03.11.1977
Sameinað þing: 13. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Nú þegar hæstv. forsrh. hefur lokið við að flytja stefnuræðu sína í síðasta sinn fyrir kosningar er þess að vænta, svo sem þegar hefur mátt heyra, að umr. um hana og störf ríkisstj. það sem af er kjörtímabilinu beri nokkurn keim af þeim átökum sem hafin eru og fram undan eru á stjórnmálasviðinu.

Tvö einkenni í umr. þessum eru mér ofarlega í huga: Annars vegar nafngiftir stjórnarandstöðunnar og málgagna hennar, þar sem stjórnin er kölluð kapítalísk íhaldsstjórn og henni fundið flest ef ekki allt til foráttu, hvort heldur þar sem stjórnin hefur ekki náð settu marki eða þar sem vel hefur til tekist, svo sem í landhelgismálinu, sbr. allar hrakspár og dylgjur meðan á samningum stóð. Hins vegar söngur þeirra, sem kalla ríkisstj. sósíalíska samneyslustjórn sem stendur að of miklum félagslegum aðgerðum og ver of háu hlutfalli af ríkistekjum til samneyslu og opinberrar fjárfestingar.

Ekki leyna sér vonbrigði þeirra, sem trúðu því, að með úrslitum kosninganna 1974 og aðild Sjálfstfl. að ríkisstj. yrðu opnaðar allar gáttir auðhyggjunnar og samfélagslegar aðgerðir drepnar í dróma. Ekki hafa farið fram hjá landsmönnum væringar og yfirlýsingar á hægri jaðri stjórnmálanna. E.t.v. vísar það veginn á vissan hátt þegar stjórnmálaöflin lengst til vinstri og hægri loka hringnum í samdóma áliti um að ríkisstj. sé þeim ekki að skapi. Kann það ekki að benda til þess, að ríkisstj. kunni að vera á réttum vegi?

Fleiri atriði úr stjórnmálaumr, síðustu mánaða eru athyglisverð. Máltakið segir, að sagan endurtaki sig. Ég vil biðja þig, hlustandi góður, að fylgja mér nokkur ár aftur í tímann og huga að þjóðmálaumr. á síðasta hluta valdatíma vinstri stjórnarinnar undir forsæti Hermanns Jónassonar. Þá voru efnahagsörðugleikar miklir sem leiddu til stjórnarslita. Þá upphófust miklar umr. um breytingar á kosningalögum og kjördæmaskipun. Meginröksemdir andstöðuflokka Framsfl.

í þeim stjórnmálaátökum voru þau, að erfiðleikarnir stöfuðu af pólitísku ranglæti — staða Framsfl. um hinar dreifðu byggðir væri of sterk — og af því sem kallað var pólitísk fjárfesting, þ.e. að það fjármagn, sem af hálfu hins opinbera var varið til uppbyggingar á landsbyggðinni, væri að sigla þjóðarskútunni í strand.

Kjördæmabreytingin náði fram að ganga: Tveir þeirra flokka, sem að breytingunni stóðu, mynduðu ríkisstj. og tóku að framkvæma hina nýju stefnu með þeim afleiðingum að allt viðreisnartímabilið rann stöðugur straumur fólks og einkafjármagns af landsbyggðinni til suðvesturhornsins. Í lok þessa tímabils höfðu hinir ýmsu landshlutar þó snúist til varnar, myndað með sér samtök m.a. til þess að berjast gegn þessari óheillaþróun. Þeir sáu hvað best og gleggst að verið var að gelda þá mjólkurkú er síst skyldi. Þjóðarbúskapnum væri þá fyrst vel borgið, þegar til lengdar lætur, að aðstaða sé til þess að nýta landið allt, gögn þess og gæði, fiskimiðin þar að sjálfsögðu með talin, og að því fólki, sem verðmætanna aflar, verði búin sambærileg kjör um land allt, atvinnuöryggi, heilbrigðisþjónusta og menntunaraðstaða verði sambærileg, svo að eitthvað sé nefnt.

En það er fyrst eftir myndun rn. Ólafs Jóhannessonar að brotið er í blað í þessum sökum. Um það náðist pólitísk heilladrjúg samstaða, og mér finnst ástæða til að leggja á það áherslu nú, að þessari stefnu hefur sleitulaust verið fram haldið af núv. ríkisstj. Að sjálfsögðu er margt ógert, en til slíkrar umsköpunar hefur þjóðin ekki bolmagn á tæpum áratug. Of víða býr fólk ekki við nægilegt atvinnuöryggi, og umbætur á menningar- og félagslegum þáttum eru of skammt á veg komnar. En engum, sem um landið fer í dag og gerði það fyrir 6–7 árum, dylst að umskiptin hafa orðið mikil.

Áhrif þessarar stefnu hafa ekki látið á sér standa. Ungt fólk haslar sér í auknum mæli völl í sinni heimabyggð. Tími kyrrstöðunnar í húsnæðismálum er víðast úr sögunni. Sá tími er líka liðinn þegar bjartsýni þeirra, sem réðust í það að byggja eigið húsnæði, var kölluð glópska, ekkert vit væri í því að festa fé í steini og járni nema á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Þar er þenslan og verðbólgan um gróðann ef setja þyrfti. Þetta ásamt breyttum viðhorfum til lífsgæðanna hefur líka leitt margt borgarbarnið á vit hinna strjálli byggða.

En þá kemur andsvarið. Í ljósi þess, sem ég hef sagt, og með tilvísun í þjóðmálaumræður 1958 og 1959 spyr ég hvort menn finni nokkurn samhljóm með henni og þeirri kröfu — andsvarinu — sem nú er sett fram í slagorðunum „Burt með báknið“. Hafa menn hugleitt hvert báknið er og hvað krafan þýðir? Er það kannske tilviljun ein sem ræður að í upphafi þessa þings urðu miklar umr. um kosningalög og kjördæmaskipan? Ekki neita ég því, að þær aðstæður hafa skapast sem réttlæta þessar umr., og Framsfl. er reiðubúinn til að taka þátt í þeim og leita farsællar lausnar. En von er að menn spyrji hvort hér séu tengsl á milli eða hvort fiskur liggi undir steini. Vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um hvort atriðið um sig.

Þess er krafist af þeim, sem stórlega vilja draga úr ríkisumsvifum, að einkaneyslan verði aukin á kostnað samneyslunnar og opinbers rekstrar. Þetta hlýtur m.ö.o. að þýða það að stórlega eigi að draga úr opinberri skattheimtu ríkis og sveitarfélaga sem og að draga úr ríkisframkvæmdum sem fjármagnaðar eru með erlendu lánsfé, og skal undir það atriði tekið. Í það hefur verið látið skina að skattheimta eða, eins og það stundum er orðað, skattpíning sé meiri hér en meðal nálægra þjóða. Fróðlegt ætti að vera að birta staðreyndir um þetta atriði.

Árið 1974 voru skatttekjur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu 33%, árið 1975 31%, árið 1976 35.5% og er áætlað nokkru lægra árið 1977. Árið 1972 var þetta hlutfall 32.4%, en þá var sambærilegt hlutfall 44–46% hjá þeim þjóðum sem við helst viljum bera okkur saman við, hjá Dönum, Svíum og Norðmönnum. Ég hef góðar heimildir um það, að frá þeim tíma hafi þetta hlutfall ekki hækkað minna þar í löndum en hér.

Það er alfarið hlutverk Alþ. að móta stefnuna í tekjuöflun ríkisins hverju sinni, og stjórnarflokkarnir bera á henni höfuðábyrgð. Þessi stefna hefur verið mótuð í megindráttum fyrir næsta ár í því fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir. Að vísu er enn eigi séð hvernig þeim kostnaðarauka verður mætt sem leiðir af samningum við opinbera starfsmenn. Hitt er augljóst, að þau fjárlög, sem væntanlega verða samþykkt á jólaföstu, verða engin svokölluð kosningafjárlög.

Úrtölumönnum þykir víst nóg um skattheimtu hins opinbera, og ekki hafa heyrst raddir um að hana beri að auka. Þvert á móti er krafan um brottnám báknsins hið gagnstæða. En samkv. þeim tekjuöflunaráformum, sem uppi eru, og þeirri skiptingu, sem áformuð er varðandi rekstur og samneyslu annars vegar og fjárfestingu hins vegar, má ljóst vera að ekki verður komið að fullu til móts við fólkið í landinu varðandi óskir þess um opinbera þjónustu. Hitt er svo annað mál. að ekki fara alltaf saman óskir um þjónustu og skattbyrði.

Sjálfsagt er að feta þær leiðir samvirkni og sparnaðar sem gera ríkiskerfið án útþenslu ódýrara og skilvirkara en það er í dag. En þær leiðir eru margslungnar og vandrataðar. Á undanförnum árum hafa verið sett lög, svo sem í heilbrigðis- og skólamálum, sem krefjast aukins starfsliðs. Það er blekking að halda því að fólki að leysa megi efnahagsvandann með því að fækka stórlega föstu starfsfólki sem tekur laun hjá ríkinu. Hvar á sú fækkun að koma niður? Á að fækka kennurum á sama tíma og fjölgar nemendum með fjölgun þjóðarinnar? Á að fækka starfsfólki í heilbrigðisstéttum? Er það í anda heilbrigðislöggjafarinnar frá 1973? Hér eru nefndir fjölmennustu hóparnir, en svo mætti áfram telja. Sannleikurinn er sá, að meginviðfangsefni fjvn. og Alþ. gegn útþenslu ríkiskerfisins er að veita strangt aðhald varðandi aukastörf og veitingu á nýjum stöðum. Það hefur verið gert og þykir mörgum nóg um, bæði þeim, sem þjónustunnar eiga að njóta, og þeim, sem veita viðkomandi stofnunum forstöðu. Í þjóðfélagi hraðrar uppbyggingar og endursköpunar eru verkefnin óþrjótandi.

Margt er það, sem sameignarsjóður þjóðarinnar getur ekki veitt henni að svo stöddu, en bjargálna einstaklingur teldi sjálfsagt að veita sér þótt á annan hátt sé. Efnahagsforsendur leyfa ekki annað. Hægar verður farið í opinberum framkvæmdum en verið hefur að undanförnu. Minni eftirspurn á vinnumarkaði vegna minni ríkisframkvæmda má þó ekki leiða til aukinnar þenslu í fjárfestingum einkaaðila, þá væri allt unnið fyrir gýg. Beina þarf vinnuframboðinu yfir til framleiðslunnar. En hér er vandratað meðalhófið. Minni eftirspurn á vinnumarkaði má umfram allt ekki leiða til atvinnuleysis. Næg atvinna fyrir alla hefur verið einn mikilvægasti hyrningarsteinn stjórnarstefnunnar. Mörgum þætti nóg að gert þótt aðgerðir leiddu ekki til annars en að minnka stórlega það launaskrið sem nú er í landinu, þ.e. mismun á umsömdum töxtum og þeim launum sem raunverulega eru greidd. Eigi að síður — og á það vil ég leggja áherslu — verður unnið að áframhaldandi og þýðingarmiklum framkvæmdum um land allt, of mikið eflaust að mati þeirra sem mest tala um óarðbæra fjárfestingu og telja að allir efnahagserfiðleikar okkar stafi af henni. En hver er hin óarðbæra fjárfesting? Eru það kannske fiskihafnirnar sem eru undirstaða undir nýtingu fiskimiðanna? Er það kannske gerð vega sem eru slagæðar athafnalífs og mannlegra samskipta? Vera kann að atvikin hafi hagað því svo, að finna megi á sviði orkumála óarðbæra fjárfestingu í bili. Það ber að harma að Alþ. hefur enn ekki borið gæfu til að móta ákveðna framtíðarstefnu í orkumálum. En var það röng stefna eftir olíukreppuna svokölluðu og í orkuþverrandi heimi að gera þjóðina óháðari duttlungum olíufurstanna og hefja sókn til nýtingar innlendra orkugjafa? Eru hitaveituframkvæmdirnar á Suðurnesjum, Akureyri, Stór-Reykjavíkursvæðinu og víðar óarðbærar fjárfestingar? Eða er þær e.t.v. að finna þar sem verið er að reisa skóla og sjúkrahús? Er það kannske arðbærara að gera fólki ekki kleift að nýta náttúruauðæfin um og í kringum landið, eins og ég nefndi áður í máli mínu.

Ég gat þess fyrr í ræðu minni, að menn spyrðu um hvort tengsl væru á milli umr. varðandi umsvif ríkisins og framkvæmdir annars vegar og um kjördæmaskipun og kosningalög hins vegar. Um það skal ekkert fullyrt nú, en um þetta atriði vil ég fara nokkrum orðum.

Forsrh. gat þess í stefnuræðu sinni, að ríkisstj. mundi beita sér fyrir viðræðum fulltrúa þingflokkanna um breytingu á kosningalöggjöfinni. Hann gat þess einnig, að unnið væri að grg. varðandi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og að í undirbúningi væri heildarlöggjöf um þetta efni. Þegar um þetta er fjallað fer ekki hjá því að athyglin beinist að umdæmaskipan landsins og því hvaða landfræðilegar og félagslegar heildir verði heppilegastar stjórnsýslueiningar, svo fremi því fylgir alvara að færa stjórnsýsluumsvif og aukin völd í eigin málum út til héraðanna eða landshlutanna. Á þetta ekki hvað síst við að því er lýtur að skipulagi heilbrigðis og menntamála. Sú spurning hlýtur að vakna, hvort mörk nýrra stjórnsýslueininga, einnar eða fleiri, eigi að liggja að sömu mörkum og ákveðin voru með kjördæmaskipaninni 1959 eða hvort leita eigi nýrra samhæfðra marka stjórnsýslueininga og kjördæma. Hér er vandasamt, viðamikið og aðkallandi verkefni að leysa, og Framsfl. er reiðubúinn til að finna þar sem heppilegasta lausn. Umr. hafa þó ekki mikið snúist um þetta atriði, heldur tvö önnur sem ég vil nefna.

Í fyrsta lagi valfrelsi kjósandans milli frambjóðenda. Ég tel að einnig hér sé Framsfl. reiðubúinn til þess að leita þeirra leiða sem tryggja að vilji kjósenda nái fram að ganga varðandi það, hver eða hverjir frambjóðenda á hlutaðeigandi lista eru kosnir, fái listinn það atkvæðamagn að fulltrúi verði kjörinn. En ég vil í þessu sambandi minna á það, að árið 1959 barðist Framsfl. einn flokka gegn afnámi persónubundins kjörs.

Í öðru lagi svokallað vægi atkv. og fjöldi kjósenda bak við hvern þm. Ég tel að Framsfl. sé hér einnig til viðræðu, einkum með tilliti til úthlutunar þingsæta landsk. þm. En ég lít svo á, að enda þótt taka beri tillit til búsetuþróunar beri einnig í okkar þjóðfélagi að leggja þunga áherslu á vægi byggðanna, héraðanna eða landshlutanna, eftir því hvað við viljum kalla það.

Í Reykjavík er fjöldi kjósenda bak við hvern þm. mestur, enda þótt meiri röskun hafi orðið í Reykjaneskjördæmi síðan kosningalögum var síðast breytt. Ekki er ráðrúm til að ræða þetta ítarlega nú. En ég vil vekja athygli á því, að enda þótt ekki sé yfirþyrmandi mismunur á vægi atkv. í Noregi, Svíþjóð og Danmörku innbyrðis, þá er hlutfall höfuðborgarþm. þar 7.74–13.71% af heildarþingmannatölu landsins. Í Reykjavík eru að vísu full 40% kjósenda, en á Alþ. á Reykjavík þó fulltrúa sem eru meira en fjórðungur þm.

Við kosningar til öldungadeildar Bandaríkjaþings er ekki talað um þrefalt, fjórfalt eða fimmfalt vægi atkv. Þar er þungi atkv. Alaskabúans fimmtíufaldur miðað við fjölmennasta fylkið.

Ef þeir ráða ferðinni, sem fullt tillit vilja taka til beggja þessara þátta, atkvæðamagnsins og sérstöðu landshlutanna, þá mun fara vel. Mín trú er sú, að allur þorri kjósenda á stærstu þéttbýlissvæðunum skilji þetta og virði, þeir, sem af mestum einstrengingshætti mæla, tali þar fyrir daufum eyrum. Sérstæð gerð íslenska þjóðfélagsins leyfir ekki að erlendar fyrirmyndir séu bornar hráar á borð.

Herra forseti. Því er ekki að leyna að íslensku þjóðinni er margvíslegur vandi á höndum, fámennri þjóð með takmörkuð fjárráð og mikinn framkvæmdahug. Atvinnuvegirnir eiga flestir við vandamál að stríða, en þó misjafnlega mikil. Viðurkenna ber, að allrar aðgátar er þörf varðandi erlenda skuldasöfnun. Við upphaf fullveldis munu skuldir landssjóðs, sem svo hét þá, hafa numið þrefaldri upphæð fjári. á sama tíma. Nú er þessi skuld langt innan við mörk niðurstöðutalna fjárlagafrv. Úr því að þjóðin þá við slíkar aðstæður hafði þrek og þrautseigju til að vinna sig út úr erfiðleikunum, hversu miklu mun betur er hún þá ekki í stakk búin til þess í dag að takast á við þá erfiðleika sem fram undan eru?

Verulegur hluti stjórnmálaumr. allra tíma fjalla um efnahagsmál, einkum þegar stjórnmál eru rædd í áheyrn alþjóðar. Fjölmargir eru þeir þættir þjóðlífsins þó sem ekki mega gleymast. Frumkvæði og atorka einstaklinga og félagasamtaka á einstökum félagslegum sviðum er ómetanleg og stuðningur ríkisvaldsins er þar í mörgum tilvikum réttmætur og hagkvæmur. Við skulum ekki gleyma því, að á tímum þrenginga og raunverulegrar fátæktar voru mörg menningarleg og félagsleg stórvirki unnin. Þrátt fyrir bölsýnistal margra um efnahag landsins hef ég þá trú, að á grundvelli þess, sem gert hefur verið, muni þjóðin sigrast á vanda efnahagslífsins og þá jafnframt meinsemdum verðbólgunnar, en þá svo fremi að hún Leggi meiri rækt við þær eigindir íslensku þjóðarinnar, sem best hafa dugað henni í framsókn til efnahags- og menningarlegs sjálfstæðis. — Góða nótt.