12.04.1978
Efri deild: 77. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3332 í B-deild Alþingistíðinda. (2483)

257. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. á þskj. 499 um breytingu á lögum nr. 52 14. ágúst 1959, um kosningar til Alþingis. Frv. er ekki langt og mun ég lesa frvgr. eins og þær hljóða:

„119. gr. laganna orðist svo“ — segir í 1. gr. frv.

„Landskjörstjórn tekur til meðferðar og úrskurðar, að öllum skilríkjum athuguðum, hverjum stjórnmálaflokkum skuli telja þá framboðslista, er í kjöri hafa verið við kosningarnar, og hverja utanflokka.

Við úthlutun uppbótarþingsæta koma þeir stjórnmálaflokkar til greina, sem hlotið hafa kjördæmakjörinn mann eða 5% eða meira af samanlögðum gildum atkv. í öllum kjördæmum.

Atkv., sem utanflokkalisti fær, gefur ekki möguleika á úthlutun uppbótarsæta. Þingflokkur telst hver sá stjórnmálaflokkur, er hlýtur þingsæti samkv. reglum þessara laga.“ Í 2. gr. er aðeins um orðalagsbreytingu að ræða, þ. e. a. s. að í stað orðsins „þingflokks“ komi: flokks o. s. frv., sem annars er nauðsynlegt að gera vegna orðalagsbreytingar.

„3. gr. 1. málsgr. 121. gr. laganna orðist svo: Uppbótarþingsætum skal úthlutað samkv. hlutfallstölum, sem eru þannig fundnar, að deilt er í heildaratkvæðatölu hvers flokks, sem rétt á til uppbótarþingsætis, með 1. 2, 3, o. s. frv., að viðbættum fjölda þm., sem flokkurinn kann að hafa fengið kosna í kjördæmum. Fellur þá fyrsta uppbótarþingsætið til þess flokks, sem hæsta á útkomuna, annað til þess, sem á hana næsthæsta, og síðan áfram eftir hæð talnanna, uns 11 uppbótarþingsætum hefur verið úthlutað.

4. gr. Síðari málsl. 2. mgr. 127. gr. laganna falli niður.

5. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi:

Ég hef látið fylgja frv. alllanga grg., sem ég ætla að fara yfir, svo að fram komi hvers vegna þetta mál er flutt.

Í 31. gr. stjórnarskrárinnar er talið upp hverjir eigi sæti á Alþ. Þar segir í d-lið: „11 landskjörnir þm. til jöfnunar milli þingflokka, svo að hver þeirra hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar.“

Í stjórnarskránni er hvergi skýring á því, hvað „þingflokkur“ er. Þá skýringu er að finna í kosningalögum, og getur Alþ. breytt henni að vild með því að breyta því ákvæði.

Um þetta segir Einar Arnórsson í Réttarsögu Alþingis (bls. 603) : „Stjórnskipulög láta ekki um það mælt í einstökum atriðum, hvernig fara skuli um skipun uppbótarþingsæta. Þau fela almenna löggjafanum að setja fyrirmæli um það í lögum um alþingiskosningar. Almenna löggjafanum er því frjálst að skipa þeim málum svo sem honum þykir heppilegast innan þeirra markalína, sem sett eru í stjórnskipulögunum.“

Ólafur Jóhannesson, núv. hæstv. dómsmrh., segir um sama atriði í Stjórnskipun Íslands (bls. 217) : „Ennfremur úrskurðar landskjörstjórn hverjir stjórnmálaflokkar hafi náð þingsæti og teljist því þingflokkar, en aðrir flokkar koma ekki til greina við úthlutun uppbótarþingsæta (119. gr. kosnl.). Þessa skýrgreiningu á þingflokki er aðeins að finna í kosningalögum. Stjórnarskrárgjafinn hefur ekki skýrt það, við hvað sé átt með þingflokki, heldur eftirlátið það almenna löggjafanum. Þessari skilgreiningu getur því almenni löggjafinn vafalaust breytt innan skynsamlegra takmarka. Almenni löggjafinn gæti því sennilega ákveðið að þingflokkur væri sá flokkur, sem annaðhvort hefði átt þm. á síðasta þingi fyrir kosningar eða fengið mann kjörinn í kosningum.“

Í umr. um kosningalögin er jafnan bent á þann galla, að samkv. skýrgreiningu laganna á þingflokki geti komið fyrir, að flokkur fái 10–15% greiddra atkv. án þess að fá kjördæmakjörinn þm. og falli því út af þingi. Væri það í mesta ósamræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar um að flokkar skuli hafa „þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína,“ eins og áður segir.

Tvívegis hefur Alþfl. komist í þessa hættu. Í kosningunum 1953 fékk flokkurinn aðeins einn kjördæmiskjörinn þm. Ef það hefði ekki tekist, hefðu 15.6% allra greiddra atkv. fallið dauð og áhrifalaus. Árið 1974 fékk flokkurinn aftur einn kjördæmiskjörinn þm., og var þá hætta á að 9.1% atkv. yrðu áhrifalaus.

Segja má að Einar Arnórsson bendi á þessa hættu er hann segir í áðurnefndu riti (bls. 605): „Sá flokkur, sem hefur að vísu verið talinn stjórnmálaflokkur í kosningunum samkv. 28. gr. kosningalaganna, en hefur ekkert þingsæti fengið í kjördæmi, getur því ekki heldur fengið uppbótarþingsæti, jafnvel þótt samanlögð atkvæðatala hans út af fyrir sig gæti veitt honum rétt til þess. Í sjálfu sér sýnist það ekki hugsunarrangt, að slíkur flokkur gæti fengið uppbótarsæti. Hann er fulltrúi tiltekinnar landsmálastefnu, og kosningarnar hafa leitt í ljós, að stefnan hefur nægilegt kjósendafylgi til eins eða fleiri fulltrúa á þinginu. Ef landið allt væri eitt kjördæmi, þá mundi slíkur flokkur hafa fengið þingfulltrúa.“

Efni frv. þessa er að fella niður það ákvæði kosningal., að flokkur verði að fá kjördæmiskjörinn þm. til að teljast „þingflokkur“ og koma til greina við úthlutun uppbótarsæta. Í stað þess er sett markið 5% og flokkum veittur réttur til uppbótarsæta ef þeir ná því, hvort sem þeir hafa kjördæmiskjörinn þm. eða ekki.

Í mörgum nágrannalöndum gilda þær reglur, að flokkar fá alls enga fulltrúa á þing ef þeir ná ekki tilteknu hlutfalli atkv. Hér er ekki gengið svo langt. Samkv. þessu frv. mundu flokkar auðvitað halda þeim þm. sem ná kjöri í kjördæmum, enda þótt hlutfallstala þeirra af atkv. sé innan við 5%. Uppbótarsæti fá þeir hins vegar ekki nema þeir nái því marki. Á sama hátt er flokkum tryggður réttur til uppbótarsæta, ef þeir fá 5% eða meira, þótt þeir hafi ekki fengið kjördæmiskjörinn mann.

Þetta segir í grg., og hef ég svo tekið upp sem fskj. úrslit úr síðustu alþingiskosningum. Þetta mál er ekki nýtt í umr. manna á meðal, fyrst og fremst utan þings, og hefur lengi verið rætt í Alþfl. og víðar, með hvaða hætti ætti að taka sérstaklega uppbótarþingsætin til meðferðar. Hafa menn haft mismunandi sjónarmið, en því miður hafa sjónarmiðin oftast einkennst af því, að þegar línan er dregin yfir þröskuld hjá viðkomandi manni, þá nær hún ekki lengra, þótt allir tali í þá veru, að nauðsynlegt sé að auka lýðræði í landinu.

Ég vil minna á að allir formenn stjórnmálaflokkanna komu í sjónvarpið rétt í þann mund er Alþ. kom saman í haust, og lýstu þá allir, undantekningarlaust allir mjög ást sinni á því að auka lýðræði í landinu. Ég gæti lesið upp þennan þátt til að sanna mál mitt, því að ég á hann vélritaðan — ég tók hann upp, en ekki er ástæða til þess því að það yrði lestur í rúman klukkutíma. Hins vegar las ég í dag í blöðunum sem styðja ríkisstj., Morgunblaðinu og Tímanum, að þessi vaxandi lýðræðisást sefur enn eins og rósin sem sennilega mun spretta eftir kosningar upp úr hinum freðna jarðvegi. Það eru sem sagt orðin ein, sem gilda í þessu tilfelli, og mun almenningur örugglega fylgjast með því. Morgunblaðið segir — með leyfi forseta — um þetta ákvæði, hvort eigi að tryggja 5% eða eitthvað annað :

„Þetta eru vissulega rök. En á hitt er einnig að líta, að regla af þessu tagi mundi stuðla mjög að tilveru alls kyns smáflokka og flokksbrota, sem víða hafa valdið miklum erfiðleikum og dregið úr festu í stjórnmálum:

Alls kyns smáflokka aðhyllast núna á Íslandi á sjötta þúsund manns, ef notuð er þessi skilgreining: alls kyns smáflokkar. Ekki eru menn bjartsýnir á, að þetta gamla flokkakerfi haldi öllum í skefjum, þegar svona er sett fram. Það getur vel farið svo, að fleiri en einn flokkur detti út og nái ekki kjördæmakjörnum manni. Ég man eftir bollaleggingum eins ónefnds forustumanns Sjálfstfl., þegar hann lagði saman atkvæðatölur og komst að þeirri niðurstöðu, ef ég man rétt, að 456 atkv. vantaði til þess að Sjálfstfl. fengi hreinan meiri hluta — þetta var fyrir allmörgum árum, en það skilyrði fylgdi að sérstök dreifing á þessum 456 atkv. hefði orðið að eiga sér stað til þess að tryggja kjördæmiskjörna menn út úr einmenningskjördæma- og tvímenningskjördæmafyrirkomulaginu. Heildaratkvæðafjöldi flokksins var, að því er mig minnir, rétt rúmlega 41–42%. En með æskilegri og viðráðanlegri dreifingu á 456 atkv. — ég tek fram að þarna getur skakkað nokkrum atkv., en þetta voru tæplega 500 atkv. — þá hefði flokkurinn náð meiri hluta á Alþ. með 42% atkvæðafylgi í heild á landinu. Þessi óskhyggja varð aldrei að veruleika. Við búum við aðra kjördæmaskipun í dag, sem hefur tryggt aukið lýðræði, en samt sem áður hefur þróunin orðið svo ör — menn geta kallað það öfuga þróun og það munu sumir gera — fólkið hefur flust svo mikið til á landinu, að einkum tvö kjördæmi hafa nú það margt kjósenda innan vébanda sinna, að atkvæðisréttur í þessum kjördæmum, þ. e. a. s. í Reykjavík og á Reykjanesi, er verulega minni og margfalt minni en í öðrum kjördæmum, sem minnst atkvæðamagn hafa. Flestir menn tjá sig fúsa til að leiðrétta þetta, en ná ekki samstöðu.

Nú liggja fyrir Alþingi þrjú frv. um þessi mál sem verða rædd hér, tvö í Ed. og eitt í Nd. Því miður virðist vera svo, að menn líta í eigin barm eingöngu um það eðlilega sjónarmið að tryggja hinum almenna kjósenda aukin réttindi í þjóðfélaginu og meiri áhrif á stjórnskipun landsins. Það veldur mér vonbrigðum að lesa þessar greinar í Morgunblaðinu og Tímanum í dag um að ekkert megi gera í þessu máli nú, þar sem allir formenn stjórnmálaflokka í landinu lýstu því yfir í haust, að þeir væru reiðubúnir til að auka á rétt kjósandans í landinu. Hvort þetta er rétta leiðin, sem ég bendi á, eða leiðir hinna þm., mun koma í ljós í umr. í n. Ég held ekki svo fast í þetta frv„ að ekki megi breyta stafkrók, alls ekki. En ég vil vekja athygli á því, að allstór hópur manna getur farið þannig út úr þessum kosningum að hann hafi engin áhrif á Alþ., jafnvel þótt hann væri 10–15 þús. manns, sem yrði þá 10–12% af kjósendum. Og það sýnist réttmætt að þessi hópur geti átt fulltrúa, — hvort þeir eru einn eða fleiri, 4–5, læt ég ósagt, niðurstöður kosninganna munu segja til um það.

Herra forseti. Ég gæti talað lengi um þetta efni og tekið upp ýmsar tilvitnanir til að sanna að hér er farið í átt að því sem margir hafa lýst stuðningi við, bæði utan þings og innan. En ég sé ekki ástæðu til þess. Aðalatriðið er að þessi mál verði rædd af einurð í n., sem fær þetta frv., og menn sýni og sanni með því að láta málið aftur koma úr n., að þeir meini eitthvað með þeim orðum sem þeir hafa sagt á undanförnum mánuðum um aukið lýðræði í landinu. Og það mun verða fylgst með því af mér og mörgum öðrum, hvort þetta sé bara orðaleikur einn eða eitthvað meira. Ég mun geyma vel það vélritaða eintak sem ég á af ræðum formannanna frá í haust, þar sem það liggur alveg ljóst fyrir — og ég á segulbandið líka ef á þarf að halda — að þeir lofa almenningi auknu lýðræði í þessu landi. Og menn munu fylgjast vel með því, hvort þeir ætla að standa við þessi orð eða ekki.

Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til að þessu frv. verði vísað til allshn.