18.04.1978
Neðri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3573 í B-deild Alþingistíðinda. (2722)

217. mál, tollskrá o.fl.

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Á þskj. 451 hef ég ásamt hv. þm. Ingólfi Jónssyni og Páli Péturssyni leyft mér að flytja litlar brtt. við það frv. sem hér liggur fyrir. Þessar brtt. taka til örfárra tækja, sem notuð eru í landbúnaðinum, og eru fluttar til samræmingar við tolla af öðrum slíkum tækjum sem landbúnaðurinn notar.

Þegar lögum um tollskrá var breytt á síðasta Alþ. voru lækkaðir tollar á allmörgum tækjum til atvinnuvega í landinu, þ. á m. á ýmsum tækjum til landbunaðar og raunar meiri hluta þeirra tækja sem notuð eru við landbúnaðarstörf. Hins vegar vildi svo einkennilega til, að nokkur landbúnaðartæki voru skilin eftir við þessar breytingar og voru áfram í hærri tollflokki. Þarna lít ég svo á að hafi verið um mistök að ræða fremur en að af ásetningi væri gert.

Það frv., sem hér er flutt, er, eins og fram hefur komið, mjög svo tæknilegs eðlis. Þrátt fyrir það eru í frv. breytingar sem fela einnig í sér lækkun á tollum einstakra vörutegunda, sem gert er vegna samræmingar á tollskrárnúmerum og öðrum þáttum tollskrárinnar. Enn fremur heyrðum við það í ræðu hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., að n. flytur örfáar brtt. sem sumar hverjar fela einnig í sér lækkun á tollum einstakra vörutegunda til samræmis við önnur ákvæði frv. Þetta er í sjálfu sér eðlileg málsmeðferð og ekki nema gott um að segja. En þá er einnig að mínum dómi eðlilegt að fram komi og verði samþykktar um leið till. sem fela í sér algerlega sambærilega leiðréttingu og samhæfingu tollskrárnúmera eins og meiri hl. n. hefur rætt um.

Ég skal í örfáum orðum rekja þær till. sem ég mæli fyrir og fluttar eru, eins og ég hef þegar sagt, af hv. þm. Ingólfi Jónssyni og Páll Péturssyni með mér. Það er í fyrsta lagi um ámoksturstæki við almennar hjóladráttarvélar í öðru lagi um almennar dráttavélar til landbúnaðar, þ. á m. fjórhjóladrifsdráttarvélar, en þær voru í mun hærri tollflokki en dráttarvélar með drifi á tveimur hjólum. Komið hefur fram, að hæstv. fjmrh. hefur með reglugerðarbreytingu flutt þessa tegund dráttarvéla í sama tollflokk og hinar venjulegu hjóladráttarvélar til landbúnaðar, og get ég þá sagt það strax, að tollskrárnúmer 87.01.32, sem er að finna í brtt. okkar félaga, er óþarft og sá tölul. verður dreginn til baka. Þá er einnig um að ræða lækkun á tolli húsa fyrir dráttarvélar og í fjórða lagi lækkun á tolli vagna, sem notaðir eru við heyvinnu eða áburðardreifingu. Þessi tæki flest eru nú í 7% tollflokki, en færast miðað við till. okkar til samræmis við nálega öll önnur vinnutæki í landbúnaði, í 4% tollflokk á árinu 1978 miðað við almenna reglu og í 2% á árinu 1979, en verða tollfrjáls frá EFTA-löndum.

Þessi atriði, sem ég hef rakið og eru, eins og ég hef þegar sagt, einungis til samræmingar, eru takmörkuð við þessa fáu liði. Ég get tekið undir það með hv. 2. þm. Austurl., að eðlilegt hefði verið, miðað við ýmsar vélar til iðnaðar, að þessi tæki færðust niður í 0 í tollskránni. En við, sem flytjum þessar till., vildum ekki hverfa að því ráði, vegna þess að þá hefðum við brotið það, sem er höfuðtilgangur okkar, að færa þessi tæki til samræmis við önnur sambærileg og líta á þessar till. einvörðungu sem leiðréttingu á tollskránni, vegna þess sem ég ætla að hafi verið mistök við setningu laganna um tollskrá á síðasta Alþingi.

Ég er nokkuð undrandi á, að hv. fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. skyldi eigi sjá sér fært að taka þessar litlu brtt. upp í sínar og gera þær að sínum till., m. a. vegna þessara orða, sem ég hef þegar mælt, en einnig vegna þess að þessar till. eru það smáar í sniðum að þær kosta ríkissjóð nauðalítið fé, sem ég hef nú ekki fengið nákvæmlega upp, en mun þó vera örfáir tugir millj. kr. á ári. Sum þessara tækja munu raunar kannske fremur, eins og fjórhjóladrifstraktorarnir, skila tekjum í ríkissjóð eftir breytingar en fyrir, vegna þess að tollskrárákvæði og vörugjaldið gerðu ókleift að kaupa þau tæki til landbúnaðar, þótt það væri að öðru leyti hagkvæmara, bæði að því er snertir orkunotkun og meðferð lands.

Ég vil taka dæmi úr þessum fáu brtt.: Hvaða skynsemi getur verið í því, að heyvinnutæki eins og t. d. heybindivélar séu í 4% tollflokki, eins og er hin almenna regla og verður 2% frá 1. jan. n. k., en heyhleðsluvagnar, sem eru gersamlega sambærileg tæki til heyvinnu, skuli vera í 7% tolli? Ef það ætti að ganga svo, að þarna fengist ekki leiðrétting á, þá er um ranglæti að ræða sem ekki er hægt að skýra.

Ég vil svo aðeins geta þess, að till. þessar eru fluttar með fullri vitund og samþykki hæstv. fjmrh. Enda þótt hann hafi ekki um leið lýst því yfir, að hann mundi styðja þær og samþykkja, þá eru þær, eins og ég sagði fluttar með fullri vitund og samþykki hæstv. ráðh. Ég mun því treysta því, að þessar till. fáist samþykktar, og skal ekki að sinni hafa um það fleiri orð.