21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3717 í B-deild Alþingistíðinda. (2871)

140. mál, vegáætlun 1977-1980

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það er víst engin nýlunda, að við Vestfjarðaþm. kveðjum okkur hljóðs öðrum þm. fremur þegar samgöngumál og vegáætlun eru á dagskrá. Ég hygg að það sé ekki samkv. þeirri þjósögu, sem myndast hefur hér á þingi, að ef einn Vestfjarðaþm. talar, þá þurfi hinir að koma á eftir, heldur er það frekar hitt, að þessi mál eru kannske meira stórmál og brýnna mál fyrir þá, sem Vestfirði byggja, en aðra Íslendinga.

Ég vil í upphafi endurtaka þakkir mínar, sem ég hef látið í ljós áður, til hæstv. samgrh. og ríkisstj., því að teknar voru til greina mjög ákveðnar umkvartanir á s. l. ári og gagnrýni á það á hvern veg var staðið að vegáætlun þá. Það ber sannarlega vott um skilning á þessum málum, að vegáætlunin var endurskoðuð og fjármagn verulega aukið til vega á þessu ári.

Ég vil hverfa aðeins aftur að heildarsvip áætlunarinnar nú. Við höfum 930 millj. kr. meira úr að spila, og að því er hæstv. samgrh. upplýsir, þá verður magnhækkunin til nýrra þjóðvega í fjármagni um 26% frá áætluninni eins og hún var áður. Hitt er svo annað mál, sem ég hlýt að taka undir með þeim Vestfjarðaþm. sem hér hafa talað, að enda þótt við getum unað betur við okkar hlut nú en á s. l. ári, þá er auðvitað víðs fjarri að við séum ánægðir. Ég veit að það er raunar svo með þm. allra kjördæma, að allir telja að þeir hefðu þurft margfalt meira í sinn hlut til að sinna með viðunandi hætti þörfum í vegamálum hver í sínu kjördæmi. En mig langar til að leggja beinlínis þá spurningu fyrir hæstv. samgrh. sem æðsta vald í samgöngumálum okkar, hvort til sé viðhlítandi skýring á því, að Vestfjarðakjördæmi kemur þetta miklu lægra út í hlutfalli af vegafé á undanförnum árum, eins og raun ber vitni. Ég hef í höndum töflu frá Vegagerð ríkisins sem tilgreinir fjármagn og hlutfall til allra kjördæma landsins s. l. 12 ár eða nánar tiltekið frá árinu 1965 til 1976 að báðum árum meðtöldum. Þar stendur svart á hvítu: Vestfirðir koma þar út með hlutfallið og meðaltalið 10.2, sem er þó aðeins hærra en í Vesturlandskjördæmi, sem er með 9.5. — Mér hefur alltaf þótt eðlilegt, þegar ég hugsa um íslensk vegamál og þarfir í vegamálum, að Vestfirðir og Austfirðir væru settir undir sama hatt. Við, sem þekkjum landafræði Íslands og höfum ferðast um landið, vitum að þessir tveir landshlutar eru um margt svipaðir í þessu tilliti: há fjöll og erfiðir fjallvegir sem útheimta mjög dýrar vegaframkvæmdir. Þetta sama heildarhlutfall fyrir Austfirði er á þessum sama tíma 16.2 í staðinn fyrir 10.2 hjá Vestfjörðum. Og ég spyr: Er hægt að færa viðhlítandi og gild rök fyrir því, að Vestfirðir eru þetta miklu lægri en Austfirðir? Nú hef ég orð vegamálastjóra fyrir því, að lengd þjóðvega í hinum ýmsu kjördæmum sé nokkuð svipuð, það sé ekki ýkjamikill munur, þannig að ekki getur það skýrt þennan mismun. Ég vildi gjarnan fá svör um þetta frá hæstv. ráðh. Hver er skýring hans á þessum mrn, sem mér finnst óeðlilega mikill?

Ég vil taka eindregið undir það. sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, 8. landsk. þm., og raunar öllum sem hér tala um vegamál, að þetta er það stór og mikilvægur málaflokkur, að tvímælalaust og augljóst þurfum við að huga betur að föstum tekjustofnum til Vegasjóðs. Þetta hefur verið eitt af megingagnrýnisatriðum okkar þm. sem finnst að hægt miði í þessum málum. Við töluðum um það í fyrra og bentum á það, að hlutfall tekna ríkissjóðs af umferðinni, þá á ég við tolla og aðflutningsgjöld af bifreiðum, bensíni og öðru sem umferðinni tilheyrir, þetta hlutfall, sem rennur til Vegasjóðs, hafi lækkað á nokkrum árum úr 50% niður í 25%, um helming. Og mér tjá fróðir menn, að á þessu ári muni ríkissjóður fá í sinn hlut af þessum tekjum um 14 milljarða, á meðan tekjustofnar til Vegasjóðs eru 5.8 milljarðar samkv. vegáætluninni eins og hún liggur fyrir nú. Það liggur auðvitað beint við, að þarna verði að breyta til og láta Vegasjóð njóta í stórauknum mæli þeirra tekna sem ríkissjóður fær með þessu móti.

Ég hef sjálf oftar en einu sinni íhugað að freista þess að koma fram með þingmál af þessu tagi, sem lögbindi, tryggði með lögum bætt ástand í þessu tilliti. En ég hef viljað að það þýddi ekki, svo að ekki hefur af minni hálfu verið í það lagt. En ég vil taka undir það, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að endurskoðun á tekjuöflun Vegasjóðs er verkefni sem ekki getur beðið lengur.

Ég vil svo aðeins víkja að máli einstakra þm., sem hér hafa talað á undan mér, og þá sérstaklega máli hv. 5. þm. Vestf. sem því miður hefur farið af fundi þannig að hann heyrir ekki mál mitt. Ég vil taka það strax fram, að ég var honum sammála um mjög margt. Hins vegar fannst mér miður farið — og ég veit ekki hvað fyrir honum vakir í því sambandi — að hann reyndi að gera hlut kjördæmis okkar enn þá verri og miklu verri en ástæða var til. Og orðaskak af því tagi, sem hann viðhafði hér, ásamt með beinum rangfærslum, þjónar auðvitað engum tilgangi, hvorki fyrir okkur Vestfirðinga né aðra. Hann staðhæfði að nú lækkaði hlutfall Vestfjarða úr 10.6% s. l. ár niður í 10.2 Þetta er rangt samkv. upplýsingum sem ég hef bæði frá formanni fjvn. og frá Vegagerð ríkisins. Hlutfall Vestfjarðakjördæmis í ár er 10.6, eftir þeim tölum sem ég veit réttastar, sem er þó 0.4% hærra en heildarhlutfall þau 12 ár sem ég gat um áðan. Þá er og þess að geta, að auk þessa hlutfalls, 10.2%, koma 90 millj. sem verða utan við þetta hlutfall. Eru þær ætlaðar til að kosta vegagerð á Holtavörðuheiði, sem mér er tjáð af þeim mönnum, sem um þetta hafa fjallað, kemur í hlut Vestfjarða. Þessi vegur er allur í Strandasýslu. Þessar 90 millj. eiga m. a. að fara til að fullgera vegarkafla, sem byrjað var á í fyrrasumar, og í öðru lagi að gera vetrarfæran veg frá þeim nýja kafla með tengingu á gamla veginn fyrir neðan svokallað mæðiveikihlið, sem þeir, sem þekkja þarna til, vita hvar er. Þetta mun því auka allverulega hlut okkar að því er hlutfallið varðar.

Ég vil líka vekja athygli á, — og nú vildi ég, að hv. 5. þm. Vestf. væri viðstaddur, — að hann kvartaði með mjög sterkum orðum yfir því, hve illa væri að Vestfjörðum búið í þessum efnum, lét þess m. a. getið, að s. l. 8 ár hefði hlutfall Vestfjarða verið 8.5% af vegafé. Það er fróðlegt til upplýsinga að þau ár, sem flokksmaður hv. 5. þm. Vestf., Karvels Pálmasonar, var samgrh., á meðan vinstri stjórn sat að völdum, þá var hlutur Vestfjarða það ömurlegastur sem hann hefur orðið. Á þremur árum, á árunum 1972, 1973 og 1974, var þetta hlutfall 6.7, 6.6 og 10.5, þ. e. þau ár sem vinstri stjórn og vinstri ráðh. fór með samgöngumál. Vilji hann koma sökinni á einhvern um það, að okkar hlutur hafi verið síðri en skyldi, þá skyldi hann líta í eigin barm, því að hann hefði átt að hafa haft það góðan aðgang að hæstv. samgrh., Hannibal Valdimarssyni, eitilhörðum Vestfirðingi, að þetta hefði ekki átt að þurfa að koma svona lélega út þá. Þessi harða og árásargjarna ádeila á núv. ríkisstj. í þessum málum er þannig út í hött hjá hv. þm., þegar tekið er tillit til hvernig staðið var að málum þegar ætla hefði mátt að hans góði vilji, sem ég veit að er fyrir hendi, hefði átt að hafa meiri áhrif.

Hann benti einnig á og tók fram, sem er auðvitað út í hött einnig, að Vestfirðingar séu þeir einu sem hafa ekki nema um eina samgönguleið að velja að vetrinum til og það sé flugið. Ég skil varla í að hægt sé að slá slíku fram, því að sjórinn hefur löngum verið náinn okkur Vestfirðingum og samgöngur hafa löngum farið mikið fram á sjó. Að sjálfsögðu höfum við Vestfirðingar notið sjósamgangna sambærilegra við aðra landshluta, en þó vil ég taka fram, að þar hefur ekki verið staðið að málum sem skyldi. Við vitum öll að Skipaútgerð ríkisins hefur átt í þrengingum að undanförnu, fjárhagslegum þrengingum, og strandferðir hafa verið margfalt stopulli en þurft hefði. Við vonum að nú sjáum við fram á betri tíð með endurskipulagningu strandferða á vegum Skipaútgerðar ríkisins, þó að þessi endurskipulagning hafi varla enn borið þann árangur sem við vonuðumst eftir.

Það var minnst hér á vegaviðhaldið, sem er eitt af okkar stóru vandamálum í vegamálum. Hv. 8. landsk. þm., Sighvatur Björgvinsson, hefði getað farið réttar með þar. Það er rétt, að fé til vegaviðhalds hefur minnkað svo mjög að til vandræða horfir. Á s. l. ári var talið að fjármagn, sem fór til þessa liðar samgöngumála, hafi numið 58% af áætlaðri þörf, sem er auðvitað ömurlega lítið. Þetta hlutfall hækkar þó í ár samkv. till. í vegáætlun nú í 72% af áætlaðri þörf Vegagerðar ríkisins til vegaviðhalds, þannig að greinilega er þó reynt að koma til móts við hinar brýnu þarfir sem þarna eru annars vegar.

Það er svo með Vestfirði eins og aðra landshluta, að þar eru ótal verkefni sett á oddinn, og það er alveg rétt, sem bent hefur verið á hér, að s. l. kjörtímabil höfum við ekki fengið fjármagn til neins þeirra stóru og brýnustu verkefna að við teljum. Þau hafa öll orðið að bíða. Biða þangað til hvenær? Og auðvitað er þetta lága heildarhlutfall okkar komið til vegna þess að ekki hefur verið ráðist í neitt af þessum stóru fjárfreku verkefnum sem hér hefur verið bent á. Og ég vil sérstaklega í því sambandi minnast á, eins og hér hefur komið fram, verkefni eins og Óshlíðina milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, sem er stórhættulegur vegur, Breiðadalsheiðina, sem teppir suðurhluta Vestfjarða frá norðurhlutanum helming ársins, tengingu Strandasýslunnar um Steingrímsfjarðarheiði og miklar vegabætur í Önundarfirði og Dýrafirði, að ógleymdu einu litlu verkefni sem ég held að ég verði að minnast á, af því að manni finnst allt að því hlægilegt að ekki skuli það vera lagfært, það er vegarkafli í Barðastrandarsýslu, sem liggur um Vattarfjörð og er, að ég hygg, landsfrægur fyrir það, hve ómögulegur og hve hættulegur hann er. Það hefur ekki fengist fjármagn til þess að laga þennan litla kafla sem liggur inn við botn í Vattarfirði, en árlega liggur við að fjöldi bíla hljóti þarna slæma veltu eða brotni í tvennt að öðrum kosti.

Það er í rauninni furðulegt að svona lítið verkefni skuli þurfa að bíða jafnlengi. Að vísu er þetta stórverkefni, ef það á að bæta um varanlega og svo að vel sé, en lagfæring til þess að afstýra vandræðum og slysahættu nemur varla meira en 10–20 millj.

Ég vil með tilliti til þess, sem ég sagði um stóru verkefnin okkar sem ekki hafa fengið áheyrn, mótmæla því sem hv. 5. þm. Vestf. talaði um, að ekki hefði verið á okkur hlustað. Hann hlýtur að muna eftir því, að ekki alls fyrir löngu áttum við Vestfjarðaþm. fund með vegamálastjóra. Upplýsingar hans á þeim fundi um, að hann biði nýrra upplýsinga erlendis frá um gerð og möguleika á lagfæringum á Óshlíðarveginum, hljóta að veita okkur nokkurt fyrirheit um að athugun á þessu verkefni sé á næsta leyti. Raunar liggur fyrir staðhæfing vegamálastjóra um það, að rannsókn á þessu verkefni fari fram í sumar, þannig að ég lít svo á að þar með sé tryggt að við gerð næstu vegáætlunar, sem verður á n. k. hausti að ég hygg, muni þetta verkefni koma þar inn. Á sama hátt vil ég vænta þess, að ekki verði löng bið í það, að lokaákvörðun verði tekin um tengingu Djúpvegar og tengingu Vestfjarðakjálkans við aðalvegakerfi landsins um Þorskafjarðarheiði eða Kollafjarðarheiði. eflir því sem rannsóknir benda til að hagkvæmara sé. Það er að sjálfsögðu eitt af þeim aðkallandi verkefnum sem ekki er hægt að bíða með ákvörðun um öllu lengur.

Að lokum skal ég aðeins drepa á brtt. þá sem hér liggur fyrir og ég er meðflm. að, um athugun á því, á hvern hátt væri skynsamlegast staðið að veggjaldi. Ég hef alltaf verið dálitið hikandi í að fara fram á ákveðið veggjald á vissum vegarköflum. Ég veit að þetta er vandasamt í framkvæmd og hefur kostnað í för með sér að því er snertir innheimtu á slíku gjaldi, en ég hygg þó, að í vissum tilfellum sé það fyllilega réttlætanlegt.

Það fer ekki hjá því, að mér detti í hug ákveðin framkvæmd eins og Borgarfjarðarbrúin í þessu sambandi. Ég er ekki í hópi þeirra sem hafa fordæmi Borgarfjarðarbrú. Þetta er nauðsynlegt verkefni sem kemur öllum landsmönnum til góða, þó að ég telji hins vegar að hún hafi verið rangt tímasett og við höfum hreint ekki efni á því að ráðast í þetta risavaxna verkefni upp á 4–5 milljarða á meðan við höfum svo litlu fé úr að spila til vegamála. En ef þessi framkvæmd er það mikil samgöngubót og það mikið hagkvæmnisatriði sem forsvarsmenn hennar frá upphafi hafa viljað vera láta, þá tel ég að það væri aðeins eðlilegt að þeir, sem þessa mannvirkis njóta, láti eitthvað lítilræði af hendi rakna í sameiginlegan sjóð landsmanna til að sinna hinum mörgu brýnu verkefnum annars staðar sem ern í hrópandi þörf fyrir meira fjármagn. Það er alveg rétt, sem hér hefur verið bent á, að það er auðvitað óhagkvæmt úr því að byrjað er á þessari stóru framkvæmd, að draga hana von úr viti. Öll rök mæta með því, að við reynum að koma henni af sem fyrst þannig að hún komist í gagnið og fari að sýna arðsemi.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. En ég hlýt að taka undir þá gagnrýni, sem hér hefur komið fram á hæstv. landbrh. fyrir það, hvernig staðið var að 350 millj. kr. lánsfjáröflun úr Seðlabanka Íslands án þess að tala við kóng eða prest. Það hefur verið reifað hér vegna hvers þetta þykja óeðlileg vinnubrögð. Ég tek undir það og hlýt að vænta þess, að hæstv. samgrh. gefi okkur haldbæra skýringu á þessu máli hér á eftir.