14.04.1978
Sameinað þing: 66. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3442 í B-deild Alþingistíðinda. (2600)

343. mál, meðferð dómsmála

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Skýrsla þessi um meðferð dómsmála var lögð fram fyrr í vetur á Alþ. Það hefur orðið nokkur dráttur á því að fylgja henni úr hlaði með fáeinum orðum. Ég vil þó taka fram, að þar er ekki við forseta að sakast, heldur má rekja þann drátt, sem á því hefur orðið, til ástæðna sem mig varða. En auk þess vil ég geta þess, að raunar var talið æskilegt að nokkur tími liði frá útbýtingu skýrslunnar og þangað til umr. færi fram um hana til þess að gefa hv. þm. tækifæri til þess að kynna sér efni hennar og kynna sér einstök mál, sem þar er að vikið, ef þeir hefðu áhuga á því.

Þessi skýrsla, sem hér liggur fyrir, tekur aðeins til dómsmála í þrengri merkingu, ef svo má segja, einkamála og sakamála, sem svo eru kölluð. Hins vegar tekur hún ekki til skipta, fógetagerða eða uppboða. Skýrslan er byggð á upplýsingum frá viðkomandi embættum. Ekki er ástæða til þess út af fyrir sig að rengja þær upplýsingar, en þó hefur verið síðar nokkuð kannað, hvort það væri ekki rétt, sem í þessari skýrslu segir, svo og reynt að fylgjast með því, hverjar breytingar hefðu á orðið eftir að svör bárust frá viðkomandi embættum. Þau atriði, sem óskað var upplýsinga um og þessi skýrsla fjallar um, eru í fyrsta lagi, hvort hægt væri að sjá, hvort ætti sér stað óhæfilegur dráttur í meðferð einkamála eftir að þau hefðu verið tekin til dóms, eins og það er kallað, og þangað til dómur er kveðinn upp. Í öðru lagi, hvort það ætti sér óeðlilegur dráttur stað um meðferð einkamála frá því að þau eru þingfest og þangað til þau eru dæmd. Um sakamál var leitað upplýsinga um, hvaða sakamál væru ódæmd 1. okt. s. l., þar sem ákæra hefur verið gefin út fyrir 1. jan. 1977. Með því átti sem sagt að fá fram upplýsingar um það, hvort óhæfilegur dráttur ætti sér stað hjá dómstólum eftir að ákæra hefði verið gefin út í máli. Og í fjórða lagi er leitað upplýsinga um, hvort það mundi eiga sér stað óhæfilegur dráttur í meðferð sakamála eftir að þau hefðu verið kærð og þangað til ákvörðun hefði verið tekin um nánari framvindu þeirra. Í þessu tilfelli var athugunin takmörkuð við þau brot sem gætu hugsanlega varðað fangelsi.

Ég ætla að gera með örfáum orðum grein fyrir fyrir því sem fram kemur í þessari skýrslu. Efninu þar er glögglega niður skipað, þannig að fyrst eru tekin til meðferðar einkamálin og þá eftir lögsagnarumdæmum, en við hvert mál er getið þingfrestingardags og númers málsins og aðila, þannig að auðvelt á að vera fyrir hv. þm. að átta sig á þessu. Um einkamálin fjallar skýrslan frá bls. 1 þar til á bls. 6. Á bls. 6 eru svo teknar upp upplýsingar um sakamálin undir staflið e, þau mál sem ákært hefur verið í fyrir 1. jan. 1977 og eru enn til meðferðar. Og þar eru enn málin tekin í röð eftir umdæmum og sett með dagsetning ákæru, einkenni málsins og tegund brots. Upplýsingar um öll þessi atriði er að finna í skýrslunni. Að lokum er svo undir staflið d fjallað um sakamál, sem kærð höfðu verið fyrir 1. apríl 1976, en var ólokið 1. okt. s. l. Og þar er hliðstæð flokkun og áður, þannig að þar er getið dagsetningar ákæru, þar sem því er að skipta, einkennis málsins, dagsetningar elstu kæru og loks tegundar brotsins. En það var með bréfi 21. sept. s. l. sem dómsmrn, óskaði eftir upplýsingum hjá dómstólum um dómsmál, sem einhverra hluta vegna hafa dregist á langinn. Ekki þótti rétt að leita til Rannsóknarlögreglu ríkisins í því sambandi, þar sem stofnunin var þá nýlega tekin til starfa og þar af leiðandi erfitt fyrir starfsmenn hennar að gefa umbeðnar upplýsingar.

Eins og ég þegar hef drepið á þótti rétt að skipta dómsmálunum í tvo aðalflokka og verður það gert einnig í því, sem ég segi hér á eftir, og fjallað fyrst um einkamálin, en síðan vikið að sakamálunum.

Í fyrrgreindu bréfi dómsmrn. var í fyrsta lagi spurst fyrir um einkamál sem dómtekin höfðu verið fyrir 1. júní s. l. án þess að dómur hefði fallið í þeim 1. okt. s. l. Ekkert slíkt mál reyndist vera til meðferðar hjá dómstólunum og virðist af því mega draga þá ályktun, að ekki eigi sér stað yfirleitt óhæfilegur dráttur frá hví að mál hefur verið tekið til dóms og þangað til dómur hefur verið kveðinn upp í því.

Í öðru lagi var spurst fyrir um mál sem þingfest höfðu verið fyrir 1. okt. 1975 og væri enn ólokið 1. okt. s. l. Þessi mál reyndust vera alls 113. þar af 67 sem voru til meðferðar hjá Borgardómi Reykjavíkur eða hjá embætti yfirborgardómara í Reykjavík. Af þessum 113 málum voru 45 þingfest á árunum 1966–1973 en það er augljóst mál, að það er algerlega óeðlilegur og óhæfilegur dráttur á dómsmálum. Hér á eftir verður gerð nokkur grein fyrir því, hvers vegna þessi 45 mál. sem þingfest voru á árunum 1966–1973. hafa dregist svo á langinn sem raun ber vitni, ef frambærilegar ástæður hefur verið hægt að fá fyrir slíkum drætti eða þær hafa komið fram við nánari athugun á málunum. og verða þá málin talin upp í heilli röð sem gert er í skýrslunni. Er að sjálfsögðu erfitt fyrir hv. þm. að fylgjast með því, sem ég segi þar um, nema þeir hafi skýrsluna í höndum.

1. Mál nr. 368/1966. Tveir lögmenn höfðu frá upphafi farið með málið fyrir hönd stefnanda, en þeir höfðu báðir forfallast. Þegar skýrslan var gerð var talið að mál þetta væri á lokastigi samkv. upplýsingum frá yfirborgardómara. Þessu máli er nú lokið.

2. Mál nr. 3096/1967. Tveir dómarar hjá embætti yfirborgardómara hafa farið með mál þetta. Sá, sem nú fer með málið, tók við málinu 1. okt. 1976. Það, sem orsakað hefur drátt á málsmeðferðinni, er að einn aðili þess er búsettur í fjarlægri heimsálfu.

3. Mál nr. 7/1969. Fullnægjandi ástæður fyrir drætti þessa máls hafa ekki komið fram aðrar en þær, að um sé að kenna veikindum dómara og lögmanna.

4. Mál nr. 24/1969. Það mál var það langt komið, að gert var ráð fyrir því, að það yrði fljótlega tekið til munnlegs flutnings eftir að skýrsla var gerð. Samkv. upplýsingum, sem nú liggja fyrir, er máli þessu lokið.

5. Mál nr. 2649/1969. Úrskurðir um réttarfarsatriði, sem skotið var til Hæstaréttar, hafa valdið töfum á meðferð málsins, sömuleiðis veikindi og síðar andlát lögmanns stefnanda. Horfur eru nú taldar á því, að þessu máli ljúki á næstunni.

6. Mál nr. 3203/1969. Máli þessu er nú lokið.

7. Mál nr. 1919/1969. Dómur í þessu máli gekk upphaflega 13. des. 1971, en honum var áfrýjað. Með dómi Hæstaréttar 12. nóv. 1973 var málið ómerkt og vísað til meðferðar héraðsdómara að nýju. Úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta gekk á árinu 1976, en enn stendur yfir gagnaöflun í málinu.

8. Mál nr. 7640/1970. Veikindi og síðar andlát lögmanns eiga sinn þátt í drætti þessa máls. Nú síðast hefur verið beðið eftir að dómur í hliðstæðu máli félli í Hæstarétti. Sá dómur er nú nýfallinn, þannig að búast má við að skriður komist á málið og því ljúki innan skamms.

9. Mál nr. 2793/1970. Veikindi beggja aðila hafa tafið meðferð málsins.

10. Mál nr. 5499/1970. Lögmaður stefnanda lést fyrir nokkru og var því ekki ljóst þegar skýrslan var gefin, hvaða lögmaður mundi taka við hlutverki hans. Samkv. þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir, er máli þessu lokið.

11.–12. Mál 8431/1970 og 40/1970. Engar haldbærar skýringar hafa komið fram á drætti þessara mála.

13.–14. Mál nr. 152/1970 og 2542/1971. Málum þessum er nú lokið.

15. Mál nr. 5771/1971. Engar haldbærar skýringar hafa komið fram á drætti þessa máls.

16. Mál nr. 5204/1972. Munnlegur málflutningur í málinu hefur verið ákveðin 16. þ. m., segir þegar þessi skýrsla var tekin saman. Er búist við að dómur muni falla innan skamms í því máli.

17. Mál nr. 2715/1972. Veikindi og síðar andlát lögmanns hafa valdið drætti á málinu. S. l. sumar varð fyrst ljóst hvaða lögmaður tæki við rekstri málsins fyrir stefnanda. og samkv. þeim upplýsingum. sem nú liggja fyrir. er máli þessu nú lokið.

18. Mál nr. 7846/1972. Veikindi hafa einnig tafið meðferð þessa máls. Boðað var til munnlegs málflutnings 10. nóv. s. l., en honum var frestað vegna veikinda lögmanns annars aðila.

19.–21. Mál nr. 8329/1972, 8337/1972 og 8332/1972. Beðið hefur verið eftir að dómur í hliðstæðu máli félli í Hæstarétti. Sá dómur er nú nýlega fallinn, þannig að búast má við að skriður komist á þessi mál.

22. Mál nr. 154/1972. Það, sem tafið hefur meðferð þessa máls, er að þeir lögmenn, sem upphaflega héldu uppi sókn og vörn í málinu, hafa forfallast og aðrir tekið við.

23. Mál nr. 790/1973. Máli þessu hefur verið frestað alls 16 sinnum að beiðni lögmanna. Málið er nú talið vera á lokastigi.

24.–25. Mál nr. 1029/1975 og 1030/1975. Þó að númerin á málunum séu frá árinn 1975, þá voru þau upphaflega þingfest 1973 og eru því talin með þessum málum, sem ég er að gefa yfirlit yfir. Úrskurðir um réttarfarsatriði, sem skotið var til Hæstaréttar, hafa tafið meðferð þessara mála. Horfur eru nú taldar á að málum þessum ljúki á næstunni. Og eftir þeim upplýsingum, sem ég fékk nú áðan, þá er málum þessum nú lokið.

26. Mál nr. 1349/1973. Máli er nú lokið.

27. Mál nr. 6659/1973. Mál þetta hefur verið tekið fyrir alls 11 sinnum, en er þó enn ólokið.

28. Mál nr. 6693/1973. Máli þess er nú lokið.

29. Mál nr. 124/1973. Mál þetta hefur verið tekið fyrir alls 10 sinnum og biður nú munnlegs málflutnings. Má því búast við að dómur falli í málinu innan skamms.

Þetta var yfirlit yfir þau mál, sem þingfest voru á árunum 1966–1973, að báðum árum meðtöldum, hjá Borgardómi Reykjavíkur og ekki var lokið þegar yfirborgardómari gaf sín svör. Við þessar upplýsingar varðandi Borgardóminn er aðeins rétt að bæta fáeinum orðum.

Samkv. upplýsingum yfirborgardómarans í Reykjavík var 359 málum úthlutað til dómara á árinu 1974, en til svonefndrar úthlutunar fara einkum vandasamari mál, þar sem tekið er til varna. Af þessum 359 málum voru 20 óafgreidd 1. okt. s. l., þ. e. a. s. 5.6%. Fram til 1. okt. 1975 var 271 máli úthlutað til dómara. Af þeim voru 18 óafgreidd 1. okt. s. l., þ. e. a. s. 6.6%. Ætla má á grundvelli þessara upplýsinga. að af þeim einkamálum, þar sem tekið er til varna, séu 9 af hverjum 10 afgreidd innan árs frá því að þau voru þingfest. Þetta á við um Reykjavík, en úti á landi eru einkamálin, eins og skýrslan ber með sér, mun færri. Rétt er þó að gera grein fyrir þeim málum, sem þingfest voru þar á árinu 1973 eða fyrr og talin eru upp í skýrslunni, þannig að það komi fram með hliðstæðum hætti um þau og málin í Reykjavík.

Hjá embætti bæjarfógeta á Akranesi er um að ræða eitt slíkt mál. Það er mál nr. 44/1973. Samkv. upplýsingum bæjarfógeta hafa aðilar málsins ekki sýnt áhuga á því að hraða málsmeðferð. Hjá embætti bæjarfógeta á Ísafirði er sömuleiðis um að ræða eitt mál, sem þingfest var á árinu 1973. Það, sem einkum virðist hafa valdið drætti á þessu máli, er að þeir lögmenn, sem upphaflega komu fram fyrir hönd málsaðila, hafa forfallast og aðrir tekið við. Frekari skýringar hafa ekki komið fram.

Hjá embætti bæjarfógetans í Vestmannaeyjum er um að ræða 6 mál sem þingfest voru á árinu 1973 eða fyrr. Í stuttu máli hafa engar handbærar skýringar komið fram á drætti þessara mála en þær, að mikil röskun varð á allri starfsemi embættisins í kjölfar eldgossins á Heimaey 1973. Sum þessara mála munu þó nú vera á lokastigi.

Hjá embætti sýslumannsins í Árnessýslu er um að ræða 5 mál, sem þingfest voru á árinu 1973 eða fyrr. Engar haldbærar skýringar á drætti þeirra mála hafa komið fram aðrar en þær, að málsaðilar hafi lítinn áhuga á því að hraða meðferð málanna.

Hjá embætti bæjarfógetans í Keflavík eru til meðferðar 2 mál, sem þingfest voru á árinu 1973. Þessi mál voru upphaflega þingfest í Hafnarfirði, en flutt til Keflavíkur þegar Gullbringusýsla var felld undir embætti bæjarfógetans í Keflavík. Aðilar þessara mála eru taldir hafa sýnt lítinn áhuga á því, að meðferð þeirra væri hraðað.

Loks er til meðferðar eitt mál hjá embætti bæjarfógeta í Hafnarfirði, sem þingfest var á árinu 1972. Mál þetta er talið óvenjulega flókið landamerkjamál. Má sem dæmi nefna, að alls hefur verið þingað 35 sinnum í málinu. Málið er nú talið vera á lokastigi.

Ég hef þá gert grein fyrir þessum 45 einkamálum, sem áður eru talin og dregist hafa frá því á árunum 1986–1373. Í sumum tilvikum hafa komið fram haldbærar skýringar á þessum drætti, en í öðrum ekki. Gerð hefur verið gangskör að því að ýta á að þessum málum væri hraðað og þeim væri lokið, og eins og upplestur minn áðan ber vitni um hefur mörgum af þessum málum verið lokið nú alveg nýlega. Og reynt mun verða að ýta á og hraða þeim málum sem enn eru óafgreidd. En hitt er ljóst, að málsaðilar ráða að nokkru leyti — og má reyndar segja að miklu leyti og að of miklu leyti — gangi mála þegar um er að ræða einkamál. Sama á við um lögmenn, að þeir ráða æðimiklu um það, hver gangur er á meðferð þessara mála. Dráttur á gangi málanna er því ekki ætíð að kenna dómurum. heldur eiga lögmenn og málsaðilar þar nokkra sök. Þetta er rétt að hafa í huga þegar lagður er dómur á gang einkamála hjá dómstólum landsins.

Þá er rétt að víkja stuttlega að sakamálunum og verður þá í þeim skýringum, sem gefnar verða, með hliðstæðum hætti stuðst við það sem fyrir liggur í skýrslunni.

Með fyrrgreindu bréfi dómsmrn. var spurst fyrir um sakamál þar sem ákæra hefði verið gefin út fyrir 1. jan. 1977 án þess að dómur hefði fallið fyrir 1. okt. s. l. Þetta reyndust alls 239 mál. Langflest þessara mála varða áfengis- og/eða umferðarlagabrot, en einnig ber nokkuð á málum, þar sem sakarefnið er fjársvik, líkamsárás, þjófnaður, nytjataka og skjalafals, Um þetta er upplýsingar að fá í hinni prentuðu skýrslu. Þær ástæður, sem færðar hafa verið fram fyrir drætti á þessum málum, eru einkum tvær: annars vegar of mikið vinnuálag dómara og hins vegar það, að oft og tíðum gengur erfiðlega að ná til sakbornings. Þetta eru þó að mínum dómi ekki viðhlítandi skýringar í öllum tilfellum. Nær helmingur þessara mála er til meðferðar hjá embætti yfirsakadómara í Reykjavík eða hjá Sakadómi Reykjavíkur.

Við breytingar þær á löggjöf um meðferð opinberra mála, er tóku gildi á síðasta ári, færðust svo til öll önnur verkefni en dómsýsla frá embætti yfirsakadómara til annarra embætta. Starfsmönnum embættisins fækkaði hins vegar ekki að sama skapi, svo að nú ætti þegar af þeirri ástæðu að ganga greiðar en fyrr að afgreiða sakamál í höfuðborginni. Sama á að nokkru leyti við úti á landi, einkum hjá embættum bæjarfógeta í Kópavogi og Hafnarfirði, en af þessu, sem ég sagði, má síst af öllu draga þá ályktun, að ekki sé unnið vel hjá Sakadómi Reykjavíkur. Sakadómur Reykjavíkur hefur látíð frá sér fara skýrslu um sakadómsmál sem afgreidd hafa verið á árunum 1971–1975. Er rétt að rifja þá skýrslu upp, þannig að menn sjái að æðimörg mál hafa verið afgreidd frá þessari stofnun á þessum árum. Dómar hafa verið felldir í sakamálum á þessum tíma sem hér segir: 1971 voru þeir 544, 1972 526, 1973 697, 1974 653 og 1975 957. Mál, sem afgreidd hafa verið með dómssáttum, sektum eða áminningum, eru 1971 1252, 1972 1546, 1973 1370, 1974 1873 og 1975 1708. Auk þess hafa svo verið dæmd og afgreidd á þessum tíma barnsfaðernismál og vefengingarmál. Ég tel rétt að láta koma fram í sambandi við að litið er á þau mál, sem enn eru óafgreidd hjá þessum dómi, að þetta hefur þó verið afgreitt af málum og það er hreint ekki lítið.

En hitt er samt ekki nógu gott, að of mörg mál eru enn óafgreidd að mínu mati. En á því eru að vísu ýmsar og margvíslegar skýringar. Til viðbótar þeim, sem ég drap á áðan, má nefna of mikið vinnuálag og erfiðleika á því að ná til sakborninga.

Elsta málið af þeim, sem tilgreind eru í skýrslunni um meðferð dómsmála, og það, sem hvað mest umtal hefur vakið, er mál Friðriks Jörgensens. Ég ætla ekki að rekja hér einstök mál, en ég ætla þó í stuttu máli að rekja sögu þessa máls, vegna þess að það er að minni hyggju alveg dæmalaus raunasaga eða hrakfallasaga í íslenskri dómsmálasögu.

Hinn 22. des. 1966 sendi Seðlabanki Íslands bréf til Sakadóms, þar sem farið var fram á rannsókn vegna meintra gjaldeyrisbrota sakbornings. Í jan. 1967 var svo fyrst þingað í málinu og hinn 13. febr. 1967 var endurskoðanda falið að rannsaka bókhald sakbornings með tilliti til gjaldeyrisskila. Hinn 21. nóv. 1967 sendi svo skiptaráðandi Sakadómi bréf, þar sem beiðst var rannsóknar á meintu refsiverðu atferli sakbornings viðvíkjandi gjaldþroti hans. Hinn 10. des. 1967 skilaði endurskoðandi skýrslu um gjaldeyrisskil sakbornings. Nokkru síðar, eða hinn 23. febr. 1968, var endurskoðanda falin rannsókn á bókhaldi sakbornings að því er tók til gjaldþrots hans. Hinn 27. ágúst 1968 skilaði endurskoðandi svo skýrslu um þá rannsókn. Á árunum 1968 og 1969 var málið svo rannsakað fyrir dómi, bæði að því er tók til kærunnar um vanskil á gjaldeyri og kærunnar um ólögmætt atferli viðvíkjandi gjaldþroti. Hinn 9. maí 1969 sendi Sakadómur saksóknara niðurstöður rannsóknar um gjaldeyrisskilin og hinn 23. des. sama ár niðurstöður rannsóknar um gjaldþrotið. Tæpu ári síðar, eða hinn 21. okt. 1970, það saksóknari um frekari rannsókn og lauk henni hinn 3. mars 1971. Hinn 15. mars 1971 var svo gefin út ákæra á hendur sakborningi og var málið þingfest þrem dögum síðar. Næsta ár stóðu svo yfir þinghöld í málinu, en hinn 22. febr. 1972 tilkynnti saksóknari Sakadómi, að hann hefði fallið frá II. kafla ákærunnar, þ. e. þeim hluta hennar er tók til hins meinta gjaldeyrisbrots. Í sept. 1972 lét svo dómari sá, er sat í forsæti dómsins, af störfum við Sakadóm. Nýr dómsformaður var skipaður í apríl 1973, en meðferð málsins dróst vegna veikinda og síðar andláts verjanda sakbornings.

Hinn 13. mars 1975 var sakborningi skipaður nýr verjandi og um haustið 1975 fól saksóknari Hallvarði Einvarðssyni, þá vararíkissaksóknara, að sækja málið af sinni hálfu. Stuttu síðar hófst rannsókn í hinum svonefndu og raunar rangnefndu Guðmundar- og Geirfinnsmálum, vegna þess að það er nú yfirleitt ekki venja að kenna mál við þá sem hafa orðið fyrir brotunum. (Gripið fram í: Njálsbrenna.) Já, hún er að vísu gott fordæmi til að nefna, en ég vil þó ekki líkja henni við þessi tvö mál sem ég nefndi áðan. Hallvarður Einvarðsson annaðist sókn í þeim málum. Í byrjun síðasta árs var svo Hallvarður Einvarðsson skipaður raunsóknarlögreglustjóri, svo sem kunnugt er. Þetta varð til þess, að saksóknari þurfti að skipa nýjan mann til að annast sókn í málinu. Það hefur nú verið gert. Er, held ég, ekki of mikið sagt, að vonir standi til þess, að þessu einstæða máli muni ljúka á þessu ári, ef þá koma ekki upp einhver atvik sem enginn getur séð fyrir nú. En yfirsakadómari er ákaflega varkár orðinn að því er varðar yfirlýsingar í þessu máli og vill ekki segja meira um það en að hann vonist til þess, að málinu verði lokið síðar á þessu ári.

Ég hygg að í íslenskri lögfræði- og dómsmálasögu muni oft verða vitnað til þessa máls, sem ég held að sé í rauninni mjög einstætt hvað alla meðferð snertir og hvað hafa komið óvenjulega mörg einkennileg atvík fyrir í sambandi við það, sem hafa frestað því eða haft í för með sér að málið hefur tafist. Þetta mál var nefnt hér sérstaklega, en eins og ég sagði áðan ætla ég annars ekki að fara að telja upp eða rekja þessi sakamál sem hér er um að tefla og ólokið er, eins og skýrslan ber með sér.

Þá var í bréfi dómsmrn. spurst fyrir um sakamál sem kærð voru fyrir 1. apríl 1976 og enn var ólokið 1. okt. s. l. Þessi spurning tók þó, eins og áður er sagt, eingöngu til þeirra mála þar sem brot gat hugsanlega varðað fangelsi. Mál af þessu tagi reyndust alls 141 á öllu landinu. Þar af hafði verið gefin út ákæra í 61 máli á árinu 1977. Flest málin varða sakarefni á borð við líkamsárás, þjófnað, fjársvik og skjalafals. Fátt er um þessi mál að segja umfram það sem sagt var um fyrri málaflokkinn. Tilkoma Rannsóknarlögreglu ríkisins svo og sérstakrar rannsóknardeildar við embætti lögreglustjóra hvar sem er á landinu á að tryggja að kærur séu framvegis afgreiddar fyrr en tíðkast hefur til þessa. Því er þess að vænta, að síðast nefndum málum fækki á komandi árum, þ. e. a. s. óafgreiddum málum af þessu tagi.

Ég hef þá í stuttu máli gert grein fyrir þeim málum sem talin eru upp í skýrslu þeirri um meðferð dómsmála, sem ég hef lagt fyrir Alþ. Ég vona að það verði framvegis árviss atburður, að slík skýrsla verði lögð fyrir Alþ. Ekki leikur neinn vafi á því, að skýrslan hefur, ef ég svo má segja, rekið á eftir ýmsum aðilum í dómskerfinu, og ég er ekki í nokkrum vafa um að ef slík skýrslugjöf verður árviss atburður á Alþ., þá muni hún veita dómstólum og rannsóknaraðilum aðhald. Jafnframt er auðvitað eðlilegt að mínum dómi, að Alþ. láti sig mál þessi varða og vilji gjarnan fá skýrslu um þau og hvernig gangur þeirra er, þó að með því sé auðvitað ekki á neinn þátt haggað við þeirri staðreynd, að dómstólarnir eru sjálfstæðir aðilar og dómsvaldið er þriðji þáttur ríkisvaldsins og það hlýtur að sjálfsögðu að setja afskiptum Alþ. af þessari starfsemi jafnan nokkur takmörk. En mér finnst eðlilegt að hv. alþm. vilji fylgjast með í þessum málum, hvernig þau eru af hendi leyst, hvernig þeim fjármunum, sem fara til þessara mála, er varið o. s. frv. og að þeir fái þá í því sambandi tækifæri til þess að koma fram með fsp. varðandi einstök mál eða almenn atriði. Jafnvel væri heppilegt að mínum dómi að slík skýrsla gæti farið til meðferðar hjá nefnd í þinginu. Þá væri eðlilegt að þingsköpum væri breytt í þá átt, að á Alþ. væri starfandi sérstök dómsmálanefnd, alveg eins og t. d. sérstök menntamálanefnd o. s. frv.

Það er auðvitað ekki nægilegt til þess að hraða meðferð þessara mála að safna saman svona upplýsingum og gefa skýrslu um þau á Alþ., heldur verður líka að gera viðeigandi ráðstafanir og grípa til viðeigandi ráðstafana til þess að hraða meðferð þeirra mála sem áfátt þykir að þessu leyti. Þetta hefur auðvitað alltaf verið gert af hálfu dómsmrn., en slík regluleg skýrslusöfnun auðveldar eftirlitsstarf á þessu sviði.

Það má segja að þessi skýrsla sé að ýmsu leyti frumsmið. Hún þarf í framtíðinni, ef hún verður gefin, eins og ég vona að verði, að verða fullkomnari og ítarlegri á ýmsan hátt. T. d. er ekki rétt að hún sé aðeins bundin við þessi almennu dómsmál, sem venjulega eru nefnd svo, einkamál og sakamál, heldur þarf hún auðvitað að taka til skiptamála, fógetagerða og uppboða. Að vísu hefur verið safnað og farið fram mikil könnun á t. d. skiptamálum í Reykjavík og víðar, þó að þær upplýsingar, sem þar komu fram, séu ekki teknar með í þessa skýrslu. En ég vil segja það og hef sagt það áður, að þó að mörgu sé áfátt í meðferð dómsmála almennt, þá hygg ég að ekki megi síður og jafnvel fremur benda á sitthvað sem betur mætti fara einmitt á sviði skipta-, fógeta- og uppboðsmála. Verði það frv. til gjaldþrotalega afgreitt frá Alþ., sem lagt hefur verið fram, þá skapast að mínu mati betri aðstaða en áður í þeim málum. Þar er potturinn ekki hvað síst brotinn að mínum dómi.

Ég skal, herra forseti, ekki þreyta hv. alþm. með öllu lengri ræðu. Þessi skýrsla og þessi málefni, sem ég hef hér rakið, eru ekkert sérstaklega spennandi. Það fylgir þeim ekki nein æsispenna eins og í frá frásögn blaða af ýmsum dómsmálum. En þetta gefur, að ég held, réttari mynd af daglegum störfum dómstóla en einstakar blaðafregnir um einstök mál, sem einhverja sérstaka athygli hafa vakið af einhverjum ástæðum. Ég ætla því ekki að fyrra bragði að fara að telja upp þau sakamál sem helst hafa komið til umr. í fjölmiðlum og eru á ýmsu stigi. Ég vil aðeins segja, að ég tel gang þeirra vera yfirleitt með eðlilegum hætti. Ef eftir er spurt og ef einhverjir hafa áhuga á því að heyra, hvað þessum málum liður, þá hef ég við höndina upplýsingar um það og er reiðubúinn að gefa þær. En ég sé ekki að fyrra bragði ástæðu til að rifja upp þau mál og fjölyrða um málefni ýmissa ógæfumanna sem þar eiga í hlut. Það er nú svo, að enginn veit fyrir fram hvenær hann ratar í slíka ógæfu sem ýmsir rata í þegar þeim verður fótaskortur á brautinni að þræða og fara eftir leikreglum þjóðfélagsins. Þeir eiga þá og fá sína refsingu fyrir það, en ég held að hér á Íslandi verði betra þjóðfélag þegar menn hafa ekki ógæfu slíkra manna sér að féþúfu.