27.04.1978
Sameinað þing: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4052 í B-deild Alþingistíðinda. (3301)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er greinilega kominn mikill tilfinningahiti í umr., en ég get alveg haldið mér utan við slíkt fjargviðri. Ég held því enn fram, að forsendurnar séu rangar fyrir hinni rökstuddu dagskrá. Það segir alveg greinilega, að flugmálastjóri ætli að veita hina umbeðnu umsögn um úrbæturnar sem beðið er um, en hann er ekki tilbúinn með umsögn sína um úrbæturnar fyrr en á hausti komanda. Síðan er því slegið föstu í hinni rökstuddu dagskrá og það er forsenda hennar, að þegar hafi verið ákveðið að þessar athuganir, sem þáltill. gerir till. um, muni fara fram. Það kemur hvergi fram í þessu bréfi. Og fyrir því er það, að þetta getur ekki staðist að mínum dómi. En mér dettur ekki í hug að fullyrða að mér geti ekki missýnst í þessu máli eins og öðru. En þetta er ekki það stórt mál að menn þurfi að ganga af göflunum þótt ágreiningur sé um skilning á málsmeðferðinni. Ég held þess vegna, að það verði að biðja um úrskurð — fram á það hlýtur að vera hægt að fara — úrskurð um það, hvort forsendur hinnar rökstuddu dagskrár eigi sér nokkra stoð, vegna þess að ef svo er ekki, þá er dagskrártill. óþingleg og hægt að úrskurða hana frá. Þetta vil ég nú biðja hæstv. forseta um að athuga hjá sér.

En ég endurtek það sem ég sagði áður, að ef það hefur verið skilningur hv. n., að þessi úttekt og þessi athugun væri í aðdrögum og henni yrði raunverulega lokið, svo sem gerð er till. um í þáltill., á hausti komanda, þá hefði nú ekkert skaðað að taka undir það með velviljuðum orðum og þá t. a. m. að hafa þá aðferð að vísa málinu til ríkisstj. til þess nú að fylgja því eftir, svo að ekki gengi neitt úrskeiðis hjá flugmálastjóra. En ég held fast við skilning minn á þessu og tel þessa dagskrártill. út í hött.