24.04.1978
Efri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3826 í B-deild Alþingistíðinda. (2971)

170. mál, Þjóðleikhús

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það kom fram hjá 5. þm. Norðurl. v., að honum fannst fullmikil fljótaskrift á afgreiðslu n. á þessu mikilvæga máli. Ég get varla verið sammála honum um þetta. Menntmn. undir forustu formanns okkar hefur haldið marga fundi, fengið á fundina marga aðila og margar umsagnir hafa borist. Svo er málið alls ekki nýtt af nálinni.

En eitt sameiginlegt kom fram í þessum viðtölum við ýmsa fulltrúa en það var ósk um að málið héldi áfram á Alþ., þótt ekki væri hægt að verða við hinum einstöku beiðnum, þá væri samt slíkur fengur að því að fá frv. samþ. á Alþ. eins og það væri. Það var ósk allra — eða a. m. k. tók ég það þannig og hafði skrifað það mér til minnis — að málið héldi áfram. Hitt er rétt, að um vissa þætti í frv. eru skiptar skoðanir og jafnvel verulega skiptar skoðanir. Þess vegna hefði þurft með meiri yfirvegun að reyna að ná samræmdri afstöðu, ef við á annað borð ætluðum að seilast svo langt. En það var mat okkar á seinasta fundi, að í það færi mun meiri tími en við hefðum efni á að eyða. Þess vegna varð um það samstaða að afgreiða málið og leggja það fyrir eins og nú hefur komið fram. Engu að síður er ég persónulega hlynntur 1. brtt. á þskj. 566, vegna þess að ég er einn þeirra manna sem telja að hlutur söngfólks hér á Íslandi hafi verið fyrir borð borinn undanfarið. Ég tel, þar sem ríkið annast rekstur á Þjóðleikhúsinu, að við sýnum söngfólkinu eðlilega virðingu og ábyrgð með því að setja orðið „ópera“ í fleirtölu. Og það var mjög eindregin ósk fulltrúa þessarar ágætu listgreinar, að við gerðum þetta. Það kann að vera að sumum þyki þetta ofrausn. Ég held ekki að svo sé. Við rekum hér Sinfóníuhljómsveit. Við styrkjum margar aðrar listgreinar. Það kom fram í ágætum sjónvarpsþætti í gærkvöld, sem margir hv. þm. hafa örugglega séð, að nú er góður stofn söngfólks hér á landi. Þetta væri verðug viðurkenning handa þessu listafólki. Þeim finnst of lítið að sýna eina óperu. Það er vel skiljanlegt. Ópera er að vísu dýr í uppsetningu og dýr í flutningi og það geta verið átök um það að koma henni fyrir á dagskrá leikhússins, vegna þess að leikarar kunna að segja að ópera ýti til hliðar einhverjum hluta af eðlilegri leikstarfsemi. Ef svo er, þá er ekkert við því að segja, ef fólk vill fá meira af söng. Ég sé ekkert athugavert við það persónulega. Þess vegna styð ég eindregið að við höfum óperurnar fleiri en eina og við leggjum blessun okkar yfir 1. brtt.:

„Aðalhlutverk Þjóðleikhússins skal vera flutningur íslenskra og erlendra sjónleika. Auk þess skal það árlega flytja óperur og söngleiki og sýna listdans.“

Um aðra þætti er meiri ágreiningur, eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. Þó að till. hans mæti að verulegu leyti óskum ýmissa aðila, þá er samt sem áður ekki nægileg samstaða um efni hennar, þannig að ég treysti mér ekki til að fylgja henni. Þó viðurkenni ég að margt gott er í till. Einnig tel ég eðlilegt að þm. liti á b-lið 3. till. hv. þm., því að mér finnst sanngirnismál að þeir, sem hafa starfað lengi við Þjóðleikhúsið, eigi kost á aðild að lífeyrissjóði eftir langan starfsdag.

Sem sagt, ég stóð að því að veita frv. brautargengi, þó að óbreytt væri, heldur en láta það daga uppi, því það var meginósk allra þeirra, er töluðu við okkur í menntmn., og þeir töldu allir feng að því, að þetta frv. yrði að lögum. Þetta mál er búið að vera mjög lengi hér á dagskrá, í mörg ár, og það væri öllum til sóma nú ef það fengi eðlilegan framgang og yrði að lögum í þinglokin.