítur þeim augum sem hann lítur á okkur alþm. í þessum efnum, siðgæðisviðhorf okkar, er þetta, hversu margir taka ýmiss konar önnur laun, laun fyrir störf sem þeir gegna á þeim tíma sem þeir hafa kaup fyrir að starfa sem þm.

Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir nefndi hér áðan ýmsar tekjur fyrir nefndastörf. Það vildi svo til, að í gær var ég staddur í Leirársveit og þá tók bóndi einn fram eintak af Frjálsri verzlun. Þetta blað hafði birt lista yfir „nefndakónga“ sem það kallaði svo. Menn fengu þar á þriðju millj. kr. fyrir nefndastörf eingöngu. Og meðal þeirra hæstu, meðal þriggja eða fjögurra hæstu var aðalbankastjóri Seðlabankans. Þessi nefndastörf, eins og allir vita, eru unnin í venjulegum vinnutíma viðkomandi embættismanna. Ég hygg að það séu undantekningar, að þessir nefndafundir séu haldnir eftir venjulegan vinnutíma. M. ö. o. sá sem fær á þriðju millj. fyrir nefndastörf tekur þessa upphæð fyrir störf, sem hann vinnur í þeim tíma sem hann hefur verið ráðinn til sem embættismaður. Þetta er að sjálfsögðu reginhneyksli. Ef menn eru kosnir til nefndastarfa, sem greinilega er ekki hægt að rækja í öðrum tíma en þeirra eðlilega vinnutíma, þá er sjálfsagt að þeir gegni þessum störfum kauplaust, enda hafa þeir hitt kaupið fyrir. Að menn skuli hafa, eins og ég sagði áðan, hátt í tvöföld árslaun þeirra sem lægst eru launaðir í þessu þjóðfélagi, er hreint út sagt fyrir neðan allar hellur.

Ég tek sem sagt undir það með hv. síðasta ræðumanni, að það er ansi víða sem við þyrftum að gera hreint. En það var eins gott að láta hendur standa fram úr ermum að því er varðar okkar eigin mál.

Eitt atriði í þessari till. snertir fríðindi sem ráðh. hafa og bankastjórar hafa tekið sér og „kommissarar“ í Framkvæmdastofnun, þ. e. a. s. varðandi bíla, afgjöld af bifreiðum, sem menn þurfa ekki að greiða, fá kannske bílana fyrir hálfvirði fyrir bragðið o. s. frv. Þetta er líka reginhneyksli og til skammar fyrir alla stjórnmálaflokka, að þeir skuli hafa verið við þetta bendlaðir. Og þó að mér finnist að þeir einkabílstjórar, sem ráðh. hafa, séu heldur prýði í þessu húsi, — ágætir menn, hressilegir og skemmtilegir menn, — þá sýnist mér það einna versta hneykslið af öllu, að fílefldir karlmenn skuli vera á föstum launum við það eitt að flytja ráðh. fram og aftur. Það er átakanlegt, satt að segja, t. d. þegar fundir dragast hér fram á kvöld og e. t. v. fram á nóttina, að þessir hinir sömu fílefldu ágætu karlmenn skuli vera að sóa tíma sínum í það að bíða eftir því, að einhverjum hæstv. ráðh. þóknist að koma niður og fara út í bíl. Einkabílstjórar eiga ekki að þekkjast í þessu þjóðfélagi. Ég vil næstum segja, að það samrýmist ekki lögmálum þessa þjóðfélags né siðgæðisvitund þessarar þjóðar, að menn hafi starf af því að „transportera“ ráðh. á milli húsa.