05.04.1978
Neðri deild: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3164 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

192. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson):

Hæstv. forseti. Eins og fram kemur í nál. hefur n. fjallað um þetta frv. og leggur til að það verði samþykkt. Málið er þó þannig afgreitt frá n., að tveir nm. gera fyrirvara varðandi 1. gr. frv., þar sem svo er tekið til orða að almennar sveitarstjórnarkosningar skuli fara fram fyrsta laugardag júnímánaðar.

Eins og menn rekur eflaust minni til, er þarna gert ráð fyrir því, að nú verði ekki lengur um tvo kjördaga að ræða, mismunandi eftir því hvort er um að ræða þéttbýlissveitarfélög eða strjálbýlissveitarfélög eða sveitir annars vegar. Hins vegar er gert ráð fyrir því að hverfa frá því að kjósa á sunnudegi og kjósa heldur á laugardegi. Þeir fyrirvarar, sem eru varðandi þetta ákvæði, eru fyrst og fremst varðandi það, hvort rétt sé að lögleiða laugardaginn, hvort hann sé heppilegri kosningadagur en sunnudagur, og í öðru lagi, hvort þetta sé heppilegur tími vegna þess að fyrsti laugardagur í júní muni raska hátíðarhöldum sjómanna á hátíðisdegi þeirra, sem venjulega er fyrsta sunnudag í júní.

Ég hef gert lítils háttar athuganir á því hvernig þessi röskun mundi verða, hversu oft þyrfti að færa sjómannadag til þau ár sem eftir eru af þessari öld og hversu miklar þessar tilfærslur yrðu. Mér sýnist að þær kosningar, sem mundu fara fram á þessari öld, mundi bera upp á dagana 3. júní núna í ár, 5. júní 1982, 7. júní 1986, 1990 mundi það vera 2. júní, en það er eina árið sem laugardagur fyrir fyrsta sunnudag í júní er laugardagur fyrir hvítasunnu, sem ég vil sérstaklega minnast á hér á eftir, og breytir þess vegna ekki neinu varðandi sjómannadaginn það ár. 1994 mundi kosningadag bera upp á 4. júní, 1998 mundi hann bera upp á 6. júní og 2002 mundi hann bera upp á 1. júní.

Um þetta er það að segja, að aðeins í tveimur tilvikum gæti sjómannadagurinn farið fram sama dag og nú er gert ráð fyrir samkvæmt venju. Hins vegar mundi hann færast til í ár þannig, að hann þyrfti annaðhvort að vera 28. maí eða 11. júní í stað 4. júní. Þarna yrði tilfærsla sem sagt til 28. maí, eða síðustu daga í maí. Í öðru lagi yrði aftur tilfærsla 1982, tiltölulega óhagstæð, því að hann yrði þá að vera annaðhvort 23. maí eða 13. júní. Í þriðja lagi yrði tilfærsla til 29. maí 1994, þ. e. a. s. rétt við mánaðamótin. Og 1998 yrði hann að vera 24. maí eða 14. júní. Mér sýnist að um sé að ræða einhverja verulega tilfærslu í tveimur tilvikum á þeim tæpa aldarfjórðungi sem eftir er til aldamóta. Ég vil aðeins benda á þetta atriði til þess að menn geti vegið og metið, hvort kosningar fyrsta laugardag í júní hafa veruleg áhrif í þá veru að trufla hátíðarhöld sjómanna, en ég tek undir það, að mér þykir að ýmsu leyti æskilegt að kosningadagur verði ekki um sömu helgi og þessi hátíðarhöld fara fram.

Ég gat þess, þegar ég talaði fyrir málinu við 1. umr., að einu sinni til aldamóta mundi kosningadag bera upp á laugardag fyrir hvítasunnu, þ. e. a. s. árið 1990, og væri þá hægt að taka ákvörðun um það, þegar þar að kemur, hvort æskilegt þætti að breyta kosningadegi. Nefndinni hafa borist ábendingar frá dómsmrn. varðandi lög um helgidaga, þ. e. a. s. um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar. Þar er gert ráð fyrir því, að bannaðar séu allar skemmtanir eftir kl. 6 á aðfaradögum stórhátíðanna. Ég er sjálfur ekki viss um að enda þótt frv. yrði samþykkt eins og það er nú brjóti það þessi lög beinlínis, en ég tel að þá sé nægur umþóttunartími til þess að athuga það, áður en til þess kæmi, og raunar sjálfsagt, ef sterkar ábendingar koma fram, að það verði athugað betur.

Mér virðist að tiltölulega góð samstaða sé um 2. gr. Hún er varðandi nýjar aðferðir við að vinna úr kosningum og við talningu í þeim hreppum þar sem óbundnar kosningar fara fram, þannig að ekki þurfi að boða til kjörfundar einhvern annan dag þar sem svo háttar til, að aðalmenn eru fyrst kosnir, síðan talin atkv. og varamannakosning fer svo fram síðar í ljósi þess hvernig úrslitin hafa orðið við kjör aðalmanna. Þetta er hægt að einfalda og koma því fyrir á einum kjörseðli. Um þetta hafa ekki orðið skiptar skoðanir í n., og í frv., sem fylgir þessu frv. og ég mæli fyrir síðar, sameinast um. án fyrirvara um að mæla með þeirri breytingu.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar að svo komnu máli. N. leggur til að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir.