02.11.1977
Efri deild: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

63. mál, innkaupastofnun ríkisins

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni og stuðningi við fram komið frv., þar sem gert er ráð fyrir að sett verði sérstök stjórn yfir innkaupastofnun ríkisins. Ég álít að það geti orðið öllum aðilum til bóta ef þessi tilhögun kæmist í framkvæmd, og hef ég þá sérstaklega í huga í sambandi við þetta mál, að á undanförnum árum hefur meira og meira orðið þess vart, að það hefur verið ákaflega erfitt að fá leyfi til þess að framkvæmdum, sem boðnar eru út á vegum Innkaupastofnunar, megi stjórna úr heimabyggðum. Ég held að sú tilhögun, að framkvæmdum og yfirstjórn þeirra sé stjórnað af stjórnvöldum hér í Reykjavík, geti skapað og hafi skapað ýmis óþægindi, og jafnvel munu vera áþreifanleg dæmi fyrir því, að þessar framkvæmdir hafi beinlínis tafist og orðið verulega dýrari en ef þær hefðu fengið að vera undir yfirstjórn heimamanna. Og þess vegna kvaddi ég mér hljóðs við þessa umr., að ég vil vekja athygli hv. dm, á þessu mikilvæga atriði.

Ég vil vænta þess, að ef þetta frv. verður að lögum, þá verði því gefinn gaumur að breyta til og marka þá stefnu, að eftir föngum verði heimamönnum, í sveitarfélögum og á öðrum stöðum, gefnir frekari möguleikar á því að stjórna og sjá um framkvæmdir, þó svo að útboð og annað þess háttar fari fram á vegum Innkaupastofnunarinnar. Á þessu máli hafa að mati þeirra, sem eru þessum málum kunnugir, verið nokkrir agnúar undanfarið. Ég held að það væri öllum til góðs, ef hægt væri að bæta hér um. Að öðru leyti lýsi ég fyllsta stuðningi mínum við fram komið frv.