01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

319. mál, fóstureyðingalöggjöf

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Á miðju ári 1975 öðluðust gildi lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Þessi lög komu í stað laga nr. 38 frá 1935, um leiðbeiningar fyrir konur gegn því að verða barnshafandi og um fóstureyðingar, og laga nr. 16 frá 1938, um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki er koma í veg fyrir að það auki kyn sitt.

Í 32. gr. fyrrnefndra laga er kveðið svo á, að ákveða skuli um nánari framkvæmd laganna í reglugerð. Í samræmi við þetta ákvæði og vegna óska frá n., sem starfar vegna þessara laga, skrifaði heilbr: og trmrn. landlækni bréf 24. maí á þessu ári og óskaði eftir að hann tæki að sér formennsku í n, sem ynni að samningu reglugerðar um nánari framkvæmd á ákvæðum laganna. Rn. lagði enn fremur til að í n, yrðu að öðru leyti nm. úr áðurgreindri n. sem starfar samkv. 28. gr. laganna.

N. hóf starf sitt með því að safna ítarlegum upplýsingum um fóstureyðingar á Íslandi og nokkrum nálægum löndum. Á fundum sínum hefur n. síðan fjallað um löggjöfina í heild, einstaka þætti hennar og hvaða ákvæði væri nauðsynlegt að skýra nánar í reglugerð. Verður starfi n. haldið áfram næstu mánuði.

Landlæknir hefur lýst þeirri skoðun sinni við mig, að nauðsynlegt sé að fá reynslu af framkvæmd löggjafarinnar áður en ráðist verður í útgáfu reglugerðar. Þá má geta þess, að núgildandi lög eru mjög ítarleg, eins og reyndar fyrri lög á þessu sviði, en aldrei þótti ástæða til þess að setja nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þeirra og voru þau þó í gildi í um 40 ár. Af þessum ástæðum get ég ekki fullyrt hvenær slík reglugerð verður tilbúin.

Í 1. gr. fyrrnefndra laga frá 1975 segir svo um ráðgjöf og fræðslu: „Gefa skal fólki kost á ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir. Landlæknir hefur með höndum yfirumsjón með framkvæmd og uppbyggingu slíkrar ráðgjafar og fræðslu.“ Í samræmi við þessa grein gerði landlæknisembættið veturinn 1975–1976 athugun á því, hvernig best væri að standa að þessu verkefni. Ákveðið var að hefja þetta starf með útgáfu fræðslubæklinga og fylgja því síðan eftir með skipulegri ráðgjöf og þjónustu á heilbrigðisstofnunum. Á vegum landlæknisembættisins voru á árinu 1976 þýddir og staðfærðir þrír sænskir bæklingar um getnaðarvarnir. Þeir komu út á þessu ári og heita í íslensku þýðingunni, fyrsti: „Spurningar og svör um pilluna“, önnur: „Spurningar og svör um lykkjuna“, þriðji: Spurningar og svör um smokkinn.“ Enn fremur er nú unnið að fræðsluriti um hettuna og er það væntanlegt á næstu mánuðum. Samkv. upplýsingum landlæknis var bæklingunum dreift á allar heilsugæslustöðvar, heilsuverndarstöðvar og ýmsar aðrar heilbrigðisstofnanir. Þá var menntmrn. boðið að notfæra sér útgáfuna, og nýlega var þeim dreift í lyfjabúðir og nokkrar bókabúðir.

Undanfarin ár hefur heilbr.- og trmrn. veitt heilbrigðisstarfsfólki nokkra utanfararstyrki til þess að kynna sér ráðgjöf og fræðslu á þessu sviði. Heilbrigðisyfirvöld hafa einnig uppi áform um að veita hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum viðbótarmenntun um getnaðarvarnir til þess að skapa grundvöll fyrir að framfylgja þeim þætti laganna er varðar ráðgjöf og þjónustu. Á s.l. sumri fóru Örn Bjarnason skólayfirlæknir og Sigurður S. Magnússon prófessor til Bretlands á vegum menntmrn. til að kynna sér fræðslu um kynferðismál fyrir börn á skólaskyldualdri. Er að vænta tillagna frá þeim um framkvæmd slíkrar fræðslu í íslenskum skólum.

Undanfarin ár hefur skráðum fóstureyðingum fjölgað nokkuð á Íslandi. Á tímabilinu 1962– 1970 voru skráðar 61–109 fóstureyðingar á ári. Frá árinu 1971 hefur skráðum fóstureyðingum fjölgað úr 142 í 359 árið 1976. Hlutfallslega var mest aukning á milli áranna 1972 og 1973 eða frá 151 fóstureyðingu í 224 eða um 48.3%. Á milli áranna 1975 og 1976 var hlutfallsleg aukning fóstureyðinga 16.5%. Og miðað við tölur frá fyrra helmingi þessa árs má gera ráð fyrir heldur meiri aukningu á milli áranna 1976 og 1977.

Þrátt fyrir þessa aukningu eru fóstureyðingar mun fátíðari hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Hins vegar kemur fram í skýrslum að fjölgun fóstureyðinga í þessum löndum er að mestu til komin á síðustu 10 árum eða í kjölfar frjálslegri löggjafar. Skráðar fóstureyðingar á Norðurlöndum á hverjar 1000 konur á aldrinum 15–14 ára er: Ísland á árinu 1965 með 1.8, en hæst er Noregur með 4.8, og á árinu 1975 er Ísland með 5.9, en hæst hinna Norðurlandanna er Danmörk með 26.9. Samanburður á tölum frá Íslandi, Svíþjóð og Skotlandi leiðir í ljós að hlutfallslega fleiri fóstureyðingar voru framkvæmdar hér á landi fyrir lok 12. viku meðgöngutímans en í þessum löndum. Á Íslandi voru fyrir lok 12, viku 95.6, en í Skotlandi 84.8 og Svíþjóð 78.2, en eftir tólf vikur voru á Íslandi aðeins 4.4 á móti 21.8 í Svíþjóð og 15.2 í Skotlandi. Fóstureyðingar hjá konum 30 ára og yngri voru hlutfallslega færri á Íslandi en t.d. í Svíþjóð og Skotlandi. Konur, sem fengu fóstureyðingin og höfðu aldrei alið barn, voru 30% af heildarhópnum á Íslandi á móti 43% í Svíþjóð. Giftar konur voru líka hlutfallslega stærsti hópurinn er fékk fóstureyðingu á Íslandi, en í Svíþjóð og Skotlandi voru það ógiftar konur.

Samanburður á skráðum ástæðum til fóstureyðinga er mjög örðugur vegna ósamræmis í skilgreiningu og túlkun þeirra eftir löndum. Félagslegar ástæður virðast þó alls staðar langalgengastar. Á kvensjúkdómadeild Landspítalans voru árið 1976 eingöngu félagslegar ástæður skráðar í 65% tilfella, eingöngu læknisfræðilegar ástæður í 18.2% tilfella og bæði læknisfræðilegar og félagslegar ástæður í 16.8%. Bráðabirgðatölur fyrir allt landið benda til þess, að heildarskiptingin hafi verið mjög svipuð.

Í yfirliti frá kvensjúkdómadeild Landsspítalans kemur fram, að árið 1976 var um 4% umsókna synjað og um 3% árið áður. Sambærilegar tölur frá Svíþjóð fyrir þessi ár voru um 3%. Þá kemur einnig fram í fyrrgreindu yfirliti, að tala kvenna, er hættu við fóstureyðingu, hækkaði úr 9 í 26 á milli áranna 1975 og 1976 á kvensjúkdómadeild Landsspítalans.

Skipuleg fræðsla og ráðgjöf um kynferðismál er áreiðanlega eitt helsta úrræðið til þess að sporna gegn fjölgun fóstureyðinga og viðhalda þeirri sérstöðu Íslands að hafa hlutfallslega langlægstu tölu fóstureyðinga meðal norrænna þjóða. Þessi starfsemi er rétt hafin og mörg verkefni liggja fyrir. Þau verða ekki framkvæmd án fjárstuðnings og fyrirgreiðslu frá opinberum aðilum. Hér er því á ferðinni mál sem hv. Alþ. verður að hyggja að á komandi árum.

Landlæknir hefur látið útbúa 10 töflur um fóstureyðingar til frekari upplýsinga umfram það sem ég hef hér rætt, og hef ég beðið um að afhenda þær til fyrirspyrjanda og annarra hv. alþm. ásamt þeim þremur bæklingum sem ég gat áðan um, til þess að alþm. geti kynnt sér af eigin raun hvað gert hefur verið í þessu fræðslustarfi.