04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3106 í B-deild Alþingistíðinda. (2284)

356. mál, markaðsmál landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 440 svo hljóðandi fsp. til hæstv. landbrh. um markaðsmál landbúnaðarins :

„1. Hvernig er í meginatriðum háttað áformum íslenskra söluaðila um nýtt átak í markaðsleit fyrir íslenskt dilkakjöt?

2. Hvaða réttir úr íslensku dilkakjöti voru kynntir á „grænu vikunni“ í Berlín?

3. Hverjir eiga sæti í markaðsnefnd landbúnaðarins, er stofnað var til af Búnaðarþingi á s. l. ári?“

Það hefur ekki farið fram hjá neinum, að landbúnaðurinn á við ýmsa örðugleika að etja, ekki hvað síst að því er varðar offramleiðslu á landbúnaðarafurðum og í því sambandi markaðsmál. Maður veit með vissu, að það er að sjálfsögðu unnið af áhuga og góðum vilja að þessum málum. En ýmislegt hefur gefið mér tilefni til að ætla, að hér sé e. t. v. ekki að öllu leyti rétt að staðið.

Ég fæ ásamt öðrum þm., geri ég ráð fyrir, Fréttabréf Sambands ísl. samvinnufélaga, og þar hef ég ítrekað rekist á skrif um markaðsmál og sölu á íslensku dilkakjöti, og ég hef furðað mig á hve einhæfar þessar fréttir hafa verið. Þar hefur aldrei verið minnst á aðrar tegundir dilkakjöts eða öðruvísi framreitt heldur en hangikjöt, léttreykt kjöt, eða „London-lamb“ eins og það hefur verið kallað. Síðast í janúar, þegar boðað var nýtt átak í markaðsmálum, m. a. með þátttöku í hinni miklu matvælasýningu í Vestur-Berlin, þá kemur þar upp hangikjötið, reykta kjötið, léttreykt, eða „London lamb“. Þetta gefur mér tilefni til að spyrja alveg sérstaklega með tilliti til „grænu vikunnar“ góðu: Voru virkilega ekki kynntir aðrir réttir úr íslensku dilkakjöti en þetta eilífa reykta kjöt? Við Íslendingar höfum mætur á hangikjötinu okkar og öðru reyktu. En mér er nær að ætla, að margar grannþjóðir okkar, ekki hvað síst í suðurhluta Evrópa, séu ekki eins hlynntar því og við erum hér norður frá. Ég hef heyrt líka og ég vil gjarnan fá um það upplýsingar frá hæstv. ráðh., hvort það sé rétt, að íslenskt dilkakjöt, sem selt er í Færeyjum, — og mér skilst, að Færeyjar séu annað stærsta viðskiptaland okkar að því er snertir útflutning á dilkakjöti, — að í Færeyjum sé íslenska dilkakjötið selt á lægra verði heldur en færeyskt og við séum á góðri leið með að drepa niður sauðfjárbúskap Færeyinga fyrir bragðið. Þetta kemur mjög einkennilega fyrir, og ég hef ekki getað fengið staðfest hvort þetta er rétt eða rangt.

Að síðustu spyr ég í fsp. minni hverjir eigi sæti í markaðsnefnd landbúnaðarins sem stofnað var til af Búnaðarþingi á s. l. ári?