01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

325. mál, aðstoð Þjóðleikhússins við áhugaleikfélögin

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Mjög skemmtilegar og ágætar umr. í Nd. nýlega um Sinfóníuhljómsveitina vöktu mig til nokkurrar umhugsunar um það hversu Þjóðleikhúsið rækti sitt hlutverk að örva og styrkja áhugaleikfélög, svo sem það á að gera. Þegar Þjóðleikhúsfrv. var hér til umr. á sínum tíma vakti ég athygli á þörf enn skýrari ákvæða um gistileikara og leikstjóra til áhugaleikfélaganna, þar væri það skyldan ein og svo nánari ákvæði í reglugerð sem mundu duga.

Sannleikurinn er sá að ég held að þetta ágæta fólk, sem þarna starfar, muni ekkert yfir sig hrifið af slíku starfi út um hvippinn og hvappinn, a.m.k. margt af því, og því þyki lítil listræn reisn þar yfir, finnist það litlu auka við hróður sinn þó að leikstýrt sé eða leikið í einhverju sjávarplássinu úti á landi. Góðar undantekningar munu þó frá þessu. Ég man t.d. enn þá ágætt fordæmi Vals Gíslasonar austur á Héraði fyrir mörgum árum, og fleira mætti telja. Og mér er reyndar sagt að þeir, sem reynt hafa þetta, telji sig hafa haft visst gagn og vissan lærdóm af þessu, viðurkenni það meira að segja. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta er auðvitað rétt, þeir hafa af því bæði visst gagn og geta dregið af því vissan lærdóm að starfa með áhugaleikfélögum. En fyrir áhugaleikfélögin er að þessu mikill fengur og einkum er þau í sínu fjárhagslega allsleysi fá þessa góðu starfskrafta á betri kjörum en þau fá leikstjóra almennt, þ.e.a.s. á launum frá Þjóðleikhúsinu sjálfu.

Ég hef stundum heyrt látið mikið af þessum stuðningi Þjóðleikhússins við áhugaleikfélögin, og því er það að við hv. þm. Karvel Pálmason höfum nú borið fram fsp. til hæstv. menntmrh. til að fá um þetta gleggri upplýsingar en fagurgalann einan, hvort þetta sé svo sem stundum er af látíð, — þ.e.a.s. hversu margir það voru t.d. á síðasta ári sem störfuðu með áhugaleikfélögum og hvort leikstjóralaun voru þá greidd af áhugaleikfélögum eða leikaralaunin felld niður, eða hvort þessir ágætu menn voru á kaupi hjá Þjóðleikhúsinu, þ.e. hvernig Þjóðleikhúsið hefur þar í einhverju móti á móti komið. Eins þykir okkur rétt að skýrt komi fram hver aðstoð önnur sé af þjóðleikhúsinu veitt, því að vissulega er þar um að ræða marga mikilvæga þætti sem unnt væri að rækja af leikhússins hálfu til mikils gagns fyrir áhugaleikfélögin.