18.04.1978
Neðri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3596 í B-deild Alþingistíðinda. (2727)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Ég tek undir hvert orð, sem síðasti ræðumaður sagði um nauðsynina á að breyta þeim skattalögum, sem Íslendingar búa nú við. En það kom í ljós í ræðu hv. 9. þm. Reykv., að minni hans er mjög farið að förla. Kjarni þessa máls er sá, að það óviðunandi skattakerfi, sem þjóðin hefur búið við síðan í upphafi þessa áratugs, er að meginstofni sett á síðasta stjórnarári viðreisnarstjórnarinnar, þar sem þessi hv. þm. gegndi ráðherrastörfum 12 ár samfleytt í stjórn sömu flokka. Þau skattalög, lög nr, 68 frá 15. júní 1971, skyldi maður ætla að ekki hefðu verið sett að rasanda ráði. Ríkisstj., sem hv. 9. þm. Reykv. sat í sleitulaust í þrjú kjörtímabil, hafði 12 ár til að undirbúa þau skattalög. Þau voru sett á síðasta stjórnarári hennar, og þær breytingar, sem gerðar voru á næsta ári með lögum nr. 7 frá 23. mars 1972, röskuðu því miður allt of litlu í þeim skattalögum, sem viðreisnarstjórnin setti með mikilli þátttöku og vafalaust að verulegum hluta undir forustu hv. 9, þm. Reykv. Skattalögin frá 1971 eru samtals 57 greinar og 7 bráðabirgðaákvæði eða 64 tölusett atriði alls. Lögin frá 1972, sem sett voru til að breyta þeim logum eru samtals 23 greinar eða rétt um þriðjungur að greinatölu á við fyrri lögin, og þó nokkrar þessar breytingar eru ekki efnislegar, heldur stafa af því, að breytingar verða á öðrum greinum, svo að þar er ekki um sjálfstæðar efnisbreytingar að ræða. Og meginbreytingarnar voru að draga úr þeim ívílnunum sem fyrri lög frá 1911 höfðu veitt atvinnurekstri til að sleppa hæglega frá skattlagningu. En nóg um þetta efni. Ég vildi aðeins taka þetta fram í upphafi, að þó að ég sé málefnalega sammála hv. þm. um hversu mál standa nú, þá get ég ekki tekið undir hversu minni hans villir honum nú sjónir um forsögu þessa máls.

Þá er ekki síður ástæða til að taka undir það sem fyrri ræðumenn, hv. 9. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Austurl., hafa sagt um þau einstöku handarbakavinnubrögð sem átt hafa sér stað í núverandi stjórnarliði við undirbúning þess máls sem hér er lagt fram. Þar gerðist það, eins og ég ætla ekki að rekja, að frv., sem undirbúið hafði verið á þriðja ár, dagaði uppi á síðasta þingi vegna ósamkomulags innan stjórnarflokkanna. Og í stað þess að vinda sér að því af einurð að finna botn í því máli innan stjórnarliðsins, þá hefur það dregist nú í hartnær tvö missiri að brúa það bil sem þar var milli stjórnarflokkanna og milli manna innbyrðis í stjórnarflokkunum hvorum um sig. Síðan kemur niðurstaðan af því starfi, sem unnið hefur verið í hartnær ár, fyrir Alþ. og ætlast er til að Alþ. taki afstöðu til þessa máls og afgreiði það á jafnmörgum víkum og það hefur tekið stjórnarflokkana mörg missiri að undirbúa þetta afbrigði af skattalögunum.

Þess er að sjálfsögðu enginn kostur að gera einstökum atriðum frv. skil eftir að það hefur verið sólarhring á borðum þm. En þó vil ég fullyrða það, að eins og reyndar í fyrra frv. má finna við skjóta yfirsýn allmörg atriði sem virðast horfa til bóta. En sér í lagi vegna þess að þetta frv. er tengt frv. um að taka upp staðgreiðslu skatta er sérstök ástæða til að skoða ákvæði frv. vandlega og gera sér grein fyrir hver áhrif þess verða, því að þarna kemur það saman, að efnisbreytingar verða á sjálfum skattalögunum og kerfisbreyting verður á innheimtunni, svo málið er mun flóknara en ef aðeins væri um að ræða breytingu á skattakerfinu einu. Því gefur auga leið að það er að misbjóða Alþ. að krefjast þess, að það afgreiði slíkt mál ásamt fjölda annarra mála, sem ráðh. vilja að afgreidd verði, á rúmum tveim vikum.

Ég get ekki, eins og ég vek að áður, í fjallað að neinu gagni um efnisatriði þessa máls eftir skamma skoðun á frv. og mun því ekki tefja tímann með því að hafa hér uppi lauslegar aths. sem ekki byggjast á vandaðri skoðun að neinu leyti. En þó vil ég ekki fara úr ræðustólnum án þess að finna að því sérstaklega, að ekki skuli fylgja frv., á sama hátt og tafla, um hversu breytingarnar muni koma við skattbyrði einstaklinga, önnur hliðstæð tafla um það, hver áhrif breytingarnar hafa á skattbyrði fyrirtækja, því að það er ljóst að þar eru breytingarnar afar miklar og sömuleiðis að eitt helsta gagnrýnisatriði á gildandi skattalög hefur verið hve auðveldlega fyrirtæki geta sloppið hjá skattgreiðslum samkv. ákvæðum þeirra, þótt þau væru nokkuð hert frá því sem upphaflega var í lögum frá 1971. Mér hefði fundist mjög nauðsynlegt að strax á fyrsta stigi þessa máls hefði verið hægt að líta yfir einhverja úrtakstöflu, hliðstæða þeirri sem sett er upp um skattbyrði hjóna og einstaklinga á bls. 67 í frv.