27.04.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4093 í B-deild Alþingistíðinda. (3328)

Almennar stjórnmálaumræður

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Áður en árið 1978 er á enda kemur að því, að minnst verður dagsins þegar Ísland varð frjálst og fullvalda ríki fyrir 6 áratugum. Á þessu ári eru sem sé liðnir tveir mannsaldrar frá þeim þáttaskilum í íslenskri sögu sem gerðu þjóðina á ný að fullu frjálsa til að skipa málum sínum og færðu henni um leið fulla og óskoraða ábyrgð á hversu til tækist að ráða fram úr þeim málum sem sköpum skipta um heill lands og lýðs.

Þegar fullveldisafmælið 1. des. 1978 rennur upp verður nýkjörið Alþ. að réttu lagi fyrir nokkru sest að störfum, spegilmynd af þeim vilja sem kjósendur láta í ljós í alþingiskosningum á miðju sumri. Ég hef orðið þess var, að með ýmsum býr hugboð um að niðurstaðan, sem af þeim kosningum verður um stjórn landsins, geti orðið harla afdrifarík. Þeim, sem svo álykta, segir svo hugur um, að á það geti reynt æðifreklega áður en mjög langt um líður, hvort ákvörðunin, sem tekin var 1918 um frjálst og fullvalda Ísland, standist til fullnustu og frambúðar.

Ástæðan til að uggur um þetta efni læðist að mönnum er öðru fremur þróun síðustu ára í íslenskum fjármálum. Erlendar skuldir þjóðarinnar eru komnar í slíka upphæð, 580 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu, að öllum, sem tjá sig um það efni, ber saman um að lengra verði ekki gengið á sömu braut, vilji menn ekki vísvitandi bjóða háskanum heim — háskanum af greiðslufalli og glötun lánstrausts ef illa árar til að standa í skilum. En með þessu er sagan ekki nema hálfsögð. Á kjörtímabilinu, sem nú er að ljúka, á valdatíma núv. ríkisstj., hefur keyrt um þverbak að því leyti, að erlendar skammtímaskuldir hjá alþjóðlegum lánastofnunum hafa hækkað óðfluga. Halla á greiðslujöfnuði við önnur lönd hefur verið mætt með töku eyðslulána. Erlendu lánsfé hefur verið varið til að halda uppi eyðslu sem aflafé þjóðarinnar hrökk ekki til að greiða. Og það er ríkisstj. sjálf sem þarna hefur gengið á undan, notað erlendu skammtímalánin til að standa straum af umframeyðslu sinni, hallanum á ríkissjóði.

Skuld ríkissjóðs við Seðlabankann hefur á kjörtímabilinu rokið upp úr öllu valdi og þýtur á þeim mánuðum, sem liðnir eru frá áramótum, óðfluga upp eftir þriðja tug milljarða. Rúmur helmingur þessarar skuldar ríkissjóðs er þannig til kominn, að Seðlabankinn hefur endurlánað ríkisstj. lán tekin hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til skamms tíma, Þessi lán þarf Seðlabankinn að endurgreiða hinni erlendu lánastofnun á næstu 4–5 árum, og nema slíkar skuldbindingar bankans við þennan eina lánadrottin rúmum hálfum fimmtánda milljarði kr. Verður því Seðlabankinn að krefja þá ríkisstj., sem við tekur, um endurgreiðslu á þessum óreiðuskuldum núv. ríkisstj. sem þessari upphæð nemur. Þá reynir á að ríki og þjóðarbú séu í stakk búin til að standa við þessar og aðrar greiðsluskuldbindingar á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði. Verði misbrestur á því, svo að leita þurfi eftir endurlánum, getur svo farið að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beiti valdi sínu til að setja kosti um efnahagsstefnu og fjármálastjórn á Íslandi en slíka skilmála hefur þessi alþjóða peningastofnun gert þegar um var að ræða þess háttar fyrirgreiðslu við önnur ríki og þau meiri bóga en Ísland. Það er því ljóst, að á næsta kjörtímabili verður að halda þannig á ríkisfjármálum ár frá ári, að ríkissjóður sé rekinn með afgangi sem nemur sem næst 5 milljörðum til þess eins að lækka skuldina, sem núv. ríkisstj. hefur safnað við Seðlabankann, eins og með þarf, hvernig svo sem árar til tekjuöflunar.

Þegar til þess er litið, hversu torsótt hefur reynst að halda settu marki um afkomu ríkissjóðs þegar bærilega árar, geta menn gert sér í hugarlund þau vandkvæði sem upp kunna að koma ef erlendar skuldakröfur og svipull afli þrengja svigrúmið til muna. Það er tvímælalaust brýnasta, vandasamasta og viðurhlutamesta þjóðfrelsismál Íslendinga nú og í náinni framtíð að treysta til frambúðar efnahagslegt sjálfstæði.

Marka má, hversu komið er í peningamálum af áformi æðstu peningastofnunar íslenska ríkisins að skipta um gjaldmiðil að hálfu öðru ári liðnu og hundraðfalda þá verðgildi krónunnar. Ákvörðun um það mál verður meðal verkefna þeirrar ríkisstj. sem við tekur eftir kosningar. En skipti á gjaldmiðli megna ein saman lítils, þótt þau geti orðið verulegur stuðningur við atlögu á öðrum sviðum gegn verðbólgumeininu. Aðgerðin, sem ríkisstj. hét við valdatöku sína að gera á þessum höfuðsjúkdómi íslensks efnahagskerfis, hefur látið á sér standa. Heildarmynd af starfsferli stjórnarinnar er sú, að henni hafi verið með eindæmum mislagðar hendur í öllu sem að fjármálastjórn og meðferð efnahagsmála lýtur. Verðbólgan magnast á ný, ókyrrð vex á vinnumarkaði í kjölfar síðustu efnahagsráðstafana stjórnarflokkanna. Hallarekstri ríkissjóðs, þegar á heildina er litið, og skuldasöfnun við Seðlabankann hef ég þegar lýst. Kórónan á vandræðaleg vinnubrögð stjórnarflokkanna er þó meðferð þeirra á skattamálum og hvers kyns álögum á landsmenn. Söluskattur hefur verið hækkaður upp í fimmtung vöruverðs. Sérstakt vörugjald á stóran hluta innflutnings nemur 18% og var í upphafi látið heita að það væri sett til skamms tíma Á fjórum þingum í röð hefur verið lofað nýrri löggjöf um tekju- og eignarakatt. Nú loksins, rúmum hálfum mánuði fyrir lok síðasta þings kjörtímabilsins, er lagt fram skattalagafrv., sem einhverjar horfur eru á að stjórnarflokkarnir gefi komið sér saman um svo að það hljóti afgreiðslu. En þó er togstreita í stjórnarliðinu slík að málið tefst enn, þótt komið sé nærri eindaga. Þetta gerist einvörðungu vegna ósamkomulags milli stjórnarflokkanna og innan þeirra, því að talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa bæði í orði og verki lagt sig fram um að greiða fyrir því, að skattalagafrv. fái greiða afgreiðslu, þótt það sé svo seint fram borið að stjórnarandstöðu gæti þótt sér misboðið með þeim vinnubrögðum.

Leiðréttingar á göllum skattakerfisins eru aðkallandi, en þetta nýja frv. kemur ekki til framkvæmda við álagningu skatta fyrr en á öðru ári hér frá, árinu 1980. Þar á ofan bætist að frv. er miðað við staðgreiðslukerfi á sköttum. Frv. um staðgreiðslu á sköttum var lagt fram um leið og skattalagafrv., en það er svo flókið mál, nýstárlegt og umfangsmikið að engum dettur í hug að hreyfa því til athugunar á þessu þingi. Getur því svo farið, ef nýtt þing breytir staðgreiðslukerfinu, sem till. eru gerðar um, eða hafnar því, að taka verði veigamikil atriði nýrra skattalaga til endurskoðunar áður en þau hafa svo mikið sem gengið í gildi.

Misréttið í skattamálum er slíkt að ekki verður við unað, og því hefur stjórnarandstaðan lagt sig í líma til að greiða fyrir breytingum sem hún telur horfa til bóta. Sama verður því miður ekki sagt um annað mikilvægt réttlætismál sem varðar hvern einasta kjósanda í landinu, breytingar á kosningalögum til að auka vald kjósandans á kjördag og ráðstafanir til að gera kosningarréttinn jafnari eftir kjördæmum. Á fyrsta starfsdegi þessa þings gaf forsrh. í nafni ríkisstj. fyrirheit um að allir þingflokkar skyldu kallaðir til samráðs í því skyni að kanna hvort samstaða næðist um breytingar í þá átt, að réttur kjósandans sé aukinn til að skera úr um hvaða frambjóðendur á lista, sem hann kýs, nái kjöri til Alþingis og ráða bót á því ástandi, að hvert atkvæði getur eins og nú er komið vegið allt að fimm sinnum þyngra í einu kjördæmi en öðru, en munurinn á gildi atkv. var mestur 3:1 þegar núverandi kjördæmaskipun var sett fyrir tæpum tveim áratugum.

Sú hefur raunin orðið, að foringjar fjögurra stærstu flokkanna á þingi hafa í rauninni gert með sér þegjandi samkomulag um að leiða þessi réttindamál óbreyttra kjósenda hjá sér og svæfa þau, ýmist með því að þn. afgreiddi ekki frá sér frv. eða nefnd allra þingflokka til að fjalla um málaflokkinn í heild, sem heitið var yrði ekki nema nafnið eitt. Þarna er að verki flokksvald í sinni verstu mynd. Þrátt fyrir áhuga hjá einstökum þm. í öllum flokkum á auknum rétti allra kjósenda til röðunar á frambjóðendum eða jöfnun kosningarréttar milli kjördæma ellegar þessum atriðum háðum gera foringjarnir sér lítið fyrir og leggjast á stórmál sem þeir telja valdi sínu og aðstöðu í flokkunum óþægilegt að taka til meðferðar með afgreiðslu fyrir augum.

Meira en lítil þversögn felst í því, að foringjar þeirra flokka, sem bjóða hverjum sem koma vill þátttöku í prófkjöri hjá sér um röðun á framboðslista og telja slíkt stóraukið lýðræði, skuli veigra sér við að röðun frambjóðenda til kjörs sé að öllu leyti færð inn í kjörklefann, þar sem hún yrði tvímælalaust aðeins í þeirra höndum sem eru raunverulegir kjósendur flokksins sem í hlut á.

Óafsakanlegt er að láta það dragast eitt kjörtímabil enn að jafna kosningarréttinn frá því sem nú er. Í því efni á ríkisstj. að meginhluta sakir, því það var hún sem gaf fyrirheit við valdatöku um að láta málið til sín taka og hennar er yfirgnæfandi meirihlutavald á þingi.

Meðferðin á þessu máli, eins og reyndar efnahagsmálunum í heild á þessu kjörtímabili, ber þess ljósan vott, að þeir, sem ferðinni ráða, hafa ekki þekkt sinn vitjunartíma. Því aðeins er von um úrbætur í réttindamálum jafnt og fjármálastjórn, að menn geri sér ljóst, að tímarnir eru breyttir í veigamiklum atriðum frá því sem var fyrir tiltölulega skömmu, og hagi sér samkv. því. Úrræði eða þá afskiptaleysi, sem gat gefist bærilega fyrir einum áratug eða tveimur, dugir ekki lengur.

Tímabili þenslu og hraðs hagvaxtar, sem stóð frá því skömmu eftir síðustu styrjöld fram að olíukreppu, er lokið. Hagvaxtarhraðinn megnar ekki lengur að leysa pólitísk vandamál eða breiða yfir þau hulu. Forréttindi tæknivæddra þjóðfélaga fara þverrandi. Vanþróaðar þjóðir gera tilkall til síns skerfs af auðlindum jarðar, og kostnaður vex við orkuvinnslu og hráefnanám.

Þessi þróun segir til sín hérlendis svipað og í öðrum þjóðfélögum sem líkt eru á vegi stödd. Sóun, sem margur hefði lokað augum fyrir á uppgangstímabilinu, verður óþolandi. Krafa tímans er ráðdeild. Misrétti, sem menn hefðu látið sig litlu skipta, þegar flestir töldu sig hvort eð var á hraðri velmegunarbraut, veldur nú uppnámi. Krafan um réttlæti magnast þegar ljóst verður að minna er til skiptanna en fyrr.

Það er verkefni íslenskra stjórnmálamanna á líðandi tíma að bregðast við þessum breyttu aðstæðum við þau skilyrði sem land okkar og þjóðfélag skapar. Offjárfesting, hvort heldur er af opinberri hálfu til atkvæðaveiða eða hjá einkaaðilum í því skyni að hreppa verðbólgugróða, má ekki lengur skerða afkomu landsmanna og stöðu þjóðarbúsins gagnvart umheiminum. Áætlanir um framkvæmdagetu og þjóðhagsstærðir um tiltekið árabil fram í tímann þurfa að verða undirstaða ákvarðana í efnahagsmálum. Eitt meginmarkmið slíkrar áætlunargerðar verður að vera að bæla verðbólguna niður á það stig sem ríkir í helstu viðskiptalöndum.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Kjörtímabilið, sem nú er senn á enda, hefur sýnt að þörf er nýrra vinnubragða í íslenskum stjórnmálum, ef ekki á að tefla hag þjóðarinnar og frelsi í tvísýnu. Menn verða á því sviði eins og öðrum að þora að hafna ef árangur á að nást. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Vonandi höfum við alþm. eitthvað lært af reynslunni, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. En hversu sem næmi okkar er varið er víst, að kjósendur um byggðir landsins, við sjó og í sveit, hafa dregið lærdóma af því sem fram hefur farið í landsstjórn síðustu 4 ár. Niðurstaðan af þeim lærdómi mun sýna sig í kosningunum í sumar. — Þökk þeim sem hlýddu.