10.04.1978
Neðri deild: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3262 í B-deild Alþingistíðinda. (2444)

145. mál, viðskiptabankar

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er nokkuð langt síðan frsm. og flm. þessa frv. flutti ræðu sína, en málið hefur nú rifjast upp við ræður tveggja síðustu hv. ræðumanna. Ég mun nota tækifærið og fara nokkrum orðum um þetta frv. almennt og gera síðan nokkrar aths. við ræður þeirra hv. alþm., sem látið hafa til sín heyra í málinu, og sjá hver niðurstaðan verður.

Þetta frv. mun vera alveg shlj. frv. sem flutt var á Alþ. vorið 1974, en þá var frv. flutt sem stjfrv. Nú er frv. flutt af hv. 2. þm. Austurl. Meginatriðin í þessu frv. eru þau, að í fyrsta lagi er rætt um það og raunar ákveðið í frv. að fækka viðskiptabönkum ríkisins úr þremur í tvo með sameiningu Búnaðar- og Útvegsbankans í einu banka. Þessi ráðstöfun er hugsuð sem fyrsta skrefið í áttina til fækkunar á hönkum og bankaútibúum og gerð til þess að hamla gegn óeðlilegri og kostnaðarsamri útþenslu í bankakerfinu, eins og það er orðað. Í öðru lagi beinist frv. að því að semja og setja eina samræmda heildarlöggjöf um viðskiptaþanka í stað margra og ósamræmdra laga sem nú gilda, og í þriðja lagi er gert ráð fyrir formlegu samstarfi á milli viðskiptabankanna, m. a. í þeim tilgangi að tryggja eðlilega verkaskiptingu þeirra í milli og koma í veg fyrir óeðlilega samkeppni.

Að sjálfsögðu er ýmislegt í slíku frv., sem hefur svo langan aðdraganda og byggir á svo ítarlegri rannsókn, sem hægt er að fallast á, m. a. það, að peninga- og lánastofnanir hérlendis séu nú orðnar fleiri en hagkvæmt geti talist, enda varð sú niðurstaða þeirrar bankamálanefndar sem athugaði þetta frv. og frá því gekk.

Hv. flm. ræddi um þetta frv. og þessi mál eins og þar gilti ekkert skipulag, þau þróuðust áfram eða héldu sína leið í algeru skipulagsleysi. Á þetta verður ekki fallist, a. m. k. ekki til fulls. Hv. alþm. vita að Alþ. ræður og ákveður hvort bönkum er fjölgað og Seðlabanki Íslands og ríkisstj. hafa það í hendi sér, hvar og hvenær bönkum er leyfilegt að stofna útibú eða afgreiðslustaði.

Ef vikið er sérstaklega að ræðu hv. 2. þm. Austurl., þó langt sé nú liðið síðan hún var flutt, þá vil ég nefna þessi atriði:

Hann komst að þeirri niðurstöðu, að allstór landssvæði væru greinilega afskipt og byggju við lélega bankaþjónustu. Á þetta verður fallist. Það er tvímælalaust, að bankaþjónustu er misskipt milli landsmanna. Nú er það svo t. d., að Búnaðarbankinn rekur 12 útibú utan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur og að sjálfsögðu hinir tveir viðskiptabankar ríkisins mörg víða um land. Þó er það svo, að ýmis landssvæði hafa ekki eðlilega þjónustu að þessu leyti. Hv. 2. þm, Austurl. taldi, að viðskiptabankarnir hefðu lagt mikla áherslu á að fjölga útibúum sínum og afgreiðslum, sérstaklega þar sem allmargir bankar væru fyrir. Þessu vil ég algerlega mótmæla hvað Búnaðarbankanum við kemur. Útibú Búnaðarbankans úti um land eru yfirleitt reist í samvinnu við heimamenn með sameiningu sparisjóða á viðkomandi stöðum við bankann. Hægt er að nefna fjöldamörg dæmi um þetta. Og oft hefur þróunin orðið sú, að sparisjóðsstjóri á viðkomandi stað hefur orðið útibússtjóri í því útibúi sem stofnað var með sameiningu eða samvinnu Búnaðarbankans og þess sparisjóðs, sem þar var fyrir. Það hefur verið stefna Búnaðarbankans að reisa alls ekki útibú til þess að keppa við aðra peningastofnun úti á landsbyggðinni. Ég get nefnt t. d. Borgarnes. Það er alveg víst, að hver ríkisbankinn sem væri mundi vera fús til þess að setja á stofn bankaútibú í Borgarnesi í samvinnu við sparisjóðinn. Þetta kom mjög til tals fyrir nokkrum árum og búið var að undirbúa það talsvert mikið, að Búnaðarbankinn reisti útibú í Borgarnesi til þess að þjóna þessu ágæta og stóra landbúnaðarhéraði. En þegar það kom jafnframt í ljós, að heimamenn vildu reka áfram eigin sparisjóð, þá hurfu ráðamenn Búnaðarbankans frá þessu algerlega, enda er það svo, að Sparisjóður Mýrasýslu er nú eina lánastofnunin sem aðsetur hefur í Borgarnesi og dafnar þar og blómgast með ágætum. Hins vegar hygg ég að ekki verði hið sama sagt um alla hina bankana að þessu leyti. Ég vil nefna eitt dæmi. Ég held að það sé rétt með farið, að á Norðfirði hafi starfað allgóður og blómlegur sparisjóður. En fyrir nokkrum árum reisti Landsbankinn útibú við hliðina á þeim sjóði og mér er ekki kunnugt um annað en þessar lánastofnanir starfi þarna báðar á sama stað.

Það er svo eitt, að ræðumenn hafa víkið að því, að það sé mikið skipulagsleysi í bankakerfinu og fyrir nokkrum árum hafi hafist mikið kapphlaup um stofnun útibúa. Ýmislegt er rétt í því, sem sagt hefur verið um það mál. En ég hygg þó, að ein skýring á því máli sé veigamikil. Hún er sú, að þegar byggðir landsins fóru að kenna máttar síns og þar fór að gæta framþróunar á síðustu áratugum fundu forráðamenn byggðarlaganna að þeir urðu að hafa aðgang að peningastofnun sem greitt gæti úr flestum málum þeirra. Það er eðlilegt. Nú á tímum er viðskiptabúskapur svokallaður rekinn um allt land. Við getum sagt að hver einasti bóndi, hver einasti útgerðarmaður, smár og stór, sé aðili sem þarf að hafa góð sambönd og þjónustu við einhverja bankastofnun. Á fyrri tímum — við skulum segja fyrir tveim áratugum — voru yfirleitt ekki til úti um landið, nema sparisjóðir, sem reistir voru margir hverjir á síðustu áratugum 19. aldar eða um svipað leyti og Landsbankinn hóf göngu sína. Það er hafið yfir allan vafa, að þessir sparisjóðir hafa víða um land unnið mjög þarft og þjóðnýtt starf. En þeir voru margir hverjir það smáir, að þeir fundu til vanmáttar síns og töldu sig ekki vera færa um að veita viðskiptamönnum sínum næga þjónustu, — þjónustu sem nútíminn útheimtir. Ég hygg að þetta sé veigamikil skýring á því, hvernig ýmis af bankaútibúunum hafa orðið til. Og ég þekki það frá ýmsum útibúum Búnaðarbankans, að gerður hefur verið stofnsamningur milli bankans og heimamanna. Víða í þeim stofnsamningum er það tilskilið, að ef samvinna við Búnaðarbankann reynist ekki vel, þá geti sparisjóðurinn aftur hafið göngu sína. Þetta sýnir, að menn úti um land hurfu margir með hálfgerðum trega frá fyrirkomulagi sparisjóðanna. En það var krafa tímanna sem knúði þá til þess að einbeita sér að nægilega sterkum lánastofnunum, svo að þeir þyrftu ekki að sækja hverja krónu til Reykjavíkur. Hitt er svo annað mál, sem ég hef stundum hugleitt, að það hefði getað orðið skemmtileg lausn á þessum málum, ef sparisjóðirnir hefðu fyrir mörgum árum fundið til samstöðu sinnar og stofnað öflugt sparisjóðasamband, myndað sterka sjóði, sem hefðu orðið nægilega stórir og færir um að veita hinum einstöku sjóðum það mikla fyrirgreiðslu, að þeir hefðu á þann hátt orðið megnugir þess að starfa áfram í heimahéruðum, nægilega sterkir til þess að veita íbúum héraðanna fullkomna þjónustu. En þessi hefur þróunin ekki orðið því miður ef til vill.

Hv. 2. þm. Austurl. gat þess að vísu í ræðu sinni, að það væri ekki aðalatriðið í sínum augum, að nákvæmlega væri farið inn á þá braut að sameina Útvegsbankann og Búnaðarbankann. Þessi stefna eða þessi stefnumörkun mun þó vera a. m. k. tvítekin í frv. eða grg. þess. Þá gat hann þess að það sérstaka hlutverk, að Búnaðarbankinn sé fyrst og fremst banki landbúnaðarins, sé nú löngu liðið hjá, hann sé þegar orðinn almennur viðskiptabanki. Þetta er alveg rétt. Búnaðarbankinn var upphaflega stofnaður fyrst og fremst til þess að styrkja landbúnaðinn og byggðir landsins, en hann er fyrir löngu orðinn það sterkur, að hann er farinn að veita almenna bankaþjónustu, ekki eingöngu hér í Reykjavík, heldur er það svo, þar sem útibú Búnaðarbankans hafa verið reist og rekin úti um land, að þar sinna þau öllum greinum atvinnulífsins, jafnt sjávarútvegi sem öðrum málefnum.

Ég get alveg fallist á að það sé röng stefna að efna til margra banka eða bankaútíbúa á sama svæði. Hv. flm. nefndi Höfn í Hornafirði sem dæmi. Ég get verið honum fyllilega sammála að það er hóflaus stefna og vitleysa jafnvel að reisa mörg bankaútibú á sama stað. En það er einmitt í samræmi við það, sem ég hef sagt hér að framan, og í samræmi við stefnu Búnaðarbankans að gæta fyllstu hófsemi í þessum efnum. Landsbyggðin krefst þess á hinn bóginn og nútímaviðskiptahættir, að í hverri byggð sé hæfilega sterk þjónustustofnun á þessu sviði sem veiti heimamönnum það góða fyrirgreiðslu að þeir þurfi ekki að vera í stöðugum ferðum til höfuðstaðarins til þess að gera reka að málum sínum.

Þá gat flm. þess, að hann vildi hvergi minnka eðlilega bankaþjónustu, og er það að sjálfsögðu rétt. Þegar hann leit yfir landið og ræddi um þau svæði sem þyrftu á aukinni þjónustu að halda, þá nefndi hann sem dæmi atvinnureksturinn á Snæfellsnesi, það væri óeðlilegt að hann hefði alla bankaþjónustu sína eða mestmegnis suður í Reykjavík. Ég hygg að þetta sé mælt af nokkurri vanþekkingu, verð ég að segja. Þetta hefur breyst mikið á síðustu árum. Í fyrsta lagi hefur Búnaðarbanki Íslands rekið útibú í Stykkishólmi síðan 1964 og það útibú sinnir sjávarútveginum, iðnaðinum, landbúnaðinum og öðrum atvinnugreinum sem þar eru reknar á staðnum. Á útnesinu var stofnað útibú frá Landsbanka Íslands 30. apríl 1976. Það útibú er í raun og veru tvískipt. Það er bæði í Ólafsvík og á Hellissandi. Ég hygg að þetta útibú veiti alla almenna þjónustu á sínu starfssvæði. A. m. k. vona ég það.

Þá vék hv. flm. að því, að Búnaðarbankinn hafi skotið sér undan að leysa mál á sviði landbúnaðar og á sviði annarra atvinnugreina sem landbúnaðurinn á allt sitt samtengt við, eins og mig minnir að hann orðaði það. Ég veit ekki, hvert hv. 2. þm. Austurl. hefur verið að fara í þessu tali, og ræði því ekki meira um það.

Ég mun svo víkja að næsta atriði, sem var það, að hann taldi að stofnlánadeild landbúnaðarins væri ekki og ætti ekki að vera neinu sérstakur hluti af Búnaðarbankanum. Ég held að forráðamenn Búnaðarbankans hafi alla tíð lítið svo á, að stofnlánadeild landhúnaðarins sé og hafi verið ein megindeild bankans, það sé því eðlilegt og nauðsynlegt og byggt á sögulegum forsendum, að hún sé áfram í fullum tengslum við Búnaðarbankann, enda er það svo með deildina og bankann, að þessir aðilar hafa styrkt hvor annan, eins og nefna mætti mörg dæmi um. Ég segi fyrir mig, að ég er eindregið þeirrar skoðunar, að stofnlánadeild landbúnaðarins eigi ekki að rjúfa úr tengslum við Búnaðarbankann.

Þá nefndi hann, að starfsfólk Búnaðarbankans væri andvígt þessari breytingu, og taldi ekkert sérstakt við það. Mér skildist á honum, að mótmæli frá starfsfólki væru tiltölulega léttvæg. En ég er þar á nokkuð annarri skoðun. Þar sem um er að ræða fjölmennan hóp af góðu starfsfólki, sem unnið hefur stofnuninni mjög vel á undanförnum árum, raunverulega byggt hana upp, þá tel ég síður en svo engu máli skipta hvað starfsfólkið segir. Þvert á móti tel ég að starfsfólk Búnaðarbankans sé yfirleitt það vel af guði gert, að stórkostlegur ávinningur sé að leita til þess um ýmis úrlausnarefni sem bankann varða og jafnvel heildarþróun í bankamálum landsmanna. Hitt er svo rétt, að allir geta auðvitað verið sammála um að draga úr yfirbyggingu bankakerfisins með fækkun banka, ef unnt er, og fækkun starfsmanna. Ég hygg að Búnaðarbankinn þoli mjög vel samanburð við aðra sambærilega banka hvað starfsmannafjölda áhrærir.

Loks vék ræðumaður að því, að ýmislegt annað þyrfti að athuga og skipuleggja betur, og nefndi sem dæmi vátryggingarstarfsemina, olíusöluna og dreifinguna, lífeyrissjóðina o. s. frv. Ég get verið honum fyllilega sammála um þetta, en get þó ekki stillt mig um að nefna eitt dæmi. Það er úr hinu svokallaða Ólafskveri, sem nefnt var á þeirri tíð, en er nú kannske farið að gulna — ég veit það ekki. En þar var tekið svo til orða, að eitt af hlutverkum þeirrar stjórnar skyldi verða að taka skipulag olíusölunnar til endurskoðunar með það fyrir augum sérstaklega, að sjávarútveginum væri tryggt hagstætt olíuverð. Ég hygg að þetta sé ein af fyrstu yfirlýsingunum úr þeirri stefnuskrá sem fleygt var fyrir borð á öndverðum ferli þess stjórnarsamstarfs — var harla lítið rætt um hana þegar á stjórnartímann leið.

Ég ætla að láta þessi orð nægja til hv. 2. þm. Austurl. Síðan ræddu tveir hv. alþm. um þetta mál áðan. Ég mun minnast aðeins lauslega á mál þeirra. Það voru hv. 4. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Reykn.

Hv. 4. þm. Reykv. vék að því, að hyggilegt væri að stuðla að fækkun viðskiptabanka ríkisins, og lagði talsvert mikla áherslu á, að stuðlað yrði að sameiningu Búnaðar- og Útvegsbankans. Ekki kvaðst hann þó viss um, að það mundi horfa til sparnaðar, en til betra skipulags, að því er mér skildist. Ég tel nú ekki ástæðu til að rekja mál hans mjög mikið. Hann virtist leggja áherslu á aukið eftirlit og endurskoðun. Við vitum að það er nauðsynlegt í löggjöf af þessu tagi. En þó eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að láta slíkt eftirlit ganga langt, því að endalaust er ekki hægt að ráða eftirlitsmenn til að hafa eftirlit með störfum annarra eftirlitsmanna o. s. frv. Einhvers staðar verður að nema staðar.

Hv. 4. þm. Reykn. ræddi hér í töluverðu máli um þetta efni, og minntist þar m. a. á, að mörkun heildarstefnu skorti. Hann talaði um að bankar ættu ekki að tengjast einstökum atvinnugreinum. Ég held nú satt að segja, að ég þurfi ekki að fara langt út í að gera aths. við mál hans, því að ég hef þegar í raun og veru svarað því, a. m. k. að nokkru leyti, í máli mínu hér á undan.

Það má nefna að því er varðar annan liðinn í stefnu þessa frv., að komið hefur fram frv. í hv. Ed. um viðskiptabanka í eigu ríkisins. Mætti margt um það segja. En það er ekki sérstaklega á dagskrá nú og mun því ekki verða vikið að því með mörgum orðum. Að sjálfsögðu er fjölmargt í áliti bankamálanefndarinnar svokölluðu, sem menn ern almennt sammála um. Ekki má láta þessi mál þróast óskipulega. Ég er sammála mönnum um það. Það verður að gæta hagkvæmni og sparnaðar.

Viðskiptabankarnir þrír í eigu ríkisins verða að gæta hófs í samkeppni hver við annan. Ég tel t. d. alveg fráleitt, eins og ég hef áður víkið að, að þeim sé leyft að setja upp útibú svo að segja hlið við hlið um allt land. En ráðh., ríkisstj. og Seðlabanki Íslands hafa alveg nægar heimildir í núgildandi lögum til að koma í veg fyrir slíkt og hafa heilbrigt skipulag í huga, þegar leyfi eru veitt fyrir nýjum bankaútibúum eða afgreiðslum. Ég er viss um að flestir hv. alþm. geta á sama veg tekið undir fjöldamargt, sem segir í þessari ítarlegu skýrslu, m. a. það sem vikið er að á bls. 16, með leyfi forseta, en þar segir:

„Í nútímaatvinnurekstri er góð bankaþjónusta frumskilyrði. Fyrirtækin verða sífellt stærri og stærri og til þess að hægt sé að veita stórum fyrirtækjum góða þjónustu þarf stærri banka. Sá tími er liðinn að hægt sé að miða rekstur banka við aðeins eina starfsgrein. Landbúnaður verður ekki rekinn nema í nánum tengslum við verslun og viðskipti, og víðast hvar hér á landi er sjávarútvegur eða iðnaður einnig nátengdur öðrum rekstri. Góður viðskiptabanki þarf því að sinna á alhliða hátt öllum atvinnurekstri sem nauðsynlegur er á því starfssvæði sem bankinn vinnur á.“

Það er svo, þó að hv. flm. þessa frv. vildi skýra álit bankamálanefndarinnar svokölluðu mjög á þann veg, að hún mælti svo til alfarið með sameiningu bankanna, þá verð ég þó að segja að þessi skýring er ekki einhlít. Segja má að þessi bankamálanefnd, sem að sjálfsögðu var skipuð hæfustu mönnum á þessu sviði, geri mikið að því að veita vöngum og bera saman valkosti án þess að kveða upp úr með alhliða og endanlegan dóm. Ég vil leyfa mér hér undir lok máls mín að benda á eitt atriði úr skýrslu hennar, með leyfi forseta. Þar segir svo:

„Þótt nefndin sé þeirrar skoðunar, að stefna beri að verulegum samruna innan bankakerfisins og fækkun stofnana, vill hún eindregið vara við því, að þeirri stefnu verði framfylgt án tillits til þeirra sögulegu og félagslegu sjónarmiða, sem mótað hafa þróun þessara mála hingað til. Það kerfi fjármálastofnana, sem Íslendingar eiga nú við að búa, á að vísu að nokkru rætur að rekja til þjóðfélagshátta sem nú eru að hverfa, en að mestu er það þó mótað af félagslegum og stjórnmálalegum viðhorfum sem enn eru rík með þjóðinni. Má t. d. nefna, að þrír nýir hlutafélagsbankar voru stofnaðir á undanförnum áratugum með samþykki allra flokka á Alþingi.“

Ég ætla að stofnun þessara nýju hlutafélagsbanka hafi verið gerð með samþykki allra flokka og mótatkvæðalaust, ef ég man rétt, á hv. Alþingi.

Tvímælalaust kemur því fram í áliti bankamálanefndarinnar, að nefndinni var ljóst að samruni bankastofnana og einföldun fjármálakerfisins er stefna sem framkvæma verður með fullri gát og á hæfilega löngum tíma. Hins vegar getur náttúrlega ekki nokkur maður amast við því, að þessi mál séu skoðuð mjög rækilega og reynt að vinna þar allt sem horfir til sparnaðar og bættra skipulagshátta. Sú stefna er rétt að mínum dómi að reyna að bæta bankaþjónustuna og gera hana virkari um allt land, og góðu skipulagi þarf að koma á þessi mál. Það á ekki að stefna ríkisbönkunum til höfuðs sparisjóðunum, sem mjög víða hafa leyst merkilegt hlutverk af hendi með ágætum og gera enn, eins og ég vék að áðan. En þar sem óskað er eftir samvinnu af hálfu heimamanna er sjálfsagt að athuga þessi mál af hálfu bankanna.

Um þessi efni mætti að sjálfsögðu ræða miklu meira og miklu nánar. En ég mun láta þessar aths. nægja að sinni.