19.04.1978
Efri deild: 80. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3615 í B-deild Alþingistíðinda. (2741)

228. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. iðnrh., að þessu frv. fylgir löng og glögg grg. um ýmislegt er snertir framkvæmd laganna s. 1. 5 ár og nokkra áætlun fram í tímann, einkum þrjú næstu árin. Einnig atvikaðist það svo, að hann svaraði mjög glögglega fyrir nokkru fsp. í Sþ. frá mér varðandi þessi mál. Vakti ég þar sérstaka athygli á því, að framlag þeirra manna hringinn í kringum landið, er framleiða grásleppuhrogn, var orðið mun meira en úr ríkissjóði og frá lagmetisiðnaðinum sjálfum. Það er því sérstök ánægja að sjá að það vandamál, sem upp er komið, skuli vera hugleitt, að leggja þetta ekki að mestum hluta til á ákveðinn hóp manna sem samtímis hefur þannig verið settur í þjóðfélaginu að næstum hver einasti þeirra hefur engra réttinda, skulum við orða það, eða möguleika notið til að fá stofnlán út á sínar litlu fleytur.

Mér er kunnugt um að margir þessara manna hafa sótt um lán úr Fiskveiðasjóði og fengið synjun. Mér er einnig kunnugt um að nokkrir hafa með aðstoð hæstv. sjútvrh. fengið lítils háttar fyrirgreiðslu og ber að þakka það. Hins vegar vil ég jafnframt að athugað sé og það sé á hreinu hér á þingi, að þessir menn eigi kost á einhverri fyrirgreiðslu og einhverjum stofnlánum sem fást hér á landi, því að þegar framleiðsla þessara manna fer að nema mikið á annan milljarð og þeir eru taldir hafa svo breið bök að þeir geti greitt milljónatugi í uppbyggingu á öðrum iðnaði, sumir mundu segja óskyldum, aðrir mundu segja tengdum, þá tel ég fulla ástæðu til þess, að þessir menn eigi kost á bæði rekstrarlánum og stofnfjárlánum. En ég fullyrði að almennt séð er ekki um það að ræða — alls ekki. Það er orðið nokkuð dýrt að koma upp einn grásleppuneti, það mun kosta allt að 8 þús. kr. Og menn verða að koma upp veiðarfærum, þó að þetta sé ekki stórt úthald, sem kosta frá 500 þús. upp í rúma millj. kr. Þetta leggja menn ekki til úr eigin vasa fyrirhafnarlaust. Ég vil að gaumgæfilega sé athugað, að þessir aðilar eigi möguleika á að fjármagna rekstur sinn eins og aðrir þeir er leggja þjóðarbúinu mikið til, gegn eðlilegum tryggingum auðvitað, í víxilformi eða einhverju öðru.

Ég sakna þess í þessu frv., að engin kvöð er lögð á ríkissjóð. Hann er undanþeginn öllu. Ég tel það alveg einstakt. Ég man ekki í augnablikinu að nokkur önnur stór iðngrein hafi ekkert að sækja í ríkissjóð. Ég held að Fiskveiðasjóður, Iðnlánasjóður, Byggðasjóður og ýmsir aðrir sjóðir fái allir meira og minna frá ríkissjóði. Það er auðvitað ánægjulegt, ef fyrst og fremst hrognakarlar hafa svo breið bök að þeir geti lyft þessu öllu saman og borið það með sóma. En ég tel að það sé ekki óeðlilegt, ef niðursuðuiðnaðurinn á að vera í slíku gildi sem áætlunin gerir ráð fyrir í framtíðinni, að ríkissjóður a. m. k. liðsinni þessari uppbyggingu, svo að ekki sé meira sagt. Það væri aðeins vottur um almennan skilning að efla þessa iðngrein, sem jafnan á marga formælendur í munni, en fáa í verki, að sýna nú lit á því, að eitthvað kæmi frá almenningi í landinu. Ef þessi iðngrein er svona mikilvæg, sem ég dreg ekki í efa að hún á að vera og muni verða, þá er eðlilegt að ríkissjóður veiti þessari grein iðnaðar styrk til uppbyggingar alveg eins og öðrum.

Það eru hér miklar áætlanir á döfinni. Farið hafa fram gífurleg húsakaup og fínt skrifstofuhúsnæði er til reiðu, mjög stórt og myndarlegt, og má koma þar mörgum mönnum inn í viðbót til að efla sölustarfsemi. Þess er því að vænta, að stofnunin, sem hefur nú á annað hundrað millj. í eigin fé til ráðstöfunar, þar með talið húsnæði, geti sýnt að aukning í kílóatölu verði á þeim vörum er hún leggur niður. Ég tek varlega það sem sagt hefur verið um krónutöluaukningu, að hún hafi tvöfaldast, því að gengið er svo breytilegt. Þó að það sé óskylt dæmi, vil ég nefna frétt sem fyrir allmörgum árum kom frá fyrirtæki einu. Það hafði aukið útflutning sinn um 100% — við nánari athugun var það úr 4 millj. í 8 millj. Talan var auðvitað 100%, alveg eins og þegar þekktur íþróttamaður jók stöðu sína um 100%, frá neðsta sæti í næstefsta sæti, á ákveðnu íþróttamóti. Svona tölur segja ekki alla söguna. Við þurfum að fá aðeins meiri innsýn í hvað tölurnar tákna.

Ég skal ekki tefja þessar umr. þar sem dagskráin er mjög löng. Aðeins, þar sem ég á ekki sæti í iðnn., legg ég á það áherslu, að því verði slegið föstu með bréfum frá viðkomandi rn., að þessir menn muni ekki greiða 6% útflutningsgjöld af sínum vörum — alls ekki, og þetta verði hið eina stofngjald sem verði lagt á þessa menn, þ. e. fullvinnslugjaldið á vörur þeirra. Einnig legg ég á það áherslu að eitthvað verði bætt úr, svo að þessir menn eigi möguleika á að fá einhver stofnlán,segjum ákveðna krónutölu á hverja smálest, þessir bátar eru yfirleitt undir 8 tonnum svo að það er ekki um stóra upphæð í hverju tilfelli að ræða, og gegn hóflegum eða réttmætum tryggingum eigi þeir möguleika á að fá smávíxla til að kaupa veiðarfæri og jafnvel umbúðir, því að nú kostar gráslepputunnan um 4000 kr. og síldarútvegsnefnd selur ekkert nema gegn staðgreiðslu. Þurfi menn að kaupa 10–20 tunnur, jafnvel allt að 50 tunnum, þá þarf allmiklu fé að snara út fyrir það. Það er þess vegna í æðimörg horn að líta. En svo á að leggja allt þetta á þessa menn, sem eru dreifðir um landið og ekki allir komnir í samtök. Þó að þau séu fyrir hendi í dag og aukning innan þeirra vébanda, þá er það sama. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða, og fyrst þessir menn eru metnir gildir sem greiðendur að stórum álögum, þá tel ég að það sé siðferðileg skylda að sýna þessum mönnum ákveðinn trúnað á móti.

Það mætti fjalla mun meira um þessa grg., sem hér er, og allar áætlanir sem þar eru settar fram. Það mætti óska glöggra upplýsinga um starfsemina í New York, sem á að kosta tugi millj. og hefur kostað stórfé, og það mætti spyrja um ýmislegt annað. En það er með þetta frv. eins og mörg önnur, þetta er keyrt í gegn á síðustu dögum þingsins og allar svona upplýsingar tefja fyrir málinu. Þess vegna beini ég því til nm., að þeir forvitnist nú nokkuð um það sem er að gerast, kalli forsvarsmenn þessara samtaka á sinn fund og fái glögga yfirsýn yfir þá áætlun sem hér er nokkuð gerð grein fyrir í grg., hvert stefna eigi með nýskipan þessara mála samkv. þessu frv. og nýjum lögum um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins.

Herra forseti. Ég læt þetta nægja að sinni, en fáist ekki nægilegar upplýsingar hjá n. seinna kann ég að grafast betur fyrir um málið og biðja um viðbótarupplýsingar.