11.04.1978
Sameinað þing: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3295 í B-deild Alþingistíðinda. (2459)

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu, sem hann hefur lagt fram fyrir alllöngu og hefur nú flutt, skýrslu um utanríkismál. Það er óneitanlega mikil bót að því frá því sem áður var að fá slíka skýrslu árvissa. Vona ég að þar sem slík skýrslugerð hefur nú átt sér stað í 10 ár sé komin sú hefð á, að enginn utanrrh. í framtíðinni láti sér til hugar koma að fella þessa venju niður. Það má að vísu vel staðfesta þessa reglu með ákvæði í þingsköpum, t. a. m. þegar þau verða endurskoðuð næst. Ég hef áður flutt um það till., sem að vísu hafa ekki náð fram að ganga. En það er e. t. v. ekki aðalatriðið að festa slíkt í þingsköpum, þegar hefðin er komin á, og ég vona að engum detti í hug að rifta því sem nú er á komið, því það er vissulega full ástæða til að gefa sér a. m. k. einn dag eða svo á hverju þingi til þess að ræða þessi mikilvægu mál sem utanríkismálin óneitanlega eru.

Á síðasta ári var tekin upp sú nýbreytni, að auk skýrslu hæstv. utanrrh. um utanríkismálin almennt var lögð fram og flutt skýrsla af hálfu þingfulltrúa eða sendinefndar okkar í Norðurlandaráði og í tengslum við það. Það var hv. 5. þm. Reykv., þáv. form. nefndar okkar í Norðurlandaráði, sem flutti þá skýrslu. Það var gert þá í fyrsta sinn. Ég tel einnig að það sé góð regla að slík skýrsla sé flutt árlega, og ég vænti þess, að þó að hún sé ekki enn komin fram, þá komi slík skýrsla fram fyrir þinglok og fáist rædd, því ég tel að full ástæða sé til þess einnig að gefa sér nokkurt tóm til þess að fjalla um málefni Norðurlandaráðs og hina margvíslegu Norðurlandasamvinnu sem um er að ræða í tengslum við það.

Áður en ég vík að einstökum atriðum þeirrar skýrslu sem hæstv. utanrrh. hefur nú flutt vil ég segja það, að samstarf hans við utanrmn. hefur nú eins og jafnan áður verið hið besta. Tel ég þetta einkar lofsvert og það hversu mikið far hæstv. ráðh. hefur gert sér um að hafa samráð við n. Lög gera að vísu ráð fyrir því, að utanrrh. hafi slíkt samráð, en það var nú svo., að löngum vildi verða misbrestur á þessu, að því ákvæði væri framfylgt. En ég tel að ekkert hafi upp á hæstv. utanrrh. staðið í sambandi við þetta.

Skýrsla hæstv. ráðh., sú sem er nú til umr., er mjög greinargóð um flesta eða alla þá þætti utanríkismála sem segja má að snerti bein samskipti Íslands við önnur ríki og þátttöku okkar í starfi alþjóðastofnana ýmiss konar. Þar er og í fæstum tilvikum um bein ágreiningsefni að ræða hér innanlands, að ég hygg. En að meginundantekningunni frá því mun ég víkja síðar í máli mínu.

Ég tel á hinn bóginn að í slíkri skýrslu um utanríkismál, eins og þeirri sem hér um ræðir, þurfi það að vera veigamikill þáttur að fjalla um og leggja helst sem sjálfstæðast mat á þróunina í alþjóðamálum, leitast við af hálfu utanrrh. að meta það, hvert stefni í þeim efnum. Alveg sérstaklega á þetta við um öll þau atriði sem varða það valdatafl sem stöðugt á sér stað milli stórvelda og ríkjahópa, þar eð þau mál öll hafa eða geta haft bein áhrif á viðhorf manna hér á landi til mikilvægra þátta utanríkismála, svo sem til dvalar herliðs og tilvistar herstöðva í landinu, svo sem til kröfugerðar um aukin umsvif hersins hér á landi og gjaldtöku fyrir aðstöðu herliðsins á íslensku landssvæði, svo að nokkuð sé nefnt. En það hlýtur einnig að teljast næsta mikilsvert, að við Íslendingar ræðum um og reynum að átta okkur frá degi til dags, eða a. m. k. frá ári til árs, á þeim meginbreytingum sem orðið hafa eða eru að verða í samskiptum ríkja, enda þótt þær breytingar hafi e. t. v. ekki í svip bein áhrif hér eða auðsæja þýðingu að svo komnu máli. Sem dæmi má taka, að full ástæða er að minni hyggju fyrir okkur Íslendinga að reyna að gera okkur grein fyrir þeirri stórfelldu breytingu sem í því felst nú þegar, og kann þó að gæta enn meir á komandi árum, að í stað valdatafls tveggja risavelda, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, er þriðja nútímastórveldið stöðugt að auka áhrifamátt sinn, Kína. Ég sakna þess, að um þessar meginlínur alþjóðastjórnmála er næsta lítið fjallað beinlínis í skýrslunni. Þar er ekki gerð veruleg tilraun til að brjóta þessi mál til mergjar, eins og ég tel þó að mjög æskilegt hefði verið að gera. Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir þann stjórnarflokkinn, Framsfl., sem hefur það á stefnuskrá sinni að hér eigi ekki að vera her á friðartímum, að lagt sé mat á það t. a. m. hvort nú megi frá sjónarmiði vopnlauss ríkis í Norður-Evrópu teljast friðartímar eða ekki.

Fyrir fáeinum kvöldum heyrði ég ritara Framsfl., hv. 2. þm. Vestf., Steingrím Hermannsson, svara þeirri spurningu í útvarpsviðtali býsna afdráttarlaust á þá lund, að hann teldi að nú væru friðartímar og sem betur færi ekki yfirvofandi háski af stórveldastyrjöld. Hæstv. utanrrh. fjallar ekki um þetta atriði sérstaklega eða með berum orðum í skýrslu sinni. Hins vegar hefur margt bent til þess, að hann væri svipaðrar skoðunar og ritari Framsfl. í þessu efni, ekki síst það, að hann hefur við ýmis tækifæri sagt, að sú skoðun sín og flokks síns frá tímum vinstri stjórnarinnar, að herinn eigi að fara héðan í áföngum, væri í rauninni algjörlega óbreytt, það sé einungis vegna þess að Framsfl. er í stjórnarsamstarfi við Sjálfstfl., sem hefur aðra stefnu í þessum málum, það sé einungis þess vegna, hefur manni skilist, að þessi stefna Framsfl., sem hann fylgdi á vinstristjórnarárunum og segist fylgja enn, er ekki framkvæmd. Það er þess vegna sem hæstv. utanrrh. hefur því miður og lætur enn hafa sig til þess að framkvæma öfuga stefnu, stefnu sem ég sé ekki betur en að miði að því að festa þennan her í sessi, gera honum fært að búa um sig hér til frambúðar.

Ég sé ástæðu til að fjalla nokkru nánar um þessa stefnu hæstv. ríkisstj., stefnuna í sambandi við herstöðina, eins og hún hefur sýnt sig í framkvæmd síðustu 4 ár. Ber margt til að ég sé ástæðu til að segja eitt og annað um þetta efni, þ. á m. sú staðreynd að vaxandi umsvif hersins og aukin vinna á hans vegum ógnar nú öllu því sem ég kalla eðlilegt atvinnulíf á Suðurnesjum, þ. e. a. s. hinu innlenda atvinnulífi þar, og gerir fólkið, sem þar býr, með hverju ári háðara þeirri atvinnu sem til fellur hjá hernum eða í tengslum við herinn. Þetta er óneitanlega ískyggileg þróun og er vert að veita henni fulla athygli.

Allt frá því að Keflavíkurflugvöllur var gerður á styrjaldarárunum síðari hafa margir Íslendingar starfað þar, ýmist á vellinum sjálfum eða í tengslum við þann her sem þar hefur dvalið lengst af þennan tíma. Einna fæstir Íslendingar voru þar að störfum árin 1947–1951. Í árslok 1950, áður en herinn kom öðru sinni, unnu um 370 Íslendingar störf á vellinum og munu þá hafa orðið einna fæstir. Eftir að bandarískur her tók hér land vorið 1951 voru framkvæmdir fyrst í stað í höndum bandarískra fyrirtækja, en strax þá um sumarið var stofnað íslenskt fyrirtæki, Sameinaðir verktakar, og þessu fyrirtæki að nokkru þá þegar, en þó einkum á næstu árum, tryggð framkvæmd flestra þeirra verka á vegum hersins sem fyrirtækið hafði bolmagn til að annast. Fleiri en þeir, sem að þessu fyrirtæki stóðu í upphafi, vildu brátt fá hlutdeild í hinni nýju gróðalind, sem þarna spratt fram, svo tær sem hún var. Það varð til þess, að á samstjórnartíma Sjálfstfl. og Framsfl. árið 1954 var stofnað nýtt fyrirtæki, Íslenskir aðalverktakar, með 50% eignaraðild Sameinaðra verktaka, 25% eignaraðild hlutafélagsins Regins og 25% eignaraðild íslenska ríkisins. Þetta félag fékk síðan svipaða einokunaraðstöðu og Sameinaðir verktakar höfðu haft. Nokkru síðar varð að vísu til fyrirtækið Keflavíkurverktakar og hefur það alla stund síðan haft nokkur umsvif á vellinum, svo sem fimmtung eða sjöttung á við stóra bróður, Íslenska aðalverktaka. Til mun einnig fyrirtæki, sem heitir Suðurnesjaverktakar. Ekki mun það mjög umsvifamikið.

Á árabilinu 1951–1974 unnu að meðaltali um 1200 manns á ári á vegum hersins, að því er skýrslur herma. Lengi var hlutdeild Suðurnesjamanna í þeim störfum um og innan við 50%.

Í ágústmánuði 1951 voru, eins og ég sagði áður, aðeins rúmlega 300 Íslendingar við störf á Keflavíkurflugveili. Síðan fór þeim fjölgandi og hámarki mun hafa verið náð í septembermánuði 1953, en þá unnu þar 3060 Íslendingar. Árið 1954 hafði þeim fækkað niður í 2330, voru tæplega 1900 árið 1955, um 1500 árið 1956, en árið 1957 var talan komin niður fyrir 1000, niður í milli 900 og 1000. Á árunum 1958–1974 mun þessi tala Íslendinga, sem unnu á vellinum eða í tengslum við herinn, hafa verið nokkuð jöfn, á bilinu frá 1000 til 1200 manns. En með samkomulagi því, sem gert var af núv. hæstv. ríkisstj. haustið 1974 vestur í Washington, einu af fyrstu verkum hæstv. núv. utanrrh. í þjónustu þeirrar ríkisstj. sem nú situr, verður hér á allmikil breyting og að líkindum meiri breyting en menn hafa almennt gert sér grein fyrir. Samið var um nokkra fækkun bandarískra starfsmanna eða hermanna á Keflavíkurflugvelli og skyldu Íslendingar koma í þeirra stað og vinna þau störf sem þeir höfðu áður leyst af hendi. Það var og í þessu samkomulagi gert ráð fyrir því, að reistar yrðu innan flugvallargirðingar íbúðir fyrir flesta eða alla þá Bandaríkjamenn og fjölskyldur þeirra sem þá voru í leiguhúsnæði í kaupstöðum og byggðum utan vallarins. Loks var gert ráð fyrir verulegum breytingum og umbótum á vellinum sjálfum, bæði til aukins öryggis og meiri nothæfi, en einnig og ekki síður í því skyni að aðskilja sem mest almenna flugstarfsemi frá starfsemi Bandaríkjahers.

Enda þótt segja mætti og segja megi að sumar þessara ráðstafana horfi til bóta frá því sem áður var, fylgdu þeim óneitanlega ýmsar neikvæðar hliðar. Lakast var að öll þessi umsvif horfa í þá átt, að hinn erlendi her virðist vera að búa um sig á Keflavíkurflugvelli til frambúðar með ljúfu samþykki íslenskra ráðamanna. Jafnframt hlutu hin nýju verkefni, sem Íslendingum voru ætluð, svo og stórauknar framkvæmdir innan vallarins, að hafa í för með sér ákveðna hættu fyrir hið almenna atvinnulíf á Suðurnesjum. Þar var ekki einungis um það að ræða, að samkeppni um vinnuaflið hlaut að verða erfið sjávarútvegi og öðrum hefðbundnum atvinnurekstri á svæðinu. Hitt hlaut að verða og hlýtur að verða hugsandi mönnum áhyggjuefni, að svo framandi og óstöðugur atvinnurekstur, sem vinna í þágu erlends herliðs hlýtur að teljast, skyldi í sívaxandi mæli verða hlutskipti Suðurnesjamanna. Þegar slíkt gerist jafnhliða því að stórlega hallar undan fæti hjá aðalatvinnuvegi Suðurnesjamanna um aldir og fram á þennan dag, sjávarútvegi, þá er augljóst hvert stefnir. Byggðirnar á þessu svæði verða æ háðari þeirri atvinnu, sem fáanleg er á Keflavíkurflugvelli. Þetta er óæskileg þróun, þetta er háskaleg þróun, og ég hygg að hún hljóti að teljast það jafnt frá sjónarmiði okkar, sem teljum, eins og ég og mínir samflokksmenn, að erlendur her eigi að hverfa héðan með umsvif sín hið fyrsta, sem og hinna, sem telja að nauðsynlegt sé eða eðlilegt að hann verði hér enn um sinn.

Ég hef aflað mér nokkurra upplýsinga hjá varnarmáladeild utanrrn. sem sýna atvinnuþróunina á Keflavíkurflugvelli þessi allra síðustu ár. Tölur þær, sem ég nefni hér á eftir, eru annars vegar meðaltöl síðustu tveggja ára og hins vegar meðaltöl áranna 1970–1974.

Hjá Bandaríkjaher beint vinna nú 1000–1100 Íslendingar í stað um 700 áður. Hjá Íslenskum aðalverktökum og Keflavíkurverktökum vinna að jafnaði 600–700 manns, en voru 350–400 áður. Hjá ýmsum öðrum þjónustufyrirtækjum vinna þarna um 300 manns, en voru áður um 200. Alls vinna því um 2000 Íslendingar í þjónustu hersins og hefur fjölgað um 700 manns eða þar um bil eftir að samkomulagið var gert haustið 1974. Hér eru ekki taldir með þeir Íslendingar sem inna af höndum ýmis afgreiðslu- og þjónustustörf utan og innan vallar jöfnum höndum í þágu herliðsins og íslenskra aðila, aðallega þó utan vallar.

Auk þessarar miklu fjölgunar íslensks starfsliðs á vellinum hefur smám saman orðið sú breyting, að Suðurnesjamönnum hefur fjölgað þar hlutfallslega, en starfsmönnum af Reykjavíkursvæði og annars staðar að fækkað að sama skapi. Er talið að um 70% þeirra Íslendinga, sem nú vinna á vegum hersins og í þágu hans, séu Suðurnesjamenn, en um 30% annars staðar að, aðallega af Reykjavíkursvæðinu. Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið frá varnarmáladeild, eru miklar framkvæmdir fyrirhugaðar á Keflavíkurflugvelli á þessu og næsta ári. Íbúðabyggingar á vellinum munu halda áfram í ár, en gert er ráð fyrir að þeim ljúki að mestu undir árslok. Þá eru fyrirhugaðar á þessu og næsta ári miklar og mannfrekar breytingar og endurbætur á flugvellinum sjálfum og búnaði hans. Til fróðleiks spurðist ég fyrir um fjölda Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli og í nágrenni hans nú. Mér var tjáð að þar væru nú tæplega 3000 hermenn og bandarískir starfsmenn hersins og að auki konur ýmissa þeirra og börn, um 2000 manns. Alls eru það því um 5000 Bandaríkjamenn sem dveljast á Suðurnesjum um þessar mundir.

Það er vissulega dapurleg staðreynd, eins og ég sagði áðan, að á sama tíma og sjávarútvegur á Suðurnesjum og allur atvinnurekstur í tengslum við hann er í lamasessi og þar er ýmist þegar komin stöðvun hjá ákveðnum fyrirtækjum eða liggur við stöðvun, þá eru það Íslenskir aðalverktakar sem græða svo að um munar og auka veltu sína stórlega. En því miður er það segin saga, að í hvert skipti sem á bjátar í íslensku atvinnulífi hvort sem þar er heimafenginni óstjórn um að kenna eða utan að komandi ástæðum eða hvort tveggja, þá fjölgar þeim röddum og þær gerast næsta háværar sem krefjast auðveldra lausna, sem heimta t. a. m. aukna peninga frá hernum, heimta ný stóriðjufyrirtæki eða annað af því tagi. Það er alkunna, að sú krafa hefur átt miklu og vaxandi fylgi að fagna innan stjórnarflokkanna, og þá alveg sérstaklega innan Sjálfstfl., að heimta beri riflegt gjald af Bandaríkjastjórn fyrir afnot lands undir herstöðina á Miðnesheiði Þessi kenning fékk mikinn byr undir vængi þegar Josep Luns, framkvæmdastjóri NATO, nefndi svimháar upphæðir sem þeim félagsskap spöruðust vegna aðstöðunnar sem hann hafði hér, miðað við að skipa málum á aðra lund. Í stað beinharðra peninga hafa hinir sléttmálli menn, t. a. m. í röðum Sjálfstfl., rætt um framlag Bandaríkjamanna til lagningar varanlegs vegakerfis og fleiri slíkra framkvæmda, jafnvel flugvalla og hafnarmannvirkja.

Fram hefur komið, að hæstv. ríkisstj. muni klofin í afstöðu til hugmynda eins og þeirra sem ég hef nú rakið stuttlega. Ljóst er þó, að innan stærri stjórnarflokksins á þessi gjaldtökustefna, aronskan svonefnda, sem þannig er kölluð, aronskan í einhverri mynd, miklu fylgi að fagna. Í skoðanakönnun í sambandi við prófkjör flokksins til alþingiskosninga í Reykjavík varð sú afstaða að krefjast aukins fjár af herliðinu afar sigursæl, eins og alkunnugt er. Undirrót þess, að þessi gjaldtökustefna á ískyggilega miklu fylgi að fagna innan Sjálfstfl. og því miður að því er virðist víðar, er án efa m. a. aukinn skilningur á gildisleysi hersins og gildisleysi NATO-aðildar fyrir Ísland og okkur Íslendinga. Síðasta þorskastríð ekki síst opnaði augu margra fyrir þeirri staðreynd, að Bandaríkjaher er hér ekki í okkar þágu, heldur í þágu Bandaríkjanna sjálfra. Þessi síðbúni skilningur ýmissa ágætra borgara á því, að um þetta mikilvæga atriði hefðum við Alþb.-menn og aðrir herstöðvaandstæðingar í rauninni frá upphafi haft lög að mæla, hefur síðan komið fram í ýmsum myndum, sumum að vísu óneitanlega dálítið kyndugum. Þeir menn eru allt of fáir því miður, sem draga af þessum staðreyndum þá algerlega rökréttu ályktun, að úr því að her sé ekki hér í okkar þágu, þá eigi hann að fara. Að vísu hygg ég að þeim mönnum fari fjölgandi sem þetta sjá. En viðbrögð allt of margra hafa orðið þau, að þeir segja: Úr því að herinn er hér í þágu annarra en okkar, þá skulum við láta þá aðila borga fyrir sig og það svo að um munar. — Þegar þessar kenningar eru fluttar á tímum vaxandi óvissu og jafnvel háskaástands í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar er sérstök hætta á að þær fái hljómgrunn, eins og dæmin sanna.

Hér er vissulega mikið alvörumál á ferð og ber nauðsyn til að snúast gegn öllum kenningum af þessu tagi af mikilli alvöru og mikilli hörku. Hvað sem liður mismunandi mati á gildi eða gildisleysi NATO-aðildar, gildi eða gildisleysi hersetu í landinu, þurfa allir ábyrgir menn að gera sér ljósan háskann af þessum gjaldtökukenningum, í hvaða mynd sem þær eru. Það liggur í augum uppi, að stórauknar tekjur af dvöl erlends herliðs í landinu frá því sem nú er verða til þess að gera okkur æ háðari þeirri göróttu auðsuppsprettu sem þar um ræðir. Það er þess vegna alvörumál þegar það samkomulag, sem hæstv. núv. ríkisstj. gerði haustið 1974 um verulega fjölgun Íslendinga sem starfa hjá herliðinu og í þágu verktaka í þjónustu þess, hefur það í för með sér að Suðurnesjamenn verða æ háðari þessari atvinnu. Er það út af fyrir sig nógu alvarlegt mál, þó að ekki bætist við að aronskunni vaxi sá fiskur um hrygg að tekin verði stóraukin gjöld fyrir þessa aðstöðu, eins og margir krefjast.

Þeir menn eru — sem betur fer — til í öllum flokkum, einnig innan Sjálfstfl., sem sjá hver háski þjóðinni er búinn ef þessi landsölustefna hrósar verulegum og varanlegum sigri. Ég tel að þetta mál sé svo stórt, að hver rödd úr herbúðum stjórnarflokkanna, sem af alvöru og í einlægni andmælir þessari stefnu, sé sérstakt fagnaðarefni. Einn af fulltrúum Sjálfstfl. í utanrmn. Alþ., hv. 6. landsk. þm., Guðmundur H. Garðarsson, skrifaði um síðustu áramót athyglisverða grein í Morgunblaðið, þar sem h ann varaði mjög alvarlega við þeirri hættu sem búin er hverri þjóð sem sækist eftir að lifa á fjármunum af borði stórvelda fyrir landleigu eða aðstöðu af svipuðu tagi. Þessi grein þótti mér sýna að til eru þó örfáir menn innan Sjálfstfl. sem hafa áhyggjur af háværri kröfugerð þess efnis að taka beri í einu eða öðru formi stórar fjárfúlgur fyrir aðstöðu Bandaríkjahers hér á landi. Komst hv. þm. að þeirri niðurstöðu, að tímabært færi að verða að vega það og meta, hvort hættan af landsölustefnunni væri ekki meiri en sá háski sem okkur kynni að stafa af útþenslustefnu rússneskra ráðamanna. Þetta eru athyglisverð orð af munni stjórnmálamanns sem hefur verið og er einlægur talsmaður NATO-aðildar okkar Íslendinga og hefur jafnan lagt á það áherslu, að bandarískur her þurfi að vera hér enn um sinn a. m. k., e. t. v. af illri nauðsyn. Og svo mikið er víst, að síst verður þessi hv. þm. vændur um að hann sé eitthvert handbendi Rússa eða fylgifiskur þeirra. Hann hefur þvert á móti verið flestum þm. ötulli við að benda á hættu sem hann hefur talið stafa af rússneskum valdhöfum og hugmyndafræði þeirra. Þeim mun athyglisverðari eru varnaðarorð hans um þann háska, sem einna mestur getur steðjað að smáþjóð þann að láta sjálfstæði sitt og sæmd falt fyrir fjármuni. Ályktunarorð hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar í þessari athyglisverðu grein voru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Það stendur yfirleitt ekki á stórveldunum að kaupa sér aðstöðu sé hún föl. Vandinn fyrir smáríki í samskiptum við hina stóru er fólginn í því að halda reisn sinni og sjálfstæði og selja ekki frumburðarréttinn, land sitt og sjálfsforræði.“

Þetta er vel mælt. Hér eru mikilvæg sannindi sögð umbúðalaust. Þau sannindi þurfa sem allra flestir Íslendingar að festa sér í minni og lífa samkv. þeim.

Ég vék að því áðan, að í skýrslu um utanríkismál og umr. um hana væri æskilegt og raunar nauðsynlegt að fjalla um meginlínur alþjóðastjórnmála, gefa gaum að þeirri þróun, sem þar á sér stað, og endurskoða fyrri afstöðu ef tilefni þykir til. Ég held að við Íslendingar séum e. t. v. hræddari við slíkt endurmat en ástæða er til. Einkum þykja mér kenningar áhrifamanna í Sjálfstfl. og Alþfl. vera vottur þess, að þær kenningar, sem enn er haldið fram í sambandi við dvöl hers í landinu, séu orðnar til á tímum kalda stríðsins og þær hafa breyst ákaflega lítið alla stund síðan. Það kveður jafnvel svo rammt að þessu, að í afstöðunni til utanríkisstefnu Bandaríkjanna eru íslenskir menn oft og tíðum kaþólskari en páfinn. Skal ég nefna dæmi.

Það hefur naumast farið fram hjá neinum, að Carter Bandaríkjaforseti hefur við ýmis tækifæri gagnrýnt fyrri stefnu Bandaríkjamanna í utanríkismálum, oft að vísu — og skiljanleg — með varkáru orðalagi, en stöku sinnum þó á býsna opinskáan hátt. E. t. v. má segja, að enn sem komið er sitji að töluverðu leyti við orðin ein hjá forsetanum, og þó er það ekki alfarið. En hvort sem utanríkismálastefna Bandaríkjanna verður í reynd lítið breytt næstu árin undir forustu Carters forseta eða tekur nokkrum stakkaskiptum, þá eru margvísleg ummæli forsetans vottur þess, að hann gerir sér a. m. k. grein fyrir óvinsældum þeirrar stefnu sem fyrirrennarar hans hafa fylgt — óvinsældum jafnt meðal Bandaríkjamanna sjálfra sem víða erlendis.

Carter Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir stuðningi við Atlantshafsbandalagið, en jafnhliða hefur hann lagt áherslu á tvennt: alþjóðlegt samstarf utan Atlantshafsbandalagsins og nauðsyn þess að breyta ásýnd þess bandalags og áróðursaðferðum þess. Hann sagði m. a. í ræðu s. l. sumar, og talaði þá að sjálfsögðu til sinnar þjóðar, Bandaríkjamanna: „Við erum nú lausir við hinn óhóflega ótta við heimskommúnismann, sem kom okkur til að faðma hvern þann einræðisherra sem deildi þessum ótta með okkur.“ Nefndi forsetinn Víetnamstyrjöldina sem gleggsta dæmi þess, hversu fráleit utanríkisstefna Bandaríkjanna hefði verið á undanförnum áratugum.

Þessi og önnur hliðstæð ummæli Carters Bandaríkjaforseta eru ekki aðeins hörð gagnrýni á þá stefnu sem fyrri forsetar og fyrri ríkisstjórnir þar í landi hafa fylgt. Þau eru ekki síður alvarleg áminning og umhugsunarefni öllum þeim í öðrum löndum og öðrum heimsálfum sem mænt hafa á Bandaríkjastjórn — bæði fyrr og síðar — sem átrúnaðargoð og fylgt henni í blindni. Þessi gagnrýni hittir m. a. þá menn íslenska sem ákafast hafa barist fyrir því, að Íslendingar styddu hina bandarísku utanríkisstefnu og hlýddu skilyrðislítið öllum kröfum sem þaðan hafa komið um aðstöðu og áhrif. Nú er ljóst að þeir Íslendingar, sem enn í dag verja jafnt gamlar sem nýjar skyssur bandarískrar utanríkisstefnu og prédika hvað mest undirlægjuhátt gagnvart þessari voldugu þjóð, eru kaþólskari en sjálfur páfinn, eins og ég áðan sagði. Hvenær hafa þeir menn talað um úrelt traust á NATO, eins og Carter gerði? Hvenær hafa þeir gagnrýnt Atlantshafsbandalagið fyrir einstrengingslegan andkommúnisma? Hafa þeir nokkru sinni gagnrýnt Bandaríkjastjórn fyrir að faðma einræðisherra? Ég held að það sé tími til kominn fyrir fleiri en Bandaríkjaforseta að endurskoða stefnu og starfsaðferðir. Það á í ríkum mæli við um þá menn sem bera ábyrgð á íslenskri utanríkisstefnu. Vonandi treysta þeir sér til að taka Jimmy Carter Bandaríkjaforseta að þessu leyti til fyrirmyndar.

Ég mun þessu næst víkja stuttlega að þeim kafla í skýrsin hæstv. utanrrh., sem fjallar um aðstoð Íslands við þróunarlöndin. Þar er réttilega frá því greint, að um næstsíðustu áramót hætti Ísland að þiggja framlög frá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, eins og viðgengist hafði um hríð okkur til mikillar vansæmdar. Var það vissulega þarft verk og lofsvert, að við skyldum loksins sjá sóma okkar í því að hætta að ásælast fé úr þessum sjóði.

Hæstv. utanrrh. greindi frá því í ræðu sinni og skýrslu, að framlög íslenska ríkisins í heild til aðstoðar við þróunarlönd hafi numið rúmum 200 millj. kr. eða nokkuð innan við 0.07% af þjóðarframleiðslu á síðasta ári, þ. e. a. s. þau hafi verið tæplega 7 af 1000. Hér er þó að langmestum hluta um að ræða skylduframlög til þeirra sjóða og þeirra stofnana Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að. En heildarfjárveitingin til hinnar frjálsu eða beinu þróunaraðstoðar var aðeins 25 millj. íslenskra kr. á síðasta ári, en er 40 millj. á fjárlögum þessa árs. Enda þótt hér sé um hækkun að ræða í íslenskum krónum talið er hún sáralítil að raungildi því miður. Hér þarf því vissulega að gera stórum betur en gert hefur verið, og okkur Íslendingum er alveg vorkunnarlaust að gera það.

Meðan framlag okkar til allrar þróunaraðstoðar er innan við 7 af 1000 í þjóðarframleiðslu er það ekki 1/10 hluti þess sem að er stefnt, bæði samkv. samþykktum Sameinuðu þjóðanna og einnig samkv. þeirri íslenskri löggjöf sem sett var fyrir nokkrum árum um þróunaraðstoð. Tvær Norðurlandaþjóðir, Svíar og Norðmenn, munu þegar hafa náð þessu marki, þ. e. a. s. að verja 0.7% þjóðarframleiðslu til þróunaraðstoðar. Framlag Norðmanna á þessu ári mun vera hvorki meira né minna en um 70 milljarða ísl. kr. Fleiri þjóðir nálgast þetta mark með ári hverju. Ég held að segja megi að það sé siðferðileg skylda okkar Íslendinga, hvernig sem á málið er lítið, að gera hér verulega bragarbót á næstu árum. Ég er ekki að vanmeta það sem þegar hefur verið gert — síðustu tvö árin — og bætir örlítið úr skák. En það vil ég segja og leggja á það áherslu, að þrátt fyrir ýmiss konar barlóm erum við svo vel efnum búin þjóð að við höfum vissulega efni á að leggja nokkuð af mörkum til að draga úr hungurdauða meðal fátækra þjóða og styðja þær til sjálfshjálpar. Það er okkur til mikillar niðurlægingar að hafa verið jafnkærulausir og raun ber vitni í þessu máli.

Við Íslendingar erum um þessar mundir að reyna að selja íslenskar landbúnaðarafurðir til ríkra þjóða — þjóða sem hvergi nærri torga þeim kynstrum af matvælum sem þar eru á boðstólum. Og til þess að fá ríku þjóðirnar til að kaupa þessar afurðir okkar verðum við að greiða þær niður svo að stórfé nemur. Er ekki vert að kanna það, hvort ekki sé hægt — í sumum tilvikum a. m. k. — að hætta þessum niðurgreiðslum til auðugra þjóða, en nota fjármagnið, sem þannig sparaðist, til þess að afla sveltandi fólki hollrar, íslenskrar fæðu? Mér þykir líklegt, að varðandi landbúnaðarvörur komi þetta einkum til greina að því er tekur til mjólkurvara, þ. e. að framleitt verði nýmjólkurduft sem hægt er að flytja hvert á land sem er. Er í rauninni nokkuð því til fyrirstöðu, að í stað þess að framleiða osta til útflutnings og greiða ríku og feitu fólki í Evrópu og Ameríku stórfé fyrir að éta þessa osta, kaupi ríkið þá umframframleiðslu mjólkur og mjólkurafurða og komi síðan mjólkurduftinu til þeirra þjóða sem raunverulega þurfa slíkra matvæla með? Með þessum hætti hyrfi af fjárlögum styrkur eða einhver hluti af styrk til handa hinum efnuðu og söddu, en í staðinn kæmi samsvarandi upphæð til handa fátækum og sveltandi þjóðum — og helst hærri. Fleiri næringarrík íslensk matvæll koma vissulega til greina í þessu sambandi og þá ekki síst fiskmeti. Út í þá sálma skal ég þó ekki fara nánar að þessu sinni, en hitt er vafalaust, þó að á þetta sé bent sem möguleika, að mest er um það vert, þegar til lengdar lætur, að fólkið í þróunarlöndunum fái aðstoð til sjálfsbjargar, að því verði gert fært að nýta auðlindir landa sinna og sjávarins í eigin þágu. Að því beinist sú umfangsmikla starfsemi sem Norðurlandaþjóðir hafa haft með höndum og hafa enn, ýmist hver um sig eða í góðri samvinnu sín í milli. Sú stofnun íslensk, sem lögum samkv. á að fjalla um og beita sér fyrir þróunaraðstoð af okkar hálfu, hefur, eftir því sem fjárhagsgetan hefur leyft, tekið þátt í þessari samnorrænu aðstoð. Ég held að undirbúningur allur að þeim verkefnum, sem Norðurlöndin vinna að sameiginlega, einkum í Afríkulöndum, hafi verið góður og að árangur sé þegar umtalsverður. Ég hygg því að þeir fjármunir, sem við Íslendingar leggjum fram í þessu skyni, komi að raunverulegu gagni. Okkur ber þess vegna að auka stórlega þann skilning sem við veitum til þróunaraðstoðar. Við getum það auðveldlega. Látum af því verða, bæði í þágu þess fólks, sem þarfnast hjálpar, og sjálfra okkar vegna.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa þessi orð mín öllu lengri. Aðrir munu af hálfu Alþb. ræða síðar í umr. um aðra þætti þessara mála. Ég hef aðeins tekið fyrir fáeina þætti og hvergi nærri gert þeim fullnægjandi skil. En ég tel eðlilegt að í umr. eins og þessum komist talsmenn allra flokka að nokkurn veginn á jafnréttisgrundvelli að því er tíma snertir. M. a. þess vegna hef ég kosið að takmarka mál mitt við ákveðin atriði, hef ekki faríð út í fleiri atriði en ég hef þegar gert, og lýk máli mínu.