31.03.1978
Sameinað þing: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2989 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

147. mál, orkusparnaður

Flm. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni, 3. þm. Vestf., fyrir jákvæðar undirtektir hans. Ég veit, eins og hann segir, hvað er að gerast varðandi úttekt á orkubúskap, og lít ekki á það að ákvörðun um svo stórt mál yrði beinlínis tekin með svona till., heldur er þetta haft með vegna þess, að úttektin eða efni hennar þarf auðvitað að vera forsenda fyrir því, að hægt sé að taka til starfa á sviði orkusparnaðar, svo að þetta getur vel fallið saman, fallið inn í það starf sem hefur verið falið Framkvæmdastofnun.

Það er líka rétt hjá hv. ræðumanni, að þetta mál heyrir undir Orkustofnun og mundi falla henni í skaut. En segja má að það sé algengara, ef ekki venja, að Alþ. beini máli sínu til ríkisstj., jafnvel þó að það sé í raun og veru að tala við einhverjar stofnanir sem heyra undir ráðh. Það var að sjálfsögðu ekki hugmynd flm., að t. d. orkumálaráðuneytið sjálft ætti að standa í þessu, heldur mundi það fela öðrum, og þá er rétt hjá hv. ræðumanni, að Orkustofnun er auðvitað augljósasti aðilinn.

En ég vil hvetja til þess, að sú n., sem lítur á þessa till., íhugi þessar aths. hv. þm. Ég legg ekki áherslu á orðalag eða formsatriði, ef sjálft meginefnið, sem við virðumst sammála um, kæmist til skila.