25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3876 í B-deild Alþingistíðinda. (3038)

238. mál, hundraðföldun á verðgildi íslenskrar krónu

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Það er ekki hægt að segja, að ríkisstj. hafi nýlega rætt þetta mál eða tekið afstöðu til þess. Eflir að till. var vísað til ríkisstj. s. l. vor leitaði rn., í maímánuði 1977, umsagnar Seðlabanka Íslands um málið. Barst svo bráðabirgðasvar frá Seðlabankanum, dags. 3. apríl s. l., og ég hef verið undir það búinn þennan tíma, sem síðan er liðinn, að lesa upp þetta bráðabirgðasvar, en fsp. hefur ekki komist að fyrr en þetta. Ég get lesið nokkuð upp úr þessu bráðabirgðasvari. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á grundvelli laga um gjaldmiðil Íslands hafa, svo sem kunnugt er, verið gerðar umtalsverðar breytingar á seðla- og myntútgáfu á undanförnum áratugum án þess þó að breytingar væru gerðar á sjálfri mynteiningunni, en tillögur um gjaldmiðilsbreytingu á árinu 1962 náðu ekki fram að ganga. Í stað þess að gera allsherjarmyntbreytingu hefur á þessu tímabili verið stefnt að því að endurskoða mynt- og seðlastærðir í því skyni að draga úr kostnaði og auka hagkvæmni í notkun seðla og myntar í viðskiptalífinu. Mikilvægasti þátturinn í þessum breytingum hefur verið niðurfelling smámyntar minni en 1 kr., en með þeim hætti hafa í reynd verið strikaðir út tveir aukastafir í öllum fjárhæðum sem notaðir eru í bókhaldi og viðskiptum. Með þessum hætti hefur að verulegu leyti verið náð þeirri beinu hagkvæmni sem hundraðföldun á verðgildi krónunnar hefði í för með sér.“

Síðan er svo í þessu bráðabirgðasvari vikið að því, að vegna verðbólgu og annarra ástæðna geti verið ástæða til þess að huga nánar að því nú að gera myntbreytingu. Í lokin segir í þessu bráðabirgðasvari — og er gerð líka grein fyrir því að það kosti nokkurn tíma og fyrirhöfn að koma þessu í kring:

„Til frekari skýringar er rétt að geta þess, að í fyrsta lagi getur verið unnt að breyta myntkerfinu í ársbyrjun 1980, enda sé þá ákvörðun um breytinguna tekin í síðasta lagi á næsta hausti og nauðsynleg löggjöf afgreidd á haustþingi. Enginn vafi er á því, að æskilegast er að gjaldmiðilsbreyting geti orðið þáttur í heildarátaki til að draga úr þeirri alvarlegu verðbólgu sem geisað hefur hér á landi.“

En síðan hefur það svo skeð, að 21. apríl fæ ég viðbótarsvar frá Seðlabankanum. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér vísum til bréfs vors frá 3. apríl s. l. vegna fsp. Lárusar Jónssonar alþm. til viðskrh. um hundraðföldun á verðgildi krónunnar og fyrri grg. bankans um þessi mál — svo og fyrri skýrslu og umræðna um mynt- og seðlamál. Hér með sendist yður álitsgerð bankastjórnar Seðlabankans um endurskipulagningu seðla- og myntútgáfunnar og hugsanlega aukningu á verðgildi krónunnar. Hefur hún nú verið rædd í bankaráði Seðlabankans sem lýst hefur samþykki sínu við birtingu hennar.“

Er þar m. a. gerð grein fyrir þeim breytingum, sem óhjákvæmilega verður að gera á seðla- og myntstærðum, og sú skoðun látin í ljós, að nú sé rétti tíminn til að taka afstöðu til þess, hvort taka skuli upp nýja mynteiningu.

Jafnframt er nokkur grein gerð fyrir hugsanlegri framkvæmd gjaldmiðilsbreytingar og lýst þeirri undirbúningsvinnu sem fram hefur farið til þessa, og fylgja till. að útliti og gerð nýrrar mynt- og seðlaraðar.

Þessi skýrsla, sem fylgir með þessu bréfi, er nokkuð löng. Sé ég mér ekki fært að fara að lesa upp úr henni, enda mun hún verða kynnt af bankastjórn Seðlabankans einmitt í dag fyrir blaðamönnum og fréttamönnum frá fjölmiðlum. Ég geri því ráð fyrir því, að hv. alþm. eigi kost á því að lesa í blöðum eða heyra í fjölmiðlum á morgun hverjar skoðanir Seðlabankans eru á þessu máli. Það er ekki hægt að segja að seðlabankastjórnin taki í grg. beina afstöðu til spurningarinnar, heldur er þetta grg. af hennar hálfu um það, hvernig þetta skuli gert, en ákvörðun ekki tekin, enda er það ríkisstjórnarinnar og löggjafans að taka ákvörðun og málinu vísað þangað. Ég held þó að ekki fari á milli mála að draga verði þá ályktun af þessari grg. Seðlabankans, að stjórn hans sé jákvæð í þessu efni.

Ekki hefur verið fjallað í ríkisstj. um þessa nýkomnu grg. Seðlabankans. Að sjálfsögðu verður það gert á næstunni og þá tekin afstaða til þessa máls. Ég get að sjálfsögðu ekki á þessu stigi sagt til um það, hvernig sú afstaða muni verða, en ég geri ráð fyrir því, að með því að fá þessa skýrslu Seðlabankans birta geti hv. alþm. áttað sig betur á þessu máli en ella.

Ég læt þetta svar nægja með tilliti til þess, að það eru á leiðinni nánari upplýsingar um þetta.