04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3089 í B-deild Alþingistíðinda. (2259)

143. mál, hönnun nýs alþingishúss

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Það er í fjarveru hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar sem ég ber fram fsp. hans um hönnun nýs alþingishúss. Hún er svo hljóðandi:

„Er hönnun nýs alþingishúss við það miðuð, að fatlað fólk, m. a. í hjólastólum, geti athafnað sig hvarvetna í húsinu og gegnt þar störfum, þ. á m. þingmennsku?“

Mun ekki þurfa útskýringar við, hvers vegna þessi fsp. er fram borin. Þm. geta sjálfir um það vitnað, að í því húsi, sem við nú erum, er ekki mögulegt fyrir fatlað fólk að athafna sig hvar sem er.