27.10.1977
Sameinað þing: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

17. mál, efling útflutningsstarfsemi

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð. — Ég vil ekki láta hjá líða að þakka góðar undirtektir undir þennan tillöguflutning. Sérstaklega vil ég lýsa ánægju minni yfir því, að mér virtist hæstv. utanrrh. vera á nákvæmlega sömu skoðun og ég um meginatriðið þessa máls í sambandi við aukið samstarf útflutningsaðila, aukið skipulagt samstarf frjálsra og óháðra útflytjenda, eins og þeir eru núna, og sjálfstæðra aðila, sem annast útflutningsstarfsemi hver á sínu sviði. Ég held að það sé leiðin til þess að nálgast það markmið sem við öll stefnum að í þessu máli. Slíkt samstarf, slík samvinna milli þessara aðila gæti haft það í för með sér að það væri auðveldara að koma við þjálfun sérmenntaðs fólks í utanríkisverslun. Við vitum að það er mjög sérhæft starf og skortir mjög að það sé nægjanlegt framboð af slíku fólki. Í samvinnu milli þessara aðila gæti þetta verkefni orðið leyst. Við skulum kalla þessa starfsemi samvinnunefnd útflytjenda eða eitthvað slíkt, og hún gæti líka haft það á sinni könnu að auglýsa Ísland erlendis sem framleiðsluland gæðavöru á hvaða sviði sem væri og staðið að sameiginlegum vörusýningum fyrir útflutningsvörur okkar á öllum sviðum og þar fram eftir götunum. Ég fagna því sérstaklega að mér heyrist að hæstv. utanrrh. og raunar Tómas Ingason einnig, við séum mjög á sömu skoðun í þessum efnum, að það sé a.m.k. rétta leiðin að hefja þetta starf með slíkum hætti, að auka skipulagt samstarf þessara aðila.

Ég vil þakka hv, þm. og hæstv. utanrrh, góðar undirtektir.