31.03.1978
Sameinað þing: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2990 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

147. mál, orkusparnaður

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Í þáltill. þeirri, sem hér er til umr., er vissulega hreyft mikilsverðu máli. Mig langar til að nota þetta tækifæri til að minnast á einn þátt þessara orkumála sem mér finnst við þurfa að gefa aukinn gaum, og það er jöfnun orkuverðs í landinu. Við vitum vel að orka, hvort sem hún er notuð til húsahitunar, matseldar, lýsingar eða til atvinnurekstrar, er verulega misdýr í landinu. Það er ekki einungis að raforkan, sem allir nota, sé mjög misdýr eftir því hverjir selja hana í smásölu, heldur er það mjög misjafnt hvaða kjörum menn verða að sæta, einstaklingarnir, um orkukostnað til annars heimilishalds en matseldar og lýsingar, svo sem upphitunar.

Ég ætla ekki að fara að gera neinn tæmandi samanburð á þessum hlutum, en mig langar að segja hér frá því, að ég hef fengið nýlega í hendur samanburð á raforkunotkun tveggja heimila. Annað býr við orkusölu Rafmagnsveitna ríkisins, en hitt við orkusölu í kaupstað þar sem er sérstök rafveita fyrir kaupstaðinn. Samanburðurinn er um heimilisnot, svokallaðan taxta Dl hjá rafmagnsveitu í viðkomandi kaupstað og taxta 21 hjá Rafmagnsveitum ríkisins, en þessir taxtar eru taldir hliðstæðir. Miðað er við 100 m2 íbúð með þremur svefnherbergjum, stofu og eldhúsi og 300 kwst. notkun á mánuði eða um 3600 kwst. notkun á ári, og verðið er miðað við það verð sem var í febrúar s. l. Þá verður niðurstaðan sú, að annar þessi aðili þarf að greiða að meðtöldum söluskatti 56 776 kr. yfir árið, en hinn aðilinn 109 780 kr. Það er tæplega helmingsmunur á verðinu hjá þessum tveimur heimilum, eftir því hvort þau njóta orkusölu frá rafveitu kaupstaðar eða í hinu tilfellinu, sem er að vísu tekið úr kaupstað líka, þar sem orka er seld frá Rafmagnsveitum ríkisins. Þetta er aðeins einn hluti af þeim verðmun sem er á orkunotkun í landinu, þeirri sem seld er almenningi, og þó að þetta séu ekki mjög háar tölur kannske, frá tæpum 57 þús. og í nærri 110 þús., þá er þarna um mjög mikilsverðan aðstöðumun að ræða. Það er rétt að geta þess, sem er athyglisvert í þessu sambandi, að sá aðili, sem býr við lægra orkuverð, borgar til ríkisins í skatt og verðjöfnunargjald 14 088 kr., en hinn aðilinn, sem verður að borga orkuna dýrara verði, borgar til ríkisins og í verðjöfnunargjald 27 239 kr. Þarna er um verulega skattheimtu að ræða á því heimilinu sem býr við dýrari orkuna. En ég vil endurtaka það, að þessar tölur eru með í verðinu sem ég nefndi áðan.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé alls ekki vansalaust að færa þetta ekki til sæmilegs samræmis, og ég er þeirrar skoðunar raunar líka, að það sé ekki hægt að nema staðar við raforkuna eina. Það eru aðeins venjuleg heimilisnot í frekar lítilli íbúð hjá fjölskyldum af svipaðri stærð sem þarna eru tekin til meðferðar. Ég hef nú ekki nákvæmlega fjölskyldustærðina, en þarna er ekki um að ræða stórar fjölskyldur.

Það er ekki síður munur á upphitunarkostnaðinum. Hann er kannske í raun og veru miklu stærra mál, en um það hef ég nú ekki núna handbærar tölur. (Gripið fram í: Ég held að það séu 4 manna fjölskyldur.) Þetta sé 4 manna fjölskylda. Þetta var reyndar gert alveg sérstaklega og höfð alveg sérstök dæmi í huga. Þessar upplýsingar eru ekki frá yfirvöldum í þessu efni, heldur tekið raunhæft dæmi úr daglegu lífi og af manni sem hefur á þessu þekkingu.

Við eigum að vísu langt í land að jafna laun í landinu, og ég get gjarnan sagt það hér, að ég er þeirrar skoðunar, að tekjumismunur í þessu þjóðfélagi sé alltof mikill. En við höfum þó í aðalatriðum jafnað launin á þann hátt, að það er lítill munur á kauptöxtum eftir landshlutum. En það er mikill munur á ýmsum þáttum framfærslukostnaðar eftir landshlutum, og ég tel að það eigi að vera í raun og veru miklu auðveldara mál að jafna framfærslukostnað eftir landshlutum heldur en nokkurn tíma að jafna kaupgjald milli hinna ýmsu starfshópa. Þar tel ég að vísu að hljóti að vera hægt að komast miklu lengra og miklu nær heilbrigðri skynsemi heldur en mér finnst að nú ríki í þessum málum. En hinu er ekki að leyna, að eftir því sem ég best veit hafa verið háðar á undanförnum árum margar orrustur til þess að jafna kjör manna, a. m. k. eftir því sem yfirlýst hefur verið í upphafi hverrar slíkrar orrustu. Ég held að þessi þáttur orrustunnar, sá að jafna kjörin, hafi yfirleitt tapast og því miður jafnvel stundum farið svo, að manni hefur sýnst að í stað þess að jafna kjör, þá hafi stundum komið út úr launabaráttunni þveröfug niðurstaða. En ég ætla ekki að fara að gera þessi mál hér að umræðuefni. Ég vil koma því hér á framfæri, að ég tel það einn mikilvægasta þáttinn í sambandi við orkumálin, hvort sem það er sá þátturinn, sem hér er sérstaklega að víkið, að spara orkuna og gera úttekt á því, hvernig við getum nýtt hana best, eða aðrir þættir þessara mála, að það sé sjálfsagt jafnréttismál, að orka sú, sem við verðum að nota til heimilishalds og til almenns atvinnurekstrar, sé seld á sama verði um allt land og eftir því sem frekast verður við komið samræmt verð á þeim orkutegundum sem við verðum að nota, misjafnar eftir því hvar við erum staðsett í landinu.