13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3396 í B-deild Alþingistíðinda. (2564)

184. mál, réttur til fiskveiða í landhelgi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Hæstv. forseti. Sjútvn. flytur hér brtt. við þetta frv. þess efnis, að enda verði leiguskipið með íslenskri áhöfn, búið líkum útbúnaði og með sambærilegri veiðigetu. Eins og fram kemur í aths. við frv., var auðvitað aldrei og er ekki ætlunin önnur en að skip sé með íslenskri áhöfn. Ég hef þó síður en svo á móti því, að þetta komi inn í frvgr., og ég fagna einnig því, sem segir til viðbótar í brtt.: „búið líkum útbúnaði og með sambærilegri veiðigetu“, sem auðvitað tryggir að ef bátur bilar, krefjist viðkomandi þess ekki að fá á leigu skuttogara. Auðvitað vakti ekki annað fyrir okkur í sjútvrn. en að fengið yrði sambærilegt skip, en þetta er betur tryggt með þessu orðalagi.

Eins og fram kemur í aths. við þetta frv., er ekki ætlunin að hætta neitt á að hleypa útlendum aðilum eða fjármagni inn í íslenska fiskveiðilandhelgi, heldur aðeins verið að gera tilraun til að bæta úr tímabundnum vandræðum í einstökum byggðarlögum. Rn. mun í hverju einstöku tilviki rannsaka hvort um brýna nauðsyn sé að ræða, athuga hvort leigusamningur og leigukjör séu eðlileg, og með því fyrirbyggja að um dulbúna útgerð erlendra aðila í íslenskri landhelgi sé að ræða. Það er kjarni málsins, en ekki að þessi heimild verði almennt notuð, nema síður sé.

Komið hefur í ljós að undanförnu, þegar skip hefur bilað, að erlendir aðilar og umboðsmenn þeirra hafa verið fljótir að bjóða viðkomandi útgerðarmönnum erlend skip, en þeir aftur farið af stað til þess að fá leyfi til kaupa á erlendu skipi vegna þessara óhappa. Þetta er skiljanlegt frá sjónarmiði þessara erlendu aðila, sem hafa nóg af skipum, og þeir hafa svo aftur sagt, að ekki sé hægt, og vita, að ekki er hægt að leigja skip um stuttan tíma í einu. Þess vegna hefur pressan á skipakaup aukist við flest þau óhöpp sem átt hafa sér stað. Þess vegna fannst mér eðlilegt að flytja þetta frv. um takmarkaða heimild, þó að ég sé þeirrar skoðunar, að kominn sé tími til þess að endurskoða lögin frá 1922, en það er miklu meira verk og verður ekki hrist fram úr erminni á nokkrum víkum, er mjög vandasamt verk sem þarf að vanda mjög vel, því að við Íslendingar erum mjög íhaldssamir í þessum efnum og þurfum sannarlega að vera það.

Ég fagna því, að þessu frv. hefur verið vel tekið, og er mjög ásáttur með afstöðu sjútvn. til þess.