22.04.1978
Efri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3781 í B-deild Alþingistíðinda. (2912)

241. mál, manneldisráð

Frsm. (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Víst er ég samþykkur því áliti hv. síðasta ræðumanns að smekkur sé mikils virði. Um það er ekki að efast. Hins vegar mætti kannske segja að það sé ekki eins nauðsynlegt og áður var að smekkurinn sé alls ráðandi. Núna er kannske eins oft þörf á því að maturinn sé ekki allt of aðgengilegur og fýsilegur, því að meiri hluti þjóðarinnar virðist frekar þurfa að draga við sig neyslu heldur en hitt. Hins vegar veit ég ekki hversu vel hv. þm. hefur lesið frv., vegna þess að hér stendur í aths. við 3. gr.: „Hins vegar verður að tryggja að í ráðinu sitji þeir aðilar sem besta þekkingu hafa í þessum málum, hvort sem hún er fræðileg eða fengin af langri reynslu.“ Þarna er einmitt um að ræða það, að pláss er fyrir matreiðslumennina og aðra þá sem hafa fengið ýmist fræðilega þekkingu eða langa reynslu. Þetta mátum við mjög mikils og þess vegna er meiri hl. ráðsins enn þá skipaður samkv. þessu áliti. Það eru aðeins tveir aðilar sem við höfum gert till. um að væru skipaðir samkv. ákvörðun stofnana sem sagt læknadeildar háskólans og verkfræði- og raunvísindadeildar. Ég held því, að vel sé fyrir þessu séð.