24.04.1978
Neðri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3858 í B-deild Alþingistíðinda. (3018)

200. mál, sala eyðijarðanna Kroppsstaða og Efstabóls í Mosvallahreppi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 552 ber með sér, þá skrifaði ég undir það með fyrirvara. Ég hef haft þann sið í sambandi við mál svipuð þessu, þar sem ég þekki ekki nógu vel til, að ég hef farið eftir umsögn jarðanefnda og hreppsnefnda í slíkum málum. En fyrirvari minn byggðist á því, að Bjarni Kristinsson á ekki ábýlisjörð sína, Kirkjuból, og sala á þessum jörðum til hans mundi ekki tryggja að mínu mati að sameinaðar yrðu þessar þrjár jarðir, nema hann geti fengið eignarhald á Kirkjubóli.

Annað hefur líka komið fram í málinu sem ég vissi ekki, og það er að Kroppsstaðir hafa verið leigðir Jóni Guðjónssyni Veðrará síðan 1969. Ég verð að segja, að þó að ég eigi að vera kunnugur jarðalögunum, þá átta ég mig ekki fyllilega á því, hvort hann öðlast rétt til kaupa. Ef þetta væri ábýlisjörð, þá mundi hann öðlast hann á 10 árum, en hún er það ekki, heldur til nytja. Það er atriði sem rn. verður auðvitað að athuga, enda felst í frv. aðeins heimild fyrir rn. til að selja jörðina, og verður það að meta þá heimild þegar búið er að kanna þetta mál frekar.

Ég tel því að athuga þurfi um búskap þarna á fleiri jörðum og meta, þrátt fyrir að þessi heimild er gefin, hver réttur Jóns Guðjónssonar kann að vera, þar sem hann hefur haft jörðina síðan 19651 og hefur hana í næstu 4 ár.