27.04.1978
Efri deild: 88. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4017 í B-deild Alþingistíðinda. (3269)

272. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður, en ástæður fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs eru tvær. Annars vegar eru þau ummæli hæstv. ráðh., að þetta mál hafi farið gegnum Nd. án nokkurrar andstöðu við það. Ég vek athygli á því, sem rannar hefur komið fram í ræðum manna, að þingflokkur Alþfl. hefur lagst gegn þessu frv. eins og það liggur fyrir. Ástæðan er sú að eftir að það var rætt í þingflokknum þótti okkur stefnan, sem þar er tekin upp, ekki samrýmast því, sem virðist vera nú stefna í sambandi við vaxtahækkanir, að reyna að nota þær til þess að spyrna gegn óeðlilega miklum fjárfestingum. Í öðru lagi sýndist okkur að þegar þessi mismunun væri borin saman við aðra atvinnuvegi, væri vafasamt að vera að taka eina atvinnugreinina svona út úr, að láta hana ekki sitja við sama borð með vexti eins og aðrar atvinnugreinar.

Þá virtist okkur að með því að leggja þetta gjald á heildsöluverð, en ekki gegnum vextina, þá yrði það neytendum nokkru erfiðara, enda kæmi á þetta gjald hækkun smásöluálagningar og söluskattur þar ofan á, þannig að það mundi ekki vera réttur útreikningur að þetta væri neytendum ekki erfiðara en sú vaxtaprósenta sem þarna var gert ráð fyrir.

Einnig kvaddi ég mér hljóðs út af því, sem hv. þm. Helgi F. Seljan sagði. Hann misskilur að mínum dómi grg. Benedikts Gröndals þar sem segir: „Jöfnunargjaldið leggur þunga hárra vaxta á neytendur, en þurrkar út þau áhrif (sem eru tilgangur hávaxtastefnunnar) að draga úr framkvæmdum og þar með hugsanlega aukinni framleiðslu á sama tíma sem offramleiðsla í landbúnaði er vandamál.“ Hérna held ég að hv. þm. Benedikt Gröndal eigi við það, að alveg eins og vextirnir leggi þunga hárra vaxta á neytendur, þá geri framleiðslugjaldið það líka, en í staðinn fyrir að vextirnir fylgja tilgangi hávaxtastefnunnar, ef það er lagt á, þá þurrki hin aðferðin út þennan tilgang. Þetta held ég að felist í orðum Benedikts.

Og loks er það svo sú hlið, hvort rétt sé að hlífa þeim sem skulda mikið við vöxtunum, vegna þess að þá sé maður um leið að hlífa þeim sem erfiðar standa í lífsbaráttunni. Ég er ekki viss um að þetta sé alls staðar rétt. Ég hef einmitt séð að margir svæsnustu skuldakóngar í landbúnaði eru menn sem hafa beinlínis spekúlerað í því að skulda mikið. Ég þekki til þess. Ef þetta væri ekki, þá mundi ég taka undir orð Helga F. Seljans, en ég hef því miður séð allt of mikið um að jafnvel í landbúnaðinum sé spekúlerað í skuldum.

Hér er enn bent á í nál. Benedikts Gröndals, sem nokkuð hefur verið vitnað í og ég hef einnig gert, að ekki sé fullt samræmi gagnvart bændastéttinni annars vegar og Húsnæðismálastofnun ríkisins hins vegar, eins og hann segir: „Einn af tekjustofnum Húsnæðismálastofnunar ríkisins er skyldusparnaður, nema hvað í sveitum rennur hann til Stofnlánadeildar.“ Okkur fannst eðlilegt, að ef Húsnæðismálastofnun ríkisins tæki við lánveitingum til íbúðabygginga í sveitum ætti allur skyldusparnaður líka að renna til þessa sjóðs.

Þetta voru þær aths. sem þingflokkurinn gerði á fundi í sambandi við þetta mál. Mér þykir rétt að það komi fram þegar við 1. umr.