17.04.1978
Neðri deild: 77. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3532 í B-deild Alþingistíðinda. (2689)

256. mál, réttur til fiskveiða í landhelgi

Flm. (Ellert B. Schram):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á lögum nr. 33 frá 1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi. en þar er gert ráð fyrir því, að inn komi ný grein. sem feli það í sér, að íslenskurn aðilum verði heimilað að festa kaup á stóru verksmiðjuskipi til vinnslu á kolmunna og öðrum sjávarafla og þau kaup verði í formi leigukaupa.

Tildrög þessa máls eru þau, að kunnur athafnamaður hér á landi og fyrirtæki hans hafa haft áhuga á því að kaupa stórt bræðsluskip hingað til landsins til þess að vinna úr ýmsum sjávarafla, fyrst og fremst loðnu og kolmunna. Eins og fram kemur í grg., þá er hugmyndin sú, að þetta skip verði 36–40 þús. tonn að stærð og í því verði ný og fullkomin fiskimjölsverksmiðja með 2 þús. tonna afköstum á sólarhring og jafnframt aðstaða til frystingar á loðnuhrognum o. fl. Er gert ráð fyrir því af hálfu þeirra, sem hyggjast ráðast í þessi kaup, að skipið fari ásamt flotvörpuskipum á vorin og fyrri hluta sumars austur fyrir land til kolmunnavinnslu í íslenskri eða færeyskri fiskveiðilögsögu, eftir því sem heimildir leyfa. Síðan er gert ráð fyrir því, að seinni hluta sumars haldi skipið til kolmunnamiða vestur af landinu og haldi sig þar fram eftir hausti. Samkvæmt áætlunum þeirra, sem að þessu máli standa, mundi skipið fá a. m. k. 150 þús. tonn af kolmunna til vinnslu á hverju ári. Þá er gert ráð fyrir að skipið fylgi loðnuflotanum á vetrarvertíð og taki þar til vinnslu a. m. k. 60 þús. tonn á ári þegar veiðiþol loðnustofnsins leyfir. Auk þess er hugmyndin að senda skipið á fjarlæg mið í samvinnu við útgerðaraðila og yfirvöld hér á landi til þess að nota það til bræðslu á þessum sjávarafla, sem ég hef nefnt, og ýmsum öðrum. Þannig er hugmyndin með því að staðsetja skipið á kolmunnamiðum fjarri landi, að unnt sé að gera kolmunnaveiðar arðbærar fyrir íslenska skuttogaraflotann, þannig að veiðar stæðust fjárhagslega samanburð við veiðar á öðrum fiski. Síðan er bent á það í grg., að með flutningi á úrvalskolmunna til vinnslustöðva í landi megi skapa þar verkefni og vinna upp það hugsanlega tjón sem vinnslustöðvar yrðu fyrir ef togaraflotinn sækti á þessi mið.

Það, sem styður þetta mál að mínu mati, er einkum þrennt: Í fyrsta lagi er þarna bent á leið sem gæti stuðlað að frekari verndun þorskstofnsins, en það er allra mál, að leita þurfi ýmissa leiða til þess að svo megi verða, og þarf ég ekki að fara mörgum orðum um það. Í öðru lagi er þarna ráðgerð aðferð til þess að nýta betur aðra fiskstofna, sem sannanlega eru fyrir hendi á nálægum miðum og fjarlægum miðum, þannig að auðlindir hafsins séu nýttar af þeim glæsilega skipakosti, sem við Íslendingar eigum. Í þriðja lagi er hér fyrir hendi áhugi á að kaupa til landsins skip af þessari stærð, sem er nýmæli og mundi gjörbreyta fiskveiðum okkar Íslendinga, auka fjölbreytni í þeim og skapa verulegar tekjur, ef þær áætlanir standast sem gerðar hafa verið.

Þeir aðilar, sem að þessum hugmyndum hafa staðið og hafa kynnt þær, hafa, nú um nokkurt skeið kannað möguleika á því, að úr slíkum kaupum gæti orðið. Það hefur verið gert með því að leita til hæstv. ríkisstj. um heimildir til þess að kaupa skipið með venjulegum hætti, en ríkisstj. hefur af ástæðum, sem hér skulu ekki raktar, sett þá reglu, að þegar um slík skipakaup er að ræða skuli kaupandinn leggja fram 50% af kaupverði skipsins.

Með hliðsjón af því, hversu hér er um dýrt fyrirtæki að ræða, þegar áætlað er að skipið muni kosta 6–7 milljarða, er augljóst að íslenskir aðilar hafa ekki bolmagn til þess að reiða það fé fram. Þá hafa verið kannaðir þeir möguleikar að fá heimild til þess að skipið yrði keypt með allt að 100% lánum. Það liggur fyrir, að slík kaup eru möguleg, en heimildir hafa ekki fengist til þess að sú leið yrði farin. Það skal skýrt tekið fram í þessu sambandi, að væntanlegir eigendur að slíku skipi hafa ekki óskað eftir neinum ríkisábyrgðum eða baktryggingum. Þeir vilja taka þessa áhættu algjörlega sjálfir og þurfa ekki á slíkum ábyrgðum að halda gagnvart seljendum, þannig að það atriði hefur ekki ráðið úrslitum í afstöðu stjórnvalda til þeirrar málaleitunar sem ég hef hér gert grein fyrir. En að þessum svörum fengnum og með hliðsjón af þeirri stöðu, sem upp hefur komið, hefur verið horfið að því að leita lagaheimildar til þess að kaupa mætti þetta skip til landsins með svokölluðum leigukaupakjörum, en þau kaup eru algeng og hafa verið notuð í sambandi við kaup á farþegaþotum hingað til landsins og eftir atvikum er leið sem er þekkt í slíkum viðskiptum. Hún er í því fólgin, að gerður er leigusamningur, leiga greidd eftir því sem samningur segir til um og með ákveðnum eignarréttarfyrirvara verður síðan skipið að fullu eign þeirra aðila sem leigja það, þegar ákveðinn hluti leigunnar hefur verið greiddur.

Til þess að þessi leigukaup geti átt sér stað þarf á lagabreytingu að halda. Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að þessi heimild sé veitt með því að bæta inn þeirri grein sem frv. felur í sér. Og í frv. er gert ráð fyrir því, að heimild fáist til þess að kaupa þetta eina skip, enda hafa stjórnvöld það algjörlega í sinni hendi, hvort þetta mundi skapa fordæmi eða ekki. Eins og frv. er orðað, þá mundi þurfa nýrra heimilda og lagaákvæða við ef fleiri hygðust fylgja á eftir. Ég held þó að lítil ástæða sé til að óttast það, ef hægt er að nota það orð, vegna þess að hér er um svo stórhuga fyrirætlanir að ræða og svo óvenjulegar tilraunir, að afar ólíklegt er að margir Íslendingar hefðu tök á því að ráðast í slík kaup og slíkan atvinnurekstur. það er líka ákaflega ólíklegt að þörf væri fyrir fleiri slík skip af þessari stærð.

Upplýsingar hafa legið fyrir af hálfu væntanlegra leigjenda um að hægt sé að leigja nú á þessum tíma skip af þessari gerð og breyta þeim í bræðsluskip og hægt sé að leigja þau með mjög hagkvæmum kjörum. Kannaður hefur verið markaður og framboð á slíkum skipum og í ljós kemur, að þau eru fyrir hendi með afar góðum kjörum í fleiri en einu landi.

Í þessu sambandi og þegar rætt er um að heimila leigukaup á slíku bræðsluskipi, sem gæti möguleika til þeirra fiskveiða sem ég hef nú gert grein fyrir, þá vildi ég leyfa mér að minna á að útgerð og fiskiðnaður við Norður-Atlantshaf stendur nú á tímamótum. Hin nýja 200 mílna fiskveiðilögsaga og ýmsar takmarkanir á fiskveiðum vegna ofveiði verðmætra fiskstofna munu hafa í för með sér víðtæka endurskipulagningu í þessum greinum. Þetta mun að sjálfsögðu ekki síst hafa áhrif fyrir okkur Íslendinga, sem byggjum mjög á fiskveiðum og útgerð.

Um leið og gengið hefur verið á stofna þorsks og síldar, sem áður báru uppi íslenskan sjávarútveg, hefur athyglin beinst að öðrum fisktegundum, sem eru mikilvæg fæða fyrir þorskinn, en minnkandi síldarstofnar hafa skilið eftir ónotaða. Þessar fisktegundir eru loðna, kolmunni og spærlingur. Bæði loðnu og kolmunna er hægt að nota sem hráefni fyrir frystihúsin að nokkru leyti, en magnið, sem veiða má, fer það langt fram úr vinnslu og sölugetu frystihúsanna, að ljóst er að a. m. k. á næsta áratug verður mest af veiðinni notað sem hráefni fyrir fiskmjölsverksmiðjur.

Veiðar loðnu fyrir fiskmjölsiðnaðinn hófust fyrst árið 1964, en þá veiddust um 8 þús. tonn. Það hefur lengi verið vitað, að þessi skammlífa fisktegund fer í hrygningargöngu upp að suður- og vesturströnd Íslands á tímabilinu janúar til mars ár hvert, en að lokinni hrygningargöngunni deyr megnið af þeim fiski sem kynþroska er. Þorskveiðar á þessum sömu mánuðum hafa lengi verið bundnar hegðun loðnugangnanna. Loðnan hefur almennt verið notuð sem beita fyrir þorsk og aðrar verðmætar fisktegundir. Menn hafa veitt því athygli, að seiði frá þessum hrygningargöngum loðnunnar út af suður- og suðvesturströndinni rekur með straumum á hafsvæði út af Norðvestur- og Norðurlandi, þar sem þau vasa upp. Þegar loðnan er kynþroska, um það bil 4 ára gömul, fer meginhluti hennar í göngu djúpt út af Norðurlandi til austurs og beygir síðan suður með austurströndinni upp að hrygningarstöðvunum. E. t. v. fara aðrar göngur vestur á bóginn og snúa síðan í suður út af Vestfjörðum.

Veiðar á loðnu fyrir fiskmjölsiðnaðinn voru upprunalega bundnar hrygningarsvæðunum, en á síðari árum hefur loðnuveiðiflotinn mætt loðnugöngunum út af Norðausturlandi og síðan fylgt þeim eftir þar til loðnugöngunum er lokið.

Kolmunnastofninn hefur haft vaxandi þýðingu fyrir fiskveiðar í Norður-Atlantshafi. Kolmunnanum hefur fjölgað ört á síðustu árum, en fiskveiðitilraunir eru nýlega hafnar. Kolmunninn er smávaxinn fiskur og er erfitt að nýta hann sem hráefni fyrir frystihúsin, þó hann að öðru leyti sé ágætlega hæfur til manneldis. Þróun vinnsluvéla og vinnsluaðferða ásamt gæðamati fer nú fram í nokkrum löndum þ. á m. í Skotlandi, Noregi, Danmörku og svo hér á Íslandi. Fiskurinn hefur verið frystur, þurrkaður og settur í súr og einnig hakkaður sem hráefni, m. a. fyrir japanska rétti. Mun vera talsverður markaður fyrir þetta fiskhakk í Japan. Veiðitilraunir eru talsvert langt á veg komnar, en kolmunninn er miðsjávartegund, og mun vænlegast til árangurs að nota flotvörpu við veiðarnar. Magn kolmunna í Norður-Atlantshafi er talið mjög mikið, sennilega a. m. k. 15 millj. tonna. Fiskurinn er farfiskur og virðist einn stofn hans hrygna vestur af Bretlandseyjum og síðan ganga í fæðugöngu um landhelgi Færeyja, Íslands og Noregs. Annar stofn er sennilega í hafinu milli Íslands og Grænlands og myndar hann svo stóra torfu á Dornbanka á vissum tímum árs, að talið er að kolmunnastofninn geti gefið af sér 1–2 millj. tonna á ári a. m. k., en þessi veiði mundi skiptast á milli nokkurra þjóða. Ísland mundi væntanlega fá allstóran hluta, þar sem tegundin heldur sig á vissum árstímum innan íslenskrar fiskveiðilögsögu, bæði austur og vestur af landinu.

Ísland hefur nokkurn veiðikvóta fyrir kolmunna í færeyskri fiskveiðilögsögu samkv. samningi milli Íslands og Færeyja. Kolmunninn heldur sig langt frá landi og veiðar á honum hafa verið miklum erfiðleikum háðar, áður en nútíma flotvörpunót hafði verið fullkomnuð með bergmálsleitartækjum og hitamælum, sem tengdir eru vörpunni. Veiðitilraunir, sem gerðar voru árið 1976 og 1977 af íslenskum skipum, sýna, að nýtísku skuttogarar geta búist við góðri veiði, þar sem kolmunnatorfurnar hittast. Er meira að segja þörf á sérstökum búnaði til að varna vörpunum frá því að springa sökum of mikils magns af fiski. Nokkur af stærri loðnuveiðiskipunum eru útbúin fyrir flotvörpuveiðar, og má geta þess sérstaklega, að Börkur frá Neskaupstað veiddi á s. l. sumri á skömmum tíma á milli 3 og 4 þús. tonn af kolmunna fyrir austan land. Færeyingar og Norðmenn hafa náð nokkrum árangri við veiðitilraunir, þar sem tvö minni veiðiskip hafa dregið sameiginlega eina vörpu.

Vegna vaxandi takmarkana á veiði þorsks og skyldra tegunda í íslenskri fiskveiðilögsögu, þá gæti kolmunnaveiði í stórum stíl gefið togaraflotanum tækifæri til þess að komast úr þeirri kreppu, sem hann nú er í, þ. e. að ofveiða þá fiskstofna, sem hann verður þó að byggja framtíð sína á. En það eru ýmsir fjárhagslegir örðugleikar: fjarlægð kolmunnatorfanna frá landi, tiltölulega lítil burðargeta togaranna, takmörkuð vinnslugeta í frystihúsunum, söluerfiðleikar á kolmunnaframleiðslu, og þannig mætti lengi telja. Eina raunverulega leiðin til að vinna kolmunna í stórum stíl virðist vera að bræða hann, en togararnir eru ekki eins vel búnir til þess að veiða bræðslufisk og hin stærri nótaveiðiskip. Sérstök flutningaskip þyrfti til að flytja fiskinn frá veiðislóðunum til fiskmjölsverksmiðja í landi, og slíkir flutningar eru dýrir og mundu lækka verð á ferskum fiski. Heppilegasta leiðin er því tvímælalaust verksmiðjuskip, sem væri á miðunum hjá flotanum og veitti honum alla þjónustu. Verksmiðjuskipin auka veiðitíma togaranna og auka þar með afla þeirra og það mundi spara þeim flutningskostnað. Skipið yrði aðallega fljótandi fiskmjölsverksmiðja, en einnig er möguleiki að setja aðrar fiskvinnsluvélar í það, t. d. í því skyni að framleiða fryst loðnuhrogn og frystar afurðir úr kolmunna eða kolmunnahakki fyrir Japansmarkað. Einnig mætti heilfrysta kolmunnann og flytja hann síðan í land til frekari vinnslu þar. Það er ekki talin of mikil bjartsýni, að verksmiðjuskip geti fengið 150–250 þús. tonn af kolmunna til vinnslu á ári miðað við 40 daga dvöl á miðunum austur af landi fyrri hluta sumars og 110 daga dvöl síðari hluta sumars og á haustin út af vesturströndinni. Hlutur Íslendinga í veiði kolmunnans yrði varla minni en um 400 þús. tonn á ári.

Spærlingurinn er sennilega vaxandi fiskstofn innan íslenskrar fiskveiðilögsögu, sem kemur heim við minnkandi stofna af þorski og öðrum stærri fisktegundum. Þannig verður spærlingur sennilega notaður í vaxandi mæli sem hráefni fyrir fiskmjölsverksmiðjur á Suður- og Suðvesturlandi á sumrin, en þar sem hann hefur haldið sig nálægt landi þarf ekki verksmiðjuskip til að nýta þessa hráefnalind.

Niðurstaða þessara upplýsinga, sem ég hef viðað að mér, bæði frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og frá þeim aðilum, sem hér hafa sýnt áhuga á þessum veiðum, er sú, að íslensk fiskimið geti gefið af sér um 1 millj. tonna af loðnu eins og nú standa sakir og a. m. k. 400 þús. tonn af kolmunna. Veiðigeta íslenskra fiskiskipa er nægileg til að ná megi þessari veiði árlega, og ekki er talið ómögulegt að íslensk bræðsluskip gætu fengið 100 þús. tonn af loðnu og 250 þús. tonn af kolmunna á ári, en varfærnari áætlun er um 60 þús. tonn af loðnu og um 150 þús. tonn af kolmunna. Ýmsir möguleikar eru einnig á því að leigja skipið annað á vissum tíma árs, og má þá nefna bæði miðin út af Nýfundnalandi og Vestur-Afríku, en slíkt yrði gert í samvinnu við þarlend fyrirtæki og yfirvöld.

Loks má nefna, að nýting stærsta lífverustofns á jörðinni, ljósátunnar í Suður-Íshafi, sem talin er nema 500–600 millj. tonna, mun væntanlega hefjast innan nokkurra ára. Verksmiðjuskipið, ef keypt yrði, gæti unnið ljósátu með minni háttar breytingum. Margar þjóðir hafa sýnt mikinn áhuga á veiðum á ljósátu, og ljóst er að að því stefnir, hvort sem við Íslendingar verðum með í því eða ekki, og er augljóst hagsmunamál fyrir okkur að missa ekki af þeim veiðum og taka þátt í þeim tilraunum og þeim veiðum sem nú eru fyrirhugaðar.

Ég held að hafið sé yfir allan vafa, að það sé stórt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga að greiða fyrir því, að kolmunninn sé veiddur hér og þessi stofn sé nýttur miklu meir en nú er. Þeir menn, sem hafa þekkingu á þessum málum, hafa ekki bent á aðrar leiðir, hagkvæmari en einmitt þá, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þ. e. a. s. að bræðsluskip sé keypt, sem geti fylgt flotanum á miðin og unnið úr fiskaflanum, sem skipin veiða.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að íslenskír aðilar geti keypt þetta skip. Það er auðvitað algjört frumskilyrði, að skipið og þessi atvinna sé í höndum íslenskra aðila. Nú má halda því fram, að vegna þessara formlegu leiða, sem hér er gerð tilraun til að fá samþ., sé skipið í fyrstu að nafninu til í eigu útlendra aðila. Þetta á þó ekki að mínu mati að verða til þess, að brugðið verði fæti fyrir þetta mál, vegna þess að það liggur fyrir, að íslenskír aðilar mundu standa að þessum leigukaupum, skipið mundi sigla undir íslenskum fána, hafa íslenska áhöfn og greiða sína skatta og skyldur hér á landi, og innan viss tíma, þegar eignarréttarfyrirvaranum hefur verið fullnægt, verður skipið að sjálfsögðu komið að fullu í hendur Íslendinga. Það kemur jafnvel til greina í þessu sambandi, til þess að forðast allan misskilning og ótta um að verið sé að hleypa útlendingum inn í íslenska fiskveiðilögsögu, að skipið sé í eigu Íslendinga erlendis, sem aftur leigi það hingað með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Mundi þá vera girt fyrir það, að menn teldu útlendinga vera að seilast til fanga í íslenskri lögsögu.

Ég vil vekja athygli á því, að hér er á ferðinni stórkostlega merkilegt mál, — mál sem tengist mikilvægasta atvinnuvegi okkar, — og þetta er mál sem mundi þá vera stofnað til að okkar eigin frumkvæði og vera í höndum Íslendinga, vera nýjung á þessu sviði og stuðla að framtaki manna, sem vilja taka áhættu og kosta nokkru til. Við erum öll sammála um að treysta þurfi frekar efnahags- og atvinnulíf okkar Íslendinga í mjög stórum mæli. Í því sambandi hafa stjórnvöld á undanförnum árum leitað samstarfs við erlenda aðila um uppbyggingu stóriðju hér á landi. Þær leiðir hafa verið umdeildar, svo ekki sé meira sagt, og ýmsir hafa áhyggjur af því, að erlent stórkapítal væri í óeðlilegum mæli hér, hreiðraði um sig á Íslandi og gæti raskað yfirráðum okkar yfir atvinnurekstrinum og haft, þegar til lengdar lætur, áhrif til hins verra á íslenskt atvinnulíf í heild.

Sjávarútvegurinn er hefðbundinn og rótgróinn atvinnuvegur á Íslandi. Þetta land hefur byggst upp og komist í álnir vegna dugnaðar íslenskra sjómanna og útvegsmanna. Á þessum vettvangi eigum við bæði þekkingu og búum að margvíslegum möguleikum og framtaki. Ég held að ekki sé hægt að hugsa sér betri leið til þess að skjóta stoðum undir íslenskt atvinnulíf en að gefa athafnamönnum á þessum vettvangi svigrúm til þess að leita nýrra leiða og til þess að setja á fót íslenska stóriðju.

Ég treysti því, herra forseti, að þetta mál fái yfirvegaða athugun og að menn liti á þetta mál fordómalaust, skilji hvaða þýðingu það hefur, að möguleikar séu veittir til kaupa á þessu bræðsluskipi. Ég vonast til þess, að þetta mál geti hlotið jákvæða afgreiðslu áður en þingi lýkur. Ég leyfi mér svo, virðulegi forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. sjútvn.