21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3703 í B-deild Alþingistíðinda. (2869)

140. mál, vegáætlun 1977-1980

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það hafa á yfirstandandi þingi, eins og raunar oftast áður, orðið allmiklar umr. um samgöngumál og fjárframlög til þess mikilvæga þáttar í þjóðfélagi okkar. Það hafa verið fluttar margar till., bæði af stjórnarandstæðingum og ekkert síður af stjórnarþm., en a. m. k. okkur, sem í stjórnarandstöðunni höfum verið og erum, finnst, að minna fari fyrir verkunum eða framkvæmdum þeirra till., sem hv. stjórnarþm. hafa flutt og talað um í mörgum fjálglegum ræðum á Alþ. að undanförnu.

Það er augljóst mál og þarf ekki að hafa mörg orð um það, að í tíð núv. hæstv. ríkisstj. hafa fjárveitingar til vegamála mjög svo dregist aftur úr að raungildi miðað við þann tilkostnað, sem við höfum orðið við að búa, þ. e. a. s. vegna hækkandi verðlags, mikillar verðbólgu. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta. Þetta er öllum hv. þm. ljóst og hefur raunar verið rifjað upp af og til að undanförnu og nú síðast af hv. þm. Geir Gunnarssyni. Það er sem sagt alveg ljóst, að fjárveitingar til vegarframkvæmda á s. l. þremur árum og þær, sem gert er ráð fyrir nú í ár, eru mjög svo skornar niður miðað við það sem þær hefðu átt að vera hefðu þær fylgt hækkun á tilkostnaði.

Á s. l. vori var afgreidd hér vegáætlun fyrir 4 ár, en áður en sú vegáætlun var afgreidd hafði verið gerð breyting á vegalögum og ný vegalög verið sett og afgreidd á Alþ. Af talsmönnum þessara breytinga var því haldið fram, að þær breytingar, sem gerðar voru á vegalögunum, kæmu til með að verka mjög til hins betra fyrir þá landshluta, sem verst eru settir að því er varðar samgöngumál, þá landshluta sem eru einangraðir stóran hluta úr árinu, ekki aðeins vegna samgangna á landi, en einnig vegna annarra samgönguþátta. Ég var einn af þeim sem héldu því fram, að þessi breyting mundi ekki verka á þennan hátt í framkvæmdinni. En vegáætlunin, sem afgreidd var á s. l. vori samkv. þessum nýju lögum, hefði átt að sýna, svo að ekki yrði um villst, hvort hér var um að ræða breytingu í þá átt að auðvelda framkvæmdir í samgöngumálum í þessum landshlutum sem verst eru settir.

Það var vissulega orðin mikil óánægja með hvernig framkvæmd var samkv. eldri lögunum, þ. e. a. s. með skiptinguna, þegar 50% eða ríflega 50% af öllu framkvæmdafé fór til framkvæmda í svokölluðum hraðbrautum — hraðbrautum sem ekki fundust nema á tiltölulega afmörkuðu og litlu svæði hér í þéttbýlinu. Margir héldu því fram, að sú breyting, sem gerð var á vegalögunum, mundi breyta þessu til hins betra, þannig að meiri fjárveitingar færu til þeirra kjördæma eða byggðarlaga og landshluta, sem áður höfðu talið sig út undan með skiptingunni eins og hún var eftir gömlu vegalögunum. En reynslan varð samt sú við þessa breytingu að því er varðar t. d. Vestfjarðakjördæmi, að frá árinu 1970, þegar bráðabirgðavegáætlunin var í gildi, og til ársins 1977, þ. e. a. s. fyrsta árs vegáætlunar samkv. nýju vegalögunum, lækkuðu fjárveitingar í krónutölu til Vestfjarða — í krónutölu milli ára 1976 og 1977 — um 24 millj. þrátt fyrir um eða yfir 40% verðbólgu og kostnaðarauka. Og staðreyndir sýna að hlutfallstala Vestfjarðakjördæmis, hvort sem um er nú að kenna þessari breytingu á vegalögunum eða einhverju öðru, lækkar milli áranna 1976 og 1977 frá því að vera 11.6% 1976 í það að verða einungis 10.2% 1977. Hér er um stórkostlega lækkun, hlutfallslega lækkun í fjárveitingum að ræða til þessa kjördæmis sem er langsamlega verst sett samgöngulega séð, en að mati þeirra, sem fyrst og fremst börðu hér í gegn og beittu sér fyrir breytingum á vegalögunum, áttu þær breytingar að verða til hagsbóta fyrir þetta kjördæmi og önnur þau sem illa hafa staðið.

Ég held það sé alveg ótvírætt, að a. m. k. þessi breyting hefur ekki orðið til bóta. Hún hefur ekki haft í för með sér að þau kjördæmi, sem þurfa fyrst og fremst á auknum fjárveitingum til samgöngumála að halda, hafa orðið þarna aðnjótandi við þessi breyttu vegalög. Það þarf því ekki að mínu viti lengur um það að deila, að þessi breyting, sem var gerð á vegalögunum, hefur ekki, a. m. k. ekki enn sem komið er, orðið að því gagni, sem fram var haldið af þeim sem fyrst og fremst höfðu áhuga á henni og komu henni í framkvæmd.

Ég skal ekki ræða mikið um vegáætlunina almennt eða vegamálin. Hér er um að ræða eins árs endurskoðun — endurskoðun sem fyrst og fremst er framkvæmd vegna mikillar óánægju meðal alþm., ekki síður óánægju hv. stjórnarþm., með afgreiðslu vegáætlunar á s. l. vori, þar sem í raun og veru var knúin fram yfirlýsing frá hæstv. samgrh. og ríkisstj. um að endurskoðun skyldi eiga sér stað á árinu 1977 og þá með það fyrir augum, að fjármagn yrði aukið til vegaframkvæmda. Ég hélt því fram, þegar verið var að ræða um vegáætlun á s. l. vori samkv. þá nýsamþykktum vegalögum, að sú skipting fjárveitinga milli kjördæma væri líkleg til þess að festast nokkuð í sessi og hún yrði a. m. k. í nokkurri framtíð til þess að ákvarða hvernig hlutfallstala fjárveitinga milli hinna ýmsu kjördæma mundi verða á næstu árum. Þessi skipting sem þá var ákveðin, var vægast sagt mjög óhagstæð fyrir kjördæmi eins og Vestfjarðakjördæmi. Ég benti á það áðan, að hlutfallstala þess kjördæmis eða prósentan, sem Vestfirðir fengu af fjárveitingum til vegaframkvæmda á árinu 1976, hefði verið 11.6% af heildarfjárveitingunum, en samkv. þessari nýju skiptingu aðeins 10.2%. Nú held ég að ekki þurfi um það að deila, ekki a. m. k. meðal þeirra sem til þekkja, að Vestfjarðakjördæmi er langsamlega verst setta kjördæmið í samgöngulegu tilliti og það væri því full ástæða til þess að rétta hlut þess. Raunar hefði það þurft að gerast miklu fyrr. Ég hygg að allir hljóti að vera orðnir um það sammála nú, þeir sem til þekkja, að hér verði að verða breyting á og gera þurfi sérstakt átak til að koma betra skipulagi á samgöngumál á landi og raunar einnig á öðrum sviðum innan Vestfjarðanna sjálfra og varðandi tengsl þeirra við aðra landshluta eða þjóðvegakerfið.

Ég hélt því fram við afgreiðslu vegáætlunar á s. l. vori, að fjárveitingar til Vestfjarðakjördæmis væru í algeru lágmarki miðað við prósentuskipti milli kjördæma og ég óttaðist það, og því héldu raunar fleiri fram, að verið væri að binda þessa skiptingu þannig að henni yrði tiltölulega lítið breytt þó að til endurskoðunar kæmi, hvort sem það yrði nú á árinu í ár eða árinu 1977, eða hinnar reglulegu endurskoðunar sem á að fara fram á komandi hausti eða komandi vetri. Miðað við það, sem nú liggur fyrir varðandi skiptingu milli hinna einstöku kjördæma, þá sýnist mér þessi fullyrðing mín einnig ætla að reynast rétt, því miður. Hefði engin endurskoðun átti sér stað á árinu 1977 fyrir árið 1978, þá átti Vestfjarðakjördæmi samkv. gildandi vegáætlun að fá í sinn hlut 10.6% af heildarfjárveitingum til vegaframkvæmda. Sú skipting, sem hér er lögð til, er ekki upp á 10.6%, eins og vegáætlunin í raun og veru segir til um að við eigum að hafa. Í þessari skiptingu er gert ráð fyrir að Vestfjarðakjördæmi fái í sinn hlut 10.3%, þ. e. a. s. 0.1 % hærra en á s. l. ári. Þessi endurskoðun þýðir því í raun og veru hlutfallslega lækkun á því, sem fer til fjárveitinga og framkvæmda í vegamálum á Vestfjörðum á árinu 1978, miðað við það sem gildandi vegáætlun gerði ráð fyrir. Að vísu er útvegað viðbótarfjármagn, en hlutfallslega fara Vestfirðir verr út úr þessari skiptingu, sem hér er lagt til að verði, heldur en þeirri skiptingu, sem þó var afgreidd á s. l. vori og átti að gilda fyrir árið 1978. Hér er lagt til að lækka hlutfallslega þessa tölu sem Vestfjarðakjördæmi átti að hafa og var þó ærið nógu lág fyrir.

Ég held að það verði að vekja sérstaklega athygli alþm. á þessari staðreynd. Það er alveg út í hött og getur ekki verið ætlun ráðandi manna, að Vestfirðir og Vestfirðingar verði ár og síð og alla tíð kannske svona einangraðir, ekki einungis frá aðalþjóðvegakerfi landsins, heldur verði svo mikil einangrun innan byggða á Vestfjörðum að það sé réttlætanlegt að halda þeim í þessari lágmarksprósentu ár eftir ár og kannske úratug eftir áratug. Hér verður að verða á breyting og má furðulegt teljast að ráðandi menn um þessi mál skuli ekki koma auga á að hér er stefnt í hreinan voða ef ekki verður breytt um stefnu.

Margoft hefur verið vakin á því athygli á Alþ., hversu mörg og brýn verkefni bíða úrlausnar í vegaframkvæmdum á Vestfjörðum, stórverkefni á okkar mælikvarða, verkefni sem ekki þola neina bið úr því sem komið er. Það hafa orðið framkvæmdir, stórframkvæmdir í öðrum kjördæmum í vegamálum, framkvæmdir upp á hundruð millj., sem kunna að losa nokkra milljarða áður en lýkur. Á sama tíma hefur Vestfirðingum verið neitað um að fá að hefja eina einustu stórframkvæmd í vegamálum í kjördæmi sínu. Nú gæti þetta sjónarmið verið skiljanlegt, ef svo væri ástatt að Vestfirðir væru komnir eitthvað fram úr varðandi samgöngumál á landi, en því er ekki til að dreifa, síður en svo. Ég vil aðeins minna á það hér, að við Vestfjarðaþm. höfum bent á það sérstaklega, og ég veit ekki annað en fullt samkomulag hafi verið um það milli Vestfjarðaþm., að framkvæmdir borð við þá að koma í veg fyrir stórkostlega slysahættu á veginum milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur þyldu enga bið, bókstaflega enga bið. Má segja að mannslíf séu í hættu í hvert einasta skipti sem um veginn er farið. Þetta hefur verið af okkar hálfu nefnt verkefni nr. eitt, forgangsverkefni. Þetta hefur engar undirtektir fengið enn. Á þetta hefur ekki verið hlustað þrátt fyrir það að árið 1972 hafi fengist af rannsóknafé fé til þess að rannsaka með hvaða hætti skyldi úr bætt á þessum vegi. Ég minni á að Vestfirðir eru enn úr tengslum við aðalþjóðvegakerfi landsins 7–9 mánuði á hverju einasta ári. Þar er um stórverkefni að ræða á okkar mælikvarða að fá það afgert og fá í það fjármagn, hvaða leið skuli valin til þess að tengja Vestfirði við alþjóðavegakerfið og með hvaða hætti það skuli gert. Og ég minni einnig á að brýn nauðsyn er og það fyrir löngu orðin á að bæta þann veg sem liggur frá Ísafirði vestur og veginn um Breiðadalsheiði. Það verður ekki gert nema með stóru átaki og samsvarandi miklu fjármagni, ef það á að gerast. Ég minni einnig á, að það er orðin brýn nauðsyn og raunar orðið óþolandi, að ekki skuli vera búið að tengja Strandasýslu með vegi við Vestfirðina að öðru leyti.

Hér eru aðeins nefnd nokkur verkefni sem bíða úrlausnar, en eru svo knýjandi að ekki verður við unað að ekki fáist fjárveitingar til þeirra og með þeim hætti verði þeim hrundið í framkvæmd og framkvæmdunum lokið á tiltölulega stuttum tíma. Ekkert þessara verkefna hefur enn sem komið er hlotið náð fyrir augum meiri hl. Alþ., og engar líkur eru á því, að þessi verkefni, neitt þeirra, fái fjárveitingu á þessu ári, þrátt fyrir að aukin er þó nokkuð fjárveiting til vegaframkvæmda almennt. Það er vissulega full ástæða til þess að mótmæla þessu harðlega og vekja sérstaka athygli þm. á því, sem ég held þó að ætti ekki að þurfa, hversu Vestfjarðakjördæmi býr við sérstakar einangraðar aðstæður í samgöngumálum. En hver sem ástæðan er, þá virðist engin breyting fást á þessu. Ég hefði talið það ekki einungis eðlilegt, heldur og sjálfsagt með tilkomu þess aukna fjármagns, sem nú er geri ráð fyrir að leggja í vegaframkvæmdir umfram það sem gildandi vegaáætlun gerir ráð fyrir, að rétta nú hlut Vestfjarðakjördæmis og það yrði a. m. k. byrjunin á því, að það kjördæmi kæmist í námunda við önnur kjördæmi að því er varðar bættar samgöngur. Það hefði því verið full ástæða til þess að breyta skiptaprósentunni milli kjördæma í þá veru að hækka verulega hlutfall Vestfjarðakjördæmis frá því sem það var í gildandi vegáætlun, en ekki lækka það, eins og gert er ráð fyrir í þessum till. Ég vil því segja fyrir mitt leyti, og gerði grein fyrir því í fjvn., að ég tel þessi skipti, þessi hlutfallsskipti milli kjördæma, á engan hátt eðlileg. Um þetta hafa menn skiptar skoðanir, en ég held þó, hver sem kann að verða endanleg niðurstaða á Alþ., að allir þm. Vestfjarða séu sammála um þetta. Eigi að síður virðist ekki vera hægt að knýja fram breytingu.

Það er athyglisvert, ef við skoðum fjárveitingar til vegaframkvæmda frá árinu 1970 og til og með árinu 1977, þ. e. a. s. í 8 ár, að s. l. 8 ár hefur Vestfjarðakjördæmi fengið 8.5% af því fjármagni sem varið hefur verið til framkvæmda í vegamálum á þessu tímabili. Vestfjarðakjördæmi hefur fengið langsamlega lægstar fjárveitingar hlutfallslega allt þetta tímabil. Það hefði vissulega verið ástæða fyrir þann meiri hl., sem hér ræður ríkjum, að hugleiða þessi mál frekar, eins og ég hef margoft sagt, ekki síst með tilliti til þess, hvernig ástandið er. Það er alveg sérstakt ástand í þessum landshluta, eins og er á Vestfjörðum, að það skuli líða vikur og mánuðir svo að ekki sé komist milli byggða eða milli landshluta. Vestfirðir eru eina kjördæmið, sem einungis getur nýtt eina samgönguleið stóran hluta úr árinu, samgönguleið sem þó er á margan hátt stórlega gölluð, þ. e. a. s. flugsamgöngur, sem ekki er hægt þó að sinna nema að tiltölulega litlu leyti. Aðrir landshlutar hafa þó aðrar leiðir til að hlaupa upp á, en því er ekki til að dreifa að því er varðar Vestfirði.

Ég er ábyggilega ekki einn Vestfirðinga um að þykja það alleinkennilegt hjá ráðandi mönnum þjóðarinnar, að þeir skuli áfram ætla að halda á þeirri braut að láta Vestfirði skera sig úr með minnstar fjárveitingar, lægsta hlutfallstölu í fjárveitingum ár eftir ár. Ég á ekki von á að breyting verði á þessu ári. Mér sýnist að nokkuð ljóst sé, að sú till., sem hér liggur fyrir um skiptingu fjármagns til vegaframkvæmda á árinu 1978, verði endanlega afgreidd eins og hún liggur fyrir. Ég á því ekki von á breytingu að þessu sinni. En ég vil mjög vara við því að áfram verði haldið á þeirri braut að halda Vestfjarðakjördæmi alltaf við lágmarkið, þrátt fyrir að það hafi mesta þörfina fyrir fjárveitingar til framkvæmda. Hin raunverulega endurskoðun vegáætlunar á að fara fram á komandi hausti, og þá gefst þeim, sem þá kunna með mál að fara tækifæri til þess að gera leiðréttingu á þessu. Ég vænti þess fastlega, að svo verði um séð og það verði gert.

Það var aðeins vikið að því áðan, hversu stór hluti af fjárveitingum til vegaframkvæmda færi í eitt tiltekið verkefni, sem er Borgarfjarðarbrúin. Og það er vissulega rétt, að á okkar mælikvarða er um stórar fjárhæðir að ræða til eins verkefnis. Það er talið að Borgarfjarðarbrúin kunni að kosta langt á 5. milljarð, þegar upp verður staðið. Og nú er það yfirlýst stefna hæstv. samgrh., og líklega margyfirlýst, að næsta stórverkefni í vegagerð eigi að vera brú yfir Ölfusárósa. Í náinni framtíð virðist það fyrst og fremst eiga að vera um það að ræða að byggt sé sem mest af brúm og þá helst brúm sem kosta nógu mikið. Ekki sýnist eiga að hugsa um að landshlutar, sem ekki þurfa tiltölulega stórar brýr, en eru eigi að síður innan héraðs og frá öðrum landsvæðum algerlega einangraðir, fái réttan hlut sinn í fjárveitingum til vegaframkvæmda. Ég held að það sé alveg augljóst, að þó að nauðsyn hafi verið talin á því að ráðast í framkvæmd eins og Borgarfjarðarbrúna og smiði brúar yfir Ölfusárósa, þá megi menn ekki einblína á verkefni sem þessi. Það er vissulega víðar þörf á framkvæmdum, sjálfsagt miklu kostnaðarminni, en eigi að síður mjög nauðsynlegum og ekkert síður nauðsynlegum en þessar tilteknu framkvæmdir eru. Það má ekki gleyma þeim. Það þarf líka að sinna þeim verkefnum þó að minni séu í sniðum, því þau eru jafnnauðsynleg þeim, sem þau eiga að þjóna, eins og brú yfir Borgarfjörð eða brú yfir Ölfusárósa er hér syðra. Ég vil sem sagt eindregið vara við því, að haldið verði áfram á þeirri braut að Vestfirðir verði áfram einangraðir sem mest, eins og gert hefur verið. Ég a. m. k. hef ekki trú á því, að hv. þm. sé ekki ljóst hvernig ástandið er í þessum efnum. Ég held að þeim hljóti að vera það ljóst og því ætti að vera nægilegur vilji til að breyta um stefnu og þoka framkvæmdum vegamála í þessu verst setta kjördæmi betur á veg en raun hefur á orðið að undanförnu og er greinilegt að verða á samkv. þessari þáltill. um vegaframkvæmdir 1978.

Ég vil, herra forseti, taka undir og lýsa fyllsta stuðningi mínum við það, sem fram kom hjá hv. þm. Geir Gunnarssyni varðandi þá bókun sem gerð var í fjvn. út af tiltekinni lántöku Seðlabanka Íslands upp á 350 millj. kr. Ég hef áður haldið því fram, að fjvn., hvernig sem hún er saman sett pólitískt séð, eigi ekki með neinu móti að lýsa blessun sinni yfir framkvæmd eins og þessari varðandi lántöku hjá Seðlabanka Íslands. Þetta hefur oft verið rætt í fjvn. og yfirleitt verið góð samstaða um að mótmæla vinnubrögðum sem þessum, hvaða ráðh. sem í hlut á, það á ekki að skipta máli. Og það er miður, að ekki skyldi takast um það alger samstaða í n. að mótmæla þessu, vara við því og koma í veg fyrir að svona vinnubrögðum verði haldið áfram. Þetta er ekki gagnrýni á það, að fjármagn skyldi fengið til aukinna framkvæmda, heldur er verið að gagnrýna þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í sambandi við að fá féð. Þarna er í raun og veru gengið fram hjá þeim aðila, sem á lögum samkv. um þetta að fjalla, og til hans komið eftir á, þegar allt er búið og gert.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa öllu fleiri orð um þetta að þessu sinni. Eins og fram hefur komið er hér einungis um að ræða endurskoðun til eins árs. Samkv. lögum á að endurskoða vegáætlun að hausti. Það er hin raunverulega endurskoðun, og ég vona fastlega að betur takist til þá en nú að reyna að bæta hlut Vestfirðinga frá því sem hann hefur verið. Það er vissulega full þörf á því.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, með örfáum orðum gera grein fyrir brtt. sem ég flyt á þskj. 662 ásamt þeim hv. þm. Helga F. Seljan, Sighvati Björgvinssyni, Ólafi Þ. Þórðarsyni og Sigurlaugu Bjarnadóttur. Brtt. er um það, að aftan við tillgr. í vegáætlun bætist svofellt ákvæði til bráðabirgða:

Alþ. felur samgrh. að láta framkvæma á komandi sumri athugun á því, hvaða leiðir sé heppilegast að fara til innheimtu veggjalds.

Vegagerðinni skal falið að framkvæma athugun þessa, og skulu niðurstöður athugunarinnar svo og till. Vegagerðarinnar um leiðir liggja fyrir Alþ. við næstu endurskoðun vegáætlunar.“

Veggjald hefur oft verið til umr. á Alþ. Illu heilli var þessi tekjustofn Vegagerðinni til handa afnuminn á sínum tíma, tekjustofn sem ég ásamt mörgum fleiri alþm. tel að sé réttlætanlegur í fyllsta máta, tekjustofn sem alls ekki eigi að sleppa að nota og nýta, ekki síst þegar haft er í huga hversu brýn þörf er á auknu fjármagni til vegaframkvæmda í landinu. Það hafa verið fluttar till. um það æ ofan í æ að taka þetta veggjald upp aftur í þeirri mynd sem það var í. Þær till. hafa ekki náð fram að ganga. Við höfum valið þann kostinn nú að flytja brtt. í þá átt, að gerð verði athugun á því, hvaða leið sé heppilegust til þess að innheimta slíkt veggjald, og að niðurstöður af þeirri athugun og till. Vegagerðarinnar liggi fyrir við endurskoðun á vegáætlun sem væntanlega fer fram á hausti komanda eða í síðasta lagi á fyrri hluta næsta árs. Það er ekkert vafamál, að það má ná inn talsvert miklu fjármagni með þeim hætti að innheimta veggjald, í hvaða mynd sem það kann að vera, og a. m. k. er það mín skoðun að það sé sannarlega réttlátur skattur.

Ég skal ekki hafa um brtt. fleiri orð. Ég hef margoft lýst skoðun minni á þessu, en farið er inn á nýja braut að þessu sinni og lagt til að málin verði athuguð og Vegagerðin leggi till. sínar fram fyrir Alþ. við næstu endurskoðun vegáætlunar.