04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3112 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

356. mál, markaðsmál landbúnaðarins

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég vil fagna því, að þessi mál hefur borið hér á góma, svo mikilvæg sem þau eru, ekki aðeins fyrir bændurna í landinu, heldur fyrir þjóðina í heild.

Mér þótti athyglisvert að heyra hvað var verið að leitast við að gera til þess að vinna nýja markaði fyrir okkar framleiðsluvöru. Það er allt of skammt á veg komið til þess að hægt sé að dæma um árangur þess. Hæstv. landbrh. sagði að ýmislegt væri í athugun að gera til þess að styðja að sölumálum landbúnaðarvaranna. Hann gat þess, að í deiglunni væru framleiðsluráðslögin og endurskoðun á þeim. Ég sakna þess, að hann minntist ekki á einn þátt þessara mála, sem ég tel þó að mundi hafa mjög mikla þýðingu ekki aðeins fyrir markaðinn erlendis, heldur einnig fyrir markaðinn innanlands. Ég veit ekki betur en þær matsreglur, sem hafðar eru og eru í gildi um kindakjöt og dilkakjöt, séu gamlar, og þær er vissulega að ýmsu leyti úreltar miðað við þær kröfur og þær óskir sem neytendur hafa um þessar vörur. Og ég er ekkert í vafa um það, ef við gætum byggt upp að nýju matsreglur sem lægju nær óskum neytendanna heldur en þær gera nú, að þá væri hægt að leiðrétta töluvert í framleiðslunni, og ég þekki bændur það vel, að þeir mundu leitast við að koma til móts við þær óskir, svo framarlega sem verðlagsákvarðanirnar vinna ekki á móti því sem þarna þarf að gera.

Það er okkur öllum ljóst, að sala á erlendum mörkuðum er eins og sakir standa mjög mikilvæg. En það, sem verður þó aðalatriðið fyrir okkur og á að vera aðalatriðið, er að salan innanlands sé sem greiðust og varan sé sem líkust því sem neytendurnir óska að hafa hana. Ég segi þetta fyrir þá sök, að ég vil leggja á það áherslu, að ég held að það sé brýn nauðsyn að endurskoða matsreglurnar. Ég veit ekki betur en það hafi verið unnið eitthvað í því máli, en á hvaða stigi það er veit ég ekki, en vildi leggja á það áherslu við hæstv. ráðh., að hann leitaðist við að kippa þeim málum í lag.