24.04.1978
Efri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3821 í B-deild Alþingistíðinda. (2969)

170. mál, Þjóðleikhús

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Frv. til l. um Þjóðleikhús hefur verið til meðferðar hér á Alþ. um margra ára skeið, en aldrei hlotið afgreiðslu. Ástæðan er sú, að ágreiningur hefur verið uppi um nokkur atriði þessa máls og aldrei hefur verið gengið í það að fá botn í það, hvernig helst mætti skapa samstöðu um eðlilega lausn málsins. Ég minnist þess, að á þinginu 1971–1971 var frv. um Þjóðleikhús til meðferðar og undir vorið afgreiddi menntmn. frv., en það náði þá ekki að komast í gegnum Nd. Síðan þetta var hefur málið verið til endurskoðunar þar til nú, að það kemur til 2. umr. í Ed.

Eitt af þeim atriðum, sem ávallt hafa valdið deilum, er skipan þjóðleikhúsráðs. Eins og kunnugt er, er núverandi þjóðleikhúsráð skipað 5 mönnum. Þar af eru 4 tilnefndir af 4 stærstu þingflokkunum. Þetta skipulag hefur verið gagnrýnt verulega, og upphaflega ástæðan til þess, að farið var út í að endurskoða lögin, er m. a. sú, að rétt þótti að endurskoða skipan Þjóðleikhúsráðs.

Í fyrstu útgáfunni, sem alþm. fengu af frv. til l. um Þjóðleikhús á árinu 1971, var gert ráð fyrir því, að þjóðleikhúsráð væri mjög fjölmennt. Mig minnir að gert væri ráð fyrir að í því sætu 12 eða 14 alþm., sem fór að vísu nokkuð eftir skipan Alþ. hverju sinni, talan var ekki endanlega ákveðin. Þetta þótti þá fráleitt með öllu, að fara að hrúga alþm. í stórum stíl inn í þjóðleikhúsráð. Síðan hafa menn verið að reyna að finna einhverja heppilega lausn á þessu vandamáli þangað til þetta frv. kemur, þar sem gert er ráð fyrir nákvæmlega sömu skipan og nú er, þ. e. a. s. ráðið sé tilnefnt af 4 stærstu þingflokkunum, þó þannig að ráðsmenn séu aðeins skipaðir til fjögurra ára í senn. En eins og kunnugt er, eru meðlimir í þjóðleikhúsráði nú skipaðir eins lengi og líf þeirra og heilsa endist til starfa í þeirri stofnun.

Meðan við stjórnmálamennirnir höfum verið að velta vöngum yfir því, hvernig finna ætti lausn á þessum vanda, hafa leikarar fjallað mjög um þetta sjálfir. Þeir hafa gert kröfu til þess, að þjóðleikhúsráð verði fyrst og fremst skipað fólki sem fæst við leikhússtörf. Þeir gera sem sagt einfaldlega kröfu til þess, að um verði að ræða atvinnulýðræði í Þjóðleikhúsinu. Við höfum fengið till. þeirra sendar oftar en einu sinni. Í þeim er gert ráð fyrir því, að í þjóðleikhúsráði eigi sæti 5 menn auk þjóðleikhússtjóra og 4 ráðsmenn skulu kosnir af Starfsmannafélagi Þjóðleikhússins. Þessar till. hafa hlotið eindreginn stuðning Félags ísl. leikara. Um leið benda leikarar á að í stofnskrá Borgarleikhúss er gert ráð fyrir að starfsemi þess verði undir yfirstjórn leikhúsráðs sem skipað sé starfsmönnum Leikfélags Reykjavíkur. Jafnframt benda þeir á að nú á seinni áratugum hafi það orðið æ algengara í nálægum löndum að leikhúsráð sé fyrst og fremst skipað þeim starfsmönnum, sem við leikhúsin starfa, eða fulltrúum þeirra og að í öllum nálægum löndum sé sú skipan mála orðin algengust.

Við meðferð þessa máls í hv. menntmn. hefur ekki að einu eða neinu leyti verið gengið til móts við þessi sjónarmið, heldur er frv. borið fram til 2. umr. algerlega óbreytt og án þess að flutt sé ein einasta brtt. við það. Þetta þykir mér fullmikil fljótaskrift á afgreiðslu málsins, þar sem ég tel að ýmislegt mætti betur fara í frv. Ég tel að ábendingar, sem fram hafa komið, hafi verið rökstuddar og eðlilegt sé að taka tillit til þeirra, þó að ég hafi hins vegar skrifað undir nál. og þannig vottað að ég vildi í öllu falli afgreiðslu málsins, hvernig sem brtt. lyktaði.

Ég tel að í fyrsta lagi sé sjálfsagt að ganga að einhverju leyti til móts við þær hugmyndir sem leikarar og starfsmenn Þjóðleikhússins hafa fram sett um aukna aðild að stjórn Þjóðleikhússins. Það má vel vera, að það þyki nokkuð stórt skref í einu lagi að ætla leikurum að fá meirihlutaaðild að þjóðleikhúsráði og hyggilegra sé að stíga það skref fremur í áföngum eða að aðild þeirra verði eitthvað minni en þeir gera sjálfir ráð fyrir. Mér finnst hins vegar mjög óeðlilegt og óviðfelldið að ganga ekki á nokkurn hátt til móts við óskir þeirra og ábendingar. Ég hef því leyft mér að flytja á þskj. 666 brtt. við þá grein frv. sem fjallar um þjóðleikhúsráð. Brtt. mín er ekki nákvæmlega eins að efni og orðun og tillaga Starfsmannafélags Þjóðleikhússins. Geri ég ráð fyrir nokkru einfaldara fyrirkomulagi en þeir höfðu gert tillögu um. Þeir höfðu gert ráð fyrir því, að starfandi yrði hvort tveggja; annars vegar þjóðleikhúsráð og hins vegar þjóðleikhúsnefnd sem m. a. væri skipuð fulltrúum löggjafarvaldsins. Mér þykir hins vegar langeðlilegast að þarna verði bara um eina stofnun að ræða, 6 manna stofnun, eins og þeir reyndar gera einnig ráð fyrir, 5 menn skipaða af ráðh., en þjóðleikhússtjóri eigi sæti í þjóðleikhúsráði með atkvæðisrétti, þannig að samanlagt fari 6 menn þar með atkvæðisrétt. Ég geri ráð fyrir því, að 3 séu tilnefndir af Starfsmannafélagi Þjóðleikhússins, þar af 2 úr hópi fastráðinna leikara og leikstjóra. Falli jöfn atkv. við atkvgr. í ráðinu ræður atkv. þjóðleikhússtjóra. Er því ljóst að starfsmennirnir eru ekki í meirihlutaaðstöðu í ráðinu. Þeir hafa 3 fulltrúa af 6 og verði um að ræða tvísýna atkvgr., þá ræður atkv. þjóðleikhússtjóra endanlega. Þetta tel ég vera sanngjarna lausn málsins. Starfsmenn Þjóðleikhússins fengju þarna allmikil áhrif á starfsemi hússins, en hefðu hins vegar ekki þá meirihlutaaðstöðu sem ég þykist vita að meiri hl. Alþ. sé ekki reiðubúinn að veita þeim.

Ég minni enn á að í stofnskrá Borgarleikhússins er einmitt gert ráð fyrir svipuðu fyrirkomulagi, að yfirstjórn leikhúsráðsins sé skipuð starfsmönnum Leikfélags Reykjavíkur. Hér er því fyrst og fremst verið að fara þá braut, sem Reykjavíkurborg hefur þegar troðið, og verið að fylgja fordæmi, sem þar er verið að skapa. (Gripið fram í: Er það rétt fordæmi?) Ég er ekki í neinum vafa um að það er rétt fordæmi að atvinnulýðræði sé komið á í mjög mörgum tilvikum. Ég viðurkenni að vísu að í því tilviki þegar um er að ræða stofnanir eins og t. d. rn. eða einhverjar aðrar stofnanir, þar sem atvinnulýðræði getur einfaldlega ekki átt við, kemur slíkt ekki til greina. En við stofnun eins og Þjóðleikhús, þar sem ekki er um neina valdastofnun þjóðfélagsins að ræða, tel ég alveg sjálfsagt að starfsmenn hafi ákveðinn íhlutunarrétt. Mér virðist á öllu að það, að þeir eigi helmingsaðild að þjóðleikhúsráði og síðan hafi þjóðleikhússtjóri tvöfalt atkv. ef svo ber undir, sé skipulag sem feli ekki í sér of mikinn rétt til handa starfsmönnum. Ég geri ráð fyrir því, að þessi grein um þjóðleikhúsráð verði þá þannig orðuð:

„Menntmrh. skipar 5 menn í þjóðleikhúsráð til tveggja ára í senn, þar af 3 samkv. tilnefningu Starfsmannafélags Þjóðleikhússins, og skulu 2 þeirra vera úr hópi fastráðinna leikara og leikstjóra. Þjóðleikhússtjóri á ávallt sæti í þjóðleikhúsráði með atkvæðisrétti. Falli atkv. jöfn við atkvgr. í ráðinu ræður atkv. þjóðleikhússtjóra.“

Síðan kemur önnur mgr.: „Ráðh. skipar einnig 3 varamenn í þjóðleikhúsráð til tveggja ára í senn og skulu 2 þeirra tilnefndir af Starfsmannafélagi Þjóðleikhússins, þar af annar úr hópi fastráðinna leikara og leikstjóra.“

Ekki er gert ráð fyrir því í frv., að um neina varamenn sé að ræða, en það er óeðlilegt. Í þriðja lagi geri ég ráð fyrir, að um hlutverk þjóðleikhúsráðsins sé orðalagið á þennan veg:

„Þjóðleikhúsráð ber ábyrgð á rekstri leikhússins ásamt þjóðleikhússtjóra. Ráðið fjallar um starfs- og fjárlagaáætlun leikhússins og tekur allar meiri háttar ákvarðanir er stofnunina varða. Fjármálafulltrúi leikhússins á sæti á fundum ráðsins án atkvæðisréttar.“

Þessar till. held ég að skýri sig nokkuð sjálfar að öðru leyti. Ég gæti lesið upp langar grg., sem okkur hafa borist frá Starfsmannafélagi Þjóðleikhússins og frá Félagi ísl. leikara, þar sem þessar kröfur um aukinn rétt starfsmanna til áhrifa í leikhúsinu eru rökstuddar og vitnað til alþjóðlegra samþykkta um það efni meðal leikhúsmanna og til þess fyrirkomulags sem nú er farið að tíðkast á Norðurlöndum.

Ég flyt í öðru lagi till. sem upphaflega er komin frá Félagi ísl. einsöngvara, en þeim þykir hlutur einsöngvara allt of smátt skorinn í þessu frv. og vilja, að hnikað sé til orðalagi til þess að hlutur sönglistarinnar verði meiri. Þeir óska eftir því, að 2. mgr. 3. gr. verði þannig orðuð: „Auk þess skal það árlega flytja óperur og söngleiki og sýna listdans“, í staðinn fyrir að í frv. segir: „Auk þess skal það árlega flytja óperu og sýna listdans.“

Þeir benda á að vel sé hugsanlegt fyrir Þjóðleikhúsið að standa fyrir söngleikjum og óperuflutningi, jafnvel þó að það sé ekki gert á aðalsviði Þjóðleikhússins, og færa skýr rök fyrir því, að söngvarar hér á landi séu mjög illa settir og þeim hafi lítil starfsaðstaða verið sköpuð, eins og ráða megi af því, að enginn félagsmanna í Félagi ísl. einsöngvara hafi fast starf sem söngvari. Þetta er ekki stór breyting og ég tel að eðlilegt sé að ganga til móts við þetta sjónarmið söngvaranna.

Í þriðja lagi flyt ég brtt. við 12. gr. frv., þar sem segir: „Þjóðleikhúsinu er heimilt, eftir því sem ástæður leyfa, að ráða til starfa leikritahöfund eða aðra höfunda til þriggja eða sex mánaða.“ Þetta þykir mér afskaplega dauflegur skammtur og þröngt orðalag, að ekki megi ráða leikritahöfunda til lengri tíma en 6 mánaða í einu. Ég vildi að þetta væri þannig orðað:

„Þjóðleikhúsinu er heimilt að ráða til starfa leikritahöfund, tónskáld eða aðra höfunda til allt að eins árs í senn. Skal að því stefnt, að a. m. k. einn höfundur sé starfandi við leikhúsið á hverjum tíma.“

Mér finnst það satt að segja alveg fráleitt, að við séum að reka leikhús með stórum hópi túlkenda, fastráðinna túlkenda, en við treystum okkur ekki til þess að hafa að staðaldri einn höfund ráðinn við Þjóðleikhúsið. Mér finnst að það sé engin ofrausn þó að við sláum því föstu og það eigi þá að liggja ljóst fyrir, að um geti verið að ræða hvort heldur sem er leikritahöfund eða tónskáld og það sé þá stöðugt einn höfundur starfandi við leikhúsið á hverjum tíma. Þetta er ábending sem fram hefur komið frá mörgum aðilum, og upphaflega var þetta þannig í frv., — það var reyndar þannig þegar Ed. Alþ. sendi frv. frá sér til Nd. árið 1972, — að það var gert ráð fyrir því, að heimild væri til þess að ráða einn leikritahöfund og eitt tónskáld. En svo er búið að skera þetta svo niður undir forustu núverandi ráðamanna menntamála, að einungis er leyfilegt að ráða til starfa leikritahöfunda eða aðra höfunda til þriggja eða sex mánaða. Mér finnst þetta heldur nánasarlegt fyrirkomulag. Ég held að ef við á annað borð viljum heita menningarþjóð og viljum halda uppi sæmilega blómlegu mennta- og menningarlífi, þá hljóti að teljast sjálfsagt og eðlilegt að Þjóðleikhúsið, sem við rekum, geti á hverjum tíma haft einn höfund í fullu starfi.

Ég hef einnig flutt brtt. við 12. gr. sem skýrir enn frekar réttindi starfsmanna Þjóðleikhússins. Þar segir:

„Starfsmenn Þjóðleikhússins skulu eiga aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þeir starfsmenn Þjóðleikhússins, sem hafa áður unnið hliðstæð störf í þágu íslenskrar leiklistar, skulu einnig eiga kost á að njóta eftirlaunaréttar fyrir þann starfstíma samkv. ákvörðun stjórnar lífeyrissjóðsins og að fenginni umsögn viðkomandi stéttarfélags.“

Þetta ákvæði, sem ég flyt hér brtt. um, er orðrétt tekið úr till. þeim, sem Starfsmannafélag Þjóðleikhússins sendi okkur, og ég held að greinin skýri sig nokkuð sjálf. Það er ekkert í frv. um lífeyrisréttindi starfsmannanna. Það er sjálfsagt að taka það berum orðum fram í frv. og einnig að tryggja rétt starfsmanna sem hafa áður unnið hliðstæð störf í þágu íslenskrar leiklistar. Ég held að þessi krafa, sem borin er upp af starfsmönnum Þjóðleikhússins og lögð er mikil áhersla á, sé þess eðlis, að ekkert eigi að vera því til fyrirstöðu, að orðið sé við henni.

Ég sé svo, herra forseti, ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir þessum till. Ég harma það satt best að segja, að menntmn. Ed. skuli ekki hafa séð ástæðu til þess að athuga brtt. þær og ábendingar, sem bárust n., betur en raun ber vitni, að hún skuli á engan hátt, ekki á hinn minnsta hátt vilja taka tillit til þeirra. Þetta tel ég ekki vera eðlilega afgreiðslu. Og til þess að það verði nú alveg skýrt, að hér á Alþ. eru áreiðanlega margir sem vilja taka visst tillit til þessara óska sem fram hafa verið settar, þá eru þessar till. bornar fram í þeirri von að þær nái samþykki.