21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3740 í B-deild Alþingistíðinda. (2879)

293. mál, fjáraukalög 1976

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég mun fyrir mitt leyti stuðla að því, að frv. þetta fái þá afgreiðslu sem hæstv. ráðh. óskar eftir. En það er þó eitt atriði sem ég get ekki komist hjá nú við þessa 1. umr. að beina til hæstv. ráðh. fsp. um.

Á ríkisreikningi fyrir árið 1976, sem dreift hefur verið á borð þm., bls. 397, er aths. frá yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings. Þar kemur fram að yfirskoðunarmenn ríkisreiknings hafa talið sig knúða til þess að senda Orkustofnun og fleiri fyrirtækjum á sviði orkuöflunar sérstaka fsp. í tilefni af bílaleigum. M. a. kemur þar fram á bls. 397, að dæmi eru til þess að einstakir starfsmenn hafi greitt yfir 1.5 millj. kr. fyrir bílaleigubíla árið 1976. Þessa upphæð mætti að sjálfsögðu margfalda með tveimur ef ætti að fá út verðlag ársins 1978.

Í öðru lagi segir þar: „Verður ekki betur séð en einstakir starfsmenn lafi stundum haft tvo bílaleigubíla til afnota samtímis, hvernig svo sem menn koma því við að skipta sér svo.“

Læt ég þessar tilvitnanir í aths. yfirskoðunarmanna ríkisreiknings nægja. En á bls. 428 kemur fram, að á árinu 1976 hafði bílakostnaður Kröflunefndar, Orkustofnunar og Rafmagnsveitna ríkisins skipst sem hér segir — ég vek athygli á því aftur, að þetta er árið 1976, þannig að til þess að fá þessar upphæðir á verðlag ársins 1978 væri óhætt að margfalda þær með tveimur:

Kröflunefnd hefur á árinu 1976 greitt fyrir aðkeypta bílaleigubíla 9 069 270 kr. og fyrir leigu á bílum starfsmanna 1 830 329 kr., eða samtals tæpar 11 millj. kr.

Á árinu 1976 hefur Orkustofnun greitt vegna bílaleigubíla 27 363 620 kr., vegna leigu á bílum starfsmanna Orkustofnunar 14 489 000 kr. og vegna leigu á öðrum bifreiðum, þ. e. a. s. bifreiðum sem hvorki eru teknar til leigu á bílaleigum né af starfsmönnum, heldur leigðar af þriðja aðila, 11 606 000 kr., eða á árinu 1976 í bílaleigukostnað alls 53 458 620 kr.

Þriðja stofnunin á þessu sviði, Rafmagnsveitur ríkisins, hefur á árinu 1976 greitt vegna bílaleigubíla 35 911 688 kr., vegna leigu á bifreiðum starfsmanna 30 653 734 kr., vegna daggjaldabíla, þ. e. a. s. leigubíla frá þriðja aðila, 12 065 830 kr. og í bensínkostnað af slíkum bifreiðum væntanlega 15 millj. 600 þús. kr., eða alls 94 231 252 kr.

Ég vil aðeins vekja athygli á því, að sérstaklega þessar tvær stofnanir, Orkustofnun, sem á árinu 1976 greiðir 53.5 millj. í bílaleigukostnað, og Rafmagnsveitur ríkisins, sem á árinu 1976 greiddu 94.2 millj. í bílaleigukostnað, eru þær tvær stofnanir á sviði orkumála sem okkur alþm. er tjáð að eigi nú við mikla greiðsluörðugleika að etja, m. a. svo mikla örðugleika að 3 af 5 stjórnarmönnum Rafmagnsveitna ríkisins hafa nýlega fundið hjá sér þörf til þess að segja starfi sínu lausu vegna fjárhagserfiðleika stofnunarinnar. En á árinu 1976 greiddu einungis þessar þrjár stofnanir samtals 158 589 037 kr. fyrir bílaleigu.

Ég vildi gjarnan beina í þessu sambandi fsp. til hæstv. fjmrh.: Í fyrsta lagi, hvort hann treystir sér fyrir 2. umr. fjáraukalaga til þess að gefa mér og öðrum þm., þá væntanlega þm. í fjvn. fyrst, upplýsingar um greiðslur fyrir leigða bíla, bæði bifreiðaleigubíla og bifreiðar starfsmanna, sem aðrar ríkisstofnanir hafa greitt á árinu 1976. Á ég þá fyrst og fremst við stærri ríkisstofnanir, Framkvæmdastofnunina og þjónustustofnanir, svo sem Póst og síma, útvarp og sjónvarp og fleiri slíkar.

Í annan stað vildi ég gjarnan fá upplýst frá hæstv. ráðh., hvort einhverjar almennar reglur hafi verið settar um greiðslur ríkisins og ríkisstofnana vegna leigu á bílaleigubílum eða bifreiðum starfsmanna, ef svo er, að slíkar almennar reglur hafi verið settar, hvernig eftirliti sé háttað með slíkum reglum og hvort líklegt sé talið að stofnanirnar fylgi þeim reglum almennt. Ég fæ ekki betur séð en yfirskoðunarmenn ríkisreiknings telji að svo sé alls ekki.

Og í þriðja lagi leikur mér forvitni á að fá að vita hver sé meðalrekstrarkostnaður fólksbifreiðar á ári hjá ríkinu, svo að hægt sé að sjá af þessum samanburði hvað ætla megi að ríkisstofnanir standi undir rekstri margra bifreiða á ári frá einkaaðilum.