21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3757 í B-deild Alþingistíðinda. (2891)

194. mál, réttindi bænda sem eiga land að sjó

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 384 hef ég flutt till. til þál. um athugun á veiðiréttindum bænda, sem eiga land að sjó. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela landbrh. að láta endurskoða nokkur ákvæði laga um lax og silungsveiði, sem orka kunna tvímælis. Í þessu sambandi ber einkum að kanna réttindi og skyldur bænda, sem eiga land að sjó, og attauga, hvort ekki sé ástæða til að rétta þeirra hlut. M. a. ber sérstaklega að kanna: hvort veiðiréttur á silungi í sjó, sbr. 15. gr. laganna, er ekki bundinn óþarflega ströngum takmörkunum til viðbótar þeim veiðihömlum, sem stafa af óblíðu veðurfari hér við land;

hvort ákvæði 23. gr. laganna um skyldu manna til að sanna sakleysi sitt, ef grunur um lögbrot fellur á þá, gangi ekki þvert á meginreglur íslenskra laga um sönnunarbyrði í refsimálum;

hvort ákvæði 6. tölul. 89. gr., sem heimila eftirlitsmönnum húsleit að eigin geðþótta án undangengis úrskurðar, gangi ekki langt úr hófi fram.

Jafnframt ber að stefna að því, að bændum, sem eiga land að sjó og hafa verið sviptir hlunnindum bótalaust, eigi í framtíðinni rétt á sérstakri fyrirgreiðslu til að koma upp fiskrækt sem aukabúgrein, þar sem góðar aðstæður eru fyrir hendi.“

Till. þessi skýrir sig nokkuð sjálf. Ég vil þó fara um hana nokkrum orðum, en að öðru leyti vísa til grg. Ég vil taka það fram, að hér er ekki verið að mæla með því að farið sé að veiða lax í sjó á nýjan leik eða að það sé lögleyft.

Laxabúskapur Íslendinga lofar góðu og fiskrækt í ám og vötnum á vafalaust glæsilega framtíð fyrir sér hér á landi, bæði sem veiðiskapur eins og nú er og svo hugsanlega í framtíðinni sem aukabúgrein og sjálfstæður atvinnurekstur. Og ég vil raunar láta í ljós þá skoðun mína, að það sé furðulegt, hve Íslendingar eru langt á eftir nálægum þjóðum í þeim efnum að byggja upp lax- og silungsrækt sem búgrein. Mér er kunnugt um að í nálægum löndum er um að ræða framleiðslu í stórum stíl nú orðið, enda hefur þessi búskapur aukist mjög hröðum skrefum á undanförnum árum, en hér á landi hefur verið um meira eða minna algjöra stöðnun að ræða. Lax- og silungsrækt í lokuðum hólfum við og í sjó á eftir að stóraukast hér á landi og þá ekki síst þar sem einhvern jarðhita er að fá.

Þótt viðurkennt sé að laxveiðar í ám og vötnum séu mjög mikilvægur þáttur í búskap landsmanna og síst ástæða til þess að draga þar neitt úr, þá má þó ekki gleyma hinu, að sú þróun, sem orðið hefur í veiðimálum á undanförnum árum, hefur að nokkurn leyti orðið á kostnað bænda sem eiga land að sjó. Þeir hafa verið sviptir hlunnindum sem forfeður þeirra hafa notið um aldur. Þeir hafa að öllu leyti misst rétt til laxveiða í sjó og fá engan arð af aukinni laxagengd í veiðiám, en auk þess eru veiðar á silungi í net háðar miklum takmörkunum og raunar bannaðar hálfa vikuna. Þetta er gert til samræmis við reglur sem gilda um veiði í ám og vötnum, en er ekki að öllu leyti sambærilegt hvað aðstæður snertir, því ef eitthvað er að veðri er veiði í sjó vonlaus, en það þarf alls ekki að vera í ám og vötnum. Veiðidagar verða því af náttúrlegum ástæðum miklu færri í sjó en í ám og vötnum.

Um leið og ég vil undirstrika að ekki er rétt að leyfa laxveiðar í sjó að nýju, þá tel ég þó að ástæðulaust sé að herða svo að silungsveiði í sjó að bændur, sem búa við sjávarsíðuna, verði nær réttindalausir. Á seinustu árum hefur eftirlit með veiði í sjó verið mjög aukið. Eðlilegt eftirlit er sjálfsagt að allra dómi, en ýmsar heimildir eftirlitsmanna lögum samkv. og aðfarir þeirra með stoð í lögum sæta ámæli svo að illindi hafa af hlotist.

Ég hef leyft mér í grg. að vitna í nokkur ákvæði veiðilaga sem mér þykja óeðlilega ströng og í litlu samræmi við íslenskar réttarvenjur. Í 3. tölul. 23. gr. segir: „Sá, er sóttur er til sakar fyrir brot gegn banni því, sem felst í þessari grein, er sýkn, ef hann sannar, að fiskur sé veiddur erlendis eða á löglegum tíma.“ Hér er sönnunarbyrðinni algjörlega snúið við. Maðurinn telst sekur nema því aðeins að honum takist sjálfum að sanna hið gagnstæða. Þetta tel ég að sé allt of langt gengið, sérstaklega þar sem ekki eru stórkostlegri hagsmunir í veði en raun ber vitni, og að þetta hljóti að hafa flotið einhvern veginn með í gegnum Alþ. án þess að það hlyti eðlilega skoðun„

Í öðru lagi segir í 6. tölul. 89. gr.: „Nú leikur grunur á, að ólöglegt veiðifang sé geymt í verslun, reykhúsi, frystihúsi eða öðru geymsluhúsi, og er eftirlitsmanni heimilt án undangengins úrskurðar dómara að gera leit að slíku veiðifangi og taka það í sína vörslu, ef þurfa þykir, en gera skal hann dómara þeim, er í hlut á, þegar viðvart, en hann skal þegar taka málið til meðferðar.“

Að eftirlitsmanni sé heimilt án undangengins úrskurðar dómara að gera leit í húsum manna er heimild sem lögreglumönnum er ekki veitt. Það verður ævinlega að fá úrskurð dómara til þess að leit sé leyfileg. Jafnvel þótt morðingi eigi í hlut er ekki heimilt að gera húsrannsókn í húsi hans nema að undangengnum úrskurði dómara. Þess vegna þykir mér lítt skiljanlegt og ekki við hæfi að þessi lög skuli veita ólöglærðum veiðieftirlitsmönnum vald sem dómurum einum er ætlað samkv. almennum reglum íslenskra réttarfarslaga. Hér eru áreiðanlega ekki þeir hagsmunir í veði, að eðlilegt sé að veita ólöglærðum mönnum, sem oft eru ráðnir til skamms tíma, kannske fárra vikna, og þekkja kannske ekki ýkjamikið til þess starfa, sem þeir eru ráðnir til að gegna, slíkt vald.

Ég vil undirstrika það hér, að till. þessi er ekki flutt að tilefnislausu. Till. er flutt vegna eindreginnar áskorunar mikils fjölda bænda, sem eiga land að sjó og telja, m. a. með tilvísun til þeirra sérkennilegu lagagreina sem ég vitnaði til, að vakin hafi verið upp illindi og úlfúð að óþörfu. Þeir hafa sent okkur þm. á Norðurl. v. áskoranir, m. a. úr báðum Húnavatnssýslum og úr Skagafjarðarsýslu, þar sem þess er mjög eindregið farið á leit, að hlutur bænda, sem eiga land að sjó, verði réttur. Inngangur að þessu undirskriftaskjali, sem áritað var af miklum fjölda bænda í þessum sýslum og var sent þm. kjördæmisins, birtist sem fskj. með þessari till. ásamt bréfi sem henni fylgdi.

Það er skemmst af að segja, að nú er orðið nokkuð um liðið sáðan bændur hófu þessa málsumleitan við okkur þm., og það hefur því miður ekki borið neinn árangur fyrr en ég taldi rétt að kynna alþm. þessa beiðni með flutningi þessarar tillögu. Ég vil láta þess getið, þó að það sé algjörlega áreitnislaust gagnvart þeim ráðh. sem í hlut á og er nú hér einmitt viðstaddur, að ég hef orðið fyrir nokkru ámæti fyrir að orða till. á þá leið, að Alþ. skuli fela landbrh. að láta endurskoða þessi ákvæði án þess að honum séu gefin frekari fyrirmæli um það, hvernig sú endurskoðun fari fram og hverjir hafi hana með höndum. Það er einfaldlega vegna þess, að menn hafa það svo sterklega á tilfinningunni að yfirmenn landbúnaðarmála og veiðimála hér í landi séu svo eindregið á bandi þeirra, sem hagsmuna hafa að gæta hvað veiði snertir í ám og vötnum, að þeim finnst að gefa þyrfti ströng fyrirmæli um það, að landbrh. gætti hagsmuna þeirra bænda, sem land eiga að sjó, þegar hann skipaði nefnd þá sem hér um ræðir. Ég vil hins vegar segja það, alveg sér í lagi þar sem hæstv. ráðh. er hér viðstaddur, að ég treysti honum til þessa ef till. af þessu tagi yrði samþ. eða önnur till. um endurskoðun á lax- og silungsveiðilögunum. — Ég vek á því athygli í framhjáhlaupi, að fleiri till. hafa komið fram hér í þinginu þar sem skorað er á ráðh. að beita sér fyrir endurskoðun laganna um lax- og silungsveiði. — En ég sem sagt segi það eitt að lokum, að ég treysti hæstv. ráðh. til þess að sjá til þess, að við endurskoðun laganna verði tekið fullt tillit til þeirra bænda, sem hér eiga í hlut, og að þeir eigi fulltrúa í þessari nefnd.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um efni þessarar till., en legg til að að lokinni þessari umr. verði henni vísað til hv. allshn.